Hvað er Friðrik Schram að spá? Fyrsti hluti

Í greininni „Er lengur hægt að treysta Biblíunni? (síðari grein)“ fer Friðrik Schram, leiðtogi hinnar svokölluðu Íslensku Kristskirkju yfir tíu spádóma sem hann segir að séu um Jesú. Hérna ætla ég að fara yfir fyrstu þrjá spádómana.

Í greininni segir Friðrik að biblían sé „ótrúlega nákvæmt spádómsrit“ og að hann gæti neft „[m]arga aðra skýra spádóma“, en hann segir að það sé ekki nóg pláss fyrir þá (ætti samt að vera nóg pláss á netinu fyrir þá alla!). Auk þess segir hann að Jesús hafi „að baki sér fjölda spádóma sem rættust bókstaflega í lífi hans“. 

Fyrst hann hefur bara pláss fyrir tíu spádóma, þá mætti halda að þeir tíu spádómar sem Friðrik velur í þessa grein séu að hans mati bestu spádómarnir. Í Alfa-námskeiðinu (sem er ekkert námskeið, fólk er bara að borga fyrir trúboð) sem er kennt í þessum söfnuði er sagt að Jesús hafi uppfyllt yfir þrjú hundruð spádóma, þannig að það mætti halda að hann hafi úr nógu að velja. Raunin er sú að meintu spádómarnir sem Friðrik bendir á eru annað hvort ótrúlega óskýrir, geta augljóslega ekki fjallað um Jesús eða þá að þeir fjalla um eitthvað allt annað en Friðrik segir að þeir geri.Ég ætla að fara yfir einn spádóm í einu og athuga hvort:             
  1. Þeir spái því sem Friðrik segir að þeir spái. 
  2. Þeir séu nákvæmir og hvort það væri eitthvað merkilegt ef þeir pössuðu við Jesú.
  3. Við vitum að Jesús hafi í raun og veru uppfyllt spádóminn.

Kíkjum á fyrsta spádóminn:

1. "Því var spáð að hann að myndi fæðast af meyju (“alma” á hebr. = ung ógift kona -Jesaja 7:14)."
Nú þýðir almah líklega bara ung kona en ekki ógift ung kona, en það skiptir í raun og veru ekki máli. Ef maður les sjöunda kafla Jesaja, þá sér maður að þetta fjallar ekki um fæðingu einhvers hálfguðs mörg hundruð árum seinna, heldur á barnið að vera tákn fyrir þálifandi konung, skoðum samhengið, Jesaja 7.13-17:

 

Þá sagði Jesaja: ,,Heyrið, þér niðjar Davíðs, nægir yður það eigi að þreyta menn, úr því að þér þreytið einnig Guð minn? Fyrir því mun Drottinn gefa yður tákn sjálfur: Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel. Við súrmjólk og hunang skal hann alast, þá er hann fer að hafa vit á að hafna hinu illa og velja hið góða. Áður en sveinninn hefir vit á að hafna hinu illa og velja hið góða, skal mannauðn verða í landi þeirra tveggja konunga, sem nú skelfa þig. Drottinn mun láta yfir þig og yfir þjóð þína og yfir hús föður þíns þá daga koma, að ekki hafa slíkir yfir liðið síðan Efraím skildist frá Júda _ Assýríukonung."

Í byrjun kaflans er sagt frá því að tveir konungar ógna ríki þáverandi konungs Júdeu, þeir Peka Ísraelskonungur og Resím Aramskonungur. Þessi Immanúel átti augljóslega að fæðast þá.

Þetta getur því augljóslega ekki fjallað um Jesú.

2. "Því var spáð að messías myndi fæðast af ætt Júda (1.Mós. 49:10).."

Nú eru menn ekki sammála hvað þetta vers þýði, en ef við skoðum íslensku þýðinguna, þá er frekar erfitt að sjá að versið spái þessu:

Ekki mun veldissprotinn víkja frá Júda, né ríkisvöndurinn frá fótum hans, uns sá kemur, er valdið hefur, og þjóðirnar ganga honum á hönd. (1.Mós 49.10)

Þetta hljómar eins og veldi afkomenda Júda myndi ekki ganga undir lok alveg þangað til "sá er valdið hefur" kæmi. Það rættist auðvitað ekki. Þessi spádómur er að minnsta kosti ekki skýr.En gefum okkur að í Gt væri að finna skýran spádóm sem hljóðaði svona: "Messías mun verða af ætt Júda". Allt í lagi.

 

Júda á að hafa lifað ~1500 árum fyrir tíma Jesú. Ég á afar bágt með að trúa því að einhver gæti vitað hver hafi verið afkomandi hvers eftir svona langan tíma. Getur nokkur núlifandi maður rakið ættir sínar ~1500 ár aftur í tímann?

Væri það síðan virkilega merkilegt að Jesús væri "af ætt Júda"? Ég gæti ímyndað mér að það væri ansi mikið af afkomendum einhvers eftir meira en eitt árþúsund. Síðan höfum við ekki hugmynd um það hvort Jesús hafi verið afkomandi Júda, vissulega er því haldið fram í ættartölunum (sem eru í mótsögn hvor við aðra, sjá til dæmis umfjöllun Sindra) í Lk og Mt, en hvers vegna ættum við að halda að höfundar þeirra vissu hverjir forfeður Jesú voru ~1500 ár aftur í tímann?

Spádómurinn er óljós, það væri ekkert merkilegt ef þetta passaði við Jesú og við vitum ekki hvort þetta passar við Jesú.

3.  "Því var spáð að messías myndi fæðast af...ættkvísl Davíðs konungs ((Jesaja 11:1,10)."

Það sama gildir hér. Við höfum enga ástæðu til þess að trúa því að Jesús hafi í raun og veru verið afkomandi Davíðs og auk þess væri það varla það merkilegt. En auk þess vill svo merkilega til að á einum stað í Mk virðist Jesús mótmæla því að messías ætti að vera afkomandi Davíðs:

Þegar Jesús var að kenna í helgidóminum, sagði hann: ,,Hvernig geta fræðimennirnir sagt, að Kristur sé sonur Davíðs? Sjálfur mælti Davíð af heilögum anda: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni. Davíð kallar hann sjálfur drottin. Hvernig getur hann þá verið sonur hans?`` Og hinn mikli mannfjöldi hlýddi fúslega á hann. (Mk 12.35-37)

Vissulega eru vers í Nýja testamentinu sem halda því fram að Jesús hafi verið afkomandi Davíðs, en ef Jesús var almennt talinn vera afkomandi Davíðs, þá er erfitt að útskýra það hvers vegna einhverjum hefði dottið í hug að búa til þessa sögu í Markúsarguðspjalli.

Spádómurinn er skýr, messías átti að vera af ætt Davíðs. En annars gildir það sama hér og í síðasta spádómi, það væri ekkert merkilegt ef þetta passaði við Jesú og við vitum ekki einu sinni hvort þetta passar við Jesú, auk þess sem að það er til saga þar sem Jesús mótmælir því að hann sé sonur Davíðs í Markúsarguðspjalli.

Þegar maður skoðar þessa meintu spádóma með gagnrýnum hætti, þá sér maður að tilgangur þessa endalausu fullyrðinga um að Jesús hafi uppfyllt X marga spádóma er sá að slá ryki í augu fólks sem af einhverjum ástæðum skoðar þá ekki nánar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband