Einelti* dagsins

Þórhallur heldur áfram með trúarjátningarblogg sitt. Og í þetta skiptið talar hann um „[ég trúi] á Jesú Krist“, og ég held að allar efnisgreinar þarna gæti byrjað á „Ég trúi á...“, eða „Trúmaðurinn ég trúi á, alveg óháð rökum...“, því að það sem Þórhallur skrifar er algerlega fjarstætt gagnrýninni (ég myndi líka segja fullorðinni) nálgun á guðspjöllunum. 

Svo að maður tali hreint út, þá ætti allt fólk að átta sig á muninum á „Í bók/sögu A er sagt að X hafi gerst.“ og „X gerðist.“ Ég satt best að segja veit ekki hvort að Þórhallur átti sig á þessum muni, eða réttara sagt, hvort að hann átti sig á þessum muni þegar við ræðum um guðspjöllin.

Margir (ef ekki flestir, líka þessi) prestar virðast ekki átta sig á því að höfundar guðspjalla gátu bara skáldað upp atburði. Tökum dæmi:

En Jesús hrópaði aftur hárri röddu og gaf upp andann. Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr, jörðin skalf og björgin klofnuðu, grafir opnuðust og margir líkamir helgra látinna manna risu upp. Eftir upprisu Jesú gengu þeir úr gröfum sínum og komu í borgina helgu og birtust mörgum. (Mt 27.50-53)

Það væri mjög gaman að vita hvort að Þórahallur heldur að þetta hafi gerst. Annað gott dæmi eru fæðingarfrásagnirnar af Jesú. Það er bara augljóst að þessar tvær mótsagnakenndu frásagnir eru uppskáldaðar.

Samt lætur Þórhallur eins og hann viti ekkert af þessu (eða þá að hann trúi þessu) og segir til dæmis þetta:

Um sjálfan sig sagði hann að hann og Faðirinn, Guð, væru eitt og að hann sjálfur hefði verið til frá eilífð, fyrir upphaf sögu og tíma. Hann notaði sömu skilgreiningu um sjálfan sig og Guð er látinn nota í annarri Mósebók er hann kynnir sig fyrir Móse. Ég er segir Guð um sig í Mósebókinni. Ég er segir Jesús sömuleiðis um sjálfan sig. #

Hérna er nefnilega punktur sem að prestar (og aðrir ættu að vita): Það er alveg jafn auðvelt, jafnvel auðveldara, að skálda upp „Jesús sagði X“ og að skálda „Jesús gerði X.“

Sjáið hvað þetta er auðvelt:

Þegar Jesús og lærisveinar hans voru á gangi spurði Pétur hann: „Meistari, hvenær munum við sjá ríki guðs?“, Jesús svaraði honum, „Sjá, ríki guðs er þegar á meðal ykkar! Abrakadabra!“. Um leið og Jesús sagði þetta risu þúsund milljón dauðir menn upp úr grafreiti sem var nálægt þeim.

Og þá komum við að þessum furðulegu fullyrðingum Jesú í Jóhannesarguðspjalli sem að Þórhallur segir að Jesús hafi í raun og veru sagt.  Í Jóhannesarguðspjalli hljómar Jesús ekki neitt eins og Jesús hinna guðspjallanna. Hann hljómar eins og sögumaðurinn sjálfur!

Og þá hljótum við að velta því fyrir okkur, sagði Jesús „Ég var til áður en Abraham var til.“ og fleira í þeim dúr, eða, sem er öllu líklegra, er kristið fólk bara að láta tjá Jesú hugmyndir sínar um hann? Þannig að þegar Jesús segir í Jóhannesarguðspjalli „Ég og faðirinn erum eitt.“, þá getum við ekki dregið þá ályktun að Jesús hafi sagt þetta, heldur að sumt kristið fólk hafi trúað því að Jesús og faðirinn væru eitt. Auðvitað er það fræðilega mögulegt að Jesús hafi sagt þetta, en það er engin sérstök ástæða til að halda það.

En Þórhallur virðist bara fullyrða að Jesús hafi sagt allt það sem að honum er eignað í Jóhannesarguðspjalli. Afskaplega barnalegt viðhorf. Hann ætti að reyna að lesa guðspjöllin með örlítilli gagnrýninni hugsun.

---- 

*Ég vil benda fólki á að ég er að tala um „einelti“ í merkingunni „svör við skrifum presta eða trúmanna“ # 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hjalti ... svaraðu mér einu án útúrsnúninga.

Ég hef sagt að biblían sé augljóslega skáldskapur manna.

Ertu sammála mér í því, eða telur þú að eitthvað sem skrifað er í biblíunni sé 100% satt?

Bravó (IP-tala skráð) 17.10.2010 kl. 13:16

2 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Sumt sem skrifað er í biblíunni er vafalaust 100% satt, t.d. nafn á einhverjum konungi. 

Hjalti Rúnar Ómarsson, 17.10.2010 kl. 13:50

3 Smámynd: Styrmir Reynisson

nöfn á borgum og slíkt passar yfirleitt. Þó svo að þetta sé manngert verk er það ekki eintómur skáldskapur eins og Hringadróttinssaga.

Styrmir Reynisson, 17.10.2010 kl. 14:34

4 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Satt og rétt!

Brynjólfur Þorvarðsson, 17.10.2010 kl. 14:58

5 identicon

Nei, ókei ... ég var kannski ekki að meina mannanöfn eða önnur sérnöfn og örnefni. Og ekki get ég borið á móti því að ýmislegt í biblíunni sé líklega byggt á sönnum, sögulegum viðburðum.

En að biblían sé að einhverju leyti skrifuð af Guði eða innihaldi hans orð orðrétt tel ég bábilju, svo og hinar ýmsu sögur þar sem yfirnáttúra kemur við sögu eða atburðir sem geta ekki staðist.

Nú skal ég umorða spurninguna:

Teljið þið að eitthvað í biblíunni komi beint frá Guði eins og margir trúaðir vilja meina eða að einhver af sögunum í henni þar sem yfirnáttúra kemur við sögu sé sönn?

Bravó (IP-tala skráð) 17.10.2010 kl. 15:21

6 Smámynd: Styrmir Reynisson

"Teljið þið að eitthvað í biblíunni komi beint frá Guði eins og margir trúaðir vilja meina eða að einhver af sögunum í henni þar sem yfirnáttúra kemur við sögu sé sönn?"

Nei. Ekki ein einasta. Þá þyrfti ég til dæmist að trúa að "yfirnáttúra" væri til, og guð líka. Það geri ég hins vegar ekki. 

Styrmir Reynisson, 17.10.2010 kl. 15:27

7 identicon

"Teljið þið að eitthvað í biblíunni komi beint frá Guði eins og margir trúaðir vilja meina eða að einhver af sögunum í henni þar sem yfirnáttúra kemur við sögu sé sönn?"

Nei auðvitað ekki. Það sér það hver maður í hendi sér að Biblían er mannanna verk.

Siggeir F. Ævarsson (IP-tala skráð) 17.10.2010 kl. 20:29

8 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Teljið þið að eitthvað í biblíunni komi beint frá Guði eins og margir trúaðir vilja meina....

Þar sem að guð er ekki til, þá er svarið augljóslega: Nei.

 ....eða að einhver af sögunum í henni þar sem yfirnáttúra kemur við sögu sé sönn?
Ég held ekki að neitt yfirnáttúrulegt hafi gerst. En svo gæti sumt verið satt, þar sem að höfundurinn heldur að eitthvað yfirnáttúrulegt hafi gerst, en sú var ekki raunin. T.d. sögur af því þegar Jesús er að reka út illa anda. Það gerist enn í dag, en það eru ekki til illir andar.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 17.10.2010 kl. 21:37

9 Smámynd: Anna Arnardóttir

Svo að maður tali hreint út, þá ætti allt fólk að átta sig á muninum á „Í bók/sögu A er sagt að X hafi gerst.“ og „X gerðist.“
 
 en það eru ekki til illir andar
 

Mikið rosalega er gott Hjalti að þú skulir vera svo gáfaður og alvitur að þú einn manna getir sagt hvað er til og hvað ekki! Þórhallur má ekki segja að eitthvað hafi gerst eins og hann trúir því nema að taka það skýrt fram að það sé hans trú en ekki fullvissa en þú getur gert það.

Við ættum öll að vera þakklát fyrir að þú skulir ganga um hér á jörð og þú getur þá væntanlega útskýrt fyrir okkur hinum allt sem vísindin hafa enn ekki skýrt.

Anna Arnardóttir, 20.10.2010 kl. 17:21

10 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Mikið rosalega er gott Hjalti að þú skulir vera svo gáfaður og alvitur að þú einn manna getir sagt hvað er til og hvað ekki! Þórhallur má ekki segja að eitthvað hafi gerst eins og hann trúir því nema að taka það skýrt fram að það sé hans trú en ekki fullvissa en þú getur gert það.

Anna, málið er að þetta er ekki einhver einkaskoðun mín. Prófaðu bara að senda póst á kennarana við Nt-fræði við guðfræðideild HÍ!

Það er bara vitað mál að margt sem sagt er um Jesú (og sem hann er látinn segja) í guðspjöllunum er ekki satt. 

 Við ættum öll að vera þakklát fyrir að þú skulir ganga um hér á jörð og þú getur þá væntanlega útskýrt fyrir okkur hinum allt sem vísindin hafa enn ekki skýrt.

Er þetta í sambandi við illa anda? Trúir þú á tilvist illra anda?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 21.10.2010 kl. 04:52

11 Smámynd: Anna Arnardóttir

Já það geri ég reyndar en málið snýst ekki endilega um hverju ég eða þú trúum. Málið snýst um að þú varst að skammast út í Þórhall fyrir að orða hlutina á nákvæmlega sama hátt og þú gerir svo aðeins seinna. Það er s.s. í lagi að koma með svona staðhæfingar ef maður stendur þín megin við línuna en ekki okkar megin.

Varðandi NT fræðingana í HÍ þá þekki ég reyndar einn þeirra persónulega og það bara nokkuð vel. Ég get vel sagt þér að hann er ekki svo hrokafullur að halda að hann geti gefið yfirlýsingar um hvað sé og hvað sé ekki til. 

Anna Arnardóttir, 21.10.2010 kl. 15:50

12 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Anna, ég held að tilvistarleysi illra anda sé frekar augljóst. Og málið er að fullyrðingar Þórhalls um ummæli Jesú ganga bara þvert á öll fræðin. Spurðu bara Nt-fræðinginn sem þú þekkir hvað honum finnst um ummæli Jesú um sjálfan sig í Jóhannesarguðspjalli!

Hjalti Rúnar Ómarsson, 22.10.2010 kl. 08:17

13 Smámynd: Anna Arnardóttir

Anna, ég held að tilvistarleysi illra anda sé frekar augljóst
og okkur Þórhalli finnst tilvist Guðs í heiminum nokkuð augljós. Málið er bara að ef þú ætlar að skrifa heila pistla þess efnis hvað einhver sé ómálefnalegur vegna þess að hann setji fram alhæfingar um hluti sem snúast um hvort maður trúir eða ekki þá getur þú ekki sett fram slíkar alhæfingar stuttu seinna sjálfur.

Þér er að sjálfsögðu frjálst að blogga um allt milli himins og jarðar og fullyrða hvað sem þér sýnist án nokkura sannana til að bakka það upp - en ef þú ætlar að gera það geturðu ekki hæðst að þeim sem gera það sama en eru á annarri skoðun en þú.

Anna Arnardóttir, 23.10.2010 kl. 13:08

14 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

...ef þú ætlar að skrifa heila pistla þess efnis hvað einhver sé ómálefnalegur vegna þess að hann setji fram alhæfingar um hluti sem snúast um hvort maður trúir eða ekki þá getur þú ekki sett fram slíkar alhæfingar stuttu seinna sjálfur.

Anna, sjáðu nú til, ég hef ekki gagnrýnt neinn fyrir að segja bara skoðun sína. Hérna erum við að tala um að hann setur fram skoðun, sem að hann ætti að vita að er röng (spurðirðu fræðinginn þinn um þetta?).

Þetta er svipað og ef sköpunarsinni myndi segja "Nófalóðið gerðist!", þá myndi ég benda á hversu vitlaus sú skoðun er, og ég myndi gagnrýna það enn meira ef viðkomandi væri með einhverja sérfræðiþekkingu sem tengdist þessu.

Málið er að Þórhallur nálgast guðspjöllin eins og bókstafstrúarmaður (enda virðist hann vera það) og ég er að benda á það. 

Þér er að sjálfsögðu frjálst að blogga um allt milli himins og jarðar og fullyrða hvað sem þér sýnist án nokkura sannana til að bakka það upp - en ef þú ætlar að gera það geturðu ekki hæðst að þeim sem gera það sama en eru á annarri skoðun en þú.

Eigum við að ræða um tilvist illra anda? 

Hjalti Rúnar Ómarsson, 23.10.2010 kl. 14:27

15 identicon

Mér gæti líka fundist tilvist bleikra álfa í skápnum mínum nokkuð augljós. En hvorki ég né þú getum með nokkru móti sannað tilvist guðs né bleikra álfa.

Aftur á móti getum við bent á það að yfirgnæfandi líkur séu fyrir því að slíkt sé einfaldlega ekki til.

Þú getur valið milli þess að trúa mér og jafnvel fleirum sem höldum því fram að bleikir álfar séu til og mögnuðum sögum okkar um hvað þeir gera eða krafist þess að meira þurfi að koma til en orð annarra.

Nú finnur þú eflaust í hjarta þínu tilvist guðs. En það sem mér finnst mjög skrítið er að engin getur fundið tilvist guðs í hjarta sínu fyrr en einhver hefur sagt honum frá tilvist hans áður.

Sannfæringakraftur mannskepnunnar er alveg gríðarlegur sem og tilhneyging mannins til að láta sannfærast. Það er jú mun auðveldara að trúa en efast, þar sem efinn getur verið óþægilegur og krefst frekari rannsóknar.

Sara (IP-tala skráð) 23.10.2010 kl. 14:50

16 Smámynd: Anna Arnardóttir

Nei þakka þér fyrir Hjalti, ég finn enga þörf hjá mér til að ræða um tilvist illra anda við þig. Mér þykir fullljóst að hvorugt okkar er að fara að breyta trúarskoðunum hins og því er það alger óþarfi að reyna og sú umræða myndi að öllum líkindum verða leiðindaröfl á báða bóga ;o)

Varðandi bleika álfa í skápnum þínum Sara þá er þér velkomið að trúa á þá og málið snýst - enn og aftur - ekkert um það hverju einn eða neinn trúir heldur einfaldlega um hvernig hlutirnir eru orðaðir og settir fram,.

Hjalti var að skammast yfir að Þórhallur sæji ekki muninn á „Í bók/sögu A er sagt að X hafi gerst.“ og „X gerðist.“ En rétt á eftir kemur hann svo með tvær alhæfingar, annarsvegar að Guð sé ekki til og hins vegar að illir andar séu ekki til. Mér fannst bara einkennilegt að hann mátti alhæfa en ekki Þórhallur.

Anna Arnardóttir, 24.10.2010 kl. 17:37

17 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Hjalti var að skammast yfir að Þórhallur sæji ekki muninn á „Í bók/sögu A er sagt að X hafi gerst.“ og „X gerðist.“ En rétt á eftir kemur hann svo með tvær alhæfingar, annarsvegar að Guð sé ekki til og hins vegar að illir andar séu ekki til. Mér fannst bara einkennilegt að hann mátti alhæfa en ekki Þórhallur.

Anna, þú átt líklega við að "staðhæfa" en ekki að "alhæfa", þar sem að ég var ekki að alhæfa.

En málið er það að ég er ekki að gagnrýna Þórhall fyrir það eitt að staðhæfa eitthvað (eða þá alhæfa). 

Ég er að gagnrýna hann fyrir að koma með staðhæfingu sem:

1. Er klárlega röng.

2. Sem hann ætti að vita að sé klárlega röng. 

Hjalti Rúnar Ómarsson, 25.10.2010 kl. 09:19

18 Smámynd: Matthías Ásgeirsson

Anna, við þetta má bæta að Hjalti Rúnar getur ekki gert athugasemdir við bloggfærslur Þórhalls þar sem Þórhallur hefur lokað á hann, mig og fleiri.

Matthías Ásgeirsson, 25.10.2010 kl. 20:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband