Um afmeyjun Maríu

Matti benti á eilífðarspurningu dagsins á Morgunvakt Rásar 2. Hún var „Var Jesús sonur guðs?“ og guðfræðineminn Davíð Þór Jónsson var til svara.

Alveg eins og nýlegt fermingarkver Þjóðkirkjunnar, þá virðist hann afneita meyfæðingu Jesú (mér heyrðist hann ekki segja það beint, en mér fannst hann hallast á þá skoðun). Davíð Þór bendir á ættartalið í upphafi Matteusarguðspjalls, sem á líklega sína fram á að Jesús sé afkomandi Davíðs og Abrahams. En málin flækjast þar sem Jósef er í ættartölunni.

Davíð Þór ályktar af þessu að höfundur Matteusarguðspjalls hljóti að hafa trúað því að Jesús hafi verið „holdlegur“ sonur Jósefs, því annars er nákvæmlega ekkert vit í því hjá höfundinum að hafa þessa ættartölu.

Gallinn við þessa ályktun er sá að strax á eftir ættartölunni segir höfundurinn þetta:

Fæðing Jesú Krists varð með þessum atburðum: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman, reyndist hún þunguð af heilögum anda.  (Mt 1.18)

Og rétt á eftir því segir sami höfundur þetta:

[Jósef] kenndi [Maríu] ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið Jesús. (Mt 1.25)

Þannig að höfundur Matteusarguðspjalls hélt augljóslega að Jósef væri ekki „holdlegur“ faðir Jesú. Davíð Þór gengur því aðeins og langt í ályktununum sínum, en hann bendir í rétta átt. Það er hárrétt hjá honum að það er ekkert vit í ættartölum sem fara í gegnum Jósef ef Jesús var síðan ekki afkomandi hans.

Þannig að þó svo að höfundur guðspjallsins hafi ekki trúað því að Jósef hafi verið faðir Jesú, þá eru ættartölurnar greinilega upprunnar hjá kristnu fólki sem hélt að hann hafi verið sonur Jósefs og var í mun um að sýna fram á hvað Jesús var af góðum ættum. En ef þú ert sammála þessu fólki, þá ertu að viðurkenna að höfundur Matteusarguðspjalls hafi verið að bulla.

Það er örugglega mikið af ríkiskirkjuprestum sem afneitar meyfæðingunni, Gunnar Kristjánsson, prófastur hjá ríkiskirkjunni, gerði það um páskana, Sigríður Guðmarsdóttir, ríkiskirkjuprestur, gerði það í viðtali við mig og Bigga í fyrra (í tveimur hlutum).

Það sem mig langar að vita er hvort þetta fólk fólk þegi, eðs segi „og Jósef“ þegar  þegar það fer með postullegu trúarjátninguna, en þar stendur auðvitað „fæddur af Maríu mey“. Eða segir það kannski „mey“ en krossleggur bara puttana? Ætti þetta fólk ekki að vera að berjast fyrir því að breyta þessari játningu? Síðan væri auðvitað gaman að vita hve mörgum kenningum kirkjunnar prestar þurfa að afneita svo að fólkið á toppnum þar geri eitthvað í því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband