Hin óeinstaka upprisa Jesú

Ef þú hittir einhvern tímann kristinn mann sem segir að upprisa Jesú hafi verið einstakur viðburður, þá veistu að viðkomandi treystir annað hvort ekki guðspjöllunum eða hefur þá ekki lesið þau almennilega, nánar til tekið hefur hann ekki lesið Matteusarguðspjall almennilega. Í því guðspjalli eru nefnilega heilmargar upprisur!

En Jesús hrópaði aftur hárri röddu og gaf upp andann. Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr, jörðin skalf og björgin klofnuðu, grafir opnuðust og margir líkamir helgra látinna manna risu upp. Eftir upprisu Jesú gengu þeir úr gröfum sínum og komu í borgina helgu og birtust mörgum. (Mt 27:50-53)

Til að byrja með þá voru þessir helgu menn afskaplega kurteisir, eftir að þeir risu upp frá dauðum voru þeir nógu kurteisir til þess að bíða eftir því að Jesús væri risinn upp frá dauðum (~1,5 sólarhringi síðar) til þess að kíkja á miðbæinn. Höfundum hinna guðspjallanna fannst þetta víst ekki nógu merkilegur atburður til þess að minnast á hann, ekki heldur sagnaritarar sem skrifuðu um atburði þessa tíma.

Ég held að það þurfi ekki að vera öfgafullur ofsatrúleysingi eins og ég til þess að sjá að þetta gerðist augljóslega ekki. Ef þetta gerðist ekki, þá er augljóslega ekki hægt að treysta þessu guðspjalli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aðalbjörn Leifsson

Hjalti minn það er engin frétt að þú treysti ekki Guðspjöllunum, þú ert óvinur Guðs, reynir sem mest að ófrægja hann. En hafðu það gott og megi minn Guð blessa þig í Jesú nafni Amen.

Aðalbjörn Leifsson, 28.11.2007 kl. 05:26

2 identicon

Það er nú ekki fallegt að kalla fólk óvini Guðs Aðalbjörn minn enda veit enginn fyrr en að lokum komið hvaða dómur er yfir sér kveðinn.

Sömuleiðis samræmist það ekki, að mínu mati, kristninni að tala um ,,minn Guð" þar sem ég veit ekki betur en svo að kristnir trúi því að aðeins sé til einn Guð óskiptur. Af þessu leiðir að ekki sé hægt að tala um minn eða þinn Guð þar sem Guð er í fyrsta lagi hafinn ofar skilningi manna (annars væri hann ekki Guð) og í öðru lagi ef Guð er hafinn ofar skilningi manna en við vitum þó að hann er einn og enginn er honum jafnur hlýtur hver hugsandi manneskja að átta sig á því að hver sá sem tilbiður æðra vald sama hvaða nafni hann nefnir það getur ekki annað en verið að tilbiðja þetta eina vald (þó fólk geti auðvitað tilbeðið önnur lægri völd eins og efnishyggjuna o.s.frv.). Til dæmis er aðeins til ein sól og ekki skiptir máli hvaða nöfnum fólk nefnir hana hún heldur áfram að vera Það sem hún er.

 "Knowledge is one point, which the foolish have multiplied"

    

. (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 15:19

3 Smámynd: Aðalbjörn Leifsson

Meistari Jakob að kalla einhvern óvin Guðs hef ég tekið úr JAKOBS BRÉFINU kafla 4 vers 4 það er svona: Þér ótrúu, vitið þér ekki að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.

Þar sem ég tala um minn Guð, þá talar Páll postuli í 2. Korintubréfi kafla 4 versi 4 um: Því að guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans sem er ímynd Guðs.

Minn Guð er ekki guð þessarar aldar heldur komandi aldar.

Hafi ég óvirðað Herra Hjalta þá bið ég hann afsökunar. Guð blessi ykkur báða í Jesú nafni Amen.

Aðalbjörn Leifsson, 28.11.2007 kl. 18:37

4 identicon

Þakka þér fyrir það og Guð blessi þig sömuleiðis Aðalbjörn.

Hjalti, nú veit ég ekki hvernig kristnir túlki þetta vers en mér þykir meining þess nokkuð augljós. Samkvæmt mínum auðmjúka skilningi þá er verið að segja það að þegar Jesús andaðist, þ.e. lést, þá hafi sá atburður orðið til þess að skilningur manna hafi umturnast, hér er musterið tákn fyrir gyðingdóminn, og áttað sig á því að þeir sem áttu að bera hag þeirra sér fyrir brjósti þ.e. rabbíarnir hafi líflátið þann sem þeir höfðu verið að bíða eftir. Ég tel að björgin séu hér tákn fyrir hina miklu fræðimenn gyðingdómsins. Grafir og upprisa eru hér tákn um það að öðlast andlegt líf fyrir tilstilli orða Jesú. Grafir þá tákn andlegs dauða og upprisa þessi táknræna upprisa andans. Helgu mennirnir eru einfaldlega þeir sem tóku trú Jesú og margir hverra urðu líflátnir fyrir vikið. Borgin helga er hér kristnin.

Með bestu kveðjum,
Jakob 

. (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 20:15

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Merkilega þægilegt að grípa til þess að segja ritningastaði einhverja metafóra, þegar hentar en taka síðan bókstaflega, þegar slíkt þjónar markmiðum.

Merkilegt einnig að segja að Hjalti minn sé óvinur Guðs og alls heimsins.  Ég trúi því hinsvegar að rökin fyrir því séu ekki af þessum heimi.

Hjalti hefurðu lesið Bart Ehrman? Fjandi skemmtileg stúdía hjá honum á uppruna ritninganna og kanónunnar. Það fer fjarri að öruggt sé að bækur NT séu ekki falsanir t.d. og ýmislegt í núverandi ritningum er seinni tíma viðbót og margt af því ansi viðamikið.

HÉR er byrjun á langri fyrirlestrarröð, sem til er á google video.  Margt fleira geturðu fundið við að slá inn nafnið hans þar.  Þessir 14-15 fyrirlestrar innihalda það helsta, sem finna má í bókunum Misquoting Jesus og Lost Christianitie m.m.

Jón Steinar Ragnarsson, 1.12.2007 kl. 19:38

6 identicon

Merkilega þægilegt að grípa til þess að segja ritningastaði einhverja metafóra, þegar hentar en taka síðan bókstaflega, þegar slíkt þjónar markmiðum.

Sæll Jón,

 Ég get ekki talað fyrir hönd annarra en frá mínu leyti séð er það síður en svo undir hentisemi komið hvað ég skil sem bókstaflegt og hvað ég skil sem táknrænt. Í fyrsta lagi held ég að ekki sé nokkurn tímann hægt að segja með fullri vissu hver nákvæm meining ákveðins vers sé enda hafa slíkar fullyrðingar verið forsendur margra klofninga innan kristindóms. Það eina sem maður getur gert er að segja sinn skilning á ákveðnu versi og vera opinn fyrir því að sá skilningur sé rangur og reyna bara eftir fremsta megni að sækjast stöðugt eftir betri skilningi. Þar að auki tel ég að flest eða öll trúarleg vers hafi a.m.k. nokkrar meiningar.

Sem bahá'íi nota ég þann staðal sem Bahá'u'lláh boðberi bahá'í trúarinnar setur fram í bók sinni Bók Fullvissunar (Kitab-i-Íqan). Þar endurtúlkar hann mörg trúarleg hugtök á, í hugum bókstafstrúarmanna, mjög róttækan hátt. Ef það væri ekki fyrir þessa bók væri ég líklega ekki trúaður þar sem sú bókstafstúlkun sem tíðkast meðal manna finnst mér hreint ekki skynsamleg, með fullri virðingu fyrir þeim.

Sem dæmi þá skil ég upprisu Jesú sem minnst er á hér að ofan ekki sem bókstaflega þó ég trúi vissulega á mátt Jesú til að gera hvað svo sem honum sýnist. Mér finnst sú skýring líklegri þó að þar sé einmitt verið að tala um upprisu kristins samfélags en eins og flestir vita þá létu fylgjendur krists lítið fyrir sér fara fyrst eftir píslarvætti hans. Í Bíblíunni er talað um að þrjá daga eftir píslarvætti Jesú hafi hann risið upp. Annars staðar í Bíblíunni er talað um dag sem ár og mætti því skilja sem svo að samfélag kristinna hafi risið upp þrjú ár frá dauða Krists og er annað sem styrkir þessa kenningu. Ég tel mun fleiri skýringar vera til á þessu versi/hugtaki en ætla ekki að fara út í þær hér.

Eins og ég segi alltaf þá er þetta einungis minn skilningur og er ekki tilgangur minn með þessu að gera lítið úr þeim skoðunum sem eru grundvallaðar meðal margra kristinna.

Með bestu kveðjum,
Jakob

. (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 22:51

7 identicon

Allstaðar þessir uppvakningar. Muna, ef þú sér uppvakning á labbi útúr kirkjugarðinum, taka þá af honum hausin. Þá stoppar nefnilega taugakerfið.

Skemmtileg pæling :)

Þetta minnir mig á eitt sem Jesú segir á einum stað:

21Annar, úr hópi lærisveinanna, sagði við hann: „Drottinn, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn.“
22Jesús svarar honum: „Fylg þú mér en lát hina dauðu jarða sína dauðu.“

Sumir myndu kannski freistast til þess að nota þetta vers til að sýna fram á það hversu hlægileg Biblían sé en ef við notum það sem á ensku kallast ,,Occams razor," þ.e. því að einfaldasta skýringin er yfirleitt best, hljótum við að átta okkur á því að hér sé ekki verið að tala um raunverulega dautt fólk. Nú, ef við samþykkjum það að hér sé ekki verið að tala um raunverulega dautt fólk þá er líklegt að við spyrjum okkur sjálf að því hvað sé verið að meina með ,,lát hina dauðu jarða sína dauðu."
Persónulega tel ég að hér sé verið að tala um andlegt innræti og ef hægt er að samþykkja að hér sé verið að tala um andlegt innræti en ekki uppvakninga þá er hægt að ímynda sér að þessa túlkun megi færa yfir á önnur vers Bíblíunnar. Til dæmis upprisu sem andlega vöknun, holdsveiki sem andlega holdsveiki, blindu sem andlega blindu o.s.frv. Þar sem ég trúi á Jesús sem boðbera Guðs tel ég að hann hafi vissulega haft máttin til að gera þau kraftaverk sem talað er um í Bíblíunni en ég tel að tilgangur þeirra sé að sýna andlegan mátt Jesús til umbreyta hjörtum manna. Enda missir maður að endingu sjónina en andleg sýn dofnar aldrei.

Með bestu kveðjum,
Jakob

. (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 23:14

8 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Jamm, Jakob, það er virðingarvert af þér að reyna að koma einhverju viti í það, sem augljóslega hljómar eins og hver önnur fantasía í augum leikmanna. Þessi misjafni skilningur er kannski oftast fleinninn á milli Kristinna træúfélaga, þar sem allir telja sig höndla þennan afstæða sannleika.´

Þegar ég var þvingaður með hótunum til að fermast, þá var helsti ásteytingarsteinninn sá að ég hafði heiðarleika til að viðurkenna að ég hafði ekki hugmynd um hvað ég var að staðfesta og engra svara var ég verður í augum hinna geistlegu þjóna.  Ég skil ekki enn, hvað felst í hugtakinu Guð, hvað þá þríeinn Guð. Ekki skil ég enn trúarjátninguna né hverju það breytir að fá vatnskvettu í tilteknu húsi til að komast í V.I.P. lið munúðarlífs eftir þessa vist. Ekki skil ég frekar en þú hvað það er að óttast Guð eða hvaða tilgangi það þjónar að biðja, þegar augljóslega svo fáir fá bón sína uppfyllta.

Hvers vegna ekki kasta þessum ritningum á glæ og hirða það, sem skynsamlegt virðist af kærleiksboðinu?  Hvers vegna ekki ræða þau góðu gildi maður á mann eins og mér sýnist Kristur bjóða og hætta miðstýrðri túlkun og fjöldahræsni öðrum til sýndar.  Pálmi vinur minn birti nú vangaveltur um þetta um daginn, sem höfðu ansi óvænt viðbrögð frá þeim hólpnu.

Annars er hér smá pistill um bernskuna og trúna, sem ég setti saman hér um daginn, svo mér er málið hugleikið.  Skýrir kannski hve bullshitþröskuldurinn er láreistur í mér, þegar að þessum málum kemur.

Menn halda svo margt og segja svo margt um þessa hluti og fá svo þá ranghugmynd um að þetta hljóti að vera sannleikurinn.  Líklegast er þó besta lausnin á þessum klofningi að menn hætti að segja ósatt um það sem þeir geta enga hugmynd haft um.

Jón Steinar Ragnarsson, 2.12.2007 kl. 04:58

9 identicon

Ég held að það hafi verið einhver spekingurinn sem sagði ,,því meira sem ég læri, því meira átta ég mig á því að ég veit ekki neitt" eða eitthvað í þá áttina.

Ég tel eina mestu bölvun kristinnar kirkju (sem og margra annarra trúabragða) vera einmitt þessi miðstýrða túlkun á ritningunni. Guðfræðingarnir eru margir hverjir fastir í ,,fótsporum feðra sinna" þar sem þeim er sagt  hvað þeir eigi að trúa og hafa nú ekki mikið frelsi til að mynda sínar eigin skoðanir um ritninguna. Ef einhver dirfðist að segja að honum þætti þrí-eindar kenningin ekki standast væri honum voðinn vís svo maður taki sterkt til orða. Maður hlýtur að spyrja sig hver það var sem gaf þessum mönnum þennann óskeikula hæfileika til að túlka orð Bíblíunnar. 

Mér finnst eftirfarandi tilvitnun ná þessu nokkuð vel:

The All-Knowing Physician hath His finger on the pulse of mankind. He perceiveth the disease, and prescribeth, in His unerring wisdom, the remedy. Every age hath its own problem, and every soul its particular aspiration. The remedy the world needeth in its present-day afflictions can never be the same as that which a subsequent age may require. Be anxiously concerned with the needs of the age ye live in, and center your deliberations on its exigencies and requirements. We can well perceive how the whole human race is encompassed with great, with incalculable afflictions. We see it languishing on its bed of sickness, sore-tried and disillusioned. They that are intoxicated by self-conceit have interposed themselves between it and the Divine and infallible Physician. Witness how they have entangled all men, themselves included, in the mesh of their devices. They can neither discover the cause of the disease, nor have they any knowledge of the remedy. They have conceived the straight to be crooked, and have imagined their friend an enemy.  

 Ég verð nú að segja að mér finnst þú vera að endurspegla margar af þeim tilfinningum sem ég ber eða hef borið í brjósti og fannst mér mjög skemmtilegt að lesa af reynslu þinni. Ég var því miður ekki svona skarpskyggnt barn eins og þú en þar sem maður var bahá'íi í strangtrúuðu kristnu samfélagi fékk maður að upplifa nokkrum sinnum hvernig fólk gat sagt eitt en gert annað.

Mér fannst mjög skemmtilegt að lesa af því þegar þú lýsir því sem gæti kallast andleg endurfæðing þín og hef svipaða reynslu af því þegar ég áttaði mig á því að lífið hefði upp á meira að bjóða en því sem skynfærin fimm segði manni að væri gott.

Það er nú misjafnt hve mikinn áhuga fólk hefur á að pæla í svona trúarlegum og trú-veraldlegum spurningum sem þú setur fram en mér finnst bókin Some Answered Questions mjög skemmtileg í því hvernig höfundur hennar útskýrir ýmis atriði trúar og kristinnar trúar. Sem dæmi tekur hann fyrir skírnina, í reyndar svolítið erfiðri ensku, og söguna af Adam og Evu útskýrir hann, að mínu mati, á mjög fallegan hátt.

Með bestu kveðjum,
Jakob

. (IP-tala skráð) 2.12.2007 kl. 19:51

10 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Takk fyrir þetta Jakaob. Ég skil viðhorf þín, þar sem þú ert alinn upp í þessu haldreipi afmarkaðs almættis, ef þú fyrirgefur mér skilgreininguna.

Þessar tilvitnanir í síðu Baháa eru ekki óvitlausar, en ég skynja þær að sjálfsögðu, sem vangaveltur og það af hinu góða.  Ég held að óeining um þessa hluti, sé meiri á meðal trúfélaga, en þeirra sem halda sig utan þeirra, hafa opin viðhorf og viðurkenna að enginn sannleikur verður staðfestur í þessu.  Margt er það þó, sem algerlega ofbýður skynsemi manna og sérstaklega þegar dogmað er notað til fordæmingar, aðgreiningar, háðs og lítillækkunnar á fólki fyrir aðrar lífskoðanir, svo ekki sé minnst á ofbeldi og yfirtroðning í nafni þessara ritninga.  Ég held að við séum ágætlega sett án þeirra.

Mannkyn hefði tæplega komist á legg, ef hin góðu félagslegu gildi, hefðu ekki verið fyrir hendi í kjarna mannsins. Meira að segja apar halda þessi gildi í sínum samfélögum án skriflegra leiðbeininga og boðunnar.  Fyrirgefningarhugtakið, er kannski það sem byltingakenndast er í málflutningi Krists og það hugtak, sem fljótast er að gleymast og virðist raunar á hröðu undanhaldi í heimi hér.

Hér er önnur lítil saga fyrir þig, sem ég held að lýsi ágætlega viðhorfi mínu og þeirri skoðun að við þurfum ekkert dogma til að skilja hið óskiljanlega og óafmarkaða, hvað þá játast einhverjum forréttindaflokki til að hljóta V.I.P. básinn í hinu uppdiktaða himnaríki. Enginn mannlegur máttur hefur rétt á að gera sig að fulltrúa þar né taka sér vald alls í hendur að viðlagðri kvöl og pínu. Það segir sig sjálft í mínum huga að það er eingöngu til að öðlast völd og fá útrás fyrir sjúklega stjórnsemi, sem á ótta byggist.

Hér er þessi minning: Berrasaður strákur á fjalli.  Kannski kviknaði hugmynd mannsins um guðdóminn einmitt svona í árdaga.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.12.2007 kl. 02:01

11 identicon

Sælir verið þið!

Jakob:  Ég þekki því miður afskaplega lítið til Bahá'í trúar, fyrir utan það sem ég hef heyrt hér og þar, en ég tel mig þó vita að þið takið eitthvert mark á Biblíunni, en þó líka á mörgum öðrum trúarritum.

Þú segir hér að ofan að þú trúir ekki á að Jesús hafi risið upp í eiginlegri merkingu, heldur að kristið samfélag hafi risið upp.

Segðu mér þá, hvernig lest þú (og skilur) t.d. þetta hér:

"3Því það kenndi ég yður fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum,  4að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum  5og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf.  6Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa, en nokkrir eru sofnaðir.    7Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum. 8En síðast allra birtist hann einnig mér, eins og ótímaburði."

(1981, 1kor 15.3-8)

Og einnig aðeins neðar í sama kafla:

"12En ef nú er prédikað, að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig geta þá nokkrir yðar sagt, að dauðir rísi ekki upp?  13Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn.  14En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar.  15Vér reynumst þá vera ljúgvottar um Guð, þar eð vér höfum vitnað um Guð, að hann hafi uppvakið Krist, sem hann hefur ekki uppvakið, svo framarlega sem dauðir rísa ekki upp.   16Því að ef dauðir rísa ekki upp, er Kristur ekki heldur upprisinn.   17En ef Kristur er ekki upprisinn, er trú yðar fánýt, þér eruð þá enn í syndum yðar,  18og þá eru einnig þeir, sem sofnaðir eru í trú á Krist, glataðir.  19Ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna."

Ef eitthvað er að marka Biblíuna, þá reis Jesús Kristur upp í holdi.

Það er svo annað mál að kirkjan fílefldist eftir að hafa séð Drottinn sinn upprisinn, enda ekki von á öðru, og þá má segja að kirkjan hafi risið upp.

Andri (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 12:58

12 identicon

Sælir Jón og Andri,

Ég er núna að læra fyrir próf og get því ekki skrifað mikið núna.

En til að svara þér stuttlega Andri þá í fyrsta lagi er þetta bara minn skilningur sem ég hef fengið af því að skoða Bíblíuna í ljósi þess sem Bahá'u'lláh segir m.a. í ofangreindu riti. Það er ekki þar með sagt að skilningur minn, hvorki á bíblíunni né á orðum Bahá'u'lláh, sé réttur. En þetta er samt sem áður að mínu mati skynsamlegasta túlkun á þessum orðum sem ég hef ennþá séð.

En svo ég taki á ofangreindum versum þá segir þar hvergi að hann hafi risið upp í holdi, það er túlkun sem þú og aðrir hafa lagt í þessi vers en, að mínu mati, þarf ekki endilega að vera rétt.
Að hann hafi birst mönnum þarf ekki að þýða að hann hafi birst þeim í holdi. Það mætti segja að hver sá  sem hefur séð sannleika Krists í orðum hans hafi séð hann sjálfan.

Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa, en nokkrir eru sofnaðir.

Þetta gæti þýtt það að 500 manns hafi tekið trú hans í einu enda ekki óalgengt á þessum tíma að menn hafi tekið trú í hrönnum. Flestir á lífi gæti verið að tala um andegt líf og  eru sofnaðir gæti bæði verið að tala um dauða en í mínum huga frekar andlegan svefn þ.e. misst þann eldmóð sem nýir átrúendur oft hafa en í sumum tilvikum dofnar ef ekki haldið við.

En ef nú er prédikað, að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig geta þá nokkrir yðar sagt, að dauðir rísi ekki upp?  13Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn.  14En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar.

Það er ekkert sem segir að ekki sé verið að tala um þessa andlegu upprisu en maður gæti ímyndað sér að ef þetta væri raunveruleg upprisa en ekki andleg að það hlyti að varðveitast einhverjar heimildir af því aðrar en þær sem finnast í Bíblíunni.

En ef Kristur er ekki upprisinn...

Hér er talað í nútíð.

Svo er spurning hvort hér sé verið að tala um titilinn Kristur eða Kristos - hinn smurði. Ef hinn Kristur boðberinn sem sagt var fyrir um er ekki upprisinn þ.e. hafi ekki komið fram þá - er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar.

Ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna."

Ef við trúum ekki boðun Krists um æðri dóm höfum við ekki fengið mikinn skilning á orðum hans. 

Þetta eru ákveðnar hugleiðingar bara og vonast ég til að geta rætt þetta betur þegar búið er að róast smá. 

 Með bestu kveðjum,
Jakob

. (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 20:41

13 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Eitthvað hef ég heyrt um að þetta hafi allt verið fiffað til. Svona skipulagt galdratrikk með staðgengli.

Jesús ku nefnilega hafa á tvíburabróðir Tómas Didymus (sem þýðir tvíburi) Svo líklega hefur Kristur ekki verið eingetinn.   Þessi saga um bróðurinn er ansi víða.  Tómas er einn af lærisveinunum og hann skrifaði einnig guðspjall, sem grunur leikur á að sé falsað. 

Annað skemmtilegt sem hafa má í huga: Meyfæðingin er þýðingavilla og var eingöngu átt við unga stúlku. Hér er tilvísun í það:

The Virgin Birth and Virgin Mary are, pardon the pun, pregnant with social symbolic significance in most, if not all, parts of the world. Whether you believe in them or not, they are solid social constructs, rehearsed endlessly in art, humour, everyday life, and language. And yet their birth is due to a relatively simple mistake in translation.

The Old Testament talks about almah 'young woman,' not bethulah 'virgin.' However, the scholars in the 3rd century BC translated the Hebrew almah as parthenos in Greek. Thus the 'young woman' in Hebrew metamorphosed into a 'virgin' in Greek—and she has remained a virgin ever since in translations across the world. The notion of 'virgin birth' was born, thanks to a mistranslation.

Þetta hef ég rekist á víða hjá fræðimönnum og biblíuspekingum eins og Bart Ehrman ofl.  Margt er ekki talað hátt um í þessu samhengi og spurning hvort túlkanir hafi einhvað uppá sig í svo miklu textatorfi.

Jón Steinar Ragnarsson, 3.12.2007 kl. 20:54

14 identicon

Sælir,

Ákvað að skoða betur hvaðan ég hafði fengið þennani skilning minn á upprisu Krists og það er héðan: 23: THE RESURRECTION OF CHRIST

Þetta er mun betur orðað heldur en það sem ég er búinn að láta frá mér fara og set ég hér að neðan hluta úr ofangreindri skýringu:

Observe that it is said, "The Son of man is in heaven," while at that time Christ was on earth. Notice also that it is said that Christ came from heaven, though He came from the womb of Mary, and His body was born of Mary. It is clear, then, that when it is said that the Son of man is come from heaven, this has not an outward but an inward signification; it is a spiritual, not a material, fact. The meaning is that though, apparently, Christ was born from  the womb of Mary, in reality He came from heaven, from the center of the Sun of Reality, from the Divine World, and the Spiritual Kingdom. And as it has become evident that Christ came from the spiritual heaven of the Divine Kingdom, therefore, His disappearance under the earth for three days has an inner signification and is not an outward fact. In the same way, His resurrection from the interior of the earth is also symbolical; it is a spiritual and divine fact, and not material; and likewise His ascension to heaven is a spiritual and not material ascension.

Beside these explanations, it has been established and proved by science that the visible heaven is a limitless area, void and empty, where innumerable stars and planets revolve.

Therefore, we say that the meaning of Christ's resurrection is as follows: the disciples were troubled and agitated after the martyrdom of Christ. The Reality of Christ, which signifies His teachings, His bounties, His perfections and His spiritual power, was hidden and concealed for two or three days after His martyrdom, and was not resplendent and manifest. No, rather it was lost, for the believers were few in number and were troubled and agitated. The Cause of Christ was like a lifeless body; and when after three days the disciples became assured and steadfast, and began to serve the Cause of Christ, and resolved to spread the divine teachings, putting His counsels into practice, and arising to serve Him, the Reality of Christ became resplendent and His bounty appeared; His religion found life; His teachings and His admonitions became evident and visible. In other words, the Cause of Christ was like a lifeless body until the life and the bounty of the Holy Spirit surrounded it.

    (Abdu'l-Baha, Some Answered Questions, p. 103)

 

Með bestu kveðjum
Jakob

. (IP-tala skráð) 6.12.2007 kl. 21:44

15 identicon

Jakob:  Hvernig myndirðu skilja ritningartexta Biblíunnar ef þú hefðir ekki lesið eða heyrt um kenningar bahai manna?

Andri (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 22:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband