13.3.2010 | 09:14
Prestarnir koma á óvart
Ég vil bara benda fólki á grein dagsins á Vantrú. Þar er greint frá mjög áhugaverðri efnisgrein sem ég rakst á þegar ég var að skoða fundargerðir stjórnar Prestafélags Íslands.
Þegar maður heldur að prestarnir geti ekki komið meir á óvart, að ríkiskirkjan geti ekki toppað sig í hræsninni, þá finnur maður alltaf eitthvað nýtt til þess að minna sig á hve frábært það er að vera ekki skráður í þennan félagsskap.
8.3.2010 | 15:52
Hin óskeikula biblía
Ég skrifaði grein í dag á Vantrú vegna ummæla ríkiskirkjuprests nokkurs. Hann sagði meðal annars:
Biblían er innblásið orð Guðs, og sem slík er Biblían fullkomin, áreiðanleg, óskeikul og sönn. #
Já, þetta er hvorki Gunnar í Krossinum né Snorri í Betel. Þetta er þjóðkirkjupresturinn Gunnar Jóhannesson.
Það eru svo margar spurningar sem mig langar að spyrja Gunnar (ekki í Krossinum, heldur þjóðkirkjuprestinn) að, er það til dæmis satt og rétt að Gyðingar séu guði eigi þóknanlegir og öllum mönnum mótsnúnir (1 Þess 2.15)? Er það satt og rétt að guðinn hans hafi fyrirskipað þjóðarmorð eins og fram kemur á mörgum stöðum í Gamla testamentinu? Eiga konur að vera undirgefnar eiginmönnum sínum? Sendi guð birnur til að brytja í spað 42 stráka?
Ég lét prestinn vita af greininni, nú er bara að sjá hvort hann svari. Mér finnst mjög líklegt að hann geri það ekki. Gunnar má reyndar eiga það að hann hefur verið duglegri en aðrir prestar við að reyna að röksyðja trúarskoðanir sínar, þannig að það er smá von.
Trúmál og siðferði | Breytt 10.3.2010 kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.3.2010 | 15:43
Undarlegar klippingar
Ég hef áður bent á það hversu oft Þjóðkirkjan slysast til að klippa út óþægileg vers þegar hún velur hvaða texta á að lesa upp í messum. Í útvarpsmessunni í dag var þetta lesið:
Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri. Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ,Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims. Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.` Þá munu þeir réttlátu segja: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?` Konungurinn mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.` (Mat 25.31-40)
Það kemur manni svo sem ekki á óvart að ríkiskirkjufólkið skammist sín fyrir síðari hluta þessarar dæmisögu, áframhaldið er svona:
Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ,Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.` Þá munu þeir svara: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki?` Hann mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér.` Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs." (Mat. 25.41-46)
Af hverju gefur ríkiskirkjan ekki bara út einhverja styttri útgáfu af biblíunni þar sem hún er búin að klippa allt þetta í burtu?
1.3.2010 | 17:06
Er kynþáttahatur synd?
Í gær var lesinn texti í kirkjum landsins þar sem Jesús kallar konu hund af því að hún er ekki Gyðingur.
Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: "Miskunna þú mér, herra, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda." En hann svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: "Láttu hana fara, hún eltir oss með hrópum." Hann mælti: "Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt." Konan kom, laut honum og sagði: "Herra, hjálpa þú mér!" Hann svaraði: "Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana." Hún sagði: "Satt er það, herra, þó eta hundarnir mola þá, sem falla af borðum húsbænda þeirra." Þá mælti Jesús við hana: "Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt." Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu. (Mat 15.21-28)
Ríkiskirkjupresturinn Guðrún Karlsdóttir segir þetta um þessi ummæli:
[Jesús] lítur upp og hreytir ónotum í konuna, er dónalegur. Hann líkir henni við hund.
Hún reynir síðan að afsaka þessa framkomu með því að segja að Jesús hafi bara verið þreyttur og pirraður:
Guð varð manneskjan, Jesús Kristur með öllu sem því fylgdi. Jesús varð þreyttur eins og við . Hann varð pirraður eins og við.
Þannig að samkvæmt henni gerðist þetta, Jesús var pirraður og þreyttur, og þess vegna kallaði hann konu sem var að grátbiðja hann um að lækna dóttur sína hund.
Flokkast það ekki sem synd hjá þessum presti að nota svona rasista-uppnefni? Var Jesús þá ekki syndgari í hennar augum? Þetta endar auðvitað með ósköpum fyrir hugmyndakerfið sem þessi prestur á að vera að boða.
20.2.2010 | 13:58
Að skapa Jesú í sinni eigin mynd
Það er mjög algengt að fólk sem telur að Jesús hafi verið rosalega merkilegaur maður eigni honum sínar eigin skoðanir. Hérna virðist Elton John tileinka honum kynhneigð sína. Hvort Jesús hafi verið hommi eða ekki er auðvitað ekki vitað (þó svo að hann hafi líklega ekki verið það, þar sem að flest fólk er ekki samkynhneigt).
Þeir sem hneykslast eða hlæja að þessari uppástungu hans ættu að velta því fyrir sér hvort þeir séu ekki sekir um sama hlut. Mér finnst það til dæmis mjög líklegt að Jesús hafi talið samkynja kynlíf vera synd, en kristið fólk sem er ekki á þessari skoðun (Jóhanna moggabloggari er gott dæmi) "veit" einhvern veginn að Jesús hafði neitt á móti því!
Síðast í dag rakst ég á dæmi um þessaa hneigð (að tileinka Jesú skoðanir sínar, ekki samkynhneigð) á bloggi ríkiskirkjuprestins Þórhalls Heimissonar:
Enn í dag standa stærstu kirkjudeildirnar í heiminum á móti því að konur gerist prestar og taki að sér safnaðarforystu. Það er auðvitað þvert á orð og kenningu Jesú. #
Við vitum ekki hvaða viðhorf Jesús hafði til jafnrétti kynjanna. Hvergi í guðspjöllunum segir hann eitthvað eins og: Konur og karlar skulu vera jafnrétthá í öllu og bæði kynin eiga að geta gegnt öllum embættum. Og það sem mikilvægara er, ef guðspjöllin eru góð heimild um það sem hann sagði og ef Jesús sagði eitthvað jafn mikilvægt og þetta, af hverju skrifaði enginn um það? Hefði maður ekki búist við því? Og ef Jesús var á þessari skoðun, af hverju voru tólf af lærisveinunum tólf karlmenn?
Í Nýja testamentinu er hins vegar fjallað um hvort að konur eigi að geta tekið að sér safnarðarforystu, í bréfum sem eru eftir Pál eða eru falsanir í hans nafni. Þar er svarið það að konan á ekki að hafa vald yfir karlmanni, hún á að halda kjafti á samkomum og spyrja yfirman sinn (eiginmanninn) sinn að spurningum heima. Ef Jesús boðaði jafnrétti kynjanna, þá gleymdist að segja Páli frá því.
Ætli Jesús hafi ekki líka verið fylgjandi ókeypis tannlækningum fyrir börn?
![]() |
Elton John: Jesús var samkynhneigður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.2.2010 | 17:29
Pat „biskup“ Robertson
Þegar bandaríski sjónvarpsprédikarinn sagði að jarðskjálftinn í Haítí hafi verið refsing guðs þá lýstu margir trúmenn yfir hneykslun sinni. Til að byrja með veit maður ekki hvað var svona hræðilegt við það út frá kristnum skilningi, í biblíunni er guð oft að refsa fólki með náttúruhamförum.
En það sem mér finnst merkilegra er að hátt sett fólk í venjulegum kirkjum kemur ekkert með minna klikkaðri pælingar þegar það reynir að útskýra þetta. Ég rakst á gott dæmi nýlega, þetta eru ummæli N.T. Wright, sem er biskup í ensku biskupakirkjunni og í uppáhaldi hjá einhverjum guðfræðinemum og prestum hérna á Íslandi fyrir doðranta sem hann skrifar (t.d. sagði ríkiskirkjuprestur hann vera ágætan guðfræðing nýlega). Eftir flóðbylguna miklu á Indlandshafi árið 2004 skrifaði hann þetta:
We are not to suppose that the world as it currently is, is the way God intends it to be at the last. Some serious thinkers, including some contemporary physicists, would actually link the convulsions which still happen in the world to evil perpetrated by humans; and it is indeed fair enough to probe for deeper connections than modernist science has imagined between human behavior and the total environment of our world, including tectonic plates. But I find it somewhat easier to suppose that the project of creation, the good world which God made at the beginning, was supposed to go forward under the wise stewardship of the human race, Gods vice-gerents, Gods image-bearers; and that, when the human race turned to worship creation instead of God, the project could not proceed in the intended manner, but instead bore thorns and thistles, volcanoes and tsunamis, the terrifying wrath of the creation which we humans had treated as if it were divine. #
Til að byrja með fer biskupinn að tala um að einhverjir vísindamenn telji að illvirki sem mennirnir fremja hafi áhrif á hreyfingar jarðflekanna (og hann er ekki að tala um eitthvað venjulegt, heldur eitthvað galdralegt þar sem hann talar um modernist science).
Framhaldið er líklega enn klikkaðra. Þar heldur hann því virkilega fram að þegar mannkynið hætti að dýrka guðinn hans á réttan hátt var afleiðingin sú að eldfjöll og flóðbylgjur byrjuðu. Til að byrja með þá væri það enn guðinum hans að kenna, af því að hann myndi ákveða að það að trúa ekki eins og hann vill myndi af einhverjum hafa þær afleiðingar að eldfjöll og flóðbylgjur myndu byrja. En aðalatriðið er það að við vitum að eldfjöll og flóðbylgjur voru til milljónum ára áður en maðurinn kom á sjónarsviðið. Þetta er svipað og að halda því fram að það sé mannkyninu að kenna að risaeðlurnar dóu út. Þessi afsökun virkar bara ef þú ert sköpunarsinni. Þetta er enskur biskup.
Íslenski biskupinn Karl Sigurbjörnsson kom með enn furðulegri afsökun, hann sagði þetta:
Þar á meðal í sálmi þar sem eru þessar hendingar: Guð, þú sem gafst mér lífið. Hvers vegna þjáumst við? Þær raunaspurningar sem hörmungarnar lyfta fram fá einungis svör í gráti og söng og viðbrögðum umhyggjunnar, kærleikans. Því mitt í hörmungunum, harmi og sorg er Guð. Hinn krossfesti og upprisni líður með þeim sem þjást, áhrif líknar og vonar, umhyggju og kærleika vitnar um upprisusigur hans. #
Það má líkja guðinum þeirra við mann sem stingur annan mann með hnífi. Pat Robertson segir að afsökun mannsins sé Hinn maðurinn átti það skilið. á meðan Karl segir eitthvað í líkingu við: Maðurinn sem stakk hinn manninn finnur til með manninum sem hann stakk. Afsökunin hans Pats er að vísu ógeðsleg, en hún er að minnsta kosti skiljanleg. Það sem Karl segir nær því ekki að vera ógeðsleg þar sem að hún er óskiljanleg. Hvernig afsakar það guðinn hans að hann á að finna til með fórnarlömbunum hans?
27.12.2009 | 19:46
„Guð er kærleikur“
Guðfræðingurinn Jóhanna Magnúsdóttir kom með athugasemd við síðustu færslu mína þar sem hún kom meðal annars með eina fullyrðingu sem mér finnst afskaplega þreytandi: Guð er kærleikur.
Hún sagði reyndar orðrétt: Ég set samansemmerki milli Guðs og kærleika. Að mínu hógværa mati er þetta bara væmin fullyrðing sem kitlar eyrun á sumu fólki en er í raun nánast innihaldslaus þegar maður skoðar hana.
Ég sé í fljótu bragði tvennt sem þetta gæti þýtt. Annars vegar að þarna sé verið að segja að guð hafi eitthvað með kærleika að gera, það er sem sagt verið að fullyrða um kærleika:
Sú tilfinning að bera kærleika til einhvers er ósýnilegur maður.
Ég held að flestir átti sig á því að þetta sé bull og vitleysa, þannig að það er ljóst að það er ekki samansemmerki á milli kærleika og guðs. Ósýnilegur maður tengist ekkert því að bera kærleika til einhvers.
Annars vegar sé ég fyrir mér að það sé verið að segja að guðinn hafi eitthvað með kærleika að gera, eitthvað í þessa átt:
Ósýnilegi maðurinn er alveg ótrúlega góður.
Þetta er líklega það eina skiljanlega sem Guð er kærleikur getur þýtt. Guðspekingarnir mega alveg benda mér á þriðja möguleikann ef mér hefur yfirsést hann. Það væri gaman ef Jóhanna gæti sagt okkur hvort að þetta hafi ekki verið innihaldið í fullyrðingunni hennar.
Að segja Guð er kærleikur er náttúrulega miklu flottara og gáfulegra en að segja: Ósýnilegi maðurinn er svakalega góður en merkingin, ef hún er einhver, er nákvæmlega sú sama.
Ég held að ástæðan fyrir þessum tilgangslausa og flækjandi orðaleik hjá trúmönnum sé sá að ef þeir myndu sleppa honum, þá væri það einum of augljóst hve einföld og hálf-barnaleg þessi mikla speki er í raun og veru.
27.12.2009 | 08:16
Vitnisburður sköpunarverkisins
Kalli biskup sagði þetta á aðfangadag:
Sköpunarverkið ber [guði] vitni. #
Ég vil bara minna herra Karl Sigurbjörnsson á að það eru ekki nema fimm ár síðan guðinn hans drap hátt í þrjúhundruðþúsund manns (stór hluti þess börn) í flóðbylgjunni miklu á Indlandshafi.
Þú verður að afsaka það Kalli minn, en sköpunaverkið ber þess einmitt vitni að algóður skapari er ekki til. Guðinn þinn er augljóslega ekki til.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
26.12.2009 | 19:17
Talnaspekingur kirkjunnar
Ríkiskirkjupresturinn Þórhallur Heimisson fullyrðir á bloggsíðu sinni að:
..um 90% Íslendinga játa kristna trú. #
Mér finnst ótrúlegt hvernig hann getur haldið þessu fram. Árin 1986 og 2004 fóru fram mjög ítarlegar kannanir á trúarlífi Íslendinga og í þeim var einmitt spurt: Játar þú kristna trú? (eða fólki var gefinn sá kostur að velja þann möguleika) og þeir sem sögðu Já voru 40%-50%.
Þórhallur er þarna líklega að vísa til skráningar fólks í trúfélög, en dettur nokkrum heilvita manni það í hug að opinber trúfélagsskráning jafngildi trúarjátningu? Er allt fólkið sem er ekki í skráðum trúfélögum trúleysingjar? Auðvitað ekki. Er allt fólkið sem er skráð í ríkiskirkjuna (eða önnur kristin trúfélög) kristið? Auðvitað ekki.
Þegar maður sem veit af þessum könnunum endurtekur aftur og aftur að um 90% Íslendinga játa kristna trú þá verð ég að viðurkenna það að mér finnst líklegt að honum sé sama um sannleikann í þessum efnum og kemur bara með þessa röngu fullyrðingu í áróðursskyni.
22.12.2009 | 17:49
Grundvallarboðun Jesú
Mér finnst stundum ótrúlegt hvað prestum finnst lítið mál í að skálda hitt og þetta um Jesú: Jesús var kvennréttindasinni., Jesús var friðarsinni. og ég veit ekki hvað. Í nýlegri ræðu ríkiskirkjuprestsins Þórhalls Heimissonar segir hann þetta:
Grundvallarboðun Jesú krists var að allir menn væru börn guðs,....
Nú finnst prestinum þetta örugglega afskaplega fallegt og finnst sjálfsagt að Jesú hafi boðað þessa krúttlegu setningu: Allir menn eru börn guðs. en hvað segir Nýja testamentið okkur?
Þegar ég leitaði, þá fann ég engan stað þar sem Jesú er eignað einhver orð í þessa veru, hins vegar segir hann margt sem sýnir klárlega fram á að hann hefur ekki trúað þessu. Sem dæmi þá segir Jesús í fjallræðunni: Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu guðs börn kallaðir verða. (Mt 5.9). Ef allir eru guðs börn, þá er erfitt að sjá hvernig hægt er að segja að einhver hópur manna verði sérstaklega kallaður guðs börn.
Annars staðar kallar Jesú gyðinga syni djöfulsins, þannig að varla eru þeir synir guðs að hans mati: Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. (Jh 8.44)
Ef maður kíkir síðan í guðspjöllin sjálf, þá heldur til dæmis höfundur Jóhannesarguðspjalls klárlega ekki að allir séu guðs börn, heldur bara kristið fólk:
En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans. (Jh 1.12)
Að allir menn væru börn guðs var klárlega ekki grundvallarboðun Jesú, hann virðist bara alls ekki hafa boðað þetta.