11.12.2009 | 13:46
Þjóðarmorð eru ásættanleg
Ég hef áður bent á það hve erfitt sumir trúmenn eiga með það að fordæma hluti eins og þjóðarmorð. Nú hefur nýjasti biskup ensku biskupakirkjunnar (ríkiskirkjunni þeirra) bæst í þennan hóp. Blaðamaður hjá The Gurdian segir stuttlega frá þessum biskupi. Þarna kemur fram blaðamaðurinn spurði út í söguna af því þegar guð stoppar gang sólarinnar til þess að hjálpa Hebreum að murka lífið úr andstæðingum sínum. Biskupinn sá auðvitað enga ástæðu til þess að ætla að þetta hafi ekki gerst:
Well, I said, surely there were moral objections to the idea that God would so gleefully facilitate the genocide described when the Israelites took possession of the promised land? "There are lots of books written on that subject, and I am not an expert on it I have nothing sensible to say on genocide."
Maður vorkennir auðvitað biskupnum (og öðrum trúmönnum). Annað hvort fyrirskipaði guðinn þeirra þjóðarmorð eða þá að það er ekkert að marka biblíuna þegar hún fullyrðir um guð. Þessi biskup er heldur ekki einn um að víkja sér undan því að fordæma þessi ætluðu þjóðarmorð. Alister McGrath, guðfræðingurinn sem kenndi ríkiskirkjuprestum nýlega hvernig ætti að svara þessum árans trúleysingjum, var spurður einfaldrar spurningar: Did god order the slaying of the Cananites? Hann svaraði ekki spurningunni og sagði að lokum: It is a very difficult question to give a straight answer to precisely because its such a difficult question.
Maður hlýtur að velta því fyrir sér hver afstaða ríkiskirkjupresta til þjóðarmorða sé.
6.12.2009 | 23:06
Falleg vers
Tveir ríkiskirkjuprestar, Svavar Alfreð og Þórhallur Heimisson, lofuðu í dag kafla úr Gamla testamentinu.
Svavar segir meðal annars:
Bæði í lexíunni og jólalaginu er fjallað um miklar vonir og bjartar. Þar er kveikt á vonarljósum jafnaðar, sáttar, frelsis, réttlætis og friðar. Þó eru árþúsund á milli þessara tveggja texta. #
Þórhallur segir meðal annars:
Þessi texti er skrifaður í spádómsbók Jesaja í Gamla testamentinu. Þar segir frá spádómi um heiminn eins og hann muni verða þegar Messías, Kristur, Frelsarinn, hefur fullkomnað starf sitt og rutt brott öllu hinu illa úr veröldinni. #
Textinn sem þeir vísa til er Jesaja 11.1-9, en ef maður les kaflann þá sér maður að lýsingin á því hvernig þessi fullkomni jafnaðar, sáttar, frelsis, réttlætis og friðar endar alls ekki í versi níu. Í versi þrettán kemur til dæmis fram að þjóðirnar Júdea og Efraím munu hætta öllum ófriði, en fallegt. Í næsta versi sést líka að þessar þjóðir munu vinna saman í draumaheimi Messíasar:
Þeir munu steypa sér niður á síðu Filista gegn vestri og ræna í sameiningu austurbyggja. Edóm og Móab munu þeir hremma og Ammónítar verða þeim lýðskyldir.
Þannig að í hinum fullkomna heimi sáttar og friðar verður ekki gaman að vera nágranni Júdeu.
4.12.2009 | 00:41
Aðdáun á ógeði
Á heimasíðu ríkiskirkjunnar er ræða eftir guðfræðiprófessorinn Pétur Pétursson, þar segir hann meðal annars:
Því meira sem maður les í guðspjöllunum og kynnir sér rannsóknir á þeim því meiri verður aðdáunin á Kristi, predikunum hans, lífi og starfi þetta er mín reynsla og margra annarra. #
Nú gef ég mér að Pétur haldi að Jesús hafi sagt það sem kemur fram í guðspjöllunum. Ég sé ekki hvernig nokkrum manni getur fundist predikanir Jesú vera aðdáunarverðar.
Ef maður skoðar til dæmis Matteusarguðspjall, þá virðist predikunin hans ganga út á það að heimsendir sé í nánd og að þá muni guð henda vondu fólki í helvíti. Er þetta aðdáunarvert?
Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Mt 13.40-42)
Það er auðvitað ekki hægt að gera athugasemdir við þessa ræðu og ég efast um að þessi mikli spekingur myndi vilja ræða um svona ljót vers.
25.11.2009 | 16:08
Vandinn við fæðingarfrásagnirnar
Eins og fram kom í síðustu færslu minni, þá sagðist Þórhallur Heimisson hafa hætt við að skrifa um fæðingarfrásagnir guðspjallanna vegna þess að einhverjir ónefndir aðilar séu vondir við hann á netinu.
Mér persónulega finnst þetta asnaleg ástæða fyrir því að skrifa ekki um fæðingarfrásagnirnar, en ég get vel trúað því að Þórhallur nenni ekki að standa í stappi á netinu. Ég veit hins vegar um góðar ástæður fyrir því að ríkiskirkjuprestur myndi ekki vilja skrifa um fæðingarfrásagnirnar.
Það má segja að söluvara prestanna sé Jesús og eina almennilega heimildin sem þeir hafa um Jesús eru guðspjöllin. Ef það er ekkert að marka guðspjöllin, þá geta prestarnir afar lítið sagt um Jesús.
Ég trúi ekki öðru en að mikið af fólki sjái að fæðingarfrásagnirnar eru helgisögur. Vondur konungur sem reynir að drepa barnið, englakórar, skilaboð í draumum og fleira í þeim dúr.
Þegar maður skoðar frásagnirnar nánar, þá vandast málin bara. Þetta eru í raun og veru tvær mótsagnakenndar sögur af fæðingu Jesú, ekki tvö afbrigði af sömu sögunni. Vandamálin enda ekki þar, vísanir í spádóma eru í algjöru rugli (sumir ekki einu sinni til) og sumir atburðir standast bara enga sagnfræðilega rýni.
Þannig að það er góð ástæða fyrir presta að vilja ekki skoða fæðingarfrásagnirnar, þær sýna fram á að það sé ekki hægt að treysta guðspjöllunum og þar af leiðandi að við getum vitað afar lítið um Jesús.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.11.2009 | 15:53
Þórhallur eitthvað í slæmu skapi
Ég var farinn að hlakka til að lesa skrif Þórhalls Heimissonar um fæðingarfrásagnir guðspjallanna, enda hef ég skrifað svolítið um einmitt þetta, til dæmis þessi umfjöllun um spádómana í fæðingarfrásögn Matteusarguðspjalls og þetta bréf til Karls Sigurbjörnssonar þar sem útskýri fyrir honum af hverju frásagnirnar eru ótrúlegar.
Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna Þórhallur hættur við þessi skrif, því hann vísar bara til þess að einhverjir hafi skrifað eitthvað neikvætt um þetta á netinu. Nú skil ég ekki hvers vegna það ætti að hafa áhrif á hann. Ég hélt að prestar ættu að hafa stundað gagnrýnt nám um einmitt svona efni og því ættu þeir ekki að lenda í uppnámi þó að einhver gagnrýni hugmyndir þeirra á þessu sviði.
En förum yfir það sem Þórhallur skrifar:
Maður má ekki velta vöngum um trúmál hér á vefnum, heiðarlega og fordómalaust, án þess að fá yfir sig eins og hellt úr fötu gall hatursmanna kristninnar
.
Til að byrja með er rétt að benda á að með því að nota geimveruna er Þórhallur að vísa í gamla merkið Vantrúar, sem var geimvera á krossi. Hann heldur því fram að vegna þess merkis séum við níðingar.
En ég persónulega veit ekki um neitt gall frá okkur hatursmönnum kristninnar sem þessi væntanlegu skrif hans hafa vakið. Einu skrifin sem ég hef séð um þetta er bloggfærsla eftir Jón Val (varla er hann hatursmaður kristninnar) og önnur bloggfærsla eftir Sigurð Þór.Það er líka áhugavert að með því að setja að skrifin hans séu heiðarleg og fordómalaus er hann auðvitað að gefa til kynna að skrif hatursmannanna séu það ekki. Það er auðvitað ekki rökstutt.
En Þórhallur heldur áfram:Þeir þora að vísu ekki að skrifa hér hjá mér - en hafa hellt úr sér á öðrum stöðum hér á netinu.
Þetta eru ansi merkileg ummæli í því ljósi að Þórhallur hefur lokað á ansi marga á blogginu sínu, til dæmis lokaði hann á mig, fyrir að dirfast að gagnrýna skoðanir hans. Að hann skuli halda því fram að hatursmennirnir þori ekki að gera athugasemdir við skrifin hans beint eru auðvitað annað hvort vísvitandi rangfærsla eða mjög miklar ranghugmyndir.
Áfram heldur Þórhallur:
Menn sem telja sig hafa SANNLEIKANN í vasanum og þola ekki að hlutirnir séu skoðaðir opnum huga.
Mér finnst undarlegt að maður sem að vinnur sem prestur, og heldur væntanlega að kristindómurinn sé sannleikurinn (ef ekki þá væri hann varla í þeirri vinnu) skuli vera að ásaka aðra um að hafa SANNLEIKANN í vasanum.
Síðan er auðvitað enn ein rakalaus ásökun frá prestinum um að þeir sem eru ósammála honum þoli ekki að hlutirnir séu skoðaðir með opnum hug. Þetta segir maðurinn sem vill ekki ræða málin og lokar á sem eru ósammála honum.
Ég veit ekki hvað er hægt að segja um Þórhall. Ég held að maðurinn þurfi bara að slappa af og taka því ekki svona persónulega þó svo að skoðanir hans séu gagnrýndar. Ef hann ræður ekki við að það sé rætt um skrif hans um trúmál, þá ætti hann bara að sleppa því að skrifa um þetta efni.
9.11.2009 | 13:04
Sparnaðartillaga handa ríkiskirkjunni
Lækkiði hámarkslaun biskupa, prófasta og presta niður í 400 þúsund á mánuði. Þannig má örugglega spara hundruði milljóna, meira en nóg. Enda eru þessir andans menn hálaunamenn. Æðsti biskupinn þeirra er til dæmis með hátt í milljón á mánuði í laun. Á honum einum myndu sparast 7 milljónir.
Klerkur sem væri á móti þessu væri líklega hræsnari og er augljóslega ekki í þessu starfi út af kristnum hugsjónarástæðum.
![]() |
Þjóðkirkjan þarf að skera niður um 161 milljón króna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.11.2009 | 18:03
Upprisutrúin
Á heimasíðu ríkiskirkjunnar kemur Þórhallur Heimisson með þetta ráð:
Ég vil ráðleggja hverjum þeim sem virkilega vill kynnast hinni kristnu upprisutrú að taka Nýja testamentið sitt og fletta upp á 15. kaflanum í fyrra korintubréfi og lesa það sem Páll skrifar þar. #
Ef við kíkjum á það sem stendur þarna þá sjáum við meðal annars þetta:
Þannig er og ritað: "Hinn fyrsti maður, Adam, varð að lifandi sál," hinn síðari Adam [Jesús] að lífgandi anda. (Fyrra bréf Páls til Korin 15:45)
En það segi ég, bræður, að hold og blóð getur eigi erft Guðs ríki, eigi erfir heldur hið forgengilega óforgengileikann. (Fyrra bréf Páls til Korin 15:50)
Sem sagt, hinn upprisni Jesús var andi og hold og blóð getur ekki erft Guðs ríki.
Berum þetta saman við það sem kemur fram í einu guðspjallanna:
Lítið á hendur mínar og fætur, að það er ég sjálfur. Þreifið á mér, og gætið að. Ekki hefur andi hold og bein eins og þér sjáið að ég hef." (Lúkasarguðspjall 24:39)
Þarna segir hinn upprisni Jesús hins vegar að hann sé ekki andi og að hann sé úr holdi og beinum.
Páll hafði greinilega allt aðrar hugmyndir heldur en sá sem skrifðai Lúkasarguðspjall og það er ljóst að hann trúði ekki á sögur af upprisnum Jesú sem labbar um í holdi og blóði. Sögurnar af hinum upprisna Jesú sem við lesum í guðspjöllunum hljóta því að vera síðari tíma tilbúningur.
1.11.2009 | 17:55
Hin tímalausu ummæli Jesú
Á heimasíðu ríkiskirkjunnar trú.is, skrifar presturinn Hildur Eir Bolladóttir stuttan pistil þar sem hún gefur nokkrar ástæður fyrir því af hverju hún trúir hinu og þessu. Ein setning hennar er þessi:
Ég trúi á Jesú Krist því orð hans er óháð tíma og rúmi.
Ef fólk virkilega skoðar hvaða ummæli eru eignuð Jesú, þá er ekki nóg með að þau séu augljóslega ekki óháð tíma og rúmi, heldur eru þau ummæli manns sem hafði úrelta heimsmynd og hafði frekar ofsafengnar skoðanir. Hérna eru nokkur dæmi:
Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis, en finnur ekki. Þá segir hann: Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór. Og er hann kemur og finnur það tómt, sópað og prýtt, fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður. (Mt 12.43-45)
Eru ummæli um starfshætti illra anda óháð tíma og rúmi?
Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér." (Mt 11.23-24)
Eru ummæli um að einhver borg í Palestínu muni brenna í helvíti óháð tíma og rúmi?
Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Mt 13.40-42)
31.10.2009 | 00:20
Óheiðarleiki Þjóðkirkjunnar
Á heimasíðu Þjóðkirkjunnar sést að morgunlestur gærdagsins var Efesusbréfið 5.21,25-32. Alltaf þegar ég sé að kirkjan er að klippa út vers, þá veit ég að það eru vers sem hún skammast sín fyrir. Í nýju þýðingunni eru vers 21-33 sett í undirkafla sem ber heitið Skyldur hjóna. Hérna er allur kaflinn og þau vers sem ríkiskirkjan vitnar ekki í eru feitletruð:
Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists: Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn. Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns. En eins og kirkjan er undirgefin Kristi, þannig séu og konurnar mönnum sínum undirgefnar í öllu. Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana, til þess að helga hana og hreinsa í laug vatnsins með orði. Hann vildi leiða hana fram fyrir sig í dýrð án þess hún hefði blett eða hrukku né neitt þess háttar. Heilög skyldi hún og lýtalaus. Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig. Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast, eins og Kristur kirkjuna, því vér erum limir á líkama hans. "Þess vegna skal maður yfirgefa föður og móður og búa við eiginkonu sína, og munu þau tvö verða einn maður." Þetta er mikill leyndardómur. Ég hef í huga Krist og kirkjuna. En sem sagt, þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig, en konan beri lotningu fyrir manni sínum. (Ef. 5.21-33)
30.10.2009 | 20:55
Nafni minn les biblíuna ekki nógu vel
Á trú.is skrifar Hjalti Hugason pistil sem heitir Dómsdegi frestað. Lokaorð hans eru:
En munum að sá Guð sem vakir að baki dómsins er ekki guð reiði, hefndar og haturs heldur Guð elsku og vonar.
Í biblíunni skrifar Páll postuli hins vegar:
Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: "Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn." (Bréf Páls til Rómverja 12:19)
Eins og ritað er: "Jakob elskaði ég, en Esaú hataði ég." (Bréf Páls til Rómverja 9:13)