Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
20.1.2008 | 18:26
Börn og Þjóðkirkjan
Samkvæmt Þjóðkirkjunni, þá er ekkert athugavert við það að kvelja nýfædd börn, svo lengi sem guð er að kvelja börnin eða þá að guð samþykkir kvalirnar.
Ég veit að ég verð sakaður um að koma með útúrsnúninga, en ef Þjóðkirkjunni er alvara með játningum sínum, þá er ég einungis að benda á rökréttar afleiðingar því sem kemur fram í játningunum hennar.
Í höfuðjátningu Þjóðkirkjunnar, Ásborgarjátningunni, stendur:
Eftir fall Adams fæðast allir menn, sem getnir eru á eðlilegan hátt, með synd, en það merkir án guðsótta, án guðstrausts og með girnd. Þessi upprunasjúkdómur eða spilling er raunveruleg synd, sem dæmir seka og steypir í eilífa glötun þeim sem ekki endurfæðast fyrir skírn og heilagan anda. #
Auðvitað trúa prestar Þjóðkirkjunnar þessu ekki, þeir hafa aðra á$tæðu fyrir því að vinna fyrir Þjóðkirkjuna. En samkvæmt þessu, þá eiga nýfædd börn skilið ("raunveruleg synd"!) að lenda í eilífri glötun, sem sama játning segir að sé "eilífar kvalir" #.
Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur guð kristinna manna sett þá hugmynd í fólk að nýfædd börn séu saklaus, þegar sannleikurinn er sá að þau eiga skilið að kveljast að eilífu.
Ímyndum okkur að æðsti biskup Þjóðkirkjunnar dæi á morgun og fyrsta verkið hans í himnaríki væri að fara niður í helvíti og kvelja börn sem dóu við fæðingu. Myndi ónefndi biskup gera það? Í bókinni í birtu náðarinnar segir ónefndi biskup að "[v]ígðir þjónar kirkjunnar" [hann!] beri sérstaka ábyrgð á því að kirkjan sé "trúföst játningum lútherskrar kirkju". Samkvæmt þessum játningum eiga nýfædd börn skilið að kveljast að eilífu. Þannig að guð væri í fullum rétti að senda þau beinunstu leið í helvíti. Karl Sigurbjörnsson segist trúa því að algóður guð geti kvalið börn að eilífu fyrir þá "synd" að hafa fæðst.
En ég ætla að leyfa greyið manninum að njóta vafans og trúa því að hann sé hræsnari.
9.12.2007 | 21:28
Hin hatramma mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna
Merkilegt að flest þau atriði sem biskupnum blessuðum fannst vera hatrömm eru tekin beint upp úr áliti mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Ætli biskupnum finnist mannréttindanefndin líka vera hatrömm?
![]() |
Siðmennt svarar biskup |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.12.2007 | 20:45
Er manninum alvara?
Eitt af því sem blessaði biskupinn telur vera merki um það að Siðmennt séu "hatrömm samtök" er tillaga félagsins um að tryggt verði að greinarmunur sé gerður á sagnfræði og goðsögnum í kennslustundum."
Ekki nóg með að biskupinn sé á móti því að tryggt verði að greinarmunur sé gerður á sagnfræði og goðsögnum í kennslustundum", heldur finnst honum það vera "hatrammur" málflutningur.
Er það ekki sjálfsagt að það sé gerður þessi greinarmunur í kennslu?
Maðurinn mætti líka leita að "að einskorðast við e-ð" í orðabók, eins og Óli Gneisti bendir á.
Síðan segir biskupinn að "[ý]msir talsmenn Siðmenntar hafa leyft sér þann málflutning að tala niðrandi um trú", nú bendir blessaður maðurinn ekki á nein dæmi, en ég veit ekki til þess að talsmenn Siðmenntar hafi verið að tala niðrandi um trú. Annar aðili, Karl nokkur Sigurbjörnsson, hefur sagt að áhrif guðleysis og vantrúar væru "mannskemmandi og sálardeyðandi" # Biskupinn telur þessi ummæli örugglega ekki vera hatrömm, ólíkt því að biðja um að greina á milli goðsagna og sagnfræði í kennslu.
![]() |
Biskup sendir Siðmennt opið bréf |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (81)
27.11.2007 | 23:50
Hin óeinstaka upprisa Jesú
Ef þú hittir einhvern tímann kristinn mann sem segir að upprisa Jesú hafi verið einstakur viðburður, þá veistu að viðkomandi treystir annað hvort ekki guðspjöllunum eða hefur þá ekki lesið þau almennilega, nánar til tekið hefur hann ekki lesið Matteusarguðspjall almennilega. Í því guðspjalli eru nefnilega heilmargar upprisur!
En Jesús hrópaði aftur hárri röddu og gaf upp andann. Þá rifnaði fortjald musterisins í tvennt, ofan frá og niður úr, jörðin skalf og björgin klofnuðu, grafir opnuðust og margir líkamir helgra látinna manna risu upp. Eftir upprisu Jesú gengu þeir úr gröfum sínum og komu í borgina helgu og birtust mörgum. (Mt 27:50-53)
Til að byrja með þá voru þessir helgu menn afskaplega kurteisir, eftir að þeir risu upp frá dauðum voru þeir nógu kurteisir til þess að bíða eftir því að Jesús væri risinn upp frá dauðum (~1,5 sólarhringi síðar) til þess að kíkja á miðbæinn. Höfundum hinna guðspjallanna fannst þetta víst ekki nógu merkilegur atburður til þess að minnast á hann, ekki heldur sagnaritarar sem skrifuðu um atburði þessa tíma.
Ég held að það þurfi ekki að vera öfgafullur ofsatrúleysingi eins og ég til þess að sjá að þetta gerðist augljóslega ekki. Ef þetta gerðist ekki, þá er augljóslega ekki hægt að treysta þessu guðspjalli.
17.11.2007 | 02:50
Ómerkilegur pappír
Nú hef ég ekki lagt mat á framlag Sigurbjarnar til "viðgangs íslenskrar tungu", en ég efast um að hann hafi haft mikið að bjóða í trúarlegri umræðu annað en fordóma sína gagnvart trúleysingjum. Til dæmis skrifaði hann þetta í áróðursræðu sem bar heitið Heródes tapar:
Flestir eru reyndar minni vitringar en þeir halda. Þú þyrftir t.d. að gera þér grein fyrir því í eitt skipti fyrir öll, að Guð flýr ekki leitarljós mannlegrar þekkingar, en þú grípur hvert tækifæri til þess að flýja hann. Þú fagnar hverri lygi, sem gefur í skyn, að Guð sé ekki til. Alveg eins og Heródes. Þú vilt, eins og hann, vera laus allra mála við Guð. Þess vegna kanntu því svo vel, þegar vitringar koma af fjarlægum löndum og segjast hafa séð það í stjörnum eða mold eða blóði eða gömlum gögnum, að Guð sé ekki til, eða kristin kenning um hann sé að minnsta kosti þó nokkuð hæpin. Þú kannt því sennilega ekki eins vel, þegar dásamleg vísindi eru notuð til þess að margfalda barnamorð Heródesar margmilljónfallt. En hvort tveggja er af sama toga í einu lýst hjá fornum spekingi hárrétt á þessa leið: Heimskinginn segir í hjarta sínu: Enginn guð. Ill og andstyggileg er breytni þeirra (Dav. sálm. 14,1).
Með öðrum orðum: trúleysingjar eru heimskir og illa innrættir. Sömu hugsun er að finna í annarri áróðursræði, Gilt fyrir Guði[sic]: "Enginn hugur er svo guðvana, að hann hafi ekki vott af skyni góðs og ills."
Annað sem kom mér í sjálfu sér ekki á óvart, en er auðvitað frekar neyðarlegur blettur á meint stórkostlegt framlag hans til trúarlegrar umræðu er viðhorf hans til guðspjallanna. Hann er það sem mætti kalla guðspjallabókstafstrúarmann, en það þýðir að hann nálgast guðspjöllin eins og allt í þeim sé satt og rétt. Svo ég reyni nú að vera svolítið skáldlegur, þá hrækir hann framan í alla þá fræðimenn sem hafa reynt að auka skilning okkar á guðspjöllunum. Í enn einni áróðursræðu sinni, Sigurinn, kemur Sigurbjörn með þau frábæru rök að Jesús hlyti að hafa risið upp frá dauðum líkamlega, því að í upprisufrásögnunum í guðspjöllunum leggur "hina ríkustu áherzlu á það, að hann sé ekki andi". Maður gæti haldið að hinn upprisni Jesús í þessum upprisufrásögnum hafi vitað það að seinna meir yðru menn ekki sammála um það hvort Jesús hafi risið upp sem andi eða ekki.
Loks má nefna kennimannslega blæ ritstarfa hans, eins og hjá nánast öllum prestum (ég segi nánast því kannski er einhver prestur þarna úti sem fellur ekki undir þetta) þá er meirihluti innihalds ritverka hans innihaldslaust hjal. Prestarnir vita að áróðursræðurnar, sem þeir kalla ýmist prédikun eða predikun, þarf að vera aðeins lengri en "Guð elskar ykkur og Jesús var æðislegur gaur." og þess vegna reyna þeir að lengja þær með innihaldslausum frösum og málalengingum. Eftir að hafa gert þetta sunnudag eftir sunnudag í mörg ár verða svo öll skrif þeirra uppfull af þessu froðusnakki.
En veitið honum endilega verðlaun fyrir framlag hans til íslenskrar tungu, en ég vona innilega að íslensk hugsun hafi verið svo bágstödd á 20. öldinni að framlag þessa manns hafi haft eitthvað að segja.
![]() |
Sigurbjörn Einarsson hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 02:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
16.11.2007 | 20:04
Þegar Jesús laug
Kristið fólk á auðvitað afar erfitt með að viðurkenna að í guðspjöllunum er frásögn af því þegar Jesús lýgur. Annars vegar vegna þess að það er auðvitað óþægileg tilfinning að hugsa til þess að vera sem ætlar að kvelja suma að eilífu sé kannski bara að ljúga þegar hún segir að hún muni ekki kvelja þig. Hins vegar vegna þess að Jesús á að hafa verið syndlaus og síðast þegar ég athugaði, þá var það talið synd að ljúga. En kíkjum á frásögnina:
Nú fór að hátíð Gyðinga, laufskálahátíðin. Þá sögðu bræður hans [Jesú] við hann: ,,Flyt þig héðan og farðu til Júdeu, til þess að lærisveinar þínir sjái líka verkin þín, sem þú gjörir. Því enginn starfar í leynum, ef hann vill verða alkunnur. Fyrst þú vinnur slík verk, þá opinbera sjálfan þig heiminum.`` Því jafnvel bræður hans trúðu ekki á hann. Jesús sagði við þá: ,,Minn tími er ekki enn kominn, en yður hentar allur tími. Heimurinn getur ekki hatað yður. Mig hatar hann, af því ég vitna um hann, að verk hans eru vond. Þér skuluð fara upp eftir á hátíðina. Ég fer ekki til þessarar hátíðar, því minn tími er ekki enn kominn.`` Þetta sagði hann þeim og var kyrr í Galíleu. Þegar bræður hans voru farnir upp eftir til hátíðarinnar, fór hann samt líka upp eftir, ekki svo menn vissu, heldur nánast á laun. (Jóh 7.2-10)
Jesús segir bræðrum sínum að hann fari ekki til hátíðarinnar, síðan þegar þeir eru farnir, þá fer hann samt á laun. Hann laug augljóslega að bræðrum sínum.
2.11.2007 | 22:03
Að láta hafa sig að fífli
Það sem er enn grátbroslegra er að kristið fólk er í alveg eins svikamyllu:
Drottinn er í nánd. (Fil 4:5)
Innan harla skamms tíma mun sá koma, sem koma á, og ekki dvelst honum. (Heb 10:37)
Þreyið og þér, styrkið hjörtu yðar, því að koma Drottins er í nánd. (Jak 5:8)
En endir allra hluta er í nánd. (1Pét 4:7)
Börn mín, það er hin síðasta stund. Þér hafið heyrt að andkristur kemur, og nú eru líka margir andkristar komnir fram. Af því vitum vér, að það er hin síðasta stund. (1Jóh 2:18)
Sæll er sá, er les þessi spádómsorð, og þeir, sem heyra þau og varðveita það, sem í þeim er ritað, því að tíminn er í nánd. (Opb 1:3)
Eftir 2000 ár munu vottar Jehóva örugglega neita því að upphafsmenn þeirra hafi haldið því fram að heimsendir væri í nánd. Væri það ekki heimskulegt?
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
2.11.2007 | 01:38
Um yndislegt umburðarlyndi Jahvehs
Kristinn Ásgrímsson, "safnaðarhirðir" Hvítasunnukirkjunnar í Keflavík, skrifaði grein nýlega þar sem hann reyndi að rökstyðja þá skoðun að Jahveh, guðinn hans, væri umburðarlyndur. Til þess að reyna að gera blóðþyrsta guðinn hans umburðarlyndan þarf Kristinn auðvitað að nauðga hugtakinu umburðarlyndi.
Í stuttu máli má segja að þegar viðkemur Jahveh, þá er umburðarlyndi það að hann sé ekki þegar búinn að henda okkur í helvíti fyrir að "óhlýðnast" honum. Umburðarlyndi hjá Jahveg er þannig að hann umber alla hegðun okkar þennan stutta tíma sem við lifum, en um leið og við deyjum þá á hann eftir að kvelja okkur að eilífu. Já, að eilífu. Kristinn er nefnilega "safnaðarhirðir" í Hvítasunnukirkjunni, og helvíti, alvöru helvíti, er ein af kennisetningum þeirrar kirkju.
Ég ætla að reyna að búa til eitthvað sambærilegt dæmi úr raunveruleikanum. Mér er svolítið illa við að fólk reyki í kringum mig, aðallega vegna lyktarinnar sem kemur á fötin mín og hárið mitt. Ef ég myndi umbera reykingar á sama hátt og Jahveh er umburðarlyndur, þá myndi ég ekki gera neitt þegar fólk kveikti í sígarettunni, en um leið og það myndi anda frá sér reyk myndi ég berja það í klessu. Og næsta dag myndi ég líka berja það í klessu. Og daginn eftir það. Alveg þangað til viðkomandi myndi deyja. Vissulega gerði ég ekki neitt þegar þessi óheppni reykingarmaður kveikti í sígarettunni, en myndi einhverjum detta í hug að kalla mig umburðarlyndan út af því? Auðvitað ekki, og þess vegna er Jahveh ekki umburðarlyndur þó svo að hann bíði með eilífu kvalirnar í 0-120 ár.
En það fyndna við þennan pistil er að samkvæmt biblíunni getur ekki Jahveh beðið í þennan stutta tíma. Hann er alltaf að drepa fólk fyrir minnstu yfirsjónir, t.d. langa-langa-langa-langa-langa-langa-langa-langa-langa-langa-afi átti í stríði við uppáháldskynþáttin hans #. Síðan má auðvitað ekki gleyma trúarlegu umburðarlyndinu hans sem jafnast á við stjórnvöldin í Sádi-Arabíu:
Ef bróðir þinn, sonur móður þinnar, eða sonur þinn eða dóttir þín eða konan í faðmi þínum eða vinur þinn, sem þú elskar eins og lífið í brjósti þínu, ginnir þig einslega og segir: ,,Vér skulum fara og dýrka aðra guði,`` þá er hvorki þú né feður þínir hafa þekkt, af guðum þeirra þjóða, sem kringum yður eru, hvort heldur þær eru nálægar þér eða fjarlægar þér, frá einu heimsskauti til annars, þá skalt þú eigi gjöra að vilja hans og eigi hlýða á hann, og þú skalt ekki líta hann vægðarauga og þú skalt ekki þyrma honum né hylma yfir með honum, heldur skalt þú drepa hann, þín hönd skal fyrst á lofti vera gegn honum til þess að deyða hann, og því næst hönd alls lýðsins. Þú skalt lemja hann grjóti til bana, af því að hann leitaðist við að tæla þig frá Drottni Guði þínum, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. #
Ef guðinn hans Kristins er umburðarlyndur, þá eru allir umburðarlyndir.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 01:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.10.2007 | 21:21
Þjóðkirkjan skammast sín fyrir biblíuna
Á heimasíðu Þjóðkirkjunnar, tru.is, er almanak með morgun- og kvödlestra. Morgunlestur gærdagsins var Ef 5. 21, 25-32. Maður tekur strax eftir því að það er búið að klippa út vers 22-24. Hérna er kaflinn sem um ræðir, versin sem Þjóðkirkjan vill ekki að fólkið les er feitletrað:
21Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists: 22Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn. 23Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns. 24En eins og kirkjan er undirgefin Kristi, þannig séu og konurnar mönnum sínum undirgefnar í öllu.
25Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana, 26til þess að helga hana og hreinsa í laug vatnsins með orði. 27Hann vildi leiða hana fram fyrir sig í dýrð án þess hún hefði blett eða hrukku né neitt þess háttar. Heilög skyldi hún og lýtalaus. 28Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig. 29Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast, eins og Kristur kirkjuna, 30því vér erum limir á líkama hans.
31"Þess vegna skal maður yfirgefa föður og móður og búa við eiginkonu sína, og munu þau tvö verða einn maður." 32Þetta er mikill leyndardómur. Ég hef í huga Krist og kirkjuna. 33En sem sagt, þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig, en konan beri lotningu fyrir manni sínum.
Þjóðkirkjunni er augljóslega illa við þessi vers, en engar áhyggjur í nýju þýðingunni eru konurnar ekki lengur undirgefnar, þær eru auðsveipnar og lúta eiginmönnum sínum. Kannski mun Þjóðkirkjan þora að vitna í þessi vers í nýju þýðingunni.
22.10.2007 | 23:34
Jahveh er 'undirguð' í nýju þýðingunni.
'Sannkristnu fólki' er skiljanlega illa við að í nýju þýðingunni séu breytingar sem það telur, ef til vill réttilega, að séu að miklu leyti gerðar vegna pólitísks rétttrúnaðar. En í fimmtu Mósebók leynast vers sem ættu að gera þetta fólk enn reiðara, því þar er guð kristinna manna gerður að undirsáta aðalguðsins:
Þegar Hinn hæsti fékk guðunum þjóðirnar, er hann greindi mennina að, þá setti hann þjóðunum landamerki eftir fjölda guðanna. En lýður Drottins kom í hlut hans, Jakob varð erfðahlutur hans. (5Mós 32.8-9)
Í gömlu þýðingunni stóð:
Þá er hinn hæsti skipti óðulum meðal þjóðanna, þá er hann greindi í sundur mannanna börn, þá skipaði hann löndum þjóðflokkanna eftir tölu Ísraels sona. Því að hlutskipti Drottins er lýður hans, Jakob úthlutuð arfleifð hans. (5Mós 32.8-9)
Í nýju þýðingunni skiptir 'Hinn hæsti' mannfólkinu á milli 'litlu' guðanna. Jahveh ("Drottinn") fær Ísraelsmenn. Afar skiljanlegt.
Gamla þýðingin var hins vegar óskiljanlegt. Hvers vegna ætti 'Hinn hæsti' að skipta heiminum eftir fjölda 'Ísraels sona'?
Gamla þýðingin byggði á hinum svokallaða masóretíska texta, en elstu handritin hans eru frá ~10. öld. Það sem ég feitletraði í versunum var 'sona Ísraels' í masóretíska textanum.
Í nokkrum eintökum LXX (grísk þýðing sem er eldri en masóretíski textinn) stóð hins vegar 'synir guðs'. Þegar Dauðahafshandritin fundust síðan, þá kom í ljóst hebreskur texti sem var um það bil þúsund árum eldri en elstu masóretísku textarnir. Það vildi svo til að þeir textar voru sammála gríska textanum: synir guðs.
Nú er bara spurning hvort Þjóðkirkjan taki upp trú á heilaga 'ferningu': Jahveh, Herra Andi, Jesús og afi hans, Hinn hæsti (El-eljon).