Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
28.6.2008 | 04:32
Hvað er Friðrik Schram að spá? Fyrsti hluti
Í greininni Er lengur hægt að treysta Biblíunni? (síðari grein) fer Friðrik Schram, leiðtogi hinnar svokölluðu Íslensku Kristskirkju yfir tíu spádóma sem hann segir að séu um Jesú. Hérna ætla ég að fara yfir fyrstu þrjá spádómana.
Í greininni segir Friðrik að biblían sé ótrúlega nákvæmt spádómsrit og að hann gæti neft [m]arga aðra skýra spádóma, en hann segir að það sé ekki nóg pláss fyrir þá (ætti samt að vera nóg pláss á netinu fyrir þá alla!). Auk þess segir hann að Jesús hafi að baki sér fjölda spádóma sem rættust bókstaflega í lífi hans.
Fyrst hann hefur bara pláss fyrir tíu spádóma, þá mætti halda að þeir tíu spádómar sem Friðrik velur í þessa grein séu að hans mati bestu spádómarnir. Í Alfa-námskeiðinu (sem er ekkert námskeið, fólk er bara að borga fyrir trúboð) sem er kennt í þessum söfnuði er sagt að Jesús hafi uppfyllt yfir þrjú hundruð spádóma, þannig að það mætti halda að hann hafi úr nógu að velja. Raunin er sú að meintu spádómarnir sem Friðrik bendir á eru annað hvort ótrúlega óskýrir, geta augljóslega ekki fjallað um Jesús eða þá að þeir fjalla um eitthvað allt annað en Friðrik segir að þeir geri.Ég ætla að fara yfir einn spádóm í einu og athuga hvort:- Þeir spái því sem Friðrik segir að þeir spái.
- Þeir séu nákvæmir og hvort það væri eitthvað merkilegt ef þeir pössuðu við Jesú.
- Við vitum að Jesús hafi í raun og veru uppfyllt spádóminn.
Kíkjum á fyrsta spádóminn:
1. "Því var spáð að hann að myndi fæðast af meyju (alma á hebr. = ung ógift kona -Jesaja 7:14)."
Þá sagði Jesaja: ,,Heyrið, þér niðjar Davíðs, nægir yður það eigi að þreyta menn, úr því að þér þreytið einnig Guð minn? Fyrir því mun Drottinn gefa yður tákn sjálfur: Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel. Við súrmjólk og hunang skal hann alast, þá er hann fer að hafa vit á að hafna hinu illa og velja hið góða. Áður en sveinninn hefir vit á að hafna hinu illa og velja hið góða, skal mannauðn verða í landi þeirra tveggja konunga, sem nú skelfa þig. Drottinn mun láta yfir þig og yfir þjóð þína og yfir hús föður þíns þá daga koma, að ekki hafa slíkir yfir liðið síðan Efraím skildist frá Júda _ Assýríukonung."
Í byrjun kaflans er sagt frá því að tveir konungar ógna ríki þáverandi konungs Júdeu, þeir Peka Ísraelskonungur og Resím Aramskonungur. Þessi Immanúel átti augljóslega að fæðast þá.
Þetta getur því augljóslega ekki fjallað um Jesú.
2. "Því var spáð að messías myndi fæðast af ætt Júda (1.Mós. 49:10).."
Nú eru menn ekki sammála hvað þetta vers þýði, en ef við skoðum íslensku þýðinguna, þá er frekar erfitt að sjá að versið spái þessu:
Ekki mun veldissprotinn víkja frá Júda, né ríkisvöndurinn frá fótum hans, uns sá kemur, er valdið hefur, og þjóðirnar ganga honum á hönd. (1.Mós 49.10)
Júda á að hafa lifað ~1500 árum fyrir tíma Jesú. Ég á afar bágt með að trúa því að einhver gæti vitað hver hafi verið afkomandi hvers eftir svona langan tíma. Getur nokkur núlifandi maður rakið ættir sínar ~1500 ár aftur í tímann?
Væri það síðan virkilega merkilegt að Jesús væri "af ætt Júda"? Ég gæti ímyndað mér að það væri ansi mikið af afkomendum einhvers eftir meira en eitt árþúsund. Síðan höfum við ekki hugmynd um það hvort Jesús hafi verið afkomandi Júda, vissulega er því haldið fram í ættartölunum (sem eru í mótsögn hvor við aðra, sjá til dæmis umfjöllun Sindra) í Lk og Mt, en hvers vegna ættum við að halda að höfundar þeirra vissu hverjir forfeður Jesú voru ~1500 ár aftur í tímann?
Spádómurinn er óljós, það væri ekkert merkilegt ef þetta passaði við Jesú og við vitum ekki hvort þetta passar við Jesú.
3. "Því var spáð að messías myndi fæðast af...ættkvísl Davíðs konungs ((Jesaja 11:1,10)."
Það sama gildir hér. Við höfum enga ástæðu til þess að trúa því að Jesús hafi í raun og veru verið afkomandi Davíðs og auk þess væri það varla það merkilegt. En auk þess vill svo merkilega til að á einum stað í Mk virðist Jesús mótmæla því að messías ætti að vera afkomandi Davíðs:
Þegar Jesús var að kenna í helgidóminum, sagði hann: ,,Hvernig geta fræðimennirnir sagt, að Kristur sé sonur Davíðs? Sjálfur mælti Davíð af heilögum anda: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni. Davíð kallar hann sjálfur drottin. Hvernig getur hann þá verið sonur hans?`` Og hinn mikli mannfjöldi hlýddi fúslega á hann. (Mk 12.35-37)
Vissulega eru vers í Nýja testamentinu sem halda því fram að Jesús hafi verið afkomandi Davíðs, en ef Jesús var almennt talinn vera afkomandi Davíðs, þá er erfitt að útskýra það hvers vegna einhverjum hefði dottið í hug að búa til þessa sögu í Markúsarguðspjalli.
Spádómurinn er skýr, messías átti að vera af ætt Davíðs. En annars gildir það sama hér og í síðasta spádómi, það væri ekkert merkilegt ef þetta passaði við Jesú og við vitum ekki einu sinni hvort þetta passar við Jesú, auk þess sem að það er til saga þar sem Jesús mótmælir því að hann sé sonur Davíðs í Markúsarguðspjalli.
Þegar maður skoðar þessa meintu spádóma með gagnrýnum hætti, þá sér maður að tilgangur þessa endalausu fullyrðinga um að Jesús hafi uppfyllt X marga spádóma er sá að slá ryki í augu fólks sem af einhverjum ástæðum skoðar þá ekki nánar.
27.6.2008 | 03:50
Viskan flæðir úr Friðriki Schram
Leiðtogi hinnar svokölluðu Íslensku Kristkirkju, Friðrik Schram, hefur nýlega skrifað tvær greinar í 24 stundir þar sem hann heldur því fram að gagnrýni "harðsnúins hóps sem kallar sig Vantrú" á biblíuna sé byggður á vitleysu. Raunin er sú að hann ætti frekar að beina kvörtunum sínum að biblíufræðingum í háskólum, því hann virðist aðallega vera reiður út í niðurstöður þeirra.
Friðrik skoraði á okkur í Vantrú að birta greinar í 24 stundir til þess að rökræða þetta við hann, en ég persónulega get því miður ekki tekið Friðrik það alvarlega til þess að skrifa greinar handa honum í blöðin. Auk þess tel ég blaðagreinar vera hræðilegan miðil til þess að ræða þessi mál, að minnsta kosti miklu verri en netið. Friðrik neitaði boði um að koma í viðtal sem við myndum setja á netið, ég ætla að láta hann vita af þeim greinum sem ég skrifa um efni frá honum, þannig að vonandi kemur hann með svör hérna.
Í grein sinni Fornleifafræðin og fyrstu 11 kaflar Biblíunnar fræðir Friðrik okkur um sýn sína á goðsöguna um Nóaflóðið. Samkvæmt honum þá þakti Nóaflóðið í raun og veru bara sem "alla Mesópótamíu" og þrátt fyrir að hann komi ekki með dagsetningu fyrir flóðið, þá segir hann að Abraham hafi verið uppi ~2000 f.o.t. og af því má ráða að hann telji flóðið hafa átt sér stað ~2500 f.o.t.
Til að byrja með, þá gerir sagan klárlega ráð fyrir því að flóðið nái yfir alla jörðina. Hvers vegna í ósköpunum ætti Nói til dæmis að taka með sér dýr eins og fugla "til þess að viðhalda lífsstofni á allri jörðinni" (1Mós 7.3) ef flóðið náði bara yfir Mesapótamíu? Voru engir fuglar annars staðar á jörðinni? Gátu fuglarnir ekki bara flogið eitthvert í burtu?
Friðrik talar síðan líka um að Nói og fjölskylda hans hafi byggt jörðina eftir flóðið, sem gefur til kynna að fólk hafi bara lifað í Mesapótamíu þegar þetta flóð á að hafa átt sér stað, sem gengur auðvitað þvert á alla þekkingu fornleifafræðinnar.
Friðrik segir síðan að ástæðan fyrir því að það sé talað um að flóðið hafi náð yfir alla jörðina sé sú að í augum fólksins sem skrifaði söguna var veröldin flöt kringla og því var landið að sjóndeildarhringnum "öll jörðin". Allt í lagi, gefum okkur að þetta sé rétt, en hvernig getur maður haft staðbundið flóð sem kaffærir "öll hin háu fjöll, sem eru undir öllum himninum" (1Mós 7.19). Hvernig getur staðbundið flóð kaffært fjöll? Vatn hefur nefnilega þá tilhneigingu til þess að flæða niður á við.
Það að vatn flæði niður á við en ekki upp á við er einmitt annar stór galli við þessa túlkun Friðriks. Á þessu korti hef ég merkt við þrjá rauða punkta. Sá neðsti er um það bil á þeim stað sem Friðrik segir að Nói hafi verið frá, punkturinn í miðjunni er nálægt borginni Níneve, en samkvæmt Friðriki náði flóðið líka yfir þá borg. Efsti punkturinn er síðan nálægt Ararat-fjalli, en samkvæmt sögunni endaði örkin hans Nóa einhvers staðar þarna. Nú er þetta kort ekki nákvæmt en aðalatriðið er þetta: svæðið í kringum Ararat er miklu hærra heldur en Mesapótamía. Ef það hefði verið flóð þarna, þá hefði vatnið líklega flætt niður á við, frá Ararat-svæðinu að Persaflóa.
Í stuttu máli þá er ekkert vit í sögunni ef hún á að vera staðbundið flóð og lýsingin á flóðinu passar ekki við staðbundið flóð.
Þetta er bara stutt samantekt. Ég er viss um að menn sem hafa pælt meira í þessu, eins og Sindri Guðjónsson, geta komið með betri og nánari rök gegn hugmyndinni um staðbundið flóð, en ég held að þetta nægi alveg til þess að benda á hversu fjarstæðukennd þessi túlkun Friðriks er. Ég held að Friðrik ætti aðeins að kynna sér betur gagnrýni á skoðanir sínar á biblíunni áður en hann fer að básúna vanþekkingu sína í blöðunum.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 20:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.6.2008 | 18:00
Þórhallur Heimisson hræðist Svarthöfða
Ég hvet alla til þess að lesa þessa undarlegu predikun þjóðkirkjuprestsins Þórhalls Heimissonar: Svarthöfði. Til þess að hressa upp á minnið er síðan hægt að horfa á myndband af þessum hræðilega atburði eða bara skoða ljósmyndir.
Þetta er án efar hápunktur predikuninnar:
Þó prestum hafi þótt þetta brosleg uppákoma og þó enginn hafi vitað hvað fulltrúa Vantrúar gekk til, enda þorði hann ekki að standa fyrir máli sínu undir nafni, þá skilur þessi atburður eftir nokkrar spurningar í hugskotinu sem vert er að íhuga.
Ein spurning sem vaknar varðar til dæmis friðhelgi, öryggi og trúfrelsi einstaklingsins. Hingað til hefur trúað fólk getað gengið til kirkju hér á landi án þess að að því sé vegið með ógnunum eða hæðni fyrir trú sína. Það sama á við um alla aðra trúarhópa almennt virða menn rétt fólks til að stunda trú sína í friði.
Nú er slík friðhelgi rofin. Þó tilburðir Vantrúarmannsin í gerfi Svarthöfða hafi verið hlægilegir, þá réðst hann að friðhelgi og trú yfir 90% landsmanna þegar hann hæddist að krossinum og brá fyrir hann sverði sínu. Og geta menn treyst því að næst verði ekki vegið að prestum og kirkjufólki með alvarlegri hætti? Eða fólki úr öðrum söfnuðum? Eiga múslímar á hættu aðkast við föstudagsbænir sínar? Verður sumarblóti ásatrúarmanna hleypt upp?
Er á það hættandi að senda börnin ein í sunnudagaskólann næsta haust?
Verður setið fyrir þeim?
Ég held að svona málflutningur dæmi sig sjálfan. Vegna þessa Svarthöfðagjörnings, þá eru börn á leiðinni í sunnudagaskólann í hættu. Er manninum alvara?
10.6.2008 | 22:58
Skjáskot af fréttinni með Svarthöfðamynd
Það var að sjálfsögðu tekið skjáskot. Fleiri myndir af þessari fyndnu uppákomu hér.
![]() |
Prestastefna hófst með messu í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.5.2008 | 00:12
Er nánd fjarlæg eða nálæg?
Eitt af vandræðalegustu hlutum biblíunnar eru allir þeir staðir í Nýja testamentinu þar sem höfundarnir (og meira að segja Jesús!) segja að heimsendir sé rétt handan við hornið.
Ég held að afsökun Guðsteins Hauks í þessum umræðum sé meðal þeirra allra fyndnustu:
"í nánd" er í mínum huga hvenær sem er, í náinni framtíð eða jafnvel fjarlægri.
Þannig að þegar Guðsteinn heyrir einhver heimsendaspámann standa á pappakassa á götuhorni öskra: "Heimsendir er í nánd!", þá heldur Guðsteinn að hann sé að segja: "Heimsendir kemur einhvern tímann, annað hvort í náinni framtíð eða jafnvel fjarlægri, s.s. eftir 2000 ár!".
Ef þú þarft að snúa út úr orðum eins og "í nánd", svo að það geti þýtt "eftir 2000 ár", bendir það þá ekki til þess að það sé eitthvað að málstaðnum sem þú ert að verja?
23.5.2008 | 22:49
Syndir feðranna
Í umræðum um grunnskólalögin kom einn af bloggurum guðs, Theódór Norðkvist, með þá fínu tillögu að boðorðin tíu væru "ágæti skilgreining" á kristilegu siðgæði, að þau væru "grunnurinn" fyrir kristilegu siðgæði.
Hann var ekki alveg jafn kátur með boðorðin tíu þegar ég vitnaði í ansi ósiðlega setningu úr texta boðorðanna tíu:
...ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata,... (2Mós 20.5)
Gott dæmi um þessa brjáluðu hugsun guðs kristinna manna er í Gamla testamentinu þegar hann skipar Sáli konungi að fremja þjóðarmorð á Amalekítum vegna þess sem forfeður þeirra gerðu fjórum öldum fyrr.
Ég held að það hljóti að brjóta gegn einhverjum mannréttindasáttmálum að refsa afkomendum fyrir misgjörðir forfeðra þeirra. Eða þætti einhverjum það réttlátt að vera hent í fangelsið af því að langaafi þinn var rolluþjófur?
Nei, auðvitað ekki, og í staðinn fyrir að reyna að afsaka þennan texta boðorðanna tíu segir Theódór:
Aðalatriðið sem ég vildi koma á framfæri er að það er margt í Gamla testamentinu sem á ekki við í dag, það kemur skýrt fram í því Nýja, t.d. Postulasögunni.
Að nudda kristnu fólki sífellt upp úr setningum eins og þessum, eða að bannað sé að týna eldivið á hvíldardegi og annað slíkt úr GT, er rökvilla.
Teddi segir að boðorðin tíu séu grunnur kristins siðgæðis, en þegar ég vitna í texta boðorðanna tíu, þá er það rökvilla!
En er þessi hugsun virkilega framandi kristnum mönnum? Samkvæmt kristinni trú, þá eiga allir menn skilið að vera refsað með því að enda í helvíti, vegna þess að við höfum allir erft einhverja synd, erfðasyndina. Samkvæmt kristinni trú er sem sagt ekkert athugavert við það að henda þér í ævilangt fangelsi fyrir rolluþjófnað langa-langa-langa-...langa-langa-afa þíns.
Þetta segir Páll postuli um erfðasyndina:
Eins og af misgjörð eins leiddi sakfellingu fyrir alla menn, þannig leiðir og af réttlætisverki eins sýknun og líf fyrir alla menn. (Róm 5.18)
Þetta segir aðaljátning ríkiskirkjunnar um erfðasyndina:
Ennfremur kenna þeir: Eftir fall Adams fæðast allir menn, sem getnir eru á eðlilegan hátt, með synd, en það merkir án guðsótta, án guðstrausts og með girnd. Þessi upprunasjúkdómur eða spilling er raunveruleg synd, sem dæmir seka og steypir í eilífa glötun þeim sem ekki endurfæðast fyrir skírn og heilagan anda.
Þeir fordæma Pelagíana og aðra, sem neita því, að upprunaspillingin sé synd og, til þess að gera lítið úr vegsemd verðskuldunar og velgerða Krists, halda því fram, að maðurinn geti réttlæst fyrir Guði af eigin kröftum skynseminnar.
Þannig að hvort er það: Eru setningin úr texta boðorðanan tíu og hugmyndin um erfðasyndina ósiðlegar og ógeðslegar? Eða eru þetta bæði siðlegar og réttlátar skipanir guðs?
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 22:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (36)
20.3.2008 | 15:29
Skjótt skiptist skoðun í presti
Eins og Magnús Bergsson benti á, þá var trúvarnarpresturinn Gunnar Jóhannesson í viðtali hjá Ævari Kjartanssyni síðastliðinn föstudag. Það er auðvitað margt sem mætti benda á í þessi viðtali við Gunnar (ég hef bent á suma af verstu göllunum í málflutningi hans í þessari grein), en mér fannst merkilegast að heyra að Gunnar hefur algjörlega skipt um skoðun hvað varðar samband kristinnar trúar og skynsemi.
Fyrir einu og hálfu ári síðan kvartaði Gunnar undan því í blaðagreinum að Dawkins (sem þá hafði nýlega komið til landsins) áttaði sig ekki á því að trú væri í eðli sínu órökrétt. Þetta er reyndar afar undarleg kvörtun þar sem Dawkins gagnrýnir trú einmitt fyrir það að vera órökrétta. En þetta sagði Gunnar:
Þá staðreynd að guðstrú verður ekki studd rökum tel ég alls ekki gagnrýni verða né gera lítið úr henni sem slíkri þar sem guðstrú er einfaldlega þannig farið og gef ég því lítið fyrir gagnrýni Dawkins hér.
....
Þversögnin er sú að jafnvel einstaklingur sem trúir á Guð getur tekið undir með guðleysingja að tilvist Guðs gangi þvert á öll rök, því ef unnt væri að rökstyðja guðstrú með einhverjum hætti þá væri ekki um trú að ræða. Rökstudd guðstrú er ekki til!
Í viðtalinu síðastliðinn sunnudag virtist Gunnar vera búinn að skipta algjörlega um skoðun, hann reyndi til dæmis að rökstyðja tilvist guðs! Og nú segir hann þetta:
Þannig að það sem að ég hef verið að gera eða leitast við að gera er einmitt þetta. Kristin trú er fólgin í staðhæfingum og trúvörn er að sínu leyti viðleitni til þess að útskýra þessar staðhæfingar reyna að þýða þær yfir á skynsamlegt mál fyrir hugsandi fólk og hjálpa fólki í raun og veru að fallast á þessar staðhæfingar átta sig á sannleiksgildi þeirra. Þannig að það er það sem er svo merkilegt. Trúin er nefnilega ekkert stökk út í loftið og það er ekkert í biblíunni sem segir að trú sé þannig. Við eigum miklu einmitt frekar að stökkva út úr myrkrinu og inn í ljósið.
....
[Trúvörn er að]...svara, færa rök til baka, standa tilteknu ákveðnu sjónarmiði, það er það sem að trúvörn er. Þetta er ekki beint tæki til að snúa fólki til trúar í þeim skilningi, en þetta er leið til þess að sýna fram á það að kristnar staðhæfingar, staðhæfingar trúarinnar, hin kristna heimsskoðun standi á ákveðnum grunni sem já, skynsamlegt að taka til greina.
Fyrir einu og hálfu ári síðan sagði hann að ímynduð skoðun Dawkins á trú væri að "misskilja gróflega grundvallareðli þess að trúa" og að ástæðan þessa misskilnings væri vitni um skort á heimspekilega þekkingu sem þarf til þess að geta rætt um trú.
Nú hlýt ég að spyrja mig hvort presturinn Gunnar misskilji núna gróflega grundvallareðli þess að trúa eða þá hvort hann hafi gert það fyrir einu og hálfu ári síðan.
13.3.2008 | 19:15
Kristilegur kærleikur
Á umræðum hjá Aðalbirni Leifssyni við grein sem heitir "Hatur", kemur fullyrðing frá hinum kærleiksríka kristmanni Guðsteini Hauki sem má segja að tengist heiti greinar Aðalbjarnar betur en sjálft efni greinarinnar:
Aðra sögu má segja um þá [meðlimi Vantrúar], þeir gera nákvæmlega EKKI neitt til þess að gera heiminn betri. Hvorki í formi fjárhagsstuðnings né orða.
Við á Vantrú höfum oft verið sakaðir um að hata trúað fólk og að vera almennt illa við trúað fólk. Það er rangt. Ef einhver okkar myndi fullyrða að trúað fólk myndi ekki gera neitt til þess að gera heiminn betri, þá held ég að það væri eitthvað til í þeirri ásökun.
En nú veit Guðsteinn augljóslega ekkert um hvað meðlimir Vantrúar gera til þess að bæta heiminn, hvort sem það er í formi fjárhagsstuðnings né orða. Ég persónulega þekki bara til fjárhags eins meðlims, minn fjárhag. Ummæli Guðsteins segja því ekkert um okkur, en segja hins vegar heilmikið um hann og fordóma hans.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 19:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.2.2008 | 16:07
Ímynduð "stöðuskráning" ríkiskirkjuprests
Nýlega kvartaði ríkiskirkjupresturinn hann Kristján Björnsson yfir því að Hagstofan birti bara fréttir af trúfélagsskiptum fólks, en ekki það sem hann kallaði "stöðuskráningu", sem hann segir að "[segi] til um raunverulega þróun í fjölda, fjölgun eða fækkun". Hagstofan birti bara fréttir af trúfélagsskiptum, einfaldlega af því að hún hafði bara fengið nýjar tölur um það. En því miður munum við líklega aldrei vita hvað presturinn átti við, því hann er búinn að loka á athugasemdir.
Það þarf ekki að vera mikill tölfræðisérfræðingur til þess að finna út raunverulega fjölgun eða fækkun í Þjóðkirkjunni. Þú berð einfallega saman fjölda þeirra sem voru skráðir í Þjóðkirkjuna á hverju ári. Samkvæmt Hagstofunni voru 252.234 skráðir í Þjóðkirkjuna árið 2006 og 252.461 árið 2007. Fjölgun upp á 227.
Ég held að allir séu sammála því að þetta sé raunveruleg þróun í fjölda, allir nema presturinn. Hann segir:
...talan 227 er ekki sú tala sem ég er að tala um þegar ég nefni stöðuskráningu.
Hvað í ósköpunum er maðurinn þá að tala um? Í stað þess að útskýra mál sitt ákvað presturinn að loka á athugasemdir. Mér persónulega finnst líklegt að presturinn hafi verið að tala um þessa tölu, en að hann hafi einfaldlega ekki athugað hver hún væri (ef til vill ekki trúað því að hún væri svona lág). Í staðinn fyrir að útskýra hvað hann átti við eða hreinlega að viðurkenna að hann hafði rangt fyrir sér þá lokar hann á umræðuna. Afskaplega lítilmannlegt.
Lesið endilega umræðuna og takið eftir því að þegar ég spyr hann út í hvað "stöðuskráning" er, þá eyðir hann 12 línum í að kvarta yfir því að Matti hafi talað um ríkiskirkju.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.1.2008 | 04:35
Að grýta í neyð
Í umræðum við frábæra grein eftir Jóhann Pál Jóhannsson reynir Helgi Guðnason (sem er með BA gráðu í guðfræði og er víst að rembast við að klára mastersritgerð í sama fagi #) að útskýra hvers vegna guðinn hans fyrirskipaði grýtingar í Gamla testamentinu. Gefum Helga orðið:
Hvað varðar grýtingar er það augljóst af Gamla Testamentinu að það voru neyðarúrræði, ég hvet þig til þess að skoða Gamla Testamentið og telja hversu oft er sagt frá því að einhver hafi verið grýttur, ég man ekki eftir fleiru en einu tilfelli svona fljótt hugsað, og mig rámar meira að segja bara í það...
Förum að hvatningu Helga og skoðum Gamla testamentið. Hérna er eitt dæmi sem er samkvæmt Helga "augljóslega neyðarúrræði":
Meðan Ísraelsmenn voru í eyðimörkinni, stóðu þeir mann að því að bera saman við á hvíldardegi. Og þeir sem hittu hann, þar sem hann var að bera saman viðinn, færðu hann fyrir Móse og Aron og fyrir allan söfnuðinn. Og þeir settu hann í varðhald, því að enginn úrskurður var til um það, hversu með hann skyldi fara. En Drottinn sagði við Móse: ,,Manninn skal af lífi taka. Allur söfnuðurinn skal berja hann grjóti fyrir utan herbúðirnar.`` Þá færði allur söfnuðurinn hann út fyrir herbúðirnar og barði hann grjóti til bana, eins og Drottinn hafði boðið Móse. (5Mós 15.32-36)
Guð þurfti augljóslega að láta grýta þennan illa innrætta mann fyrir að dirfðast að brjóta gegn helgi hvíldardagsins með því að safna saman eldivið. Annað dæmi um "augljóst neyðarúrræði":
Nú gengur maður að eiga konu, en fær óbeit á henni, er hann hefir samrekkt henni, og ber á hana svívirðilegar sakir og ófrægir hana og segir: ,,Ég gekk að eiga þessa konu, en er ég kom nærri henni, fann ég ekki meydómsmerki hjá henni,`` .... En ef það reynist satt, og sönnur verða eigi á það færðar að stúlkan hafi hrein mey verið, þá skal fara með stúlkuna að húsdyrum föður hennar, og borgarmenn skulu lemja hana grjóti til bana, því að hún hefir framið óhæfuverk í Ísrael, með því að hórast í föðurgarði. Þannig skalt þú útrýma hinu illa burt frá þér. (5Mós 22.13-14, 20-21)
Og annað "augljóst neyðarúrræði":
Ef bróðir þinn, sonur móður þinnar, eða sonur þinn eða dóttir þín eða konan í faðmi þínum eða vinur þinn, sem þú elskar eins og lífið í brjósti þínu, ginnir þig einslega og segir: ,,Vér skulum fara og dýrka aðra guði,`` þá er hvorki þú né feður þínir hafa þekkt, af guðum þeirra þjóða, sem kringum yður eru, hvort heldur þær eru nálægar þér eða fjarlægar þér, frá einu heimsskauti til annars, þá skalt þú eigi gjöra að vilja hans og eigi hlýða á hann, og þú skalt ekki líta hann vægðarauga og þú skalt ekki þyrma honum né hylma yfir með honum, heldur skalt þú drepa hann, þín hönd skal fyrst á lofti vera gegn honum til þess að deyða hann, og því næst hönd alls lýðsins. Þú skalt lemja hann grjóti til bana, af því að hann leitaðist við að tæla þig frá Drottni Guði þínum, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. (5Mós 13.6-10)
Það eru fleiri dæmi í Gamla testamentinu, en ég held að allt fólk með sæmilega heilbrigða siðferðiskennd, sé sammála því að það sé rangt (og alls ekki "augljóst neyðarúrræði"!) að grýta:
- fólk fyrir að vinna á hvíldardeginum
- konur (átti örugglega ekki við um menn!) fyrir að vera ekki hrein mey þegar þær giftast
- einhvern náinn þér fyrir að boða þér aðra trú en trú á Jahve.
Vonum að Helgi sé sammála því að þessi dæmi séu ekki neyðarúrræði, vonandi hefur hann bara ekki kynnt sér grýtingar í Gamla testamentinu. En ef Helgi sér þessi dæmi og áttar sig á því að þessi "neyðarúrræða"-vörn gengur ekki upp, hvernig ætli hann bregðist við því? Eðlilegast væri auðvitað að játa að þetta eru grimmileg lög fornaldarþjóðar. Ég spái því samt að hann myndi ekki fallast á það, hann mun koma með einhverja fjarstæðukennda afsökun. Það er afskaplega fyndið að fólk sem segist aðhyllast óbreytanlegt og hlutlægt siðferði frá algóðum guði reyna að réttlæta svona óhæfuverk.
ps. ekki vitna í söguna af Jesú og hórseku konunni, hún var ekki upprunalega í Jóhannesarguðspjalli (fölsun!)
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 06:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)