Vottapirringur

Ég er ekki pirraður á vottum Jehóva. Nei, ég er pirraður á sama hlut og vottarnir. Nánar til tekið hvernig Gamla testamentið er þýtt.

Í staðinn fyrir að leyfa nafninu á aðal-guðinum þar að standa, skuli vera settur titill (drottinn) í staðinn. Það er vissulega hefð á meðal gyðinga og sumra kristinna manna að setja titil í staðinn, en ég tel að þýðendur eigi að þýða textann, en ekki að vera að breyta honum til þess að þóknast einhverjum venjum ákveðinna trúarhópa.

Stundum eyðileggur þessi hefð meira að segja fyrir það að maður skilji textann. Gott dæmi er eftirfarandi boðorð:

Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma. (2Mós 20.7)

Eins og þýðingin er núna þá vantar nafnið! Í almennilegum þýðingum stendur auðvitað eitthvað eins og: "leggja nafn Jahve guðs þíns við hégóma." Og þá sér maður nafnið: Jahve.

Vottar Jehóva (sem nota líklega Jehóva frekar en Jahve), benda réttilega á þetta.

Annað sem pirrar mig, en ég held að það pirri votta ekki, er að orðið "guð" skuli vera skrifað með stórum staf þegar það er notað um Jahve. Hvers vegna það er gert, skil ég ekki, þar sem að "guð" er auðvitað ekki sérnafn. Hérna er fínt dæmi (sem sýnir líka aftur að textinn væri betri með "Jahve" frekar en "Drottinn"):

Tekur þú ekki til eignar það sem Kamos, guð þinn, gefur þér til eignar? Eins tökum við til eignar land allra þeirra sem Drottinn, Guð okkar, hrekur burt undan okkur. (Dóm 11.23)

Í núverandi þýðingu er samanburðurinn á milli "Kamos, guð þinn" og Drottinn, Guð okkar". Þarna stendur auðvitað: "Jahve, guð okkar". Og þarna er orðið guð notað í alveg nákvæmlega sömu merkingu þegar það er notað um Kamos og þegar það er notað um Jahve. Ástæðan fyrir stóra stafnum er líklega sú að þýðendurnir eru ða fylgja gamalli hefð sem endurspeglar ófræðilega, kristna nálgun á textann.

Þetta er alveg eins og að hafa svona stafsetningu: "Er Hesturinn minn ekki stærri en hesturinn þinn?" Þar sem að ég nota stóran staf um hestinn minn, af því að mér finnst hann miklu merkilegri en hesturinn þinn. Alveg eins og Jahve er miklu merkilegri en Kamos, og þess vegna notum við stóran staf þegar við köllum Jahve guð, en ekki þegar við köllum Kamos guð.


Vælukjóinn guð

Þegar ég var að leita að predikuninni sjálfri í upptöku Rúv af útvarpsmessunni í gær, þá rakst ég á mjög framandi trúarjátningu. Presturinn var að fara með "trúarjátningu vonarinnar". Prestinum finnst þetta alveg örugglega betri trúarjátning heldur en alvöru trúarjátningar ríkiskirkjunnar sem tala um að Jesú muni láta fólk kveljast að eilífu. En í þessari nýju játningu er sagt frá því að guð horfi á hvernig fólk er vont við hvort annað, er skuldugt og skemmir náttúruna. Svo kemur þessi setning:

Ég trúi á Guð sem sér þetta allt, og heldur áfram að gráta.

Ég verð að segja að mér finnst eitthvað rosalega undarlegt við það að ímynda sér að almáttugur skapari alheimsins sé í himnaríki (sem er víst einhvers konar önnur vídd) og sé að gráta.

Næsta sunnudag munu þessir prestar sem tóku undir þessa trúarjátningu eflaust játa að þau trúi á "guð föður almáttugan skapara himins og jarðar". Þau játa að guðinn þeirra hafi skapað sníkjudýrið sem veldur malaríu. Þetta sníkjudýr drepur víst hátt í 800.000 manns á ári, aðallega börn.

Ætli guðinn þeirra gráti ekki líka þegar hann sér börnin, sem þjást vegna þess sem hann skapaði? Er ég einn um að finnast guðinn þeirra hljóma eins og alger geðsjúklingur? Hann á að hafa skapað malaríusýkilinn og er síðan hágrátandi yfir því að sýkillinn er til.

Mér finnst merkilegt hvað það sem atvinnutrúmennirnir segja er oft algert rugl, en það er víst ekki við þá að sakast, kristni er bara svona rugluð.


Merkileg predikun

Ég verð að segja að predikun ríkiskirkjuprestsins Sigurvins Jónssonar kom mér frekar á óvart. Hann er augljóslega vel að sér í nýjatestamentisfræðum og er að reyna að fræða fólk um grunnatriði í þessari predikun. Það er mjög óvenjulegt. En það er auðvitað gott og blessað. Enn óvenjulegra var að sjá hann viðurkenna þetta (með feitletrun frá mér):

Þessi mynd sem lesa má úr þeim heimildum sem varðveittar eru í ritum frumkirkjunnar sýnir að kristindómurinn var ekki átrúnaður sem hófst í samhangandi sannleika og var treyst fyrir tólf lærisveinum. Upphaf kristindómsins er mósaík hugmynda sem kepptust um að skýra áhrif þessarar persónu og svo fjölbreyttar eru þær að það er ógjörningur að segja nákvæmlega til um hverjar þeirrar eiga uppruna hjá hinum sögulega Jesú.

M.ö.o. það er svo mikið af hugmyndum um Jesú í frumkristni, að við getum bara ekki vitað hvað honum sjálfum fannst. Eitt af þessum hugmyndum sem Sigurvin nefnir er "stef um yfirvofandi dóm", sem þýðir: "Heimsendir er í nánd!".

Ég á erfitt með að ímynda mér á hvaða grundvelli Sigurvin samþykkir þá einhverja af þessum hugmyndum. Líklega vill hann ekki samþykkja að Jesús eigi heiðurinn af "[stefinu] um yfirvofandi dóm", enda hljómar það eflaust ekki vel að Jesús hafi verið heimsendaspámaður (og hafði rangt fyrir sér). En hvers vegna ætti hann að trúa hinum hugmyndunum? Þetta er eflaust bara einhverjar hugmyndir sem einverjum frumkristnum mönnum datt í hug.


30% Íslendinga trúa ekki á guð

Samkvæmt könnuninni trúa 30% Íslendinga ekki á guð eða önnur æðri máttarvöld.

Er þetta nógu stór minnihlutahópur til þess að tekið verði tillit til þeirra og kristni ekki boðuð í leik- og grunnskólum? Er þetta nógu stór minnihlutahópur til þess að hætt verði að halda úti ríkiskirkju, og tala m.a. um það í stjórnarskrá?

Og ætli þessar niðurstöður muni hafa þau áhrif að ríkiskirkjuprestar hætti að tala um að 90% Íslendinga séu kristnir? Já, margir þeirra halda því í alvörunni fram! Og nei, þeir munu ekki hætta því, af því að svipaðar niðurstöður hafa áður komið fram í könnunum.


mbl.is Íslendingar trúa á Guð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband