9.8.2009 | 05:41
Þórhallur fegrar Jesú
Ríkiskirkjupresturinn Þórhallur Heimisson á það til að mistúlka biblíuna. Nýlega skrifaði hann um Samkynhneigð og kristna trú, þar segir hann þetta:
Jesús Kristur minnist reyndar aldrei á samkynhneigð eða samkynhneigða. Og hann talar heldur aldrei um kynhneigð manna til eða frá. Þannig að það hvort menn væru samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir hefur ekki legið þungt á honum. Honum var slétt sama.
Það er rétt að í guðspjöllunum er honum ekki eignuð nein ummæli sem tengjast samkynhneigð. En það er hins vegar fráleitt að álykta út frá því að hann hafi aldrei sagt neitt um samkynhneigð og að honum hafi verið slétt sama.
Ef við kíkjum á önnur ummæli hans, þá er hægt að komast að því hver skoðun hans hafi líklega verið, koma með rökstudda ágiskun. Jesús guðspjallanna er ekki líbó þegar það kemur að kynlífi og hjónabandi. Það eitt að horfa á konur í girndarhug er synd (Mt 5.27). Skilnaður kemur ekki til greina, nema auðvitað ef konan (ath ekki karlinn!) er ekki hrein mey [1].
Það er afar ólíklegt að manneskja með svona skoðanir myndi telja samkynhneigð vera góða og gilda. Það af leiðandi taldi Jesús samkynhneigð (eða samkynja kynlíf) að öllum líkindum vera synd.
Þórhallur bara að reyna að gera Jesús nútímalegri, að uppfæra hann. En það nægir honum ekki, hann kemur líka með afskaplega léleg rök gegn því kristna fólki sem gagnrýnir samkynhneigð (réttilega) á kristilegum forsendum:
Árásir á samkynhneigða í dag víða um veröldina eru oft dulbúnar í kristilegan búning, með tilvitnunum í Biblíutexta, bæði úr Gamla Testamentinu og hinu Nýja. Þeir sem slíkt stunda gleyma því aftur á mót að við kristnir menn eigum að lesa lögmál hins gamla sáttmála í ljósi Jesú. Í fjallræðunni í Matteusarguðspjalli segir Jesús m.a. "dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmdir" og "Allt sem þér því viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra".
Til að byrja með er undarlegt að tala um að þetta sé í kristilegum dulbúningi. Þessar árásir eru ekki í kristilegum dulbúningi, þær eru kristilegar. Fólkið les biblíuna, sér að þar er samkynhneigð fordæmd og fordæmir þar af leiðandi samkynhneigð. Afskaplega kristilegt. Er gagnrýni stærstu kirkjudeilda heimsins (kaþólikkar, rétttrúaðir og hvítasunnumenn) á samkynhneigð bara í kristilegum "dulbúningi"?
Að túlka orð Jesú dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmdir þannig að það sé rangt að benda og gagnrýna hluti sem kristið fólk telur að séu syndsamlegir er út í hött.
Síðan skil ég ekki hvernig gullna reglan þýði að samkynhneigð sé allt í einu allt í lagi frá kristilegu sjónarhorni eða að kristið fólk ætti ekki að kalla synd sínu rétta nafni. Svona fjarstæðukennd rök benda til þess að Þórhallur finnur ekkert í orðum Jesú sem passar ekki við fordæmingar flestra kristinna kirkjudeilda á samkynhneigð.
Þórhallur ætti að sætta sig við að kristni er afskaplega neikvæð í garð samkynhneigðra og hætta að reyna að fegra Jesú.
[1] Clarence E. Glad, Matteusarguðspjall 19.3-15. Áherslur og samhengi. Fjölskyldan, hjónaband, einlíf og skírlífi í frumkristni, bls 3. "Þetta hafði afdrifaríkar afleiðingar, sér í lagi vegna þess að Jesús setti fram all róttæka endurskilgreiningu á hórdómi í þessu sambandi: Ég segi yður: Sá sem skilur við konu sína nema vegna porneia og kvænist annarri drýgir hór (moixeia) (19.9). Ýmsir hafa talið að með orðinu porneia sé hér verið að vísa til framhjáhalds konunnar. En í því tilviki hefði orðið moicheia líkega verið notað. Sennilegra er að porneia vísi til lagaákvæðisins í Tórunni sem heimilaði karli að hafna konu sem á brúðkaupsnóttinni gat ekki sýnt fram á að vera hrein mey (5. Mós. 22.13-21). Slík brúðarmey var sökuð um að hafa leikið hlutverk skækjunnar (ekporneuo, LXX) í húsi föður síns. Ef brúðurin var ekki hrein mey kom hjónaband ekki til greina og tók Jesús undir það sjónarmið."
Flokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Rétt athugað. Líka má benda á að Jesús segir mönnum að halda lögmálið og að ekki muni einn stafkrókur úr því falla úr gildi. Eitthvað er nú minnst á samkynhneigð þar.
Lárus Viðar (IP-tala skráð) 9.8.2009 kl. 06:44
Þú blandar nú öllu saman hér minn kæri, samkynhneigð, hjónabandinu, framhjáhaldi og fjölskyldunni. Eins og undarleg tilvitnun þín í Clarence Glad sýnir!?
Það má auðvitað segja að þetta hangi allt saman. En af því að við erum nú að tala um samkynhneigð, þá er það sem sagt þannig að Jesús fjallar aldrei um samkynhneigð, eða kynhneigð yfirleitt.
Jesús var mjög gagnrýninn á lögmálið, hafnaði túlkun þess og var í raun krossfestur fyrir það. Aftur á móti vildi hann snúa mönnum að grunni þess:
Elska skaltu Drottinn Guð þinn af öllu hjarta og náungann eins og sjálfan þig.
Þú virðist ekki hafa lesið grein mína - nema með gleraugum fordómanna - það er, þú ert búinn að ákveða svarið fyrirfram áður en þú skrifar.
Hvet ég þig til að lesa hana aftur og fjalla síðan um það sem þar er rætt um - samkynhneigð og kristna trú - en ekki eitthvað annað.
Þórhallur Heimisson (IP-tala skráð) 9.8.2009 kl. 07:53
Þórhallur, röksemdafærslan er svona:
1. Fólk sem hefur skoðanir eins og X og Y er líklegt til þess að vera á móti samkynhneigð.
2. Jesús hélt fram X og Y
-> Jesús var líklega á móti samkynhneigð.
Þessar skoðanir sem ég nefni tengjast hjónabandi og fleira, því eins og þú segir þá "hangir þetta allt saman".
Hvers vegna segirðu tilvitnun mína í Clarence vera undarlega?
Í guðspjöllunum virðist hann vera ósammála túlkun sumra andstæðinga sinna á því. En hvernig tengist það þessari umræðu? Segir Jesús einhvers staðar að núna sé samkynhneigð allt í einu í lagi? Neibs. Hann meira að segja herðir lögmálið þegar kemur að því að drýgja hór.
Og eins og Lárus bendir á þá er Jesús í Mt afar jákvæður í garð lögmálsins.
Þórhallur, ég er nýbúinn að skrifa aðeins meira um rökræður okkar um helvíti: Dæmisögur og heimsendir
Hjalti Rúnar Ómarsson, 9.8.2009 kl. 08:02
Skemmtilegt. Þú segir:
Þórhallur, röksemdafærslan er svona:
1. Fólk sem hefur skoðanir eins og X og Y er líklegt til þess að vera á móti samkynhneigð.
2. Jesús hélt fram X og Y
-> Jesús var líklega á móti samkynhneigð.
Minnir á rökfærsluna.
Er Guð almáttugur?
Getur Guð skapað svo stóran stein að hann geti ekki lyft honum?
Ef já: Guð getur ekki lyft steininum og er því ekki almáttugur.
Ef nei: Guð getur ekki skapað svo stóran stein að hann geti ekki lyft honum og er því ekki almáttugur.
Gaman - en tilgangslítið spjall minn kæri.
Þórhallur Heimisson (IP-tala skráð) 9.8.2009 kl. 09:17
Það eina sem ég sé sameiginlegt er að þarna er um einhvers konar röksendafærslur sem tengjast trúmálum á einhvern hátt.
Hefurðu ekkert efnislegt að segja um röksemdafærsluna sjálfa?
Hjalti Rúnar Ómarsson, 9.8.2009 kl. 09:27
Ég las einmitt bullið hjá honum með samkynhneigða og Pál Óskar nú um helgina.... hann sagði að það ætti að lesa bókina um ímyndaða fjöldamorðingjann hans í ljósi Jesú... þá væri þetta allt annað dæmi, ekki ætti að myrða samkynhneigða og svona.
Þar sem Jesú var aldrei til.. þá geri ég ráð fyrir því að Þórhallur sé að tala um að lesa biblíu í algeru myrkri, annað getur það vart verið.
Hlægilegt alveg og hræsnin alveg í toppgír
DoctorE (IP-tala skráð) 9.8.2009 kl. 09:40
En hvað með fjölkvæni, talaði Jesús einhverntíma um það? Ég bara man það ekki. En hvað með réttin að lifa í fjölkvæni og afhverju er svona miklir fordómar í þjóðfélaginu og í vestrænu réttarfari gagnvart því? Ef konur sætta sig við fjölkvæni (tala um konur þar sem það er algengara) afhverju er það ekki leyfilegt?
Áslaug Herdís Brynjarsdóttir (IP-tala skráð) 9.8.2009 kl. 12:13
Einkennilegt að réttlæta fordóma og ofsóknir af hendi fólks sem kallar sig "kristið", með því að LÍKLEGA væri Jesú á móti samkynhneigð?? Ég endurtek LÍKLEGA!! Svo ertu komin alveg í hring með röksemdafærsluna þegar þú segir að fólk SJÁI AÐ SAMKYNHNEIGÐ SÉ FORDÆMD í Biblíunni....ný búin að halda því fram að "líklega" hafi Jesú verið mótfallinn þesskonar líferni. Á grundvelli þessara kenninga eru KRISTILEGAR ÁRÁSIR réttlættar?!
Þú segir:
"Þessar árásir eru ekki í kristilegum dulbúningi, þær eru kristilegar."
Og svo kemur réttlætingin:Fólkið les biblíuna, sér að þar er samkynhneigð fordæmd og fordæmir þar af leiðandi samkynhneigð. Afskaplega kristilegt."
Já svei mér þá afskaplega kristilegt allt saman svo ekki sé nú minnst á kærleiksríkt. Á þetta bara við um andlegt ofbeldi eða er líkamlegt ofbeldi líka innifalið í réttlætingunni?
Annað sem ég get enganvegin skilið er samasem merkið sem þú setur á milli framhjáhalds og samkynhneigðra...afar furðulegt! Þarna ertu beinlínis að rugla saman syndinni og syndaranum. Þarna speglast í gegn sú skoðun þín og misskilningur að það að vera samkynhneigður sé að vera lauslátur og þá væntanlega pottþétt að vera ótrúr í sínu sambandi.
Mikil er fáfræði þín, ég hef samúð með þér og skoðana bræðrum þínum. En ég fordæmi þig ekki...af því að ég er kristin.
Ég mun biðja sérstaklega fyrir þér og þínum í Regnbogamessunni í dag.
Kristín (IP-tala skráð) 9.8.2009 kl. 12:48
En hvað ég held að Kristín sé að misskilja eitthvað...
Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 10.8.2009 kl. 01:48
Áslaug, hvort að fjölkvæni eða veri sé rétt eða rangt tengist þessari færslu ekki neitt. En persónulega sé ég ekkert af því ef um er að ræða upplýst samþykki hjá viðkomandi fólki.
Kristín:
Þegar kemur að skoðun Jesú á samkynhneigð (og bara skoðanir hans almennt) þá getum við ekki gert betur en komist að því hvað honum fannst líklega.
Biblían er ekki bara frásagnir af Jesú. Samkynhneigð er fordæmd í bréfum Páls, þau eru líka í biblíunni.
Andlega ofbeldið er líklega það að kristið fólk heldur því fram að samkynhneigð sé synd. Kristið fólk réttlætir það með því að vísa í biblíuna og ef þú tekur biblíuna alvarlega, þá er það réttlætanlegt.
Eins og Tinna bendir á þá skilurðu mig augljóslega ekki.
Til að byrja talaði ég ekkert um framhjáhald. En ég er að segja að fólk sem er það miklir "púrítanar" að skilnaður sé eingöngu í lagi ef konan er ekki hrein mey og að þú drýgir hór með því eitt að horfa á konu í girndarhug er ekki líklegt til þess að telja samkynhneigð vera í lagi.
Biðja fyrir mér? Ég hef ekkert á móti samkynhneigðum. Stofnunin sem sér um Regnbogamessuna berst hins vegar á móti réttindum samkynhneigðra. Ertu nokkuð í Þjóðkirkjunni?
Hjalti Rúnar Ómarsson, 10.8.2009 kl. 02:22
Þórhallur kemur með merkilega athugasemd við greinina sína:
Þórhalli vill ræða um Jesú, en hvað Jesú fannst líklega um samkynhneigð tengist málinu ekki neitt
Hjalti Rúnar Ómarsson, 10.8.2009 kl. 02:24
Átti auðvitað að vera: Þórhallur vill ræða...
Hjalti Rúnar Ómarsson, 10.8.2009 kl. 02:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.