Helvítis vesen hjá prestum

Helvíti er frekar óvinsælt hjá ríkiskirkjuprestum. Í þau fáu skipti sem þeir minnast á það, þá eru þeir oftast að búa til einhvað nýtt „diet“-helvíti. Ef maður skoðar það sem Jesús segir í guðspjöllunum og játningar kirkjunnar, þá hendir guð fólki í helvíti eftir dauðann og það kemst ekki þaðan þó svo að það vilji. Ríkiskirkjuprestarnir átta sig á því að svona guð er ekki góð söluvara og því er helvíti núna staður þar sem fólk ákveður sjálft að fara í og það getur hvenær sem er ákveðið að fara til himna.

Gunnar Jóhannesson og Þórhallur Heimisson eru góð dæmi um ríkiskirkjupresta sem skammast sín fyrir helvíti.

Helvítið hans Gunnars

Hérna er fegraða mynd Gunnars af helvíti:

Þegar vikið er að helvíti þá spyr fólk sig oft: „Hvernig getur góður Guð sent fólk til helvítis?“ Þessi spurning gerir ráð fyrir því að fólk fari til helvítis gegn vilja sínum. Það er ekki svo. 

....

„Dyrnar“ að helvíti, ef svo má að orði komast, eru því læstar að innanverðu. Allir sem „ganga þar inn“ velja það sjálfir. [#]

Þannig að samkvæmt honum velur fólkið sjálft að fara í helvíti og þar sem dyrnar að helvíti eru „læstar að innanverðu“ ætti fólkið sem er þar að geta komist úr helvíti ef það vill það.

Það væri gaman að vita hvernig Gunnar telur sig vita þetta. Einu rökin hans eru vísun í orð Jesú í Mt 7.7 („Þeim mun gefast sem biðja; þeir munu finna sem leita; fyrir þeim sem banka mun upp lokið verða.“), en þarna virðist Jesú vera að tala um áhrifamátt bænarinnar en ekki um eðli framhaldslífsins. Gunnar ímyndar sér ef til vill að þarna hafi Jesús verið að segja að Jesús muni opna dyr himnaríkis fyrir hverjum þeim sem bankar á þær. En aðrir staðir í guðspjöllunum, sem fjallar klárlega um lífið eftir dauðann, sýna fram á að þetta er vitlaust túlkun hjá honum.

Helvíti í guðspjöllunum

Til að byrja með segir Jesús oft að fólki verði „kastað“ í helvíti. Það bendir til þess að það fari ekki þangað að eigin vilja. Gott dæmi um þetta er í einni dæmisögunni hans:

 

Konungur sagði þá við þjóna sína: ,Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.` (Mt 22.13)

Auk þess er hægt að benda á staði þar sem Jesús segir að hann muni reka burt fólk sem vill komast inn í himnaríki. Þetta er fínt dæmi:

 

Margir munu segja við mig á þeim degi: „Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?“  Þá mun ég votta þetta: „Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.“ (Mt 7.22-23)

 
En sú dæmisaga sem hrekur þessar fegruðu myndir af helvíti algjörlega er líklega sagan af ríka manninum og Lasarusi. Þegar ríki maðurinn er í helvíti, þá segir engill þetta við hann:

 

Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar, svo að þeir, er héðan vildu fara yfir til yðar, geti það ekki, og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor.` (Lk 16.26)

 

Þannig að þó svo að þú viljir komast frá helvíti, þá er það ekki hægt.

Helvítið hans Þórhalls

Hérna er fegrun Þórhalls á helvíti:

Helvíti- það er tákn fyrir að vera án Guðs. Þú getur því líka verið í Helvíti í þessu lífi. En að lokum mun Jesús einnig snúa þeim til sín sem þannig er komiðfyrir og leiða þá inn i fögnuð himinsins. 

...

Til eru þeir sem kjósa að snúa baki við orði Jesú, við fyrirgefningu hans og náð. Þeir dæma sig sjálfir til þess að vera án Guðs. Ekki bara handan dauðans heldur þegar í þessu lífi. En að lokum mun Jesús einnig snúa þeim til sín og leiða þá inn i fögnuð himinsins“. Kristnir menn játa nefnilega ekki fyrst og fremst dómarann heldur frelsarann sem dó fyrir okkur. Að vera „Guðlaus“ er að vera staddur í víti þegar í þessu lífi. Margir reyna það á sjálfum sér. En Jesús mun um eilífð leitast við að bjóða þeim samfylgd við sig, m.ö.o. himnaríki, þegar í þessu lífi. Kjósi einhver aftur á móti um eilífð að hafna því ríki, dæmir hann sjálfan sig til „Guðlausrar eilífðar“. [#]

Eins og hjá Gunnari þá ákveður fólk sjálft að fara í helvíti, helvíti er bara að vera án guðs (gangi honum vel að finna þá hugmynd í guðspjöllunum!) og Jesús reynir að fá fólk til að komast til himnaríkis. Það kom mér því töluvert á óvart þegar ég sá hann fjalla um söguna af brúðarmeyjunum á blogginu sínu. Eins og hann segir sjálfur þá er brúðguminn Jesús og veislan himnaríki. Í lok sögunnar banka sumar brúðarmeyjarnar á dyrnar að veislunni og vilja komast inn. Jesús hleypir þeim ekki inn:

 

Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: „Herra, herra, ljúk upp fyrir oss.“ En hann svaraði: „Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.“ (Mt 25.11-12)

 

Þegar ég spurði Þórhall út í þetta, þá var eina svarið hans að efast um að þessar meyjar hafi í raun og veru viljað komast inn.

Játningarnar

Eins og ég hef áður bent á, þá segir Einar Sigurbjörnsson (sem kenndi þeim líklega trúfræði í HÍ) að þetta sé hin „sígilda lútherska kenning“  um helvíti:

 

Eftir dóminn, hreppa þeir, sem með vantrú og þrjósku hafa hafnað Guðs náð, eilífan dauða eða eilífa glötun. Líf þeirra verður ævinlegt kvalalíf í sambúð við illa handa, endalaus angist og örvænting án allrar vonar um frelsun. Þetta er og kallað hinn annar dauði.

Ef við skoðum síðan aðaljátningu lútherskra manna þá stendur þetta um helvíti:

 

Ennfremur kenna þeir: Kristur mun birtast við endi heims til að dæma og mun hann uppvekja alla dauða. Guðhræddum mönnum og útvöldum mun hann gefa eilíft líf og eilífan fögnuð. Guðlausa menn og djöflana mun hann fordæma, að þeir kveljist eilíflega.Þeir fordæma endurskírendur, sem álíta, að endir verði bundinn á refsingu fordæmdra manna og djöflanna. [#] 

 

Hugmyndir Gunnars og Þórhalls um að þeir sem enda í helvíti geti losnað þaðan er því klárlega fordæmd í játningum kirkjunnar þeirra. Þær er heldur ekki að finna í guðspjöllunum. Þeir eru bara að skálda eitthvað til að láta þessa ógeðslegu hlið kristinnar trúar líta betur út.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Hjalti og takk fyrir ábendinguna. Ég hef nú haft gaman af því að skrifast á við þig um eilífðarmálin - fundist þú hafa vel ígrundaðar skoðanir og ábendingar. En eins og oft vill verða um ykkur Vantrúarmenn, þá kemur enn einu sinni í ljós að eina ástæðan fyrir skrifum ykkar er að reyna að koma höggi á presta og kristna trú - ef ekki vill betur þá með útúrsnúningi og háði.

En hvað um það - ég ætla að reyna að taka þig alvarlega og svara þér eins og ég hef áður gert - með samtali og af kurteisi.

Varðandi dæmisöguna um meyjarnar sem bíða brúðkaupsins - förum yfir hana aftur:

1. Allar mæta með lampana sína í upphafi.

2. Það dregst að brúðguminn mæti á svæðið. Einn hluti meyjanna er vel undirbúinn, leggur á sig að bæta olíu á lampana, heldur vöku sinni og bíður eftir brúðgumanum - þó biðin sé löng og ströng og myrkrið sæki að. Þær láta sig samt hafa það.

3. Þegar brúðguminn loksins kemur eru þær tilbúnar með logandi lampana sína og hafa verið það allan biðtímann - þær hlaupa því til og fara beint í veisluna.

4. En hinar - þær höfðu í raun engan áhuga. Þær pössuðu ekki upp á olíuna, lögðu sig bara og voru kannski VANTRÚAÐAR á að brúðguminn kæmi yfir höfðuð - eða væri til.

Sem sagt - því spurði ég þig - vildu þær nokkuð vera með í raun? Svarið er nei - þær höfðu engan áhuga og vildu ekkert gera fyrir veisluna.

5. Svo sjá þær eftir að hafa verið svona fullar af VANTRÚ á brúðgumann þegar veislan er byrjuð. Þá vilja þær allt í einu vera með - en eru of seinar á því.

Þær nenntu ekki að leggja neitt á sig, vildu ekki vera með, og sitja uppi með það. En sjá ekki eftir neinu - þær vilja bara fá að komast inn og ekkert múður!

Þetta þema marg-endurtekur Jesús. Þú verður að taka afstöðu með honum, fylgja honum, ekki aðeins í orði heldur verki, gera hið góða - annars ert þú eins og meyjarnar sem sofnuðu á brúðkaupsvaktinni og komast því ekki með í veisluna.

AFTUR Á MÓTI - þegar maðurinn snýr sér til Jesú, í fullri einlægni, þá opnar Jesús faðminn á móti honum.

Sbr ræningjann á krossinum sem sagði "Minnstu mín þegar þú kemur í ríki þitt" og Jesú svaraði "Í dag skaltu vera með mér í Paradís".

Helvíti er að vera án Guðs- er staður þar sem Guð er ekki. Helvíti er þar sem hið ílla ræður ríkjum - þegar í þessu lífi. Sá sem hafnar hinu góða og kærleikanum en lifir fyrir eigingirnina og hið illa - sá er þegar í Helvíti lífsins.

Að snúa sér til Guðs í einlægni, ekki bara fyrir eigin ávinning, ekki bara til að græða himnaríkisvist (brúðkaupsvist) heldur af því að maður vill lifa í ljósinu og hinu góða og iðrast hins illa- það er að losna undan Víti.

Þórhallur Heimisson (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 21:57

2 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Sæll Þórhallur.

Ég hef líka haft gaman af því að ræða málin við þig og finnst að fleiri prestar mættu taka þig og Gunnar til fyrirmyndar í þessum efnum, að segja almennilega frá skoðunum sínum. Vissulega reyni ég að koma höggi á kristna trú og beiti gjarnan háði, og ég sé ekkert að því. Þetta er samt alls ekki eina ástæðan mín.

5. Svo sjá þær eftir að hafa verið svona fullar af VANTRÚ á brúðgumann þegar veislan er byrjuð. Þá vilja þær allt í einu vera með - en eru of seinar á því.

Nákvæmlega. Eftir að brúðguminn er kominn (endurkoma Jesú) þá þýðir ekkert að vilja komast til himnaríkis, Jesús mun vísa þér í burtu.

Þær nenntu ekki að leggja neitt á sig, vildu ekki vera með, og sitja uppi með það. En sjá ekki eftir neinu - þær vilja bara fá að komast inn og ekkert múður!

Hvar kemur fram að þær sjá ekki eftir neinu?

Síðan er það rangt að þær nenni ekki að leggja neitt á sig til þess að komast inn. Þegar brúðguminn kemur fara þær að kaupa olíu á lampana sína.

Sem sagt, þessar meyjar vilja klárlega komast í veisluna, en þar sem þær voru ekki tilbúnar þegar brúðguminn kom. Þá fá þær ekki að komast inn.

Helvíti er þar sem hið ílla ræður ríkjum - þegar í þessu lífi.

Hvar kemur þessi skoðun fram í Nýja testamentinu?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 18.6.2009 kl. 22:27

3 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Ein leiðrétting, það er Abraham ekki engill sem segir ríka manninum í Lk 16.26 að það sé ekki hægt að komast úr helvíti. Ruglaðist vegna þess að englar bera Lasarus upp til himnaríkis.

Það væri gaman ef þú gætir sagt frá skoðun þinni á þessu versi Þórhallur.

Annars lét ég Gunnar vita í tölvupósti af þessari grein, vonandi vill hann hrekja þessa grein mína.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 18.6.2009 kl. 22:40

4 identicon

Dæmisagan með meyjarnar er að fjalla um það sama og hinir textarnir sem þú vitnar í t.d:

Margir munu segja við mig á þeim degi: „Herra, herra, höfum vér ekki kennt í þínu nafni, rekið út illa anda í þínu nafni og gjört í þínu nafni mörg kraftaverk?“ Þá mun ég votta þetta: „Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.“ (Mt 7.22-23)

og reyndar dómsdagstextinn í MT 25.

Það er ekki nóg að SEGJAST vilja tilheyra samfélaginu/brúðkaupinu.

Maður verður að sýna það í verki - með því að hafa olíuna til etc.

Það er ekki nóg að SEGJAST vera kristinn. Menn þurfa að sýna það í verki með verkum sínum.

Það er ekki nóg að SEGJAST fylgja Jesú, ekki einu sínni með því að sýnast fyrir öðrum með kraftaverkum og bænhita- menn verða að gera vilja hans (sbr. Hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta).

Meyjarnar segjast ---en meina það ekki, sýna það ekki í raun.

Hvað Abraham og Lasarus varðar er það mjög myndrænn og sterkur texti. Pæli betur í honum seinna. Góða nótt.

Þórhallur Heimisson (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 23:31

5 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Allt í lagi Þórhallur. Þú segir augljóslega að það nægi ekki bara að telja sig vera kristinn (eða "segjast" vera það) og vilja komast í himnaríki, maður verður að sýna það í verki.

Það breytir því ekki að þrátt fyrir að fólk vilji komast í himnaríki, þá mun Jesús ekki hleypa því inn eftir að hann er kominn aftur.

og reyndar dómsdagstextinn í MT 25.

Næst í Mt 25 er dæmisaga þar sem sá sem endar í helvíti er "rekinn" þangað af guði. Þar fer hann klárlega ekki í helvíti af fúsum og frjálsum vilja.

Meyjarnar segjast ---en meina það ekki, sýna það ekki í raun.

Eins og ég sagði, þá kemur hvergi fram að þær vilji í raun og veru ekki koma inn. Þær segjast vilja komast inn, biðja Jesú um að opna dyrnar. Þær fara meira að segja að kaupa meiri olíu.

Hvað Abraham og Lasarus varðar er það mjög myndrænn og sterkur texti. Pæli betur í honum seinna. Góða nótt.

Bíð spenntur eftir svari.

Hvar stendur síðan í Nýja testamentinu að helvíti sé "þar sem hið ílla ræður ríkjum - þegar í þessu lífi"?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 19.6.2009 kl. 00:56

6 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Það er kannski hægt að komast að kjarna málsins með þessari spurningu:

Nægir að vilja komast til himnaríkis til þess að fá að komast í himnaríki?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 19.6.2009 kl. 00:58

7 identicon

Á meðan við hugsum um Abraham - hvað er himnaríki að þínu mati?

Þórhallur Heimisson (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 08:49

8 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Að mínu mati er himnaríki ekki til.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 19.6.2009 kl. 13:19

9 identicon

Ok - en ef þú setur sjálfan þig út úr menginu og hugsar um skilgreininguna. Þú ert alltaf að spyrja um þetta himnaríki - hvernig myndir þú skulgreina hugmyndina um himnaríki - trúarbragðafræðilega og án tilfinninnga?

Sbr . "Bíll er...", "Trú er..." "Himnaríki er...."

Þórhallur Heimisson (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 14:33

10 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Þegar kemur að bílum og trú er ég að tala um raunverulega hluti. Þegar kemur að himnaríki get ég aðeins rætt um hinar ýmsu hugmyndir trúaðs fólks.

Ef þú vilt koma með einhvern punkt í sambandi við þetta, komdu þá bara með hann.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 19.6.2009 kl. 14:36

11 identicon

Punkturinn er sá að ekki er hægt að tala um himnaríki án þess að skilgreina hvað átt er við. Hvað átti Jesús td við þegar hann talaði um himnaríki? Og Guðsríki? Og þegar þú segir að himnaríki sé ekki til, ert þú þá að tala um Guðsríkið sem Jesús talaði um, himnaríki hindúa, eða hvað? Hebrear trúðu td ekki á himnaríki, hvað þá Helvíti.

Þú verður að byrja á því að skilgreina hvað þú ert að tala um áður en þú gagnrýnir kenningar um það eða segir að það sé ekki til.

Síðan getum við rætt hvað Jesús er að segja þegar hann talar um Guðsríkið og himnaríkið í dæmisögum sínum - og helvíti

þórhallur Heimisson (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 16:19

12 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Hvað átti Jesús td við þegar hann talaði um himnaríki?

Ég myndi halda að hinn sögulegi Jesú hefði litið á himnaríki sem annað hvort eitthvað sæluríki hérna á jörðinni eftir "heimsendi" eða þá sæluríki uppi þar sem við myndum í tal kalla geim.

Þegar kemur að þessum dæmisögum, þá er klárlega verið að tala um hvar maður endar í lífinu eftir dauðann, en ekki eitthvert sálrænt ástand í þessu lífi, þar sem þetta á að gerast við endurkomu Jesú, heimsendi.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 19.6.2009 kl. 16:30

13 identicon

En þar hefur þú einmitt á röngu að standa minn kæri. Ég hvet þig til að lesa dæmisögur Jesú um himnaríki td í Matteusarguðspjalli.

Þar er Jesús ekki að tala um hvar maður endar eftri dauðann. Hann er að tala um ástand hér og nú, sem vex innra með þér og breytir þér og heldur áfram eftir dauðann. Hann líkir himnaríki við td mustaðskorn sem stækkar og vex innra með þér og við súrdeig sem sýrir allt brauðið - breytir deiginu smátt og smátt til hins betra -

Þú ert því nú þegar í Guðs ríki/ himnaríki í þessu lífi - eða utan þess ef þú kýst

þórhallur Heimisson (IP-tala skráð) 19.6.2009 kl. 16:56

14 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Þegar kemur að til dæmis dæmisögunni sem við höfum talað hvað mest um (um meyjarnar tíu) þá er hún í miðri svokallaðri heimsendaræðu Jesú í Matteusarguðspjalli og hún er full af augljósum vísunum í heimsendi. Sem dæmi þá tefst brúðguminn en kemur svo, sem er klárlega vísun í endurkomu Jesú. Síðar í kaflanum er síðan Jesús augljóslega að tala um heimsendi:

Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. (Mt 25.31-32)

Hjalti Rúnar Ómarsson, 19.6.2009 kl. 17:51

15 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Það er hægt að komast að kjarna málsins með þessari spurningu:

Er koma brúðgumans og endurkoma húsbóndans í Mt 25 endurkoma Jesú?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 19.6.2009 kl. 18:03

16 identicon

Koma Guðsríkisins hefur alltaf tvær víddir í ræðum Jesú - líka í sögunni um meyjarnar.

Í raun snúast þær víddir báðar um eðli himnaríkis.

1. Fyrsta víddin er hin persónulega - Jesús kemur til þín, hér og nú, og bíður þér samfélag við sig. Það er samfélag Guðs ríkisins. Þú getur tekið því boði og verður þar með hluttakandi í himnaríki - í kristi - hér og nú.

En ekki nægir að segja já takk - þú verður að sýna trú þína í verki - að þú viljir í raun lifa í samræmi við það ríki sem þú tilheyrir og munt halda áfram að tilheyra að eilífu.

2. Önnur víddin snertir endi heimsins. Jesús mun koma aftur og hreinsa burt hið illa - og þar með dæma alla sem hafa lifað í myrkrinu- helgað líf sitt hinu illa.

Síðan mun rísa nýr himinn og ný jörð Guðsríkisins/brúðkaupsins.

3. Þessar tvær víddir eiga sér samruna í þínu lífi. Þegar ÞÚ deyrð hverfur þú að endi aldanna.

En nú ætla ég að skrifa pistil um Abraham á minni síðu - þú getur séð hann á morgun þar.

þórhallur Heimisson (IP-tala skráð) 20.6.2009 kl. 01:02

17 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

En nú ætla ég að skrifa pistil um Abraham á minni síðu - þú getur séð hann á morgun þar.

Ég vona að greinin sé á leiðinni.

Koma Guðsríkisins hefur alltaf tvær víddir í ræðum Jesú - líka í sögunni um meyjarnar.

Ég er ósammála þessu. En það skiptir ekki máli þar sem þú viðurkennir síðan að önnur þessara vídda "snerti enda heimsins".

Ef svo er, þá fjallar dæmisagan um meyjarnar tíu, líka um endi heimsins.

Koma brúðgumans er þá augljóslega endurkoma Jesú, er það ekki?

Ef svo er, þá mun fólk klárlega vilja komast inn í himnaríki eftir endurkomuna, og ekki fá það.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 22.6.2009 kl. 20:43

18 identicon

Ég er sammála þér í þessu Hjalti, ég skil ekki hvernig sumir kristnir geta skilið Biblíuna þannig að allir komist inn í himnaríki eftir að hafa einu sinni lent í Helju.

Ég hef reyndar, að ég held, tvisvar sent Þórhalli póst og spurt um þá kenningu, af því mér finnst hann mjög góður og fróður kennari sem er gaman að hlusta á.... en hef ekki fengið svör.

Satt best að segja fyndist mér mjög þægilegt að hugsa til þess að allir komist til himna á endanum... en get ekki séð það í Biblíunni og finnst því hættulegt að kenna slíkt... því þá gætu sumir hugsað sér að þeir geti bara endað líf sitt eða lifað því í Guðleysi án iðrunar en samt eignast eilíft líf... en komist að öðru síðar.

Vona að Þórhallur svari þessu vel hér.

Andri (IP-tala skráð) 23.6.2009 kl. 00:31

19 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Ég hef reyndar, að ég held, tvisvar sent Þórhalli póst og spurt um þá kenningu, af því mér finnst hann mjög góður og fróður kennari sem er gaman að hlusta á.... en hef ekki fengið svör.

Já, það væri gaman að sjá nákvæma útlistun frá Þórhalli á skoðunum sínum.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 25.6.2009 kl. 17:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband