Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Kristið siðgæði og þjóðarmorð

Mér finnst það kristna fólk sem vegsamar „kristið siðgæði“ mest eiga í mestum erfiðleikum með að svara afskaplega einföldum spurningum um siðferði. Tökum sem dæmi þessa spurningu:

Er rétt að eyða þjóð vegna einhvers sem forfeður þeirra gerðu hundruðum ára áður?

Ég held að flest fólk ætti ekki í neinum erfiðleikum með að segja: „Nei, auðvitað er það rangt.“, en trúvarnarmanninum Guðsteini Hauki finnst þetta vera afskaplega erfið spurning, þetta er svarið hans:

Ég get ekki svarað þessu með vissu þar sem mig vantar forsendur sem hvurgi hafa komið fram. #

Vandamálið er það að ég hafði nýlega bent honum á skipun frá guðinum hans í Gamla testamentinu. Legó-biblían segir skemmtilega frá þessu. En hérna eru versin sem skipta máli, Samúel segir við Sál:

Svo segir Drottinn herskaranna: Ég vil refsa Amalekítum fyrir það sem þeir gerðu Ísrael: Þeir lokuðu leiðinni fyrir Ísrael þegar hann fór út úr Egyptalandi. Nú skaltu fara og sigra Amalek. Helgaðu þá banni og allt sem þeim tilheyrir. Hlífðu engum. Dreptu karla og konur, börn og brjóstmylkinga, naut og sauðfé, kameldýr og asna. (1Sam 15.2-3)

Þannig að Sál á að fremja þjóðarmorð á Amalekítum fyrir það sem forfeður þeirra gerðu við Ísraelsmenn hundruðum árum áður. Þetta geta Guðsteinn og aðrir trúvarnarmenn ekki fordæmt með sínu „kristilega siðgæði“.


Einar Sigurbjörnsson viðurkennir að Jesús var falsspámaður

Í bókinni Credo eftir Einar Sigurbjörnsson, sem hann notar til að kenna tilvonandi prestum ríkiskirkjunnar, er þessa játningu að finna:

Framtíðarvonir Nýja testamentisins bindast voninni um endurkomu Jesú sem dómara. Á elstu stigum hefur vonin um yfirvofandi komu Jesú verið sterk og virðist Jesús sjálfur hafa gengið út frá því í prédikun sinni:

Sannlega segi ég yður þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram. (Mk 13.30) bls 457

Það er auðvitað merkilegt að Einar skuli viðurkenna að Jesús hafi verið falsspámaður, en það er  enn merkilegra að Einar reynir ekki að útskýra hvers vegna þetta þýði ekki að kristni sé bull og vitleysa. Ef Jesús hélt að heimsendir hefði átt að koma fyrir næstum því 2000 árum síðan, hvers vegna í ósköpunum ætti maður að trúa öllu hinu sem er eignað honum í guðspjöllunum?

Það er líka merkilegt að þetta er að ég held eina umfjöllunin sem ég hef rekist á hjá ríkiskirkjufólki um þessa vandræðalegu staðreynd, að Jesús guðspjallanna var falsspámaður. Gungurnar þora ekki að ræða um þetta.


Bréf til prests

Ég var rétt í þessu að senda ríkiskirkjuprestinum Gunnari Jóhannessyni tölvupóst. Ég á ekki von á því að hann svari mér, hann hefur ekki gert það hingað til. Hérna er pósturinn:

Sæll Gunnar Jóhannesson

Ég rakst rétt áðan á ummæli í grein [1] sem þú skrifaðir í Morgunblaðinu fyrir um það bil ári síðan. Þar segirðu að „um eða yfir 90% [Íslendinga] aðhyllist kristna trú“. Mér fannst þetta afskaplega undarlegt þar sem þú sagðir þetta í einni predikun þinni: „Ef við gerum það, ef við sviptum Jesú guðdómi sínum, þá fyrirgerum við einnig rétti okkar til að kalla okkur kristin.“[2]

Nú hafa verið gerðar kannanir á trúarhugmyndum Íslendinga. Í tveimur vönduðum rannsóknum sem guðfræðideild Háskóla Íslands sá um var einmitt spurt út í „guðdóm“ Jesú. Í báðum könnununum sögðust rétt undir 45% að Jesús væri „sonur guðs og frelsari“ [3].

Væri þá ekki réttara að segja að um 45% Íslendinga aðhyllist kristna trú?

bestu kveðjur,

Hjalti Rúnar Ómarsson

[1] Umburðarlyndi og jafnrétti – til hvers og fyrir hvern? Mogginn 22.01.2008

[2] Hann er upprisinn

[3] Pétur Pétursson og Björn Björnsson, Ritröð guðfræðistofnunar 3. Trúarlíf Íslendinga 1990. Sambærileg könnun var framkvæmd árið 2004


Starfsmenn Þjóðkirkjunnar eru ekki hyski

Mér finnst það rangt hjá Páli Baldvini að kalla starfsmenn ríkiskirkjunnar hyski. Þetta er í raun bara innantómt uppnefni sem bætir litlu við umræðuna.

Ríkiskirkjuprestar og biskupar hennar eru hins vegar upp til hópa hræsnarar, lygarar og gungur.

Þeir eru  hræsnarar meðal annars af því að þeir með meira en hálfa milljón króna byrjunarlaun, en segjast fylgja manni sem fyrirskipaði fylgjendum að selja eigur sínar og gefa fátækum peninginn (Lk 12.33).

Þeir eru lygarar meðal annars af því að þeir vita að margt af því sem er eignað Jesú í guðspjöllunum er ekki komið frá honum. Gott dæmi um lygi ríkiskirkjumanna eru svör Biskupsstofu þegar 24 stundir spurðu Karl Sigurbjörnsson að því hvort hann myndi gifta samkynhneigt par, biskupinn hafði víst ekki tíma til þess að segja „Nei“.

Þeir eru gungur af því að þeir þora ekki að tjá sig um suma hluti. Karl þorir til dæmis ekki að viðurkenna að hann myndi aldrei blessa hjónaband samkynhneigðra. Þeir þora ekki heldur að viðurkenna að þeir trúi ekki á helvíti (og væru þar af leiðandi fordæmdir í játningum sinnar eigin kirkju).

Þannig að ég mæli með því að fólk kalli ríkiskirkjupresta og biskupa ekki hyski, heldur hræsnara, lygara og gungur.


Ríkiskirkjuprestur í rugli

Í nýlegri ræðu sagði ríkiskirkjupresturinn Skúli Sigurður Ólafsson:

Allt ljómaði í nóttinni og boðskapur jólanna var skýr: friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnunum. Já, sumt er það í tilverunni sem heldur sínu striki, hverfur hvorki né dofnar hvað sem á gengur.

Já, sumt heldur sínu striki, en annað breytist. Þessi boðskapur jólanna er ársgömul vitlaus þýðing. Í fyrra var „boðskapur jólanna“: „...friður á jörðu með mönnum, sem guð hefur velþóknun á. Þetta hefur starfsmönnum ríkiskirkjunnar ef til vill ekki fundist nógu fallegur boðskapur og þess vegna var þessu breytt.

 


Prestar og börn

Samkvæmt hinum mikla biblíufræðingi og ríkiskirkjupresti Baldri Kristjánssyni, þá leit fæðing Jesú einhvern veginn svona út:

 faedingjesu

Baldur segir nefninlega að frásögnin af fæðingu Jesú „lýsi eflaust atburðum sem hafa gerst“. Kannski tekur hann þessi orð Jesú of alvarlega: „Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki. 


Heimur versnandi fer

Helgakver var algengasta fermingar“fræðslu“bókin við upphaf 20. aldar. Credo er notuð til þess að kenna prestlærlingum við guð“fræði“ í HÍ og er eftir Einar Sigurbjörnsson (bróðir Kalla biskups).

[T]rú er það, að hafa meðvitund um guð og dýrka hann.  - Helgakver

Þessi skilgreining er auðvitað langt frá því að fullkomin, en hún er frábær í samanburði við þetta:

Skilgreina má hugtakið „trú“ í grundvallaratriðum þannig, að trú sé að taka veruleikann trúanlega, játast undir ákveðna merkingu og ákveðinn tilgang og viðurkenna ákveðið samhengi, sem halda verði, ef veröldin á að standast. Trú táknar heildarsýn og heildartúlkun, sem gengur út frá því, að tilveran myndi samhengi og heild, enda þótt þekking manna kunni aðeins skil á brotabrotum hennar. Og trú er að sínu leyti undirstaða þekkingar, því að sá sem leitar þekkingar verður að trúa því, að þekkingu sé auðið að finna. - Credo bls 41

Ætli Einar skilji það sem hann skrifar?


Er kristin trú ekki falleg?

Einar Sigurbjörnsson, bróðir Kalla biskups, guðfræðiprófessor og kennari í ríkiskirkjudeild Háskóla Íslands, kallar eftirfarandi „hina sígildu lúthersku kenningu“ í bók eftir sig (á bls 465 í Credo, sem er einmitt notuð sem kennslubók í ríkiskirkjudeildinni!):

Eftir dóminn, hreppa þeir, sem með vantrú og þrjósku hafa hafnað Guðs náð, eilífan dauða eða eilífa glötun. Líf þeirra verður ævinlegt kvalalíf í sambúð við illa handa, endalaus angist og örvænting án allrar vonar um frelsun. Þetta er og kallað hinn annar dauði.

Þessa lýsingu á „hinni sígildu lúthersku kenningu“ er að finna í Helgakveri (bls. 72) sem var mest notaða fermingarkver ríkiskirkjunnar við upphaf síðustu aldar. Er kristin trú ekki falleg?


Að látast vera heimskur?

Ég veit ekki hvað maður á að halda þegar maður sér ríkiskirkjuprest segja þetta um sjálfkrafa skráningu nýfæddra barna í trúfélag móður:

Ég get nú ekki séð að það séu peningasjónarmið sem ráða ferðinni með þessa skráningu. Sóknargjöldin og trúfélagsgjöldin koma ekki til fyrr en við 16 ára aldur.

Nú þarf maður að vera afskaplega vitlaus til þess að átta sig ekki á því að nýfædd börn verða flest 16 ára. Ríkiskirkjan græðir auðvitað á því að fólk sem pælir ekkert í trúmálum fylgi móður sinni sjálfkrafa.

Þetta er ástæðan fyrir því að mér finnst miklu skemmtilegra að ræða við „bókstafstrúarfólk“ eins og Mofa, það er heiðarlegt og þorir að segja skoðanir sínar.


Svarið er já, það væri mjög snjallt

Það er afskaplega fyndið að lesa athugasemdir ríkiskirkjuprestsins Kristjáns Björnssonar við þessa frétt.

Kristján byrjar á því að tala um einhverja töfravernd sem sjálfkrafa skráning í trúfélag móður á að veita gegn ágengum trúleysingjum:

Þessi stöðuskráning nýfæddra barna styðst við ágæta reglu sem miðar við trúfélag móður. Það gefur barninu vernd gegn ágengum markaðsaðferðum sumra lífsskoðunarhópa, einsog til dæmis trúleysingjum. Það ætti eiginlega að veita börnum vernd allt til 18 ára aldurs, en eins og flestir vita geta börn tekið afstöðu til trúfélgasaðildar með skráningu við 16 ára aldur.

Til að byrja með skil ég ekki hvernig sjálfkrafa skráning barna í trúfélag móður á að vernda börn gegn „ágengum markaðsaðferðum sumra lífsskoðunarhópa“. Ég efast um að Kristján viti það sjálfur.

Getur einhver upplýst mig um „ágengu markaðsaðferðir“ okkar trúleysingjanna í garð barna? Kristján getur það ekki. Ég veit til dæmis ekki til þess að við trúleysingjarnir séum að reyna að boða trúleysi í leik- og grunnskólum.

Síðan er það afskaplega fyndið að presturinn telji að börn þurfi vernd gegn „lífsskoðunarhópum“ allt að 18 ára aldri. Hann hlýtur að vera fylgjandi því að fresta fermingunni fram að 18 ára aldri, við viljum jú vernda börnin gegn „ágengum markaðsaðferðum sumra lífsskoðunarhópa“.

Það er þægilegt að hugsa um málið með því að líkja þessu við stjórnmálaskoðanir. Ef 80% þjóðarinnar væru skráð í Sjálfstæðisflokkinn og börn myndu við fæðingu verða skráð í stjórnmálaflokk móður yrði þingmanni Sjálfstæðisflokksins líklega illa við breytingar. Hann myndi líklega segja eitthvað svona:

 

Þessi stöðuskráning nýfæddra barna styðst við ágæta reglu sem miðar við stjórnmálaflokk móður. Það gefur barninu vernd gegn ágengum markaðsaðferðum sumra stjórnmálaflokka, einsog til dæmis vinstrimönnum. Það ætti eiginlega að veita börnum vernd allt til 18 ára aldurs, en eins og flestir vita geta börn tekið afstöðu til stjórnmálaflokksaðildar með skráningu við 16 ára aldur.

Ég held að flestir myndu telja það afskaplega mikla hræsni hjá þingmanni Sjálfstæðisflokksins að segja þetta, sérstaklega þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fengi 13.000 krónur árlega fyrir hvern einstakling sem væri 16 ára eða eldri og í flokknum þeirra.Kristján virðist síðan vera uppiskroppa með rök, að minnsta kosti er erfitt að hugsa sér að einhver með góðan málstað komi með svona rök:

Að skilja barnið eftir án uppeldis í trú eða sið er vont og það hefur ekki verið sýnt fram á að það geti skilað því nokkrum verðmætum í uppeldislegum efnum. Og ég held að allir heilbrigt hugsandi menn sjái vel muninn á slíku uppeldi og því sem allir óttast: innrætingu vondra siða.

Nei Kristján. Að barn fari ekki í trúfélag móður við fæðingu er ekki það sama og að ala barnið ekki upp. Foreldrar geta enn innrætt barninu góða siði, og já, jafnvel innrætt því trú ef það vill.

Kristján gleymir samt einni ástæðu sem ég veit að prestar ríkiskirkjunnar hafa áhyggjur af: Ef börn eru ekki skráð sjálfkrafa í trúfélag móður, þá er hætta á að það myndi fækka eitthvað í ríkiskirkjunni hans og það þýðir minni pening í kassa ríkiskirkjunnar.

Svo á ég ekki von á svari frá ríkiskirkjuprestinum, hann hefur ekki gert það hingað til.


mbl.is Hver stýrir trúnni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband