Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Umhverfisguðfræði

Ég rakst á orðið „umhverfisguðfræði“ á heimasíðu kirkjunnar #. Þarna var einn af ríkiskirkjuprestunum að segja að „umhverfisguðfræði“ væri hennar hjartans mál.

Það eina sem mér dettur í hug þegar ég heyri þetta orð eru fullyrðingar á borð við: „Guð vill ekki að við mengum.“ eða „Samkvæmt biblíunni er rangt að útrýma dýrum.

Þegar kemur að siðferðisspurningum, eins og hvernig eigi að umgangast náttúruna, þá hefur gervifagið guðfræði nákvæmlega ekkert til málanna að leggja. Hvaða máli skiptir það hvað fólk heldur að ósýnilega vini þeirra eða gömlu bókinni þeirra finnst um málið?


Já, þú myndir blekkja mig

Í nýjustu ræðu ríkisprestahjónanna Jónu Hrannar Bolladóttur og Bjarna Karlssonar, „Myndi ég blekkja þig?“ er undarleg nálgun á heimsendaræður Jesú:

Kreppu- og kvíðastjórnunarræður Jesú voru af margvíslegum toga. Stundum ræddi hann um óttann við skort á efnislegum gæðum, stundum talaði hann um óttan við náttúruöflin, eða þá um ofbeldi, drepsóttir, stríð, lögleysi og jafnvel um endi allra hluta. Í því sambandi sagði hann: „Þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd… Himinn og jörð munu líða undi lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.” (Lúk. 21.28,33) #

Ef þessi skötuhjú myndu heyra einhvern rugludall út á götu röfla um að heimsendir væri í nánd, þá myndu þau varla flokka það sem „kreppu- og kvíðastjórnunarræðu“, en ef söluvaran þeirra, Jesús, talar um heimsendi, þá er um einhverja afskaplega mikla speki að ræða.

En það sem vakti athygli mína er tilvitnunin þeirra, þau ákveða að vitna bara í vers 28 og 33 í 21. kafla Lúkasarguðspjalls. Alltaf þegar ég sé einhvern frá ríkiskirkjunni sleppa versum svona, þá grunar mig að þar sé um eitthvað afskaplega vandræðalegt að ræða. Og hérna er það vandræðalega vers 32:

 

Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt er komið fram.

Það er auðvitað afskaplega vandræðalegt fyrir prestana að Jesús hafi verið fals-heimsendaspámaður. Ég man ekki eftir því að hafa nokkurn tímann séð ríkiskirkjuprest ræða um þetta, það eina sem maður fær eru hálfkveðnar vísur eins og frá Baldri Kristjánssyni, samkvæmt honum er þetta „sannarlega umhugsunar virði“#.

Ég velti því stundum fyrir mér hver ástæðan sé fyrir þessari vandræðalegu þögn þeirra. Mér finnst líklegt að þeir telji málstað sinn vera svo lélegan að þeir þora ekki að ræða um hann.


Það versta við flensur

Það versta við flensur er auðvitað fólkið sem deyr vegna þeirra. En það næstversta við flensur er sú staðreynd að sumir brjálæðingar sjá í heimsfaröldrum einhverja von um að klikkaðar hugmyndir þeirra um guð séu sannar.

Nú er ég sérstaklega að hugsa um Einar Ingva Magnússon. Ég verð bara að byrja á því að benda á að maðurinn er með orðin „dauðinn [er mér] ávinningur“ við myndina sína. Ótrúlega klikkaður hugsunarháttur.

Í nýjustu færslu hans er afar kristilegur, en enn klikkaðri hugsunarhátttur:  Guðinn hans sendi svínaflensuna.

Flestir sjá eflaust að þetta er klikkaður hugsunarháttur, en færri átta sig ef til vill á því að kristni, venjuleg kristni, er enn klikkaðri. Samkvæmt henni er guð „skapari himins og jarðar“. Þegar Helgi Hóseason spyr: „Hver skapaði sýkla?“, þá svarar kristni: „Guð“. Ef Helgi spyrði út í sníkjudýr eins og plasmodium falciparum sem drepur 1-3 milljónir manna árlega (aðallega börn!), þá væri svarið: „Guð“.

Þegar ríkiskirkjuprestar eru spurðir að því hvers vegna algóði guðinn þeirra drepur að minnsta kosti hátt í milljón börn árlega, þá er svarið: "Ég veit það ekki":

Samkvæmt þessu verður að ætla að Guð hafi skapað sýkla. Um þetta gildir svo með svo margt annað í kristinni guðfræði að hinn hinsti tilgangur þess sem æðstur er og hæstur er okkur hulinn meðan við göngum um hér í þessum heimi.#


mbl.is Svínaflensan borin saman við spænsku veikina 1918
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af sagnfræði trúvarnarprestsins.

Eins og ég benti á í síðustu færslu, þá virðist ríkiskirkjupresturinn Gunnar Jóhannesarson vera farinn að lesa efni frá bandarískum bókstafstrúarmönnum. Eitt af vandamálunum sem þeir og Gunnar þurfa að leysa er það að ef við nálgumst guðspjöllin eins og sagnfræðingar nálgast aðrar heimildir, þá verður ljóst að furðusögurnar í guðspjöllunum eru einmitt það, sögur. Þess vegna vilja bókstafstrúarmennirnir og Gunnar meina að guðspjöllin séu alveg ótrúlega sérstök rit :

Við megum ekki líta framhjá því að þau rit sem greina frá þeim atburðum sem kristin trú grundvallast á eru söguleg rit; rit sem greina frá raunverulegum persónum og stöðum sem lesa má um í öðrum heimildum; rit sem voru skrifuð eigi síðar en tveimur kynslóðum eftir að þeir atburðir gerðust sem frá er greint. Þegar horft er til þess hversu stuttur tími leið á milli tilkomu ritanna sjálfra og þeirra atburða sem þau greina frá er ljóst að engin rit fornaldar jafnast á við rit Nýja testamentisins. Margt af því sem þau greina frá hefur líka verið staðfest á sagnfræðilegum forsendum og í krafti fornleifarannsókna. Þetta gerir allt tal um goðsögur ótrúverðugt. #

Einmitt, þannig að ef þú vilt halda því fram að saga af fjöldaupprisu sé helgisaga (held að það sé réttara en goðsaga), þá áttarðu þig greinilega ekki á því að ritið greinir frá raunverulegum stöðum og að það var ekki skrifað "tveimur kynslóðum eftir að þeir atburðir gerðust sem frá er greint"! Whistling

Ég held að flestir átti sig á því hversu heimskuleg svona rök eru, en það er skemmtilegra að hrekja þetta með því að benda á ógöngurnar sem Gunnar lendir í með svona aðferðafræði.

Ef Gunnar vill vera samkvæmur sjálfum sér þá þarf hann nefnilega líka að trúa öðrum furðusögum sem eru í betri heimildum en rit Nýja testamentisins. Sagnaritarinn Jósefus skrifar kringum árið 75 um uppreisn gyðinga og undanfara hennar. Tíu árum áður en hann skrifar segir hann til dæmis að kálfur hafi fætt lamb og hann segist hafa afskaplega góðar heimildir:

 

Besides these, a few days after that feast, on the one and twentieth day of the month Artemisius, [Jyar,] a certain prodigious and incredible phenomenon appeared: I suppose the account of it would seem to be a fable, were it not related by those that saw it, and were not the events that followed it of so considerable a nature as to deserve such signals; for, before sun-setting, chariots and troops of soldiers in their armor were seen running about among the clouds, and surrounding of cities. #

Kíkjum á það hvernig Jósefus kemur út í samanburði við guðspjöllin ef við notum punktana sem Gunnar nefnir:

  1.  Söguleg rit: Rit Jósefusar hefur ýmis einkenni sagnarits, elsta guðspjallið hefur þau ekki og virðist stundum eiga að vera augljós skáldskapur.
  2. Greina frá raunverulegum persónum og stöðum: Já, bæði ritin minnast til dæmis á Jerúsalem og Pílatus.
  3. Skrifuð eigi síður en tveimur kynslóðum eftir að atburðirnir eiga að hafa gerst: Jósefus er samtímaheimild, atburðirnir sem ég vitna í eiga að hafa gerst um það bil tíu árum fyrir ritunartímann. Markúsarguðspjall er talið vera skrifað í fyrsta lagi í kringum 70, fjörutíu árum eftir atburðina
  4. Margt hefur verið staðfest af sagnfræði og fornleifafræði: Efast um að þetta gildi frekar um guðspjöllin heldur en Jósefus.

Þannig að ef við beitum aðferðafræðinni hans Gunnars þá er allt tal um að sögurnar af kálfinum sem fæddi lamb og fljúgandi stríðsvögnunum séu goðsögur "ótrúverðugt".

Svo ekki sé minnast á lækningakraft munnvatns rómverska keisarans, skyggnigáfu stofnanda Vísindaspekikirkjunnar #, allar kraftaverkasögur Sai Baba og fleira, allt sem hefur betri heimildir en furðusögur guðspjallanna.

Stórkostleg uppgötvun prests

Þegar ég les nýlegar predikanir ríkiskirkjuprestsins Gunnar Jóhannessonar, þá er augljóst að hann er búinn að lesa eitthvað af efni frá bókstafstrúuðum trúvarnarmönnum frá Bandaríkjunum. Þeir eru ekki beint heiðarlegustu mennirnir í rannsóknum á frumkristni og ég býst við því að þaðan hafi hann fundið þessa ótrúlegu fullyrðingu sem er að finna í nýjustu ræðunni hans:

Tóma gröfin er staðfest í mörgum ólíkum heimildum, sem sumar hverjar má dagsetja innan við 10 árum eftir krossfestingu Jesú. #

Sannleikurinn er auðvitað sá að það er fyrst minnst á meintu tómu gröf Jesú í Markúsarguðspjalli, sem er talið vera ritað í fyrsta lagi í kringum 70, fjörutíu árum eftir krossfestingu Jesú.


Með kærleikann að vopni

Gunnar Jóhannesson er einn uppáhalds presturinn minn. Ástæðan er sú að ólíkt flestum öðrum ríkiskirkjuprestum virðist hann þora að tjá sig opinberlega um trúmál, en reyndar hefur hann ekki svarað mér þegar ég hrek skrifin hans. Þegar maður skoðar málflutning Gunnars, þá er kannski skiljanlegt að hinir prestarnir þori ekki að tjá sig um gagnrýni á kristna trú, svörin hans eru stundum svo ótrúlega klikkuð. Ég rakst á fínt dæmi áðan, Gunnar er að útskýra fyrir okkur hvers vegna kærleiksríkur guð virðist oft á tíðum vera geðsjúkur óþokki í biblíunni;

Enda þótt ýmsar frásagnir Gamla testamentisins séu óþægilegar og jafnvel skelfilegar eins og þær standa þá þarf ekki að taka þær beinlínis bókstaflega til þess að átta sig á einmitt þeim boðskap þeirra. Frásagan af Nóaflóðinu og tortímingu Sódómu og Gómorru koma til hugar. Þar er það ekki Guð sem kemur hinu illa til leiðar, hann er sá sem bregst við hinu illa. Slíkar frásögur segja meira um illsku manninn heldur en Guðs. Í þessu samhengi má rifja upp orð Páls postula í bréfi hans til Rómverja.

"Reiði Guðs opinberast af himni yfir öllu guðleysi og illsku manna sem kefja sannleikann með ranglæti. Það sem vitað verður um Guð blasir við þeim. Guð hefur birt þeim það. Ósýnilega veru hans, eilífan mátt og guðdómstign má skynja og sjá af verkum hans allt frá sköpun heimsins. Því eru mennirnir án afsökunar. Þeir þekktu Guð en hafa samt ekki tignað hann sem Guð né þakkað honum heldur fylltu þeir hugann af hégiljum og skynlaust hjarta þeirra hjúpaðist myrkri." (Rm 1.18-21)

Guð vill útrýma hinu illa og berst fyrir hinu góða. En það gerir hann með kærleikann að vopni og leiðarljósi. #
 

Laun guðs í „Nóaflóðinu og tortímingu Sódómu og Gómorru“ var auðvitað sú að drepa nánast alla, en hann gerði það samt með „kærleikann að vopni og leiðarljósi“.


Hagsmunir ríkiskirkjunnar og ruglaðir prestar

Samkvæmt ríkiskirkjuprestinum Bjarna Karlssyni hefur ríkiskirkjan enga hagsmuni!

Í framhaldi af heilmikilli umræðu hér á Eyjunni um stöðu Þjóðkirkjunnar þá finnst mér brýnt að segja það að Þjóðkirkjan hefur ekki hagsmuni. 

Kristin kirkja á enga hagsmuni vegna þess að hún er ekki til sjálfrar sín vegna. Að því leyti sem kirkja gengur upp í sjálfri sér er hún ekki kristin. #

 „Rökin“ hans Bjarna eru sem sagt þau að kirkja sem er fullkomlega kristin hefur enga hagsmuni. Ef hann vill segja að af þessu leiðir að  ríkiskirkjan hafi enga hagsmuni, þá verður hann að halda því fram að ríkiskirkjan sé fullkomlega kristin. 

En það er lítið varið í þessu rök þar sem að ríkiskirkjan hefur augljóslega alveg helling af hagsmunum. Hún hefur hagsmuni af því að nýfædd börn séu sjálfkrafa skráð í trúfélag móður (þannig fær hún sóknargjöldin). Þegar út í það er farið hefur hún hagsmuni af sóknargjaldakerfinu sjálfu. 

Persónulega held ég að Bjarni Karlsson sé bara svo svakalega ruglaður í ríminu að hann trúir því virkilega að ríkiskirkjan hafi enga hagsmuni.


Ekkert fyndið við skopmynd ársins

Myndin af Svarthöfða í prestagöngu var valin skoplegasta mynd ársins. Mér finnst það undarlegt, því eins og ríkiskirkjupresturinn og Wikipediu-fræðingurinn Þórhallur Heimisson benti á, þá er þetta í raun og veru næsti bær við það að ráðast á börn sem eru á leið í sunnudagaskólann:

Nú er slík friðhelgi rofin. Þó tilburðir Vantrúarmannsin í gerfi Svarthöfða hafi verið hlægilegir, þá réðst hann að friðhelgi og trú yfir 90% landsmanna þegar hann hæddist að krossinum og brá fyrir hann sverði sínu. Og geta menn treyst því að næst verði ekki vegið að prestum og kirkjufólki með alvarlegri hætti? Eða fólki úr öðrum söfnuðum? Eiga múslímar á hættu aðkast við föstudagsbænir sínar? Verður sumarblóti ásatrúarmanna hleypt upp?Er á það hættandi að senda börnin ein í sunnudagaskólann næsta haust?Verður setið fyrir þeim?

mbl.is Kristinn á mynd ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð breyting

Að barn sé sjálfkrafa skráð í trúfélag móður við fæðingu er álíka gáfulegt og að skrá barn sjálfkrafa í stjórnmálaflokk móður við fæðingu. Þetta gengur augljóslega þvert á hugmyndir manna um jafnrétti.

Ástæðan fyrir því að kerfið er svona er auðvitað sú staðreynd að ríkiskirkjan græðir á þessu. Ef fólk þyrfti að taka meðvitaða ákvörðun um að ganga í trúfélag, þá myndi verða enn örari hlutfallsleg fækkun í henni og það þýðir minni pening fyrir ríkiskirkjuprestana.

Mér finnst áhugavert að enginn af þessum ríkiskirkjuprsestum hafi tjáð sig um þessa frétt. Síðast þá kom Kristján Björnsson með afskaplega heimskuleg mótmæli. Í miðjum umræðum hafði greyið presturinn ekki tíma til þess að útskýra hvað hann ætti við (þó hann hefði nægan tíma til þess að blogga). Ég svaraði bullinu hans auðvitað hérna. Ég á bágt með að trúa öðru en að þessi „rök“ sem blessuð gungan kemur með séu fyrirsláttur. Þessum gáfumanni fannst nefnilega ekki líklegt að peningasjónarmið réðu ferðinni þar sem sóknargjöld koma ekki til fyrr en við sextán ára aldur. Maðurinn áttar sig greinilega ekki á því að nýfædd börn verða flest sextán ára.

Ef starfsmenn ríkiskirkjunnar eiga eftir að mótmæla þessu, þá má búast við einhverjum fáránlegum tilbúnum rökum (eins og hjá Kristjáni). En ég veit að þeir hafa áhyggjur af því að þetta eigi eftir að þýða fækkun í  ríkiskirkjunni.


mbl.is Endurskoða sjálfkrafa skráningu í trúfélög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Játning þjóðkirkjuprests

Fyrir nokkrum dögum síðan skrifaði ríkiskirkjupresturinn Baldur Kristjánsson athugasemd við færslu mína um  játningu Einars Sigurbjörnssonar. Hérna er áhugaverði hluti athugasemdarinnar:

Jesús talar þannig að hann búist við því að hinir síðustu tímar séu nálægir. Hann meira að segja reiknar með því að samtíðarmenn hans muni upplifa þá tíma, sem rætist ekki, ekki í fljótu bragði séð. Þetta er sannarlega umhugsunar virði.

Nú væri gaman að vita hvort Baldur telji að Jesús hafi ekki sagt þessi ummæli sem honum eru eignuð í guðspjöllunum, það er að segja hvort guðspjöllin séu óáreiðanleg, eða þá hvort Jesús hafi bara verið falsspámaður.

Þetta er að ég held í fyrsta sinn sem ég sé ríkiskirkjuprest minnast á þessar vandræðalegu spár Jesú og ég er ekki bjartsýnn á að Baldur muni ræða meira um þetta, ríkiskirkjuprestar virðast ekki hafa mikinn áhuga á umræðum um kristna trú.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband