Að slíta úr samhengi

Þegar vísað er á ljótu hluta biblíunnar, þá eru viðbrögð trúmanna oft þau að viðkomandi texti hljóti að vera slitinn úr samhengi. 

Þegar atvinnutrúmenn fjalla um biblíuna, þá reyna þeir eftir bestu getu að benda á fallegu hlutana, og ef það dugar ekki, þá slíta þeir ljótu hlutina úr samhengi og láta sem þeir séu fallegir.

Dæmi um þetta er nýleg predikun ríkiskirkjuprestsins Bjarna Karlssonar. Í henni segir Bjarni að í 25. kafla þriðju Mósebókar sé "lýst með all nákvæmum hætti hvernig fagnaðarárið skuli á hálfrar aldar fresti valda því að allt það fólk sem komist hefur í skuldir, misst land sitt og jafnvel sjálft orðið ánauðugir þrælar skuli fá frelsi og fara heim til ættar sinnar." Bjarni útskýrir að hugsunin á bak við textann sé sú að "enda þótt mannanna láni sé misskipt er sanngjarnt að alltént einu sinni á hverri mannsævi geti maður vænst þess að mega líta upp og finna sig frjálsan í eigin tilveru." Loks segir Bjarni að þarna er "staðfest að lotning fyrir Guði birtist" meðal annars "í sáttmála manna í millum að við beitum ekki hvert annað valdi."

Hérna kemur textinn sem að  Bjarni vitnaði í í miðri lofræðunni, en ég ætla að bæta örlitlu við, Bjarni hætti nefnilega í versi 43, en ég ætla að leyfa versum 44-46 að fljóta með feitletruð.

 

Þegar landi þinn lendir í kröggum og selur sig þér mátt þú ekki láta hann vinna þrælavinnu. Hann á að vera hjá þér eins og daglaunamaður eða gestur og vinna hjá þér til næsta fagnaðarárs. Þá skal hann fara frá þér frjáls maður ásamt börnum sínum og snúa aftur til ættmenna sinna og jarðeignar forfeðra sinna. Vegna þess að þeir eru þrælar mínir, sem ég leiddi út úr Egyptalandi, má ekki selja þá mansali. Þú skalt ekki beita þá valdi. Sýndu Guði þínum lotningu. Viljir þú fá þér þræla og ambáttir, þá skuluð þér kaupa þræla og ambáttir af þjóðunum, sem umhverfis yður búa. Svo og af börnum hjábýlinga, er hjá yður dvelja, af þeim skuluð þér kaupa og af ættliði þeirra, sem hjá yður er og þeir hafa getið í landi yðar, og þau skulu verða eign yðar. Og þér skuluð láta þá ganga í arf til barna yðar eftir yður, svo að þau verði eign þeirra. Þér skuluð hafa þau að ævinlegum þrælum. En yfir bræðrum yðar, Ísraelsmönnum, skuluð þér eigi drottna með hörku, einn yfir öðrum.  (3Mós 25:39-46) 

 

Textinn fjallar þannig klárlega ekki um að "allt fólk" eigi að losna úr þrældómi og fjallar alls ekki um að mannfólk eigi ekki að "beita ekki hvort annað valdi". Þvert á móti fjallar textinn um að það sé í lagi að beita annað fólk valdi, það er í fínasta lagi að hafa annað fólk sem þræla og "drottna með hörku" yfir því, svo lengi sem það eru útlendingar!

Þetta eru ótrúlega óheiðarleg vinnubrögð hjá honum Bjarna.  


Páfinn, frillulífi og prestar

Mér finnst mjög áhugavert að páfinn skuli einmitt biðja "biskupa kaþólsku kirkjunnar að ítreka við söfnuði sína að kynlíf fyrir hjónaband sé alvarleg synd og grafi undan stöðugleika samfélagsins."

Ég skrifaði nefnilega nýlega grein á Vantrú ("Er frillulífi enn synd?"), þar sem ég velti nákvæmlega þessu fyrir mér. Það er nefnilega þannig að kirkjunnar menn hafa nánast alla tíð kennt það að allt kynlíf utan hjónabands væri synd.

Mér þætti gaman ef prestar ríkiskirkjunnar myndu geta sagt það hreint út hvort að sú sé enn raunin, eða þá hvort að allt í einu hafi kristið siðgæði breyst, einmitt í takt við viðhorf samfélagsins.

Á heimasíðu DV er frétt um sömu ræðu páfans. Það sem vakti athygli mína þar er ekki fréttin, heldur athugasemdir tveggja presta ríkiskirkjunnar við þá frétt:

sorglegt 

Nú sá ég Ratzinger ekki hóta neinum eldi og brennisteini, en hann fordæmdi vissulega kynlíf utan hjónabands. En vitið þið hver stundaði það að hóta eldi og brennisteini? Jesús!

Hérna eru til dæmis ummæli sem Jesús lét falla í "þvertrúarlegu samtali":

 

Höggormar og nöðru kyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm? (Mt 23:33)

 

Hérna er Jesús að fræða áheyrendur sína um kærleika guðs:

 

Ég skal sýna yður, hvern þér eigið að hræðast. Hræðist þann, er hefur vald að deyða og að því búnu varpa í helvíti. Já, ég segi yður, hræðist hann. (Lk 12:5)

 

Hérna er Jesús að tjá ást sína á þeim sem hafna honum:

 

Og taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi eða þeirri borg og hristið dustið af fótum yðar. Sannlega segi ég yður: Bærilegra mun landi Sódómu og Gómorru á dómsdegi en þeirri borg. (Mt 10:14-16)

 

Og Páll postuli og aðrir höfundar bréfa í Nýja testamentinu voru ekki heldur feimnir við að "fordæma og hóta eldi og brennisteini". Páfinn er satt best að segja afskaplega ljúfur og varfærinn í samanburði við Jesús, Pál og félaga. Ætli þessir prestar séu tilbúnir að vera samkvæmir sjálfum sér og segja að ummæli Jesú í guðspjöllunum séu "Sorgleg"? 


mbl.is Varar við hjónabandi samkynhneigðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjöf Rauða kversins ekki brot á mannréttindum

Alveg óháð því hvort það séu brot á mannréttindum eða ekki að stunda trúboð í skólum, þá er ljóst að trúboð á ekki heima í opinberum skólum.

Það er nefnilega eitt atriði sem stuðningsmenn trúboðs vilja oft gleyma: Það að eitthvað sé ekki mannréttindabrot, þýðir ekki að við eigum að leyfa það í skólum.

Væri það til dæmis mannréttindabrot ef kennari dreifði áróðursbæklingum frá stjórnmálaflokknum sínum til barna? Eflaust ekki. En finnst nokkrum manni að það ætti að vera leyft? 


mbl.is Gjöf NT ekki brot á mannréttindum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tal um félagsgjöld einber blekking

Pétur heldur því fram að sóknargjöld séu "í eðli sínu félagsgjöld". Þetta er rangt.

Ég held að það sé frekar óumdeilt að félagsgjöld séu gjöld sem að félag fær frá félögum sínum. Þetta á ekki við sóknargjöld. Sóknargjöld eru ekki innheimt af neinum, þetta er peningur sem að ríkiskirkjan fær út frá þeim peningum sem fást með innheimtum tekjuskatti, og tekjuskattur er innheimtur af fólki alveg óháð félagsaðild.

Ímyndum okkur að ég myndi stofna skákfélag. Ríkið tæki þá ákvörðun að gefa mér milljón krónur árlega fyrir hvern þann sem skráir sig í félagið. Svona eru sóknargjöld. Dettur nokkrum í hug að neita því að þetta séu framlög frá ríkinu og að í raun sé um félagsgjöld að ræða?


mbl.is Tal um sparnað einber blekking
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skráning í stjórnmálaflokka

Þetta er breyting til batnaðar, en af hverju er ekki þessi sjálfkrafa skráning nýfæddra barna í trúfélög algerlega felld niður? 

Ímyndum okkur bara hvort að okkur þætti sambærilegt kerfi við hæfi ef um stjórnmálaflokka væri að ræða. Ef báðir foreldrarnir eru skráðir í Sjálfstæðisflokkinn, þá myndi barnið þeirra vera sjálfkrafa skráð í Sjálfstæðisflokkinn! 


mbl.is Ótilgreind staða við fæðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg elska

Þegar trúmenn reyna að koma á samræmi á milli hinna ýmsu trúarkenninga sem þeir aðhyllast þá verður útkoman oft frekar óhugnaleg.

Nýlega var ég að rökræða við nýjasta trúvarnarmanninn hérna á Moggablogginu um hugmyndir hans um að aðeins trúmenn gætu aðhyllst algildar siðareglur, það er að segja siðareglur sem gilda alltaf, alveg óháð ástæðum.

Í umræðunum sagði hann að ein þessara reglna væri sú að maður ætti að elska náungann eins og sjálfan sig.

Allt í lagi. Ég spurði þá hvort að það hafi ekki verið rangt af Jósúa og hans mönnum að ráðast inn í Kanaanland og drepa alla þá íbúa landsins sem þeir gátu, konur, menn og börn.

Honum fannst það ekki vera rangt (sjá athugasemd 136). Þannig að það fellur undir að "elska náungann eins og sjálfan sig" að drepa hann og alla fjölskyldu hans. Þetta finnst mér vera mjög óhugnalegt.

Svona tal í anda 1984 minnir mig á þegar ríkiskirkjuprestur talaði um að guðinn hans hefði sent Nóaflóðið og eytt Sódómu og Gómorru "með kærleikann að vopni".


Barnaskapur og ofbeldi gegn börnum

Ég skrifaði nýlega grein á Vantrú, Vöndur agans, í tilefni þess að kristin, bandarísk hjón börðu eitt barnið sitt til bana. Í greininni bendi ég einfaldlega á að biblían hlýtur að hafa verið stór áhrifavaldur. Þar er nefnilega hvatt til þess að "berja vitið í börn". Hérna eru tvö dæmi:

Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn, en sá sem elskar hann, agar hann snemma. (Okv 13.24)

Aga þú son þinn, því að enn er vonm en farðu eigi svo langt, að þú deyðir hann (Okv 19.18)

Ríkiskirkjupresturinn Þórhallur Heimisson kom með athugasemd og sagði: "Ótrúlega barnaleg grein eins og Hjalta Rúnari er von og vísa. Einföld, þröngsýn og barnaleg." Þegar ég bað Þórhall um að koma með efnislega gagnrýni þá kom hann með tvo punkta:

1. Þessi vers ber að lesa í sögulegu og menningarlegu samhengi.

Ég get alveg tekið undir það. Þegar við lesum eitthvað fornrit eða skoðum einhver ummæli fornaldarmanna, þá eigum við alls ekki að gera ráð fyrir því að viðkomandi aðili hafi hugsað eins og 21. aldar maður.

Þegar ég bað Þórhall um að útskýra hverju þessi punktur breytti þá var þetta svarið: "Hið sögulega samhengi breytir að sjálfsögðu ekki því að þarna er verið að mæla með líkamlegum refsingum barna. En hið sögulega samhengi minnir okkur á að þegar þessir textar voru ritaðir þótti slíkt sjálfsögð uppeldisaðferð - og þótti það víst hér á landi þar til fyrir ekki svo mörgum árum."

Ég get alveg tekið undir þetta. Það kemur manni alls ekki á óvart að fornaldarmenn hafi talið þetta vera "sjálfsagða uppeldisaðferð". Þetta breytir samt auðvitað ekki merkingu textanna, og því skil ég ekki hvers vegna Þórhallur var á annað borð að koma með þennan punkt.

2. Þessi vers ber að lesa "í ljósi Krists"

Þórhallur segist geta séð að Jesús hafi verið á móti líkamlegum refsingum barna út frá ummælum Jesú á borð við: "Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig" og "Allt sem þér viljið að aðrir gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra".

Gallinn við þessi rök Þórhalls er sá að það er ekki hægt að draga ályktanir út frá þessum almennu reglum um eitthvað jafn þröngt og hvort það sé rétt að beita líkamlegum refsingum í uppeldisskyni, án þess að gefa sér aðrar forsendur.

Svo að ég einblíni á fyrri regluna, þá þyrfti röksemdafærslan að vera einhvern veginn svona:

1. Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig.

2a. Að berja börn í uppeldisskyni er ekki elskulegt.

-> Maður á ekki að berja börn í uppeldisskyni.

Maður getur ekki tileinkað Jesú niðurstöðuna af því að forsendu 2a er hvergi að finna í orðum Jesú. Maður gæti alveg eins komið með þessa röksemdafærslu:

1. Þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig.

2b. Að berja börn í uppeldisskyni er elskulegt.

-> Maður á að berja börn í uppeldisskyni.

Ef við skoðum Orðskviðina, þá sjáum við einmitt að þar er forsenda 2b boðuð: "Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn, en sá sem elskar hann, agar hann snemma. (Okv 13.24)".

Af þessu er ljóst að 1 dugar eitt og sér alls ekki til að álykta eitthvað um réttmæti þess að berja börn í uppeldisskyni. "Ljós Krists" dugar ekki til þess að "trompa" þessi ljótu vers í Orðskviðunum.

Ef við förum eftir fyrri punktinum hans Þórhalls, að lesa texta í sögulegu og menningarlegu samhengi, hvort ætli fornaldarmaðurinn Jesús hafi aðhyllst skoðun fornaldarmanna og langflestra manna upp að síðari hluta 20. aldar (2b) eða skoðun nútímamanna (2a)? Mér finnst miklu líklegra að fornaldarmaðurinn Jesús hafi talið það vera barninu fyrir bestu að "berja vit í það".

Ég reyndi að útskýra þetta fyrir Þórhalli í athugasemdum við greinina, en ég fékk engin svör við þessu, heldur bara ásakanir um að ég væri barnalegur.

Ég held að gallinn í hugsanagangi Þórhalls (og langflestra "aðdáenda" Jesú) sé sá að hann er í raun og veru að beita þessari röksemdafærslu:

1. Jesús var æðislegur og frábær gaur.

2. Æðislegum og frábærum gaurum finnst rangt að berja börn í uppeldisskyni.

-> Jesú fannst rangt að berja börn í uppeldisskyni.

Sú hugmynd að Jesús hafi verið æðislegur og frábær gaur er hugmynd sem er hamrað inn í hausinn á fólki (krökkum) af kirkjunnar fólki og þess vegna hefur það mynd af Jesú sem fullkomnum manni. Og svona æðislegur gaur eins og Jesús hlýtur að hafa verið á móti því að berja börn í uppeldisskyni!

Það er að minnsta kosti ljóst að bandarísku foreldrarnir sem börðu barnið sitt til bana, eins og flest allt kristið fólk í sögunni, hefur ekki séð neina mótsögn í því að elska náungann og að berja börn í uppeldiskyni.


Þjóðkirkjan er ekki fyrir alla

Mér finnst grein dagsins á Vantrú vera afskaplega merkileg, lesið hana endilega: Jón eða séra Jón

Annars vegar höfum við fagran áróður frá ýmsum starfsmönnum eða velunnurum ríkiskirkjunnar um að hún sé fyrir alla alveg óháð því hvort þeir séu meðlimir eða ekki, en hins vegar höfum við staðreyndir málsins, að kristin brúðhjón (mormónar) fengu ekki að nota kirkju af því að trúfélagsaðild þeirra var ekki rétt.

Í Vantrúargreininni er síðan minnt á eldra mál þar sem barn sem var ekki skráð í ríkiskirkjuna fékk ekki að fermast.

Mér finnst sjálfsagt að trúfélög séu ekki skylduð til þess að sinna fólki sem er ekki meðlimir í viðkomandi trúfélagi, en starfsmenn ríkiskirkjunnar ættu þá að viðurkenna það opinberlega í staðinn fyrir að koma með ósannan áróður um annað, sérstaklega ekki þegar þessi ósannindi eru notuð til að reyna að rökstyðja forréttindastöðu ríkiskirkjunnar.


Efasemdapresturinn

Í Fréttatímanum var nýlega viðtal ríkiskirkjuprestinn Sigríðu Guðmarsdóttur. Í viðtalinu var áhugaverð efnisgrein:

Sigríður fór í guðfræðideild Háskólans úr úr MR, alveg bandbrjáluð. Hún var tvítug og tilfinningarík. Hún grét yfir fréttum af hungursneyð í Eþíópíu og fannst eins og barnatrúin væri að svíkja sig. Þessar myndir í sjónvarpinu sögðu henni að heimurinn væri einn stór skítur. Allt sem hún hafði lært um þennan almáttuga og góða Guð í KFUM og KFUK virtist vera hræsni. Þessi efi lét fyrst á sér kræla í menntaskóla, þar sem hún skartaði svörtu naglalakki og hermannajakka, og efinn hefur elt hana æ síðan.

Þetta eru mjög skiljanlegar efasemdir, enda passa augljósar staðreyndir engan veginn við tilvist algóðs og almáttugs guðs. Það hefði verið gaman að reyna að fá einhvers konar svar frá Sigríði við þessum rökum.

En hún ákvað að gerast ríkiskirkjuprestur þrátt fyrir efasemdirnar, en sem prestur, þá þarf hún að gangast undir játningar ríkiskirkjunnar, og þar stendur meðal annars þetta í aðaljátningunni: "[guð er] ómælanlegur að mætti, visku og gæsku" # Ef hún trúir þessu ekki, og ég efast stórlega um að hún geri það, þá finnst mér það vera mjög mikil hræsni að gerast samt prestur.

Ástæðan fyrir því að ég geti vel trúað því að hún trúi þessu ekki er að þegar ég og Biggi tókum viðtal við hana fyrir nokkrum árum [fyrri og seinni hluti] þá fannst mér nokkuð ljóst að hún trúir engan veginn játningum kirkjunnar þegar það kemur að fórnardauða Jesú (ef ég man rétt þá fannst henni þær kenningar eiginlega fáránlegar).

En hver veit, kannski trúir hún þessu í alvörunni (ég efast stórlega um það), og ef svo er, þá hefði verið gaman að fá svar hjá henni, prestar virðast nefnilega hafa afar fá svör.


Jesús brennir ekki fólk

Í predikun helgarinnar fengu ríkiskirkjunprestar "auðveldan" texta til að fjalla um. Hann var auðveldur vegna þess að þarna er Jesús að skamma lærisveinana fyrir að vilja töfra fram eld af himnum og brenna þorp sem höfnuðu þeim (Lk 9.51-56). Ríkiskirkjupresturinn Sigurður Árni minntist aðeins á þetta:

Og þá erum við komin að Biblíutextanum, sem lesinn er í öllum messum þessa dags. Guðspjallið er í samræmi við frítíma og reisur út á landi - það er ferðasaga. Jesús var á ferð norðan úr landi og á leið í höfuðborgina. Margt fór öðru vísi en ferðafélagar hans vildu. Úr hópnum hljómuðu spurningar: “Hvað finnst þér nú um þetta lið, sem vill ekki taka á móti okkur, þessa sveitamenn, sem vilja ekki leyfa okkur að gista? Væri ekki réttast að refsa þeim harðlega, bara brenna bæinn?” Jesús brást skýrt við: “Nei” sagði hann. “Að brenna fólk er ekki verkefni Guðsríkisins. Að meiða fólk er ekki hlutverk mannssonarins, heldur að hjálpa því.” Vegna þessarar mannelsku Jesú hefur það æ síðan verið hlutverk kristinna manna og þar með kirkjunnar – að efla fólk en ekki skemma líf þess.

Sigurður telur það vera "mannelsku" að vilja ekki brenna og meiða fólk. Það er merkilegt, þar sem að annars staðar segir Jesús einmitt ætla að gera það:

[Jesús er að tala] Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Mt 13.41-42)

Ef hin ummælin voru vegna "mannelsku" er það þá ekki klárlega "mannvonska" að segjast ætla að brenna fólk?

Í einni af þeim játningum, sem Sigurður Árni játaðist undir þegar hann gerðist prestur, segir að við endurkomu sína muni Jesú "[fordæma guðlasa menn og djöflana] að þeir kveljist eilíflega". Seinna í sömu grein eru síðan þeir, sem halda því fram að endir verði bundinn á þessa refsingu, fordæmdir. Er þetta ekki mannvonska?

Ég efast um að Sigurður Árni muni koma með málefnalegt svar, oftast þegar ríkiskirkjuprestum er bent á óþægileg vers, þá er svarið ekki mjg vitrænt (nýleg viðbrögð Bjarna Karlssonar er gott dæmi).


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband