28.8.2009 | 03:36
Bara ef
Bara ef það væri til fólk sem hefði einhvers konar yfirnáttúrulegan hæfileika sem gæti hafa séð hvar stelpan var í haldi. Nei, miðlar eru auðvitað ekki til.
En bara ef það væri til einhvers konar andavera sem vissi af stelpunni og hefði annað hvort getað bjargað henni eða látið lögregluna vita af þessu.
Hvernig læt ég, guð er til, hann er bara svo dularfullur. Eða þá að það hefði einhvern veginn truflað frjálsan vilja hennar að bjarga henni. Eða þá að þetta er allt í lagi af því að Jesús þjáðist svo mikið á krossinum (já, ég hef heyrt þessa afsökun!). Eða þá að þetta er allt í lagi af því að henni mun líða vel í himnaríki. Eða þá...
![]() |
Átti 2 börn með ræningjanum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.8.2009 | 23:02
Svanur og jafnrétti
Í umræðum hjá Mofa við bahæjann Svan Gísla komu tengsl trúar og siðfræði til umræðu. Ég hélt því fram að trúarbrögðin hefðu einungis fram að færa vísanir til lélegs yfirvalds, gamalla bóka eða manna (oftast dauðra) sem segjast vera sérstakir, betri en aðrir.
Einn þessara manna var stofnandi bahæjatrúarbragðanna. Hann ákvað að konur væru ekki gjörgengar í æðstu stofnun bahæjanna. Heimasíða bahæja á Íslandi hefur þetta að segja um þessa mismunum:
Þó að bæði karlar og konur séu jafn rétthá til að þjóna á kjörnum eða útnefndum stofnunum trúarinnar, þá eru aðeins karlar kjörgengir til Allsherjarhúss réttvísinnar.
Bahá'u'lláh setti sjálfur þetta ákvæði, og það er því óbreytanlegt viðhorf í bahá'í trú, rétt eins og það er á ábyrgð allsherjarhússins að stuðla að fullu jafnrétti kynjanna. Bahá'u'lláh gaf enga skýringu á þessu fyrirkomulagi í stjórnkerfinu. Af því leiðir að þó að einstakir átrúendur velti ástæðunum fyrir sér, þá er engin opinber skýring til.Það eina, sem hægt er að segja í dag, er að þetta sé trúaratriði. 'Abdu'l-Bahá sagði að vísdómurinn á bak við þetta ákvæði myndi skýrast í framtíðinni. Hann sagði að áður en langt um líður, verður það ljóst eins og sól í hádegisstað.
Ég minntist á þessa mismunum í umræðunum hjá Mofa, Svanur hafði þetta að segja:
Hvað veru kvenna á AHR snertir hefur það ekkert með jafnrétti að gera eins og margir óvelviljaðir gagnrýnendur trúarinnar vilja vera láta, heldur hlutverk og eðli stofnunarinnar sjálfrar. Það er umræða sem ég mundi gjarnan vilja taka, en varla á þessum þræði.
Ég leyfi mér að umorða þetta svona: Það hefur ekkert með jafnrétti að gera að konur eru ekki kjörgengar í æðstu stofnun okkar. Einmitt. Útskýrðu endilega hvernig það gengur upp Svanur!
21.8.2009 | 14:13
Ég er víst níðingur
Í gær leit út fyrir að ég myndi lenda í skemmtilegum rökræðum um Nýja testamentið við ríkiskirkjuprestinn Þórhall Heimisson á blogginu hans. En Þórhallur vildi skyndilega ekki ræða meir um Nýja testamentið í færslu um biblíuna og fór þess í stað að ræða um allt annað.
Þetta hafði Þórhallur að segja um mig:
Níðið er ykkar eina innlegg í samfélagið. Ekert gott látið þið af ykkur leiða, engum hjálpið þið, engann huggið þið á erfiðum tímum.
Níðingar. Af ávöxtunum þekkist þið. [athugasemd 14]
18.8.2009 | 12:13
Meðtaktu kærleiksboðskapinn eða brenndu!
Ég hef alltaf gaman af því að lesa það sem ríkiskirkjupresturinn María Ágústsdóttir skrifar. Um helgina þurftu greyið prestarnir að fjalla um afskaplega vandræðalegan texta úr Matteusarguðspjalli. Þarna virðist besti vinur barnanna vera reiður út í nokkrar borgir og segir að þær muni brenna í helvíti:
Þá tók Jesús að ávíta borgirnar, þar sem hann hafði gjört flest kraftaverk sín, fyrir að hafa ekki gjört iðrun. "Vei þér, Korasín! Vei þér, Betsaída! Ef gjörst hefðu í Týrus og Sídon kraftaverkin, sem gjörðust í ykkur, hefðu þær löngu iðrast í sekk og ösku. En ég segi ykkur: Týrus og Sídon mun bærilegra á dómsdegi en ykkur. Og þú Kapernaum. Verður þú hafin til himins? Nei, til heljar mun þér steypt verða. Ef gjörst hefðu í Sódómu kraftaverkin, sem gjörðust í þér, þá stæði hún enn í dag. En ég segi yður: Landi Sódómu mun bærilegra á dómsdegi en þér." (Mt 11.20-24)
María hefur þetta að segja um þessi vers:
Sömu sögu mátti segja um þær borgir þar sem Jesús hafði gert flest kraftaverk. Fólkið hafnaði kærleiksboðskap hans, leyfði Guði ekki að hlú að sér,.... #
Ef þið hafnið kærleiskboðskap guðs og leyfið honum ekki að hlúa að ykkur, þá mun ykkur vera steypt í helvíti og þar munuð þið brenna!
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem ríkiskirkjuprestur segir eitthvað svona ótrúlegt, Gunnar Jóhannesson hefur talað um að guð geri hluti með kærleikann að vopni.
18.8.2009 | 10:46
Kynnum báðar hliðarnar á biblíunni
Ég vil sjá þessa sögu kennda í biblíufræðitímum:
Þaðan hélt Elísa til Betel. Og er hann gekk upp veginn, gengu smásveinar út úr borginni, hæddu hann og kölluðu til hans: "Kom hingað, skalli! Kom hingað, skalli!" Sneri hann sér þá við, og er hann sá þá, formælti hann þeim í nafni Drottins. Þá komu tvær birnur út úr skóginum og rifu í sundur fjörutíu og tvo af drengjunum. (2. Konungabók 2.23-24)
Ef þetta væri í kennslubók þá væri hægt að nálgast þessa sögu frá mörgum hliðum. Þegar kemur að siðfræði, þá er auðvitað hægt að benda á að það er rangt að leggja fólk í einelti. En það er líka hægt að benda á að það er í lagi að drepa börn fyrir að vera óþekk.
Það er hægt að nálgast þetta úr frá guðfræði: Hvaða ástæðu getum við fundið til þess að afsaka þessi morð hjá guði?
Síðan er hægt að skoða hvernig þessi saga hefur verið túlkuð af listamönnum:

Biblían er full af svona áhugaverðum sögum. Ef það á að kenna biblíufræði, þá er bara sanngjarnt að kenna líka sögur sem láta guð kristinna manna líta illa út.
![]() |
Skylt að kenna biblíufræði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.8.2009 | 17:12
Landafræðiruglingur lærisveinanna
Mofi vísaði um daginn á grein eftir trúvarnarmanninn William Lane-Craig. Það er helling af bulli í þessari grein en mér fannst þessi tvö svör frá honum vera afskaplega áhugaverð.
Craig er að svara því hvort það séu mótsagnir í frásögnunum af tómu gröfinni og birtingum Jesú. Fyrsta spurningin fjallar um það hvað engillinn (eða englarnir?) við gröfinasögðu konunum:
What were they told? They were told to go to Galilee, where they would see Jesus. Since Luke doesnt plan on narrating any Galilean appearances, he alters Marks wording of the angels message for literary purposes. The tradition of appearances in Galilee is very old and virtually universally accepted.
Til að byrja með er undarlegt að hann viðurkenni að höfundur Lúkarsarguðspjalls breyti bara orðum engilsins svo að það passi betur við söguna hans. En það mikilvæga í þessari færslu er sú staðreynd að í Matteusarguðspjalli segir engillinn konunum að segja lærisveinunum að fara til Galíleu, því þar muni Jesús birtast þeim (Mt 28.7). Þegar þær eru á leiðinni til lærisveinanna birtist sjálfur Jesús þeim, en hann hefur ekkert frumlegt að segja og endurtekur bara orð engilsins: Óttist ekki, farið og segið bræðrum mínum að halda til Galíleu. Þar munu þeir sjá mig.
Síðan er stóra spurningin þessi, fóru lærisveinarnir til Galíleu?
Did the disciples leave Jerusalem for Galilee? Of course, as indicated above. Luke just chooses not to narrate any Galilean appearances because he wants to show how the Gospel became established in the holiest city of the Jews, Jerusalem.
Í Matteusarguðspjalli, þar sem engillinn og Jesús segja lærisveinunum að fara til Galíleu, fara þeir til Galíleu. En í Lúkasarguðspjalli, þar sem höfundurinn tók út skipunina um að fara til Galíleu, er ekki eingöngu ekki sagt frá neinni för til Galíleu, heldur virðist ekki vera neitt pláss fyrir ferð til Galíleu.
Í Lúkasarguðspjalli er sagt að sama dag (Lk 24.13) og konurnar sögðu lærisveinunum hvað hafði gerst eru tveir þeirra á leið til Emmaus. Viti menn, Jesús birtist þeim. Þeir fatta það ekki fyrr en um kvöldleytið (Lk 24.29) og þegar þeir fatta það þá stóðu þeir samstundis upp og fóru aftur Jerúsalem (Lk 24.33) þar sem lærisveinarnir eru. Tvímenningarnir segja hinum lærisveinunum frá því sem hafði gerst og þegar þeir eru að tala um þetta, þá birtist Jesús enn og aftur. Eftir að hafa borðað smá fisk segir hann þeim að vera kyrrir í borginni (Lk 24.49) þangað til þeir fá heilagan anda.
Í Postulasögunni er líka sagt að Jesús hafi látið þá sjá sig í fjörutíu daga (P 1.3) og að á meðan hann var með þeim bauð hann þeim að fara ekki burt úr Jerúsalem (P 1.4)
Á meðan hann er með þeim flýgur hann upp til himna. Það er ekkert pláss fyrir neina ferð til Galíleu. Hvað var Jesús síðan að segja lærisveinunum að fara til Galíleu að sjá hann þegar hann ætlar hvort sem er að birtast þeim seinna um kvöldið í Jerúsalem (og segir þeim að fara ekki úr Jersúsalem!)? Atburðarrásin ef maður reynir að blanda þessu saman er einhvern veginn svona:- Engill og Jesús segja konunum að segja lærisveinunum að fara til Galíleu því að þar muni Jesús birtast þeim. (Mt)
- Sama dag birtist Jesús lærisveinunum tvisvar í kringum Jerúsalem og segir þeim að fara alls ekki úr borginni. (Lk)
- Jesús er með þeim í fjörutíu daga og segir þeim að fara alls ekki úr Jerúsalem. (Lk)
- Á meðan Jesús er að spjalla við lærisveinana á vappi kringum Jerúsalem flýgur hann upp til himna. (P)
Staðreyndin er sú að það er vit í sögunum ef maður les þær hverja fyrir sig, en ef þú ætlar að blanda þeim saman, þá lendirðu bara í rugli.
9.8.2009 | 06:03
Dæmisögur og heimsendir
Ég hvet þig til að lesa dæmisögur Jesú um himnaríki td í Matteusarguðspjalli. Þar er Jesús ekki að tala um hvar maður endar eftri dauðann. Hann er að tala um ástand hér og nú, sem vex innra með þér og breytir þér og heldur áfram eftir dauðann.
Síðan vitnar Þórhallur í tvær ördæmisögur í Mt 13.31-33 og kemur með sína túlkun á þeim. Það sem mér finnst merkilegt við þetta er að á undan og eftir þessum ördæmisögum eru aðrar dæmisögur um himnaríki, en í þar útskýrir Jesús sjálfur dæmisögurnar! Fjalla þær um hinstu örlög fólks við endi veraldar (himnaríki eða helvíti) eða eitthvað innra ástand?
Fyrst segir Jesús dæmisöguna um illgresið á akrinum:
Aðra dæmisögu sagði hann þeim: Líkt er um himnaríki og mann, er sáði góðu sæði í akur sinn. En er menn voru í svefni, kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan. Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt, kom illgresið og í ljós. Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið? Hann svaraði þeim: Þetta hefur einhver óvinur gjört. Þjónarnir sögðu við hann: Viltu, að vér förum og tínum það? Hann sagði: Nei, með því að tína illgresið, gætuð þér slitið upp hveitið um leið. Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð, mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því, en hirðið hveitið í hlöðu mína. (Mt 13.24-30)
Þá skildi hann við mannfjöldann og fór inn. Lærisveinar hans komu til hans og sögðu: Skýrðu fyrir oss dæmisöguna um illgresið á akrinum. Hann mælti: Sá er sáir góða sæðinu, er Mannssonurinn, akurinn er heimurinn, góða sæðið merkir börn ríkisins, en illgresið börn hins vonda. Óvinurinn, sem sáði því, er djöfullinn. Kornskurðurinn er endir veraldar og kornskurðarmennirnir englar. Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. Þá munu réttlátir skína sem sól í ríki föður þeirra. Hver sem eyru hefur, hann heyri. (Mt 13.36-43)
Enn er himnaríki líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski. Þegar það er fullt, draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt. Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Mt 13.47-50)
9.8.2009 | 05:41
Þórhallur fegrar Jesú
Ríkiskirkjupresturinn Þórhallur Heimisson á það til að mistúlka biblíuna. Nýlega skrifaði hann um Samkynhneigð og kristna trú, þar segir hann þetta:
Jesús Kristur minnist reyndar aldrei á samkynhneigð eða samkynhneigða. Og hann talar heldur aldrei um kynhneigð manna til eða frá. Þannig að það hvort menn væru samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir hefur ekki legið þungt á honum. Honum var slétt sama.
Það er rétt að í guðspjöllunum er honum ekki eignuð nein ummæli sem tengjast samkynhneigð. En það er hins vegar fráleitt að álykta út frá því að hann hafi aldrei sagt neitt um samkynhneigð og að honum hafi verið slétt sama.
Ef við kíkjum á önnur ummæli hans, þá er hægt að komast að því hver skoðun hans hafi líklega verið, koma með rökstudda ágiskun. Jesús guðspjallanna er ekki líbó þegar það kemur að kynlífi og hjónabandi. Það eitt að horfa á konur í girndarhug er synd (Mt 5.27). Skilnaður kemur ekki til greina, nema auðvitað ef konan (ath ekki karlinn!) er ekki hrein mey [1].
Það er afar ólíklegt að manneskja með svona skoðanir myndi telja samkynhneigð vera góða og gilda. Það af leiðandi taldi Jesús samkynhneigð (eða samkynja kynlíf) að öllum líkindum vera synd.
Þórhallur bara að reyna að gera Jesús nútímalegri, að uppfæra hann. En það nægir honum ekki, hann kemur líka með afskaplega léleg rök gegn því kristna fólki sem gagnrýnir samkynhneigð (réttilega) á kristilegum forsendum:
Árásir á samkynhneigða í dag víða um veröldina eru oft dulbúnar í kristilegan búning, með tilvitnunum í Biblíutexta, bæði úr Gamla Testamentinu og hinu Nýja. Þeir sem slíkt stunda gleyma því aftur á mót að við kristnir menn eigum að lesa lögmál hins gamla sáttmála í ljósi Jesú. Í fjallræðunni í Matteusarguðspjalli segir Jesús m.a. "dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmdir" og "Allt sem þér því viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra".
Til að byrja með er undarlegt að tala um að þetta sé í kristilegum dulbúningi. Þessar árásir eru ekki í kristilegum dulbúningi, þær eru kristilegar. Fólkið les biblíuna, sér að þar er samkynhneigð fordæmd og fordæmir þar af leiðandi samkynhneigð. Afskaplega kristilegt. Er gagnrýni stærstu kirkjudeilda heimsins (kaþólikkar, rétttrúaðir og hvítasunnumenn) á samkynhneigð bara í kristilegum "dulbúningi"?
Að túlka orð Jesú dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmdir þannig að það sé rangt að benda og gagnrýna hluti sem kristið fólk telur að séu syndsamlegir er út í hött.
Síðan skil ég ekki hvernig gullna reglan þýði að samkynhneigð sé allt í einu allt í lagi frá kristilegu sjónarhorni eða að kristið fólk ætti ekki að kalla synd sínu rétta nafni. Svona fjarstæðukennd rök benda til þess að Þórhallur finnur ekkert í orðum Jesú sem passar ekki við fordæmingar flestra kristinna kirkjudeilda á samkynhneigð.
Þórhallur ætti að sætta sig við að kristni er afskaplega neikvæð í garð samkynhneigðra og hætta að reyna að fegra Jesú.
[1] Clarence E. Glad, Matteusarguðspjall 19.3-15. Áherslur og samhengi. Fjölskyldan, hjónaband, einlíf og skírlífi í frumkristni, bls 3. "Þetta hafði afdrifaríkar afleiðingar, sér í lagi vegna þess að Jesús setti fram all róttæka endurskilgreiningu á hórdómi í þessu sambandi: Ég segi yður: Sá sem skilur við konu sína nema vegna porneia og kvænist annarri drýgir hór (moixeia) (19.9). Ýmsir hafa talið að með orðinu porneia sé hér verið að vísa til framhjáhalds konunnar. En í því tilviki hefði orðið moicheia líkega verið notað. Sennilegra er að porneia vísi til lagaákvæðisins í Tórunni sem heimilaði karli að hafna konu sem á brúðkaupsnóttinni gat ekki sýnt fram á að vera hrein mey (5. Mós. 22.13-21). Slík brúðarmey var sökuð um að hafa leikið hlutverk skækjunnar (ekporneuo, LXX) í húsi föður síns. Ef brúðurin var ekki hrein mey kom hjónaband ekki til greina og tók Jesús undir það sjónarmið."