Eldklerkur segir að guð hati Súðvíkinga

Í svokallaðri „goslokamessu“ í Seljakirkju lýsti þjóðkirkjupresturinn Ólafur Jóhann Borgþórsson guðinum sínum á þann hátt að guðinn hans virðist hata Súðvíkinga.

Í stuttu máli sagði klerkurinn að það væri „staðreynd að algóður skaparinn“ hefði vakað yfir Eyjamönnum nóttina þegar Heimaey gaus árið 1973. Klerkurinn segir að guðinn hans hafi:

1.       Valdið því að „flotinn hafi allur verið í höfn og í stakk búinn til að ferja fólk yfir“

2.       Valdið því að „vindátt hafi verið af vestri en ekki af austri“

3.       Valdið því að „jarðsprungan hafi ekki opnast nokkur hundruð metrum vestar en raunin varð“

Mér finnst það frekar broslegt að hugsa til þess að þessi prestur haldi að guðinn sinn hafi viljað bjarga Eyjamönnum og þess vegna fært gosið um nokkur hundruð metra, lagað vindáttina og séð til þess að það væri nóg af skipum. Hvers vegna ekki bara að koma í veg fyrir gos yfir höfuð eða láta það enda lengst út í hafi, svona eins og hann gerði með Surtseyjargosið?

En fyrst guðinn hans Ólafs stundar það að ákveða staðsetningar á náttúruhamförum, þá hljótum við að spyrja okkur að því hvers vegna hann ákveður stundum að láta náttúruhamfarir lenda beint á mannabyggðir, svona eins og í snjóflóðinu í Súðavík. Guðinum hans hlýtur bar að vera svona illa við þetta fólk.

Ef við ímyndum okkur að einhver manneskja gæti með engri fyrirhöfn hafa látið snjóflóðið við Súðavík stoppa rétt fyrir utan ystu hús þorpsins, en gerði það ekki, þá held ég að það væri mjög eðlilegt að álykta sem svo að sú manneskja væri mjög ill. Sami mælikvarði hlýtur að gilda á fornaldarlega guðinn hans Ólafs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Já, og ég gleymdi að minnast á það að Matti var líka búinn að benda á þessa vitleysu: Vond goslokaprédikun.

Þetta er bara svo vitlaust hjá greyið prestinum að ég varð að skrifa eitthvað um þetta.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 17.7.2008 kl. 15:21

2 Smámynd: Mofi

Góðir punktar hjá þér Hjalti.

Mofi, 17.7.2008 kl. 15:31

3 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

 Þetta er alveg rétt hjá þér

Auðvitað er hálfskrítið að allt sem gerist vel sé guði að þakka en ef illa fer þá hvítþvær karllin sig af öllum ásökunum. 

.. 

Brynjar Jóhannsson, 17.7.2008 kl. 15:35

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Reyndar vondir "punktar hjá þér, Hjalti." Kannt ekki gott að meta. Sannarlega leggur Drottinn líkn með þraut, blandar hið stríða blíðu. Það er líka hægt að biðja fyrir góðu árferði, regni og sól og tryggri tilveru; við erum meira að segja hvött til slíkra bæna og gefin fyrirheiti um ýmsa bænheyrslu. Þar að auki má ekki líta fram hjá náttúrulögmálunum og mannlega þættinum við að umgangast þau. Hafði ekki verið varað við hættu á snjóflóðum í Súðavík og á Flateyri? Höfðu menn hlustað og tekið tillit til reynslunnar? Hafði byggðin ekki vaxið á löngum tíma án þess að öryggis væri nægilega gætt? En eins og slys og sjúkdómar og lífshættuleg svöðusár og örkuml í stríði vekja gott fólk til meðaumkunar og örva það til hjálpar, þannig létu Florence Nightingale, Henri Dunant og St Jósefssystur á Íslandi heita trú sína hvetja sig til að verða öðrum til blessunar og líknar, og þannig urðu líka snjóflóðin mörgu góðu fólki tilefni til hjálpar, bæði þar á staðnum og með fjárframlögum síðar, sem og ýmsum samfélögum (á Flateyri, Bolungarvík og víðar) til að tryggja betur snjóflóðavarnir sínar, öðrum til bjargar um ókomna tíð.

Jón Valur Jensson, 17.7.2008 kl. 22:22

5 identicon

Hjalti segir: "Fólk lést í snjóflóðum í Súðavík"

JVJ segir": Þú kannt ekki gott að meta".

Segir allt sem segja þarf. Um þig JVJ.

Gísli Már (IP-tala skráð) 17.7.2008 kl. 22:52

6 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Já, þetta eru undarlegar réttlætingar hjá Jóni Vali. "Þetta er allt fólkinu að kenna og svo hafði þetta hvort sem er þær afleiðingar að annað fólk gat sýnt líkn."

Mig langar að vita eitt, Jón Valur, gefum okkur það að ég hefði vitað af snjóflóðinu í Súðavík, og hefði getað komið í veg fyrir það með því að smella fingrunum. Hefði þá verið rangt af mér að koma í veg fyrir flóðið vegna þeirra góðu afleiðinga sem það hafði í för með sér?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 17.7.2008 kl. 23:08

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það góða, sem Hjalti kunni ekki að meta, en Vestmannaeyingar kunnu og báru vitni um, það var heppnin mikla og hamingjan, að þetta gos skyldi hafa átt sér stað við þær óvenjulega góðu aðstæður sem raun bar vitni. Auðvitað getur Hjalti hinn trúlausi ekki séð það með augum trúarinnar, að þar lagði Guð líkn með hinni gífurlegu þraut. En sannarlega var það mikil blessun, að enginn fórst um gosnóttina og aðeins einn (vegna eitraðra lofttegunda) allan gostímann.

Félagar Hjalta hér, Haukur og Gísli Már, eru einungis að tjá hér eigið hugarfar, ekki mitt. Ég á sjálfur sterkari taugar til Súðavíkur en þið allir, þar eru mínar ættarrætur og frændur fleiri en ég veit deili á. Að þið skulið skrifa svona, segir heilmikið um innréttinguna í ykkar eigin heilabúum.

Jón Valur Jensson, 18.7.2008 kl. 02:04

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hjalti, þú ert að segja kl. 23.08, að GUÐ eigi að smella fingrum í hvert skipti sem ógæfa gæti dunið yfir einstaklinga eða byggðarlag. Að hann eigi að kippa náttúrulögmálunum úr sambandi. Hvernig hefðu menn þá smátt og smátt lært vísindi, skilning á tengslum orsaka og afleiðinga, ef efnisheimirunn hefði ekki fúngerað með sínum eðlilegu lögmálum? Hve sterk væri trú þín sjálfs (og hvar væri frelsi hugar þíns), ef þú værir alltaf að horfa upp á bein inngrip utan að frá í varasama atburði? Væri ekki fínt að geta stokkið fram af 100 metra háum kletti og treyst Guði, að þú kæmir mjúklega niður?

Kraftaverk eru undantekningar Guðs og þegar Andinn vill, ekki þú. En það skiptir máli að hlusta á Guð, vera næmur fyrir honum og biðja hann jafnan fyrir velferð manns og allra ástvina. Samt er okkur ekki ætlað að verða 200 ára!

Kristinn maður getur betur sætt sig við missi en trúlaus, jafnvel þótt hryggðin eftir látinn ástvinn geti níst þá trúuðu líka alllengi og hrikalega. Við vitum í trúnni, að andinn lifir. Guð getur sannarlega bætt öllum, sem deyja voveiflega, upp þann missi þeirra jarðneska lífs – öllum sakleysingjunum og öllum þeim sem sjálfir hafa ekki hafnað hjálpræði sínu. Líf okkar á jörðu, þótt verðmætt sé í sjálfu sér og grundvallandi fyrir áframhaldandi vegferð okkar, er aðeins neisti hjá ljósi eilífðar Guðs og lífsins með honum. Guð blessi ykkur, sem þetta lesið, til að augu ykkar opnist fyrir því.

Jón Valur Jensson, 18.7.2008 kl. 02:24

9 identicon

Hefurðu sjálfur sterkari taugar til Súðavíkur en ég???

Nú skaltu fara að vara þig á eigin hroka, JVJ, áður en þú gengur of langt.

Gísli Már (IP-tala skráð) 18.7.2008 kl. 09:34

10 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Hjalti, þú ert að segja kl. 23.08, að GUÐ eigi að smella fingrum í hvert skipti sem ógæfa gæti dunið yfir einstaklinga eða byggðarlag. Að hann eigi að kippa náttúrulögmálunum úr sambandi.

Nei, ég er ekki svo hugmyndasnauður. Alvitur vera gæti auðvitað fundið upp betri lausnir en ég, en mér dettur í hug að það hefði verið snjallara að skapa heim án náttúruhamfara.

En mér finnst ótrúlegt að í öllum þessum fimm efnisgreinum svaraðirðu ekki spurningunni minni, hérna er hún aftur ef þér yfirsást hana:

Mig langar að vita eitt, Jón Valur, gefum okkur það að ég hefði vitað af snjóflóðinu í Súðavík, og hefði getað komið í veg fyrir það með því að smella fingrunum. Hefði þá verið rangt af mér að koma í veg fyrir flóðið vegna þeirra góðu afleiðinga sem það hafði í för með sér?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 18.7.2008 kl. 22:27

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mikil er rausn almættisins að haga hlutum svona til. Hann lét sig þó engu að síður hafa það að láta gjósa og ræna unga sem aldna í eyjum viðuværi sínu, vinnu og húsaskjóli.

Var það ekki guð sem stöðvaði hraunstraum skaftárelda við kirkju Jóns Steingrímssonar fyrir bænir hans? Eða var það kannski fyrirhyggja guðs sem réði því að kirkjan var reist á hól, þannig að hraunið nái ekki að henni? Vegir hans eru sannarlega órannsakanlegir.

Jón Steinar Ragnarsson, 6.9.2008 kl. 01:37

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Og Jón Valur: Hefði það ekki verið ansi ruglandi fyrir skinbragð mannsins á lögmálum heimsins, ef menn hefðu annað slagið komið mjúklegga niður úr 100 metra falli?  Það  er það sem þú ert að gefa í skyn. Annað slagið grípur hann inn í.  Einskonar ímyndarvinna eins og þegar Jóhannes í Bónus gefur börnum pokasjóðinn, sem hann á ekki og tekur allt kreditið. 

 Hvað gerir það þig svo dómbærari hér að þú eigir ættir að rekja í Súðavík (vafalaust miklu víðar) og eigir þar fleiri frændur en þú kannt deili á. Hvað hefur það svo yfrleitt með umræðuefnið að gera?? Taugar þínar til Súðvíkinga umfram aðra? Þvílík tækifærismennska og sjálfhverfa.

Marga steypuna hef ég lesið frá þér, en hér slærðu allt út. 

Jón Steinar Ragnarsson, 6.9.2008 kl. 01:53

13 identicon

Eru menn ekki með öllum mjalla? Hver er munurinn á Súðvíkingum, Flateyingum, Ólafsvíkingum og Vestmannaeyingum? Auðvitað enginn. En vita menn ekki að trúin á Jesú hvetur til hlýðni við Guð, reglur hans hvort sem þær eru siðrænlögmál eða náttúrulögmál.

Vita menn ekki að Vestmannaeyjar voru taldar af vísindunum útbrunnin eldstöð. Því gættu menn ekki að sér þegar byggð var í Vestmannaeyjum.

Aðfaradag gossins voru jarðfræðingar að mæla gosóróa. Hann kom berlega fram á jarðskjálftamælum. En vegna þess hversu fáir þeir voru ályktuðu menn að goss væri að vænta á hálendi Íslands, en ekki suður í Vestmannaeyjum. Því var það frábært að flotinn væri í höfn, tilbúinn til björgunar. En mesta táknið er auðvitað vindáttir yfir gostímabilið, menn ættu að skoða það!

Menn vissu að snjóflóðahættusvæði voru byggðin í Súðavík, efrihluti eyarinnar á Flateyri og staðsetning heilsugæslustöðvarinnar í Ólafsvík. Því má segja að þvermóðska sveitastjórnarmanna hafi ráðið útkomu snjóflóðanna. Þeir réðu auðvitað ekki mannskaðanum heldur að öll byggð hús á svæðunum voru í farvegi snjóflóða.

Hvort er það Guði eða mönnum að kenna?

kveðja

Snorri í Betel

snorri i betel (IP-tala skráð) 20.9.2008 kl. 16:10

14 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Eru menn ekki með öllum mjalla?

Þó svo að skoðanir Ólafs Jóhanns séu frekar undarlegar, þá er ef til vill of langt gengið að draga geðheilbrigði hans í efa.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 9.10.2008 kl. 17:36

15 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Lesti fyrstu setningu bloggfærslunnar.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 11.10.2008 kl. 15:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband