Um yndislegt umburðarlyndi Jahvehs

Kristinn Ásgrímsson,  "safnaðarhirðir" Hvítasunnukirkjunnar í Keflavík, skrifaði grein nýlega þar sem hann reyndi að rökstyðja þá skoðun að Jahveh, guðinn hans, væri umburðarlyndur. Til þess að reyna að gera blóðþyrsta guðinn hans umburðarlyndan þarf Kristinn auðvitað að nauðga hugtakinu umburðarlyndi.

Í stuttu máli má segja að þegar viðkemur Jahveh, þá er umburðarlyndi það að hann sé ekki þegar búinn að henda okkur í helvíti fyrir að "óhlýðnast" honum. Umburðarlyndi hjá Jahveg er þannig að hann umber alla hegðun okkar þennan stutta tíma sem við lifum, en um leið og við deyjum þá á hann eftir að kvelja okkur að eilífu. Já, að eilífu. Kristinn er nefnilega "safnaðarhirðir" í Hvítasunnukirkjunni, og helvíti, alvöru helvíti, er ein af kennisetningum þeirrar kirkju.

Ég ætla að reyna að búa til eitthvað sambærilegt dæmi úr raunveruleikanum. Mér er svolítið illa við að fólk reyki í kringum mig, aðallega vegna lyktarinnar sem kemur á fötin mín og hárið mitt. Ef ég myndi umbera reykingar á sama hátt og Jahveh er umburðarlyndur, þá myndi ég ekki gera neitt þegar fólk kveikti í sígarettunni, en um leið og það myndi anda frá sér reyk myndi ég berja það í klessu. Og næsta dag myndi ég líka berja það í klessu. Og daginn eftir það. Alveg þangað til viðkomandi myndi deyja. Vissulega gerði ég ekki neitt þegar þessi óheppni reykingarmaður kveikti í sígarettunni, en myndi einhverjum detta í hug að kalla mig umburðarlyndan út af því? Auðvitað ekki, og þess vegna er Jahveh ekki umburðarlyndur þó svo að hann bíði með eilífu kvalirnar í 0-120 ár.

En það fyndna við þennan pistil er að samkvæmt biblíunni getur ekki Jahveh beðið í þennan stutta tíma. Hann er alltaf að drepa fólk fyrir minnstu yfirsjónir, t.d. langa-langa-langa-langa-langa-langa-langa-langa-langa-langa-afi átti í stríði við uppáháldskynþáttin hans #. Síðan má auðvitað ekki gleyma trúarlegu umburðarlyndinu hans sem jafnast á við stjórnvöldin í Sádi-Arabíu:

Ef bróðir þinn, sonur móður þinnar, eða sonur þinn eða dóttir þín eða konan í faðmi þínum eða vinur þinn, sem þú elskar eins og lífið í brjósti þínu, ginnir þig einslega og segir: ,,Vér skulum fara og dýrka aðra guði,`` þá er hvorki þú né feður þínir hafa þekkt, af guðum þeirra þjóða, sem kringum yður eru, hvort heldur þær eru nálægar þér eða fjarlægar þér, frá einu heimsskauti til annars, þá skalt þú eigi gjöra að vilja hans og eigi hlýða á hann, og þú skalt ekki líta hann vægðarauga og þú skalt ekki þyrma honum né hylma yfir með honum, heldur skalt þú drepa hann, þín hönd skal fyrst á lofti vera gegn honum til þess að deyða hann, og því næst hönd alls lýðsins. Þú skalt lemja hann grjóti til bana, af því að hann leitaðist við að tæla þig frá Drottni Guði þínum, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. #

Ef guðinn hans Kristins er umburðarlyndur, þá eru allir umburðarlyndir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Óttalegt er að falla í hendur lifanda Guðs, það er ein grunnfræðslan úr Heilagri Ritningu, sem þú ættir að reyna að tileinka þér, Hjalti. Þolinmæði og langlundargeð hefur hann gagnvart mannanna syndum, sér í gegnum fingur sér við tíðir vanvizkunnar -- og vantrúarinnar -- en er ekki "umburðarlyndur" í þeirri gervimerkingu, sem haldið er fram, að það orð þýði og látið heita biblíulegt! (ég á eftir að birta grein um það, vonandi bráðlega). Hann bíður með dóminn og gefur manninum ekki eitt, heldur ótal tækifæri, og þar sérðu hans langlundargeð, en dómur hans er líka endanlegur, þegar hann verður kveðinn upp (Matth. 25.31-46 o.v.).

Það er engin dygð að vera umburðarlyndur við illræðisverk.

Þar að auki skaltu ekki taka þér bessaleyfi til að túlka með þínum eigin sjálfráða hætti, hvað helvíti sé.

Svo ertu að reyna að gera ímynd Guðs hér sem versta og áttar þig ekki á ábyrgð þinni, en velur um leið að nota nafn um hann, sem þér finnst trúlega henta þér vel, en er þó alls ekki rétt stafað nafn hans, eins og þú átt að vita, hafandi komið við í Guðfræðideild Háskóla Íslands (þeirri sem nú er að miklu leyti á valdi femínista og bandamanna þeirra).

Ennfremur þarftu ekki að segja: "safnaðarhirðir" í gæsalöppum um hann Kristin Ásgreímsson, því að þetta er starf þess mæta manns, og það vinnur hann vel. Það er engin ástæða til að draga hann hér fyrir þinn hleypidómafulla dómstól.

Alvöru-helvíti er ein af kennisetningum hverrar einustu sannkristinnar kirkju, og ekki muntu hafna því, Hjalti, að það sé margítrekuð kenning Jesú sjálfs og miklu víðar í Nýja testamentinu. Við Kristinn, bróðir minn í kristnum anda, erum í því efni jafnmiklir andstæðingar 'grænsápuguðfræði' undanvillinga-presta og guðfræðinga eins og þú sjálfur. Vertu síðar velkominn í þann hóp til að að átta þig líka á sannleika kristinnar kenningar um ekki aðeins 'illa staðinn', heldur og eilíft líf í gleði hjá Guði, þeim til handa, sem hann hefur veitt sína náð til þess.

Jón Valur Jensson, 2.11.2007 kl. 11:09

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

" Vertu síðar velkominn í þann hóp ..." -- alls ekki undanvillinganna, ef einhver skildi mig svo! -- heldur hóp sannkristinna.

Jón Valur Jensson, 2.11.2007 kl. 11:14

3 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Jón Valur. 

" Vertu síðar velkominn í þann hóp til að að átta þig líka á sannleika kristinnar kenningar um ekki aðeins 'illa staðinn', heldur og eilíft líf í gleði hjá Guði, þeim til handa, sem hann hefur veitt sína náð til þess."

Ef þetta er ekki hroki  og annað sem þú skrifar í innlegginu, þá veit ég ekki hvað hroki er. Endurspeglar einmitt þá vissu æði margra að guð hinna kristnu manna fer í manngreiningarálit.  

Hjalti:

Frábær pistill hjá þér og það er ekki skrítið að það ríki guðsótti þegar fólk ánetjast ritningunni og telur hana segja okkur allan sannleikann. 

Margrét St Hafsteinsdóttir, 2.11.2007 kl. 14:23

4 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Jón Valur:

Ef þú ert ósáttur við að það sem þú kallar "[þ]olinmæði og langlundargeð" sé kallað umburðarlyndi, þá þarftu að væla í honum Kidda, ekki mér. Það var hann sem reyndi að rökstyðja þá fáránlegu fullyrðingu að Jahveh (sem ég stafa nú bara hárrétt) væri umburðarlyndur með því sem þú kallar "[þ]olinmæði og langlundargeð".

Varðandi helvíti, þá gildi sola scriptura hér og ég hef í engu farið út fyrir það sem þið meðlimir hinnar "sannkristnu" kirkju haldið fram.

Svo ertu að reyna að gera ímynd Guðs hér sem versta...

Ég held nú að blessaði barnamorðinginn guðinn þinn sé fullfær um að klúðra PR-málunum sínum.

Ennfremur þarftu ekki að segja: "safnaðarhirðir" í gæsalöppum um hann Kristin Ásgreímsson, því að þetta er starf þess mæta manns, og það vinnur hann vel. Það er engin ástæða til að draga hann hér fyrir þinn hleypidómafulla dómstól.

Það er gaman að sjá að þú ert alltaf jafn duglegur að einblína á aðalatriði málsins. Ég hafði gæsalappir í kringum "safnaðarhirðir" af því að þetta er einhver titill sem hann (eða trúfélagið hans) hefur valið sér. Ef við í Vantrú færum að kalla stjórnarmeðlimi okkar "guði og meistara alheimsins", þá er ég nokkuð viss um að þú myndir hafa það í gæsalöppum. En við munum örugglega ekki gera það, við tökum ekki þátt í þessum titlaleikjum hinnar sannkristnu kirkju.

Alvöru-helvíti er ein af kennisetningum hverrar einustu sannkristinnar kirkju, og ekki muntu hafna því, Hjalti, að það sé margítrekuð kenning Jesú sjálfs og miklu víðar í Nýja testamentinu.

Því miður er afar lítið hægt að vita um kenningu Jesú sjálfs, en höfundar Matteusarguðspjalls og Opinberunarbókar Jóhannesar voru örugglega á þeirri skoðun. Hin guðspjöllin eru ekki alveg jafn skýr hvað þetta varðar, en mér sýnist Páll hafa verið ósammála hinni "sannkristnu" kirkju.

En það er afar ánægjulegt að þú skulir hafa eytt heilum efnisgreinunum í það að ræða framsetningu titla í staðinn fyrir að ræða um viðurstyggilegu versin sem ég vísaði í. Gæti það hugsanlega verið að Jón skammist sín fyrir þau?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 2.11.2007 kl. 18:55

5 Smámynd: Kristinn Ásgrímsson

Sæll Hjalti og takk fyrir að setja link á greinina mína hjá þér. Ég get skilið þig, en Margréti á ég erfitt með að skilja, hún kallar sig kristna og en flokkar Guðsótta löst sem og ritninguna.  Það er svo sem ekkert nýtt að dauðadómur var til staðar í lögmáli Móse.  Reyndar er dauðadómur til staðar í mannlegu samfélagi í dag, án þess að Guð komi þar að. Ég minnist reyndar á það í grein minni að eitt væri það sem Guð ætti erfitt með að umbera og umbar ekki undir gamla sáttmála. Það var skurðgoðadýrkun, eða í mörgum tilfellum djöfladýrkun. Af hverju refsaði Guð mönnum fyrir djöfladýrkun ? Jú þeir gerðu sig að skynlausum skepnum.

Hvernig dýrkuðu þessar þjóðir guði sína, .... Þú skalt eigi breyta svo við Drottinn Guð þinn, því allt sem andstyggilegt er Drottni, það er hann hatar, hafa þær gjört til heiðurs guðum sínum, jafnvel sonu sína og dætur hafa þær brennt í eldi til heiðurs guðum sínum.

Við þessum lífsmáta lá dauðadómur og það er munur á dómi Guðs eða því þegar menn vaða uppi sem skynlausar skepnur drepandi afkvæmi sín. Gleymdu því ekki heldur Hjalti að maðurinn er sköpun Guðs.

Lögmálið var upphaflega ekki áætlun Guðs, Páll segir okkur í Galatabréfinu: "að vegna afbrotanna var því bætt við þar til afkvæmið kæmi"

Afkvæmið var Kristur, ekki drap hann neinn. Hann sagði sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn. Eins og ég sagði í grein minni, þú þarft að sjá hlutina frá sjónarhorni Guðs en ekki þínu. Og það gerist fyrir trú, margir reyna að sjá til að trúa en biblían kennir okkur að trúa til að sjá.

Kristinn Ásgrímsson, 2.11.2007 kl. 21:23

6 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Kristinn, þetta er léleg tilraun til þess að afsaka þetta vers, því þar er sérstaklega tekið fram: "...þá er hvorki þú né feður þínir hafa þekkt, af guðum þeirra þjóða, sem kringum yður eru, hvort heldur þær eru nálægar þér eða fjarlægar þér, frá einu heimsskauti til annars,..." Ástæðan er ekki sú að trúin innifelur það að drepa afkvæmi sín, heldur bara af því að þetta er ekki 'hin eina sanna trú'TM.

Ég minnist reyndar á það í grein minni að eitt væri það sem Guð ætti erfitt með að umbera og umbar ekki undir gamla sáttmála. Það var skurðgoðadýrkun,....

Eitt? Ertu viss um að það hafi bara verið "eitt" sem guðinn þinn umbar ekki í Gamla testamentinu? Mér dettur ýmislegt annað í hug, meðal annars athæfi sem Jón Valur virðist vera mjög upptekinn af.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 2.11.2007 kl. 21:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband