Þórhallur og tóma gröfin

Þórhallur Heimisson er kominn að upprisunni í trúarjátningaskrifum sínum, og þar skrifar hann þetta  (með feitletrunum frá mér):

 

Allt frá upphafi kristins dóms voru til menn sem véfengdu sannleiksgildi páskafrásagnanna, frásagnanna af upprisu Jesú Krists eins og þær er að finna í guðspjöllunum. Þær efasemdir heyrast enn og kröftuglega hjá mörgum, eftir nær 20 aldir. Um eitt voru menn þó samdóma frá öndverðu: Gröf Krists var tóm að morgni páskadags. Jesús hafði verið lagður í hana að kvöldi föstudagsins langa. Þaðan var hann horfinn á þriðja degi. Enginn hefur rengt það, hvorki fyrr né síðar. Af þessum sökum hefur gröfin tóma löngum orðið tákn páskanna í vitund kristinna manna. Um hana er ekki ágreiningur

 

Þetta er bull og vitleysa. Það vill nú svo skemmtilega til að bandarískur "fræðimaður" (viðkomandi trúir að biblían sé óskeikul, þannig að það er erfitt fyrir mig að kalla hann fræðimann), Gary Habermas, hefur tekið saman öll skrif fræðimanna á ensku, frönsku og þýsku frá 1975 og einfaldlega talið það hve margir trúa hverju.

Niðurstöður hans (greinin birtist í The Journal for the Study of the Historical Jesus) varðandi tómu gröfina voru þær að ~75% héldu að það hafi verið tóm gröf, ~25% töldu að það hafi ekki verið tóm gröf. Og það eru ekki bara einhverjir rugludallar sem trúa ekki á tómu gröfina, þarna eru menn eins John Dominic Crossan og Burton Mack. 

Þannig að "[e]nginn hefur rengt" söguna af tómu gröfinni, fyrir utan fjórða hvern fræðimann sem skrifar um þetta. 

Og ég verð að segja að mér finnst þetta há tala, sérstaklega í ljósi þess að það er auðvitað aðallega kristið fólk sem að leggur stund á þessi fræði. Við myndum alveg eins búast við því að stór hluti þeirra fræðimanna sem rannsaka múhameðstrú séu múhaðemstrúarmenn og trúi því frekar á ótrúlegar sögur innan trúarbragðanna þeirra. Inn í þessum tölum hans Habermas eru einmitt "fræðimenn" eins og hann og William-Lane Craig sem halda að biblían sé óskeikul. 

Svo er auðvitað einfaldlega hættulegt fyrir suma fræðimenn að skrifa neikvætt um þetta, kirkjur eiga sterk ítök í guðfræði- og trúarbragaðfræðideildum víðs vegar. Gerd Lüdemann (sem er líklega ekki til samkvæmt Þórhalli) , sem var prófessor við guðfræðideild háskólans Í Göttingen missti eiginlega stöðuna sína við háskólann vegna þess að hann afneitaði kristinni trú.

Síðan hafa þessir fræðimenn góðar ástæður fyrir því að trúa því að sagan af tómu gröfinni sé helgisaga. Það var algeng gerð af sögum í fornöld að líkami einhvers merkilegs manns fannst ekki og það átti að vera til merkis um að viðkomandi hafi verið numinn upp til himna til guðs eða guðanna. Flott dæmi um þetta, sem ég hef minnst á áður, er sagan af Apollóníos: 

 

Einn samtímamaður Jesú hét Apollóníos. Í bók um æfi hans segir að einn dag hafi hann gengið að hofi, dyrnar hafi opnast og lokast sjálfar og að kór hafi heyrst syngja: „Flýttu þér frá jörðinni, flýttu þér til himna.“ Ekkert meira spurðist um hann og höfundur bókarinnar segir að hann hafi ferðast um flest lönd og hvergi rekist á gröf hans. 

 

Sagan af tómu gröfinni hljómar bara eins og enn ein sagan af því að líkami einhvers merkilegs manns finnist ekki og því hljóti hann að vera farinn upp til himna.  

Önnur ástæða er sú að tóma gröfin virðist gera ráð fyrir líkamlegri upprisu, en Páll virðist ekki trúa á það. Hann segir að "hold og blóð" geti ekki erft guðs ríki og að Jesús hafi orðið að anda við upprisuna (1Kor 15).

En hvort sem að maður trúir því að það hafi verið tóm gröf eða ekki þá ætti maður að minnsta kosti að vita af því að það er ótrúlegt rugl að halda því fram að enginn, hvorki fyrr né síðar, hafi rengt tilvist tómu grafarinnar. Ég veit ekki hvernig Þórhallur getur haldið fram svona fullyrðingum sem allir þeir sem hafa kynnt sér þessi mál eitthvað vita að eru ósannindi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er hreint hlægilega barnaleg saga; Sko það voru einhverjir frummenn sem sögðust hafa séð eitthvað spúkí, það stendur í þessari bók frá ofsatrúarsöfnuði dauðans;
Gröfin er tóm, gröfin er tóm; Extra líf í lúxus... Guddi er til,

Kaþóslka kirkjan hefur einnig grafið upp dýrlingana sína og sagt þá vera ferska eins og þegar þeir voru jarðaðir, amk einhverjir límamshlutar; Eins og td tunga.
Þeir hlaupa til og segja þetta sönnun fyrir Gudda...
Kristni er eins og Harry Potter á LSD og PCP;

Þórhallur er hreinlega að ljúga, hann veit að hann er að ljúga; Hann fær líka hundruðþúsunda á mánuði fyrir að ljúga þessu. Menn hafa gert annað eins fyrir minni peninga,.

DoctorE (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 13:40

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þórhallur hæðist nú að pistlahöfundi, sem ekki var með "staðreyndir" Jólaguðspjallsins á hreinu.  Það sem hann telur til er alveg rétt.  Sögur um asna, kindur og þrjá vitringa eru ekki hluti af sögunni og sumu er einfaldlega bætt inn í á fjórðu öld, þegar ritið var editerað.  Hann hefði mátt bæta því við að það var fleira, sem var tekið út og/eða bætt inn á þessum tíma, eins og t.d. sögunni um bersyndugu konuna (sá yðar sem syndlaus er). Heilum kafla í Jóhannesarguðspjalli bætt við og svo má lengi lengi telja.

Eitt er þó merkilegt við háð Þórhalls og fleðrulega broskalla að hann segir sjálfur frá Jólaguðspjallinu með öllum þessum atriðum og öll myndgerfing og fræðslutexti lýsir fabúlunni svona. Meira að segja námsefni fyrir börnin. 

"Haha..þú ert asni af því að sagan er ekki svona þótt við segjum hana alltaf svona."  Er hans barnalega framsetning.

Það er fróðlegt að benda honum á í framhaldi að aðeins tvö af fjórum guðspjöllum sjá ástæðu til að nefna þessi feikn og tákn, sem þessi saga hermir.  Meyfæðing og hvað eina þótti ekki nægilega merkilegt fyrir Markús og Jóhannes.  Hina frámunalega vitlausu uppstigningu hetjunnar er ekki nægilega  merkileg til að ná tilnefningu, hvað þá öll feiknin og táknin, sólmykvi, jarðskjálftar og afturgengnir spámenn um borg og bý. 

Honum til fróðleiks má líka nefna að hvorki Bethlehem né Nasaret voru til á tímum krists, en það hef ég jú nefnt ad nauseum.  

Varðandi tómu gröfina, þá ber frásögum allra guðspjalla alls ekki saman og það all verulega illa.  Það má svo líka nefna að ekki er minnst á Jesú né neitt af þessum feiknum í samtíma sagnfræði. Aðeins í þessum fjórum bókum. Páll postuli er algerlega rænulaus um þessi stórmerki og jafnve gengur það svo langt að sumir kirkjufeðra á 2. öld nefna ekki Jesú þennan né guðsspjöllin á nafn.

Áður en Þórhallur hæðist að fólki fyrir að fara rangt með smáatriði, þá ætti hann að líta sér nær og viðurkenna að það stendur ekki steinn yfir steini í átrúnaði hans. Hann hefur fyrir löngu verið hrakinn, þótt margir haldi sig við hefðirnar til að halda starfi og status eins og þú nefnir.  Þessvegna ljúga menn eins og Þórhallur, vitandi betur.

Jón Steinar Ragnarsson, 11.12.2010 kl. 14:32

3 identicon

Heldur þykir mér málatibúnaður ykkar vera ómerkilegur félagar góðir. Þórhallur er trúaður maður að deila reynslu sinni í landi trúfrelsis og hvorki honum né ykkur mun verða nokkuð ágengt í sönnuarfærslu um téða gröf. Hann er að iðka trú sína og þið eruð að henda skít í hann fyrir það.

Þið eru afar ómerkilegir menn að hafa ekkert annað betra að gera, finnst mér.

Jón Baldvin (IP-tala skráð) 11.12.2010 kl. 21:06

4 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Jón Baldvin, þetta er afskaplega vitlaus athugasemd:

1. Þórhallur er ekki bara "trúaður maður að deila reynslu sinni í landi trúrelsis". Hann er atvinnutrúmaður á ríkisspenanum sem er að reyna að sannfæra fólk um að trúin hans sé sönn.

2. Svo er ég hérna ekki að gagnrýna trú hans á tilvist tómu grafarinnar, heldur fullyrðingar hans um að "enginn" hafi rengt tilvist hennar "hvorki fyrr né síðar" og að "um hana [sé] ekki ágreiningur". Sem er bara bull og vitleysa, og fólk sem hefur eitthvað um þessi mál ætti að vita það.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 11.12.2010 kl. 21:16

5 Smámynd: Valdimar Hreiðarsson

Vantrúarmenn halda gjarnan á lofti bókstafstúlkun á Biblíunni.  Hjalti Rúnar Ómarsson hefur einmitt vakið athygli fyrir að vera bókstafstrúarmaður þegar kemur að túlkun Biblíunnar. 

Annað algengt orð yfir bókstafstrúarmenn er harðlífismenn.   Skýrir það kannske svipinn á HRÓ?      :-)   

Valdimar Hreiðarsson, 18.12.2010 kl. 16:13

6 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Valdimar, ég veit að þú átt erfitt með það, en reyndu nú að koma með málefnalegar athugasemdir. 

Góð byrjun væri að hneykslast á þessum skammarlega málflutningi samstarfsmanns þíns. 

Hjalti Rúnar Ómarsson, 18.12.2010 kl. 17:14

7 Smámynd: Valdimar Hreiðarsson

Bíddu, málefnalegar athugasemdir, sagðir þú? 

 Meinarðu svona eins og þú og félagi þinn hér ofar á síðunni, "Doctor"E?   Afsakaðu, en nú verð ég að hlæja :)

Valdimar Hreiðarsson, 18.12.2010 kl. 18:02

8 Smámynd: Valgarður Guðjónsson

Ertu ekki aðeins að snúa þessu á hvolf, Valdimar? Hjalti er að draga í efa fullyrðingar Þórhalls um að taka eigi biblíuna bókstaflega varðandi gröfina tómu - og þú kallar Hjalta bókstafstrúarmann!

En það er góð staðfesting fyrir Hjalta þegar uppnefni og athugasemdir um útlit á mynd eru einu svörin sem hann fær - það er endanleg staðfesting á að engin málefnaleg svör eru fyrir hendi.

Sem aftur staðfestir að hann hefur rétt fyrir sér.

Valgarður Guðjónsson, 18.12.2010 kl. 18:16

9 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

 Meinarðu svona eins og þú og félagi þinn hér ofar á síðunni, "Doctor"E? Afsakaðu, en nú verð ég að hlæja :)

Nú er DoctorE ekki "félagi" minn, en gæði athugasemd hans breyta á engan hátt þínum athugasemdum. Eða er punkturinn þinn að athugasemdirnar þínar séu jafn ómálefnalegar og athugasemdirnar hans DoktorE?

Viltu ekki byrja á því að taka undir það að ummæli Þórhalls um tómu gröfina eru vitleysa?

Síðan máttu endilega útskýra hvað þú átt við með því að ég sé bókstafstrúaður. Ert þú ekki bara sjálfur "bókstafstrúaður"? Trúir þú því t.d. að helgisögurnar um fæðingu Jesú hafi í raun og veru gerst?Trúir þú því ekki virkilega að Jesús hafi reist fólk upp frá dauðum og síðan sjálfur risið upp frá dauðum?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 18.12.2010 kl. 18:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband