7.10.2010 | 22:00
Forskot á þrenningarsæluna
Ríkiskirkjupresturinn og englabossinn hann Þórhallur Heimisson upplýsti í athugasemd við nýlega færslu um að hann myndi bráðum fara að ræða um þrenningarkenninguna, þannig að ég ætla að taka smá forskot og ræða aðeins um þetta á undan honum (en mig grunar að hann muni enn og aftur útskýra villukenninguna módalisma.
Við skulum byrja þetta á því að skoða trúarjátningu Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi:
3.2 Við trúum á einn Guð, sem eilíflega er til í persónum Heilagrar þrenningar (1. Jóhannesarbréf 5:7-8).
Það sem að er athugavert við þetta er að þessir miklu biblíuspekingar vísa á þekktasta dæmið um síðara tíma viðbót við Nýja testamentið. Og þetta er eina versið sem þeir vísa í fyrir þrenningarkenninguna. Þetta innskot hefur meira að segja nafn, Comma Johanneum, og það er algerlega óumdeilt að þetta sé síðari tíma innskot, fyrsti gríski textinn með innskotinu eru frá því eftir árið 1000!
Svona eru versið með fölsuninni:
Þrír eru þeir sem vitna í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt. Og þeir eru þrír sem vitna á jörðunni: Andinn og vatnið og blóðið og þeim þremur ber saman. (1Jóh 5.7-8)
En upprunalega var textinn svona:
Þrír eru þeir sem vitna, andinn og vatnið og blóðið og þeim þremur ber saman. (1Jóh 5.7-8)
Það sem mér finnst merkilegt við þetta er að það að þeir skuli hafa vísað í þetta vers segir okkur svolítið annað, þrenningarkenningin sem slík er hvergi kennd í biblíunni. Menn reyna að púsla fullyrðingum héðan og þaðan og reyna að komast að henni þannig, en maður hlýtur að velta því fyrir sér, ef að höfundar guðspjallanna (eða Jesús!) trúðu á þrenningarkenninguna, af hverju skrifuðu þeir ekki eitthvað í líkingu við versin sem Hvítasunnukirkjan vísar í? Og fannst guði þetta ekki nægilega merkilegt til þess að minnast á þetta? Nýja testamentið er fullt af efni sem mætti alveg missa sín máli (t.d. endalausar endurtekningar á efni úr Mk í Mt og Lk), en það er ekkert minnst á þrenningarkenninguna.
Eini textinn sem að gæti hugsanlega veið að tala um þrenninguna er í Mt 28.17, en þar segir Jesús lærisveinum sínum að skíra fólk í nafni föður og sonar og heilags anda. Vandinn er auðvitað að upptalning á þessum þremur er ekki þrenningarkenningin, svo ekki sé minnst á að kirkjufaðirinn Evsebíos virðist hafa haft handrit sem höfðu í mínu nafni og þess vegna telja sumir að það hafi verið upprunalegi textinn.
En aðalvandinn við þrenningarkenninguna er samt ekki þessi þögn, heldur vers sem virðast beinlínis vera í andstöðu við hana. Meira um það seinna!
Flokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Ég verð að segja að það er algjörlega ofar mínum skilningi að skilja hvers vegna þú sem ert yfirlýstur trúleysingi hefur samt svo svakalega mikinn áhuga á trú að þú standir í endalausum umræðum um hana.
What is the point, Hjalti? Til hvers ertu að þessu? Ertu að reyna að ná þér niðri á Þórhalli ... eða prestum almennt? Eða trúuðum?
Ég hef heyrt ykkur Vantrúarmenn segja að eitt helst baráttumál ykkar sé að vinna gegn trúboði í skólum.
Hvernig ertu að vinna baráttu Vantrúar gagn með því að fara að deila við trúmann um þerenningarkenninguna?
Er einhver tilgangur í þessu hjá þér annar en að efna til enn einnar deilunnar sem enginn getur unnið?
Segðu mér hver tilgangur þinn er.
Gyða (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 15:50
Ég hef bara rosalegan áhuga á þessu og hef gaman af þessu. Ég myndi ekki nenna að standa í þessu annars.
En auk þess tel ég t.d. kristni vera ranga og skaðlega (þ.e.a.s. ég tel að heimurinn væri betri án trúarbragða) og þess vegna reyni ég að benda fólki á það.
Deilur um þrenningarkenninguna tengjast baráttunni gegn trúboði í skólum auðvitað ekki. Þegar við stöndum í þeirri baráttu eru rökin auðvitað ekki þau að kristni sé röng, heldur er vísað til mannréttinda og kröfunnar um hlutleysi skólanna.
Eins og kemur fram að ofan þá hef ég gaman af þessu og ég vonast til að fólk afkristnist.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 8.10.2010 kl. 17:22
Hjalti, þú ættir nú að vera farinn að vita að þú "afkristnar" engan trúmann fremur en að þeir kristnu "kristna" einhver trúlausan í þessum trúardeilum.
Hefur það einhvern tíma gerst?
Annars hef ég svo sem ekkert á móti því að menn og konur ræði og deili um trúmál ef þau hafa gaman af því, svo framarlega sem umræðan er ekki persónulega meiðandi, fordómafull eða lituð af einelti, en það hefur mér fundist of algengt.
Gyða (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 18:04
Já, ljóti trúleysisáróðurinn hefur áhrif. Ekki það að einhver lesi færslu hérna og hugsi síðan strax "Vá, ég er orðinn trúlaus.", en vonandi næ ég að sá einhverjum efasemdarfræjum.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 8.10.2010 kl. 18:15
Ég held að "ljóti trúleysisáróðurinn" hafi nákvæmlega engin áhrif önnur en að búa til óleysanlegar deilur op leiðindi á milli trúaðra og trúlausra.
Gyða (IP-tala skráð) 8.10.2010 kl. 22:26
Það er fjöldinn allur af fólki sem getur ekki skilgreint sig sem trúaðir eða trúlausir. Það er einmitt þetta fólk sem gagnrýnin umræða um trúmál hefur áhrif á. Vonandi til hins betra þ.e.a.s. lætur rökin hafa áhrif á sig en ekki yfirlýsingar um að svona sé þetta nú bara.
Gagnrýnin umræða skiptir máli um hvaða málefni sem er, þar eru trúmál ekki undanskilin.
Sara Ragnarsdóttir (IP-tala skráð) 10.10.2010 kl. 01:11
Vissulega á gagnrýnin umræða rétt á sér, en aðeins ef hún er réttmæt, heiðarleg og uppbyggileg. Gagnrýni sem byggist á fordómum, vanþekkingu og jafnvel hatri, sett fram í háði, vandlætingu og óvirðingu fyrir því sem verið er að gagnrýna er hins vegar ekki líkleg til að skila sér í neinu góðu.
Því miður hefur mér oft fundist gagnrýni trúlausra á trú og trúaða byggjast á síðarnefndu tegundinni af gagnrýni og því ekki bara gagnslaus og marklaus heldur hreint og beint skemmandi.
Gyða (IP-tala skráð) 10.10.2010 kl. 06:48
Voðalegur munnsöfnuður er þetta Gyða mín. Lastu ekki greinina? Hjalti er bara að benda á að ein af grunnkenningum kirkjunnar er síðari tíma uppspuni og í raun óskiljanlegt þvaður að mínu mati. Finnst þér ekki réttmætt og uppbyggilegt að benda á ósannindi? Bull?
Ég sé ekki votta fyrir vandlætingu, óvirðingu, vanþekkingu né hatri hérna. Finnst þér óþægilegt að einhver varpi ljósi á þá þvælu, sem þú sóar tíma þínum í?
Ábendingar vondu trúleysingjanna á staðleysur, uppspuna og þversagnir í trúarritum er á sömu nótum og þeir benda á svipaðar staðleysur, uppspuna og rugl hjá nýaldarkuklurum, sem einmitt eru aðallega í iðju sinni til að féfletta fólk eins og þig, svona rétt eins og kirkjan.
Þessar ábendingar bera árangur, ég get alveg lofað þér því. Fólk hefur tekið þessu á autopilot frá barnæsku og hugsar ekki út í rökleysuna fyrr en bent er á hana. Þegar það er gert, þá vaknar einmitt áhugi á trúarbrögðum og menn fara að skoða hvað leynist að baki. Þá og fyrst þá, þá gefa menn trúarbrögð upp á bátinn svona rétt eins og þeir hafna annarri staðleysu að athuguðu máli.
Þú hefur verið heilaþvegin frá barnæsku, þú óttast dauðann og hefur komið þér upp sefjun, sem byggir á óskhyggju og rökleysu. Það er skiljanlega sárt að uppgötva að maður hefur haft sjálfan sig að fífli alla tíð og enn sárara að vita að þeir sem þú lagðir mest traust þitt á, lugu að þér frá fyrsta degi.
Það ætlar enginn að taka þessa draumóra frá þér ef þú vilt ekki sleppa þeim. Látta það því eiga sig að verja hið óverjanlega og egna til uppnáms, sem þú ranglega sakar aðra um.
Jón Steinar Ragnarsson, 12.10.2010 kl. 02:08
Hjalti er ekki að segja neitt annað en staðreyndir, sem allir prestar vita en láta hjá liggja að nefna. Þórhallur er ekki einn um þetta. Hann er einn af öllum þeim, sem segir ósatt og fabúlerar gegn betri vitund í einhverskonar hagnaðarvon fyrir fyrirtækið þjóðkirkjuna. Hann lét líka hafa sig að fífli í æsku, enda prestsonur. Það er sárt að kyngja því að svo sé og því lýgur hann og réttlætir eitthvað, sem hann veit fullvel að er rangt.
Jón Steinar Ragnarsson, 12.10.2010 kl. 02:12
Meginkrafa trúlausra er sú sjálfsagða krafa að fólk segi satt. Þú veist að prestar segja ekki satt. Nefndu mér eitt atriði, sem þú veist fyrir víst að er sannleikanum samkvæmt.
Finnst þér það ekki bera vott um heilindi hjá trúlausum að hafa svo göfug prinsipp?
Jón Steinar Ragnarsson, 12.10.2010 kl. 02:15
Þrenningin er vissulega illskiljanlegt fyrirbæri. En hún sprettur jú ekki af engu. Þrenningar eru algengar í öðrum trúarbrögðum og innan gyðingdóms voru menn komnir með þrenningarkenningu fyrir kristnina.
Frægasta þrenningin er sjálfsagt Ósíris/Ísis/Hórus, önnur þrenning sem sumir telja að hafi verið langlíf í mið-austurlöndum er El/Astarte/Jahveh.
Kenningar hellenista um logos, pneumos og sophia sem nokkurs konar útvextir guðdómsins hér á jörðu smituðu sig inn í Gyðingdóm, kannski skýrast hjá Philo af Alexandríu sem setur fram þrenninguna Jahveh/Logos/Pneuma. Í ljósi þess að Logos og Jesú eru gjarnan spyrtir saman virðist augljóst að hér er þrenningarhugsunin komin? Pneuma er "hinn heilagi andi", Logos er Jesú, Jahveh er Guð.
Í kristnum ritum er þetta auðvitað ekki svona ljóst. Tvenndin Jahva-Logos kemur nokkuð skýrt fram, t.d. hjá Jóhannesi, en það er erfiðara að skýra hinn heilaga anda. Tengingin við pneuma-hugsun hellenismans virðist þó nokkuð augljós hjá Lúkasi (í postulasögunni), hann virðist sækja hvítasunnukraftaverkið beint úr Bacchae hans Euripides.
Brynjólfur Þorvarðsson, 12.10.2010 kl. 09:11
Jón, ef ég man rétt, þá sagði Gyða það í athugasemd við aðra færslu hérna (um bænina) að hún væri trúlaus.
Binni, ég held að það sé alveg hægt að finna uppruna amk tvenningar (eins og þú segir er heilagi andinn frekar "ómerkilegur") án þess að fara til Egyptalands, Grikklands eða Indlands. Meira um það seinna!
Hjalti Rúnar Ómarsson, 13.10.2010 kl. 07:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.