5.10.2010 | 20:52
Vonbrigði með umræðuna
Ágætur hluti færslanna minna eru svör við því sem ríkiskirkjupresturinn Þórhallur Heimisson skrifar á blogginu sínu. Aðalástæðan fyrir því er sú að það liggur við að hann sé eini ríkiskirkjuprestur landsins sem skrifar eitthvað um trúmál á netið.
Ég skil það vel að Þórhalli finnist það leiðinlegt að ég sé að lesa skrifin hans og benda fólki á það þegar hann fer með rangt mál. Hann virðist ekki vera ánægður með þetta, og hefur til dæmis lokað á athugasemdir frá mér á blogginu.
Nú hefur hann eftir þónokkuð hlé ákveðið að heiðra mig aftur með því að ræða við mig í síðustu bloggfærslu minni hérna.
Ég var mjög ánægður þegar ég sá hann, en varð síðan leiður þegar ég sá hvernig athugasemdirnar voru. Það er nánast ekkert efnislegt í þeim, bara einhver pirringsskot (t.d. að segja að ég þurfa að fara í hitt eða þetta námskeiðið og að ég sé hugmyndasnauður).
Ég er alls ekki að kvarta undan því að Þórhallur sé harðorður. Mér finnst fínt þegar fólk er hreinskilið og er ekkert að fela skoðanir sínar í bómullarumbúðum. Það sem er ógagnlegt er að það skortir allt innihaldið. Ef þið skoðið athugasemdirnar þá er smá innihald í fyrstu athugasemdinni, en aðallega einhver skot. Ég svara því sem hann skrifaði efnislega. Og eftir það koma athugasemdir frá honum sem eru bara innihaldslaus skot (t.d. að þetta sé kjánaskapur hjá mér).
Mér hefur fundist þetta vera svolítið algengt hjá ríkiskirkjuprestum. Þeir bara vilja eða kunna ekki að taka þátt í svona rökræðum (fólk eins og Jón Valur og Mofi kunna það). Hvers vegna veit ég ekki, en mér finnst það afskaplega undarlegt. Þetta er jú fólk sem hefur stundað háskólanám um trúna sína.
Eru þeir hræddir við umræðuna? Eru þeir bara svona óvanir því að fólk sé ósammála þeim? Er háskólanámið ekki nógu gagnrýnt?
Flokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Þar sem ég er að læra málvísindi, þá þykir mér þetta afskaplega forvitnilegt líka. Það er oft eins og trúleysingjar og trúaðir tali ekki einu sinni sama tungumál. Mismunandi skilningur er lagður í sömu orð, staðhæfingar um mismunandi hluti eru settar fram sem jafnréttháar, skautað er fram hjá spurningum, umræðuefninu breytt o.s.frv. o.s.frv.
Kannski ég leggist fljótlega í smá textagreiningu á einhverju af bloggunum þar sem umræður milli trúaðra og trúleysingja fara fram.
Rebekka, 5.10.2010 kl. 22:05
Rebekka, ég skil hvað þú átt við og ég held að í 99% tilvikum sé þetta eingöngu trúmönnunum að kenna
Ég held samt að með prestana þá er þetta ekki það að þeir skilji okkur ekki, þeir bara virðast bara ekki kunna eða ekki vilja stunda alvöru rökræður.
Hjalti Rúnar Ómarsson, 5.10.2010 kl. 22:12
Já ég er sammála þessu með prestana, þeir fara oft undan í flæmingi. En vandamálið liggur líka í misskilningi milli okkar (trúleysingja) og trúaðra, líklega af því að við höfum afar mismunandi hugmyndir um hvernig heimurinn er.
Sem dæmi má taka orðið "Guð" eða "Jehóva". Trúleysingjar skilja (líklega flestir) orðið sem hugtak yfir eitthvað óraunverulegt sem trúað fólk heldur að sé til í alvöru og tilbiður. Trúaðir (kristnir, í þessu tilfelli), skilja orðið sem nafn yfir almáttuga veru sem er til, elskar þá og hægt er að tala við (og gerir jafnvel kraftaverk).
Þess vegna er ekki undarlegt að allt fari í bál og brand oftast þegar trúaðir og trúlausir tala saman! Trúleysingjar eru að tala um einhyrning, en trúaðir um pabba sinn.
Oft fara rökræðurnar út í mjög abstrakt hluti og enda í vitleysu og uppnefningum. Mér þætti best ef báðir aðilar gætu rökrætt almennilega, tekið raunveruleg og sönnuð dæmi úr hinum efnislega heimi, og hætt að gerast svona persónulegir og móðgast yfir öllu. Best að taka það fram að mér finnst trúaðir gerast oftar sekir um þetta.
Rebekka, 6.10.2010 kl. 07:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.