17.9.2010 | 16:08
Jesús og lögmálið
Á heimasíðu sinni er Þórhallur ríkiskirkjuprestur að kvarta yfir blindu bókstafstrúaðra guðleysingja. Eitt af því sem við sjáum ekki er víst þetta:
[Jesús ] sagði einmitt:"Þér hafið heyrt að sagt var.....en ég segi yður". Hann hafnaði Móselögmálinu þar sem það stóð gegn kærleikanum og mennskunni ...
Ef við skoðum þennan kafla, þá er ljóst að þarna er Jesús (eða réttara sagt höfundur guðspjallsins) einmitt að leggja áherslu á að það eigi að fara eftir hverjum einasta staf laga Móses:
Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki. (Matt 5.17-19)
Einhver sem heldur þetta hafnar ekki neinum hluta lögmálsins. Og ef við skoðum síðan dæmin þar sem Jesús segir Þér hafið heyrt að sagt var ... en ég segi., svokallaðar andstæður Matteusar, þá er Jesús ekki að hafna lögmálinu, heldur að styrkja það. Hann er að gera það sama og til dæmis farísearnir gerðu, hann var að reyna að tryggja það að maður myndi örugglega ekki brjóta lögmálið.
Gott dæmi um þetta er bannið við því að nefna nafn guðs, Jahveh, ekkert í lögmáli Móses bannar það að maður nefni það, maður á bara ekki að leggja nafn Jahveh guðs þíns við hégóma, og til að tryggja það að maður myndi örugglega aldrei gera það, þá átti maður aldrei að segja nafnið. Þetta hefur verið kallað að reisa limgerði í kringum lögmálið (e. hedge around the Torah).
Ef maður fer í gegnum þessi Þér hafið heyrt.. en ég segi. hjá Jesú, þá er nákvæmlega það sama í gangi. Lögmálið segir, ekki drýgja hór, ef þú horfir ekki einu sinni á konu með girndarauga, þá brýturðu örugglega ekki það boðorð. Lögmálið segir að maður eigi ekki að myrða mann, ef þú reiðist ekki þá drepurðu örugglega ekki neinn.
Það sem bókstafstrúaði guðleysinginn ég sé er að Nýja testamentið er klofið í afstöðu sinni til laga Gamla testamentisins, sums staðar er Jesús harður fylgjandi þeirra og mótmælir bara túlkunum andstæðinga sinna á þeim (Matteusarguðspjall), annars staðar er neikvætt viðhorf til þeirra, þetta eru bara lögmál gyðinga sem þarf ekki að fara eftir.
Mér sýnist á öllu að Þórhallur sjái bara neikvæða viðhorfið í Nýja testamentinu, enda er það líklega afstaða hans sjálfs. En heppilegt!
Flokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Sæll,
sem áhugamaður um andans mál, sum alla vega, þá hef ég tekið eftir því að þjónar þjóðkirkjunnar hafa á stundum farið út í rjálslegar túlkanir á texta ritningarinnar. Vissulega tók Jesús það fram að menn skyldu fylgja lögmálinu, þó svo að hann hafi boðað nýjan sannleika, nýja sýn.
Hins vegar kannast ég ekki við að farísearnir hafi verið sterkustu fylgjendur lögmálsins þó svo að þeir hafi á sinn hátt meint vel - en það er einmitt málið; "á sinn hátt". Þeir bættu við það ótal mannanna setningum, sem ritningin tekur skýrt fram að eigi ekki að gera. Þeir gera í raun það sem margur nútímamaðurinn gerir, þ.e. að laga textann að eigin geðþótta, bæta við hann og laga. Þeir mistúlkuðu t.d. hinn gyðinglega texta og lögðu blátt bann við að segja nafn föðurins upphátt.
Að auki, getur verið að sumir rugli saman "lögmálinu" og ýmsum fyrirmælum hins gyðinglega, forna texta - sem eru reyndar ekki svo mörg, sé allt talið? Grunnurinn hvílir á lögmálunum tíu, ekki t.d. refsilögmálinu, né ýmsum öðrum fyrirmælum, s.s. varðandi mataræði, svo nokkuð sé talið. Í mínum huga, hefði ég því talið að hið nýja lögmál um fyrirgefninguna og blóðfórn Jesús, væri ekki í neinni andstöðu við hið gamla lögmál. En um þetta gæti ég vitanlega haft rangt fyrir mér.
Ólafur Als, 17.9.2010 kl. 23:35
Er einhverstaðar bannað að breyta og bæta við rit Biblíunnar Ólafur? Þú átt væntanlega við niðurlagið í opinberunarbókinni, sem er einna yngsta ritið. Ég held meira að segja að súklásúla eigi aðeins við þann texta. Ég get verið að fara með rangt mál, en hef lesið þessa bók spjaldanna á milli og stúderað. Geturðu sagt mér hvar þetta stendur?
Í öðru lagi finnst mér þú fara ansi frjálslega með Faríseana og orðrækni þeirra. Þeir voru einmitt mikilir bókstafstrúarmenn enda prestar, samkvæmt sögunni, þótt hinn rabbíníski Judaismi þeirra hafi í raun ekki byrjað fyrr en eftir fall Jerúsalem.
Mér sýnist Farisearnir hans Jesú hafa verið prestastétt, sem er þá ekki rétt með öllu. Þeir voru þó ígildi ofsatrúarhræsnara á borð við þá sem við þekkjum svo vel í dag og harðlega gagnrýndir af meintum frelsara. Raunar hafa verið byggðar heilar stofnanir á grunni þessa, sem kallast kirkjur. Þær halda í heiðri því sem Jesús bölvar mest í fari Faríesa í skáldsögunni miklu. Þar er listin sú að túlka og bæta við liggaliggaláið eftir hentugleikum, þótt hvergi megi finna því stað í bókinni. Hefja sig yfir mannfólkið lifa í forréttindum og vellystingum praktuglega og leggja svo nafn Guðs við allan hégómann og tildrið.
Jón Steinar Ragnarsson, 18.9.2010 kl. 00:16
Það er raunar heil íþrótt eða apólógía (réttlæting) í kringum þetta bull, sem í dag er kennd sem guðfræði. Maður veltir fyrir sér að ef almættið hefur innbláið þessa bók, af hverju hún er ekki skýrari og afdráttalausari og hafinn yfir allan misskilning. Ef svo væri í raun, þá þyrftum við ekki guðfræðinga né presta og þaðan af síður kirkjur.
Það væri gaman að vita frá Þórhalli hvort hann telji sig standa nær þessu guði en ég. Hvort ég sé ekki undir hans lögmálum, þótt hann hafi aldrei birst mér nemaþá kannski í því lægsta sem finnst í mannlegu fari og skýrast hefur komið fram í kirkjuhneykslum undanfarinna ára. Ég efast einfaldlega um að nokkur fótur sé fyrir þessu þvaðri sem hann leggur líf sitt og æru við og það er ekki neinn bókstafur annar fyrir þeim efasemdum, sem liggja að baki þeirri sannfæringu, en einmitt sá bókstafur, sem hann fylgir að sögn.
Hvað bókstafstrú er hann að tala um hjá trúlausum? Hvaða bókstaf? Er orðið bókstafstrú hnjóðsyrði í hans eyrum? Teluur hann hana slæma í sínum röðum? Vill hann kannski geta ráðið því sjálfur hvað standi þarna og túlkað eftir geðþótta?
Hver er hin hliðin á peningnum? Frjálsleg trú? Geðþóttatrú? Allskonar fyrir menn í miðaldraklæðum-trú. Einhvernvegin trú?
Hvernig trúmaður er Þórhallur, ef hann er ekki bókstafstrúar?
Jón Steinar Ragnarsson, 18.9.2010 kl. 00:30
Jón Steinar,
mér hefur skilist að textinn taki það skýrt fram að engu skuli við hann bætt, né frá tekið. Hef aðra fyrir því; biblíufræðinga. Skýrara getur það nú varla orðið en Farísearnir hlýddu þessum fyrirmælum ekki, um það er ekki deilt. Sama má segja um nútímann, nú sem fyrr, að mennirnir stunda það að laga guð sinn að eigin geðþótta.
Hver sá sem tekur orð ritningarinnar og breytir túlkunum hans svo sterklega, að hann hefði allt eins getað endurskrifað sumt af honum, getur vart talist bókstafstrúar. Þórhallur, þjóðkirkjuprestur er eflaust ágætis sáluhjálpari og prýðis fulltrúi þeirra félagsmálaúrræða sem þjóðkirkjan býður upp á - en er hann trúboði í anda orða Jesús? Veit það varla. Hann er alla vega ekki bókstafstrúarmaður.
Orð Þórhalls skil ég þó ágætlega, þegar hann talar um bókstafstrúar guðleysingja - maðurinn hlýtur að vera að vitna í hve eldheitir sumir guðleysingjar eru í trúleysinu (sannfæring, sem líkja má við trú) - e.t.v. ættu sumir að taka þessu sem prísi og lofi en ekki firrast yfir orðalaginu.
Svo er það þetta með skýrleika textans. Ég hef stundum hugsað eitthvað í þessum dúr en er alla jafna reiðubúinn að gefa góðri skýringu, af hálfu þeirra sem standa ritningunni nær en ég, vægi. E.t.v. erum við, Jón, ekki góður efniviður fyrir almættið og gerum meiri kröfur en góðu hófi gegnir - okkur skortir mögulega auðmýkt og undirgefni fyrir hið andlega alvald? Þá er bara að vona að við sjáum ljósið einhvern daginn (!).
Kveðja,
Ólafur Als, 18.9.2010 kl. 09:45
Hvernig væri að hann segði þá "eldheitir trúleysingjar" Ólafur. Bara tillaga, svona ef það er það sem hann er að meina.
Jón Steinar Ragnarsson, 18.9.2010 kl. 15:55
Já, þetta er góð ágiskun, en ég held að hún sé röng. Hann er ekki að tala um eldmóð okkar í svona samhengi:
Hjalti Rúnar Ómarsson, 18.9.2010 kl. 16:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.