Síðkölt

Ég hef skipt um skoðun nýlega varðandi pælingu sem Biggi í Vantrú kom fram með fyrir þremur árum. Pæling hans um  síðkölt. Mér fannst aðalpunktur greinarinnar aðallega vera sá að kristni byrjaði sem algert költ, eða sem “einstaklingsmiðlægur aðdáendahópur“ í kringum Jesú.

Ég var og er alveg sammála því að ef við gefum okkur að Jesús hafi verið til, þá er mjög líklegt að hann hafi verið költleiðtogi, en mér fannst það í raun og veru ekki skipta máli og skildi það að djákna og presti fannst það ósanngjarnt að reyna að klína költ-hugtakinu á Þjóðkirkjuna með þessum hætti.

En um daginn kviknaði ljós þegar ég var að lesa eitthvað efni frá ríkiskirkjupresti. Það er hárrétt hjá Bigga að kristni nálgast enn Jesú eins og költleiðtoga, þrátt fyrir að hann sé dáinn. Ef maður bara les það sem ríkiskirkjuprestarnir láta frá sér, þá sér maður að blind aðdáun á költleiðtoganum er enn til staðar. Leiðtoginn var fullkominn. Leiðtoginn elskaði alla. Leiðtoginn syndgaði aldrei. Þeir sem voru á móti leiðtoganum voru vondir. Leiðtoginn var vitrasti maður sem uppi hefur verið. Það er slæmt að trúa ekki öllu því sem leiðtoginn segir. Leiðtoginn er guð.

Maður sér svipaðan hlut hjá öðrum síðköltum, þessa brjálaðuðu og blindu dýrkun sem beinist að þeim sem stofnaði trúarbrögðin, költleiðtoganum. Múhameðstrúarmenn segja að Múhameð hafi verið fullkominn maður. Vísindaspekikirkjufólk telur L. Ron Hubbard hafa verið merkilegustu manneskju mannkynssögunnar. Kristnir telja Jesú hafa verið guð.

Kristnir eru enn fastir í þessu költhugarfari. Kristni er síðkölt.

Um gyðinga og samkynhneigða

Kristið fólk sem telur samkynhneigð ekki vera synd reynir oft að afsaka texta í biblíunni sem virðast boða allt annað. Ein vinsælasta vörnin er sú að segja að textarnir fjalli alls ekki um samkynhneigð heldur "vonda samkynhneigð". Dæmi um þetta er texti úr ályktun kenninganefndar ríkiskirkjunnar:

Þessir staðir fordæma ekki samkynhneigð sem slíka og heldur ekki þá einstaklinga sem lifa í kærleiksríkri sambúð ástar og trúfesti. # 

Svo við tökum frægan kafla úr Rómverjabréfinu sem dæmi, þá væru rökin þau að þar er aldrei fjallað um “kærleiksríka sambúð ástar og trúfesti” samkynhneigðra, og því sé samkynhneigð sem slík ekki fordæmd.

Þetta eru ansi vafasöm rök. Við gætum alveg eins notað sömu aðferð til að komast að því að nasistar hafi í raun og veru ekki talað um gyðinga, heldur bara vonda gyðiga. Ímyndum okkur að þetta hafi staðið í einhverju áróðursriti þeirra:

Þessar rottur sem telja sig afkomendur Abrahams, drápu Jesú og vilja engum manni gott og eru í raun og veru að reyna að ná yfirráðum yfir mannkyninu.

Ef við setjum á okkur í sömu stellingar kristna fólkið, þá myndum við segja að þarna séu gyðingar ekki fordæmdir sem slíkir, heldur einungis fólk sem vill engum manni gott og reyna að ná yfirráðum yfir mannkyninu.

Málið er að við höfum allt aðra mynd af gyðingum heldur en nasistarnir, þeir eru bara venjulegt fólk sem er hvorki betra né verra en annað fólk, og því passa lýsingar nasistanna ekki við gyðinga að okkar mati, en það þýðir alls ekki að þeir séu að tala um allt annan hlut.

Í fyrsta kafla Rómverjabréfsins er talað um menn og konur sem stunda óeðli og brenna í losta með því að stunda samkynja kynlíf. Þarna kemur í ljós að höfundurinn telur samkynhneigð vera ógeðslegt óeðli. Það að við tökum ekki undir lýsingu þessa manns á samkynhneigð þýðir ekki að hann sé ekki að tala um nákvæmlega það.

Kristna fólkið sem afsakar biblíuna ætti að hætta að stunda þennan leik og sætta sig bara við það að boðskapur biblíunnar skiptir engu máli, að við ættum ekki að pæla í biblíunni þegar það kemur að ákveða hvað sé rétt og rangt.

Bloggfærslur 14. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband