16.8.2010 | 08:43
Þegja sumir prestar um barnaníð?
Vegna nýlegra frétta um presta og þagnarskyldu hafa að ég held nánast allir bloggandi ríkiskirkjuprestar Íslands reynt að svara fyrir stéttina. Svarið virðist alltaf vera hið sama: Prestum ber, samkvæmt öllum lögum að tilkynna viðeigandi stjórnvöldum það, ef verið er að níðast á barni., þessu fylgir síðan oft hneykslun á lélegum vinnubrögðum hjá blaðamönnunum.
Það sem prestarnir virðast ekki skilja, eða þá að þeir eru bara reyna að færa umræðuna í annan farveg, er að um þetta er alls ekki deilt.
Það sem er fréttnæmt er að í þessum umræðum virtust sumir prestar segja að þeir myndu ekki tilkynna barnaníð, þrátt fyrir skýran bókstaf laganna, af því að þeim fannst þagnarskyldan vera æðri. Ég hef að minnsta kosti ekki heyrt útskýringar þessa bloggandi presta á þessum ummælum:
Sr. Þórir Jökull Þorsteinsson leggur áherslu á að þagnarskyldan sé algjör. Prestar séu fulltrúar heilagrar kirkju og framar beri að hlýða Guði en mönnum.
Sr. Geir G. Waage lagði áherslu á að um algjöran trúnað væri að ræða. Presturinn segði engum frá neinu og skipti engu máli um hvað væri að tefla. Hverjum ætti að vera hægt að treysta ef frjálst væri að halda þagnarskyldu? Prestafélag sem er frjálst félag innan þjóðkirkjunnar getur ekki lýst því yfir ótilneytt og bundið félagsmenn sína við þá stefnumörkun að fremur beri að hlýða mönnum en Guði. Sagðist vel geta lifað við að slíkt stæði í lögum en skyldur hans sem prests gengju lengra en mannanna boð. Gæti vart verið félagi í P.Í. ef þessu yrði breytt.
Munið eftir því að breytingartillagan var sú að minna presta á að þagnarskyldan þýddi ekki að þeir væru undanþegnir tilkynningaskyldu barnaverndarlaga! Blogg-prestarnir minnast ekkert á þetta en endurtaka aftur og aftur að prestar séu skyldaðir til þess að tilkynna svona hluti, en vandamálið er að sumir kollegar þeirra telja það vera allt í lagi að brjóta þessi lög, af því að fremur beri að hlýða guði en mönnum.