4.10.2010 | 21:03
Samtal bænarinnar
Í hvert einasta skipti sem ég sé trúmann segja að bænin sé samtal, þá velti ég því fyrir mér hvort að viðkomandi sé bara að endurtaka eitthvað sem að honum fannst hljóma gáfulega, eða hvort að hann hafi pælt í hvað hann er að segja og sé sammála því.
Þegar ég tek þátt í samtali, þá virkar það þannig að báðir aðilarnir segja eitthvað. Heldur þetta fólk því virkilega fram að það heyri guð segja eitthvað þegar það biður bænir? Ég held ekki. Réttara væri að segja að bænin er samtal þar sem að annar aðilinn segir ekki neitt.
Mig grunar að þetta sífellda tal um að bænin sé samtal sé eingöngu til þess að reyna að viðhalda þeirri trú að þú sért virkilega að tala við einhvern. Þetta er sem sagt ekki lýsing á því hvernig bænin er í raun, heldur lýsing á því hvernig bænin væri ef allt væri með felldu.