22.12.2009 | 17:49
Grundvallarboðun Jesú
Mér finnst stundum ótrúlegt hvað prestum finnst lítið mál í að skálda hitt og þetta um Jesú: Jesús var kvennréttindasinni., Jesús var friðarsinni. og ég veit ekki hvað. Í nýlegri ræðu ríkiskirkjuprestsins Þórhalls Heimissonar segir hann þetta:
Grundvallarboðun Jesú krists var að allir menn væru börn guðs,....
Nú finnst prestinum þetta örugglega afskaplega fallegt og finnst sjálfsagt að Jesú hafi boðað þessa krúttlegu setningu: Allir menn eru börn guðs. en hvað segir Nýja testamentið okkur?
Þegar ég leitaði, þá fann ég engan stað þar sem Jesú er eignað einhver orð í þessa veru, hins vegar segir hann margt sem sýnir klárlega fram á að hann hefur ekki trúað þessu. Sem dæmi þá segir Jesús í fjallræðunni: Sælir eru friðflytjendur, því að þeir munu guðs börn kallaðir verða. (Mt 5.9). Ef allir eru guðs börn, þá er erfitt að sjá hvernig hægt er að segja að einhver hópur manna verði sérstaklega kallaður guðs börn.
Annars staðar kallar Jesú gyðinga syni djöfulsins, þannig að varla eru þeir synir guðs að hans mati: Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. (Jh 8.44)
Ef maður kíkir síðan í guðspjöllin sjálf, þá heldur til dæmis höfundur Jóhannesarguðspjalls klárlega ekki að allir séu guðs börn, heldur bara kristið fólk:
En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans. (Jh 1.12)
Að allir menn væru börn guðs var klárlega ekki grundvallarboðun Jesú, hann virðist bara alls ekki hafa boðað þetta.