Fleiri prestar í trúarafneitun

Ég ímynda mér að það sé hugsanlega einn hluti trúarjátninga ríkiskirkjunnar sem margir prestar hennar þola beinlínis ekki. Þetta er 17. grein Ásborgarjátningarinnar. Svona hljómar skemmtilegi hluti hennar:

17. grein: Um endurkomu Krists til dóms
Ennfremur kenna þeir: Kristur mun birtast við endi heims til að dæma og mun hann uppvekja alla dauða. Guðhræddum mönnum og útvöldum mun hann gefa eilíft líf og eilífan fögnuð. Guðlausa menn og djöflana mun hann fordæma, að þeir kveljist eilíflega.
Þeir fordæma endurskírendur, sem álíta, að endir verði bundinn á refsingu fordæmdra manna og djöflanna. 

 

Þarna er helvíti boðað svart á hvítu. Við heimendi mun Jesús sjá til þess að einhver hluti mannkyns muni kveljast að eilífu. Afneitun á þessu er síðan alveg sérstaklega fordæmd. Þetta getur bara ekki verið skýrara.

Prestar vita vel af þessari grein. Þess vegna eru nýleg skrif ríkiskirkjuprestahjóna mjög óheiðarleg. Þau voru að svara skrifum Valgarðar þar sem hann telur meðal annars upp nokkrar trúarkenningar. Ein þessara trúarkenninga var trúin á vítiskvalir í helvíti. Það er alveg ljóst að Þjóðkirkjan játar trú á kvalir í helvíti, meira að segja eilífar kvalir.

Prestarnir skrifuðu hins vegar:

Sá sem er trúaður og tilheyrir þjóðkirkjunni (og hér tölum við um þjóðkirkjuna sérstaklega því það er okkar trúfélag og við þekkjum hana best): ....
10. þarf ekki að óttast sem barn ef einhver nákominn deyr að viðkomandi líði vítiskvalir í helvíti 

 

Þetta er augljóslega rangt, kirkjan boðar að fólk geti endað í eilífum kvölum í helvíti, og þess vegna þarf maður að óttast að einhver nákominn gæti endað í eilífum kvölum í helvíti. Prestarnir vita þetta auðvitað, og því eru þetta ekkert nema lygar.

Auk þess skrifaði annar ríkiskirkjuprestanna, Árni Svanur Daníelsson, þetta í athugasemd:

Þjóðkirkjan er stærsta trúfélag á Íslandi (tæp 80% landsmanna tilheyra þessu trúfélagi) og eins og við bendum á í færslunni er hægt að tilheyra því trúfélagi og vinna fyrir það sem prestur og ekki skrifa undir eina einustu af óbeinum staðhæfingum hans um trúaða.
Framhjá þessu verður ekki litið.

 

Þetta er líka beinlínis rangt. Að afneita því að sumt fólk muni kveljast að eilífu í helvíti er beinlínis fordæmt í aðaljátningu Þjóðkirkjunnar og það sem meira er, prestar eru skyldaðir til þess að játa þessu. Þeir heita því við vígslu sína að boða í samræmi við játningar ríkiskirkjunnar. 

Þetta vita þessir ríkiskirkjuprestar, Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir, alveg. 

Ég held að þau séu beinlínis að ljúga. Þau vita betur, en það kemur þeim bara illa að játa þetta. Þau trúa svo örugglega hvorug því að fólk muni kveljast að eilífu í helvíti.

Ríkiskirkjuprestar eru helvíti óheiðarlegir. 


Trúarafneitunarblogg Þórhalls

Nýjasta trúarjátningafærsla ríkiskirkjuprestsins Þórhalls Heimissonar fjallar um orðin: "..og mun þaðan koma, að dæma lifendur og dauða." í postullegu trúarjátningunni.

Það er margt áhugavert þarna (t.d. hvað hann er óljós varðandi örlög hinna fordæmdu) en það sem stendur upp úr er afneitun hans á grundvallarkenningu mótmælenda, að það sé aðeins trúin sem réttlætir menn en ekki verk.

Þetta segir hann (með feitletrnum frá mér):

Þess vegna gengur líka allt mannkyn fram fyrir dómarann Jesú á dómsdegi. Það skiptir ekki máli hvort menn hafi minni eða meiri þekkingu á þessu eða hinu í kenningu og siðum kirkjunnar. Það skiptir ekki máli hvort menn eru prestar, biskupar, auðjöfrar, forsætisráðherrar, húsmæður, vinstra eða hægra megin í pólitík, kristnir eða múslímar, trúaðir eða vantrúarmenn, samkynhneigðir eða gagnkynhneigð. Við dæmumst af því hvernig við mætum öðrum mönnum í þeirra neyð. 

 

Og síðar endurtekur hann þetta (aftur með feitletrunum frá mér):

Allir menn munu verða dæmdir óháð trú, kyni, litarhætti eða öðru sem skilur að mennina.
Sérhver dæmist samkvæmt verkunum.
Lokadómurinn mun skilja milli þeirra sem fylgja Kristi í sannleika og hinna.
Hinn réttláti fær að dvelja hjá Guði, hinn fordæmdi er án Guðs.
 

Þórhallur byggir þessa skoðun sína á dæmisögu sem Jesús segir í heimsendaræðu sinni í Matteusarguðspjalli. Ég er alveg sammála því að þar ræðst dómurinn að því hvort hegði sér vel eða ekki, en spurningin er auðvitað sú hvers vegna Þórhallur heldur áfram að vera prestur í Þjóðkirkjunni ef hann trúir þessu, því ef hann gerir það, þá er hann einfaldlega ekki lútherskur. 

Aðaljátning ríkiskirkjunnar, Ásborgarjátningin, er nefnilega mjög skýr þegar kemur að þessu, enda er þetta eitt af aðaláhersluatriðum mótmælenda:

4. grein: Um réttlætinguna
Ennfremur kenna þeir: Menn geta ekki réttlæst fyrir Guði af eigin kröftum, verðleikum eða verkum, heldur réttlætast þeir án verðskuldunar vegna Krists fyrir trúna, er þeir trúa því, að þeir séu teknir til náðar og syndirnar séu þeim fyrirgefnar vegna Krists, sem með dauða sínum hefur fullnægt fyrir syndir vorar. Þessa trú reiknar Guð til réttlætis fyrir sér, Róm. 3. og 4. (Rm 3.21nn; 4.5.). 

 

Ég legg til að næst fari Þórhallur í gegnum Ásborgarjátninguna og útskýri hvers vegna hann trúi ekki hinum ýmsu greinum hennar.

En það er eitthvað viðeigandi við það að við sjálfa prestvígsluna, þar sem prestar lofa því að boða í samræmi við þessa játningu, skuli prestarnir strax orðnir óheiðarlegir. 


Um "alvöru" tilgang

Ég var nýlega að rökræða við einn uppáhaldsprestinn minn, hann Gunnar Jóhannesson. En hann hefur aðallega unnið það til frægðar hjá mér að vera "bókstafstrúaður" þjóðkirkjuprestur (hann telur biblíuna vera "óskeikula" og "fullkomna") sem hefur sagt að þegar guð er að drepa heilu hópana í biblíunni, þá geri hann það "með kærleikann að vopni". 

Hann skrifaði nýlega grein og síðasta athugasemdin mín hefur ekki komist í gegn (líklega var hann upptekinn um jólin) og hún mun líklega aldrei komast í gegn þar sem hann er búinn að loka á athugasemdir. Hann hefur áður sagt það sem hann segir í greininni: "Ef guð er ekki til er lífið ömurlegt og vitlaust og það er ekkert til sem heitir rétt eða rangt." (þetta er ekki bein tilvitnun í hann!). Og það sem skiptir máli hér: að ef enginn guð er til, þá sé ekki til neinn hlutlægur tilgangur, það sé bara um "huglæga blekkingu að ræða".

Þessum pælingum hans hefur þegar verið svarað, en mig langar aðeins að skrifa um þetta hérna.

Ég get alveg tekið undir það að allur tilgangur er bara "huglæg blekking", það er enginn "tilgangur" þarna úti. En það sem ég held líka að ef að guð væri til, þá væri líka allur tilgangur sem myndi byggjast á honum líka vera "huglæg blekking".

Ímyndum okkur t.d. þetta:

1. Vísindamaðurinn Finnur Finnsson býr til sýkil á rannsóknarstofunni til þess að drepa fólk.

2. Guð smellir fingrum og býr þannig til sýkil til þess að drepa fólk.

Af hverju ætti maður að halda að í 1. sé tilgangurinn bara "huglæg blekking" en í 2. sé um "alvöru" tilgang að ræða? Ég sé enga ástæðu til að halda það og þegar ég spyr Gunnar um ástæður, þá fæ ég alltaf einhver svör sem mér finnst ekki vera neitt vit í, eins og "Guð er svo svakalega sterkur." (þó hann orði það öðruvísi). Tilgangur sem byggist á guði er alveg jafn mikil "huglæg blekking" og tilgangur sem byggist á fólki.

Og þar sem Gunnar er aðallega að tala um tilgang lífsins þá getum við búið til sambærilegt dæmi:

1. Hjónin Siggi og Gunna finnst leiðinlegt að sjá um garðinn sinn, þau ákveða að eignast barnið Finnboga svo að það geti séð um garðinn. 

2. Guð smellir fingrinum og ákveður að búa til manninn Finnboga í þeim tilgangi að sjá um garð. 

Svo kemur annað í ljós þegar maður pælir í hlutunum, einhver svona tilgangur, ytri tilgangur (þeas sem að þú býrð ekki til sjálfur) þarf ekkert að vera æðislegur.

Ímyndum okkur til dæmis að á morgun myndi guð opinbera það að hann hafi skapað mannkynið í þeim tilgangi að vera matur handa Marsbúum. Myndi Gunnar þá gleðjast og segja að það að vera á disknum hjá Marsbúum væri eini "alvöru" tilgangurinn og tilgangur sem maður býr sjálfur til sé ekki "alvöru" tilgangur?

Ég held að Gunnar sé bara að endurtaka lélegar röksemdir sem hann hefur lesið hjá einhverjum vafasömum trúvarnarmönnum.  


Enn eitt árið liðið...

...og enn bólar ekkert á endurkomu Jesú. Kristið fólk er svolítið lengi að fatta að kemur ekki aftur.

Í guðspjöllunum lofar Jesús því samt að þetta ætti að gerast á fyrstu öld (í Mt 25.34 talar hann um að  "þessa kynslóð" muni sjá heimsendi og í Mt 16.28 um "nokkra þá sem hér standa"). 

Jafnvel Einar Sigurbjörnsson viðurkennir þetta:

 

Framtíðarvonir Nýja testamentisins bindast voninni um endurkomu Jesú sem dómara. Á elstu stigum hefur vonin um yfirvofandi komu Jesú verið sterk og virðist Jesús sjálfur hafa gengið út frá því í prédikun sinni: [svo vitnar hann í Mk 13.30 sem eru sömu ummæli og í Mt 25.34] (Credo, bls 457)

 

Það er alltaf frekar fyndið að sjá kristið fólk hlæja að mislukkaðri spádómsgáfu votta Jehóva (en heimsendir átti að koma ansi oft á 20. öld samkvæmt þeim), en á meðan er það í trú sem byrjaði með fólki sem var alveg eins og vottarnir.


Feimnir prestar

Mér finnst merkilegt hvað það er stundum erfitt að fá ríkiskirkjupresta til að segja hreint út hverju þeir trúa.

Undanfarna daga hef ég verið að ræða við Þórhall Heimisson í athugasemdum við grein eftir hann á trú.is og hann virðist bara alls ekki vilja segja hvort hann trúi á meyfæðinguna eða ekki. 

Mér sýnist hann ekki trúa á hana, og það er skiljanlegt að hann vilji ekki viðurkenna það, enda játar hann reglulega að Jesús hafi verið "getinn af heilögum anda og fæddur af Maríu mey". Það væri svolítil hræsni að trúa því ekki. 

 


Óheiðarlegir prestar

Ég orðinn frekar þreyttur á prestum ríkiskirkjunnar. Mér finnst þeir svo rosalega óheiðarlegir. 

Ég skrifaði nýlega um óheiðarlegan málflutning Arnar Bárðar. Í umræðunum um tillögur mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar hafa prestarnir líka verið duglegir við að segja að þeir vilji alls ekki trúboð í skólum og að kirkjan stundi það bara alls ekki. En á Vantrú í dag er grein þar sem foreldri segir frá kirkjuheimsókn dóttur sinnar með skólanum:

 

Presturinn byrjaði samkomuna á því að láta börnin teikna kross með fingrunum, og lét þau síðan signa sig, og sagði þeim að þau væru að merkja sig börn guðs. Einnig leiddi presturinn börnin áfram í látbragðsleik sem endaði þannig að þau bönkuðu á lófann á sér. Hver var að banka? Jú það var enginn annar en Jesús kristur, bankandi á hjarta þeirra. Presturinn spurði hvort það væri ekki örugglega pláss fyrir Jesú þar, því hann væri besti vinur þeirra. Svo hélt hún áfram og sagði að það væri rosalega gott að tala við vin sinn og í framhaldinu lét hún öll börnin spenna greipar og þau fóru saman með Faðir Vor. 

 

Þegar presta stunda þetta um leið og þeir segjast alls ekki vilja trúboð í skólum, þá er erfitt að neita því að þeir eru bara óheiðarlegir. Ljúga til þess að geta stundað það að ná til ungra barna sem svo "heppilega vill til að eru trúgjörn" (svo að ég noti orðalag eins prests). 

Lesið greinina á Vantrú og hafið þetta í huga næst þegar prestur tjáir sig um ásókn kirkjunnar í skóla.


Þórhallur og aðir óhræddir trúmenn

Prófavertíðin er búin og þá get ég haldið áfram að skrifa um það sem ríkiskirkjupresturinn Þórhallur Heimisson hefur að segja um upprisu Jesú, en ég hef þegar bent á að annað hvort hefur hann ekki hugmynd um hvað hann er að tala eða þá að hann lýgur beinlínis fyrir trúna sína, sem kæmi mér satt best að segja ekki á óvart. 

Skoðum þessi ummæli Þórhalls:

Veigamestu rökin fyrir sannleika páskasögunnar eru á þessa leið: Eftir krossfestinguna voru lærisveinar Jesú bugaðir af þeim ósköpum, er yfir þá höfðu dunið: Meistari þeirra hafði verið handtekin, píndur og kvalinn, dæmdur og líflátinn með svívirðilegum hætti. “Vér vonuðum, að hann væri sá, er leysa mundi Ísrael” sögðu lærisveinarnir á leið sinni til Emmaus að kvöldi páskadags (Lúk.24:2l). Nú var sú von að engu orðin, og ekkert blasti við förunautum Jesú annað en niðurlægjandi ósigur. Eðlilegustu viðbrögð þeirra hefðu verið á þá lund að hverfa aftur hver til síns heima og fella hina stuttu sögu predikarans frá Nazaret í gleymsku.
En hér fór á annan veg. Innan fárra vikna tóku postularnir að boða mönnum þau tíðindi, að sögu hins fyrirlitna og krossfesta leiðtoga þeirra væri ekki lokið. Saga hans væri þvert á móti að hefjast, - saga hins upprisna. Fáum árum síðar voru lærisveinarnir og skjólstæðingar þeirra lagðir af stað út um borgir Rómaveldis, þar sem þeir hvarvetna sögðu tíðindin. Nú er ekki svo að skilja, að þeirra biði hrós og lofstír fyrir þennan boðskap. Þvert á móti: Þeir voru sjálfir ofsóttir og líflátnir fyrir tiltæki sitt.
Hefði ekki verið skynsamlegra að þegja? Jú eflaust. Hver fórnar lífi sinu fyrir lygasögu? Enginn.
Þannig að punktur Þórhalls er þessi. Hvernig útskýrum við þetta:

1. Eftir krossfestingu Jesú hættu lærisveinarnir ekki þeirri vitleysu að fylgja Jesú. 

2. Lærisveinarnir dóu fyrir trú sína.

Þegar kemur að fyrri punktinum, þá þarf maður til að byrja með að átta sig á því að við höfum einfaldlega ekki áreiðanlegar heimildir um upphaf kristni. En hvað um það, gefum okkur það að það hafi verið hópur tólf manna sem var innri hringur einhvers konar költleiðtoga. Er það ekki óskiljanlegt að þeir hafi ekki hætt í sértrúarsöfnuðinum þegar leiðtoginn þeirra var drepinn?

Í raun er það alls ekki ólíklegt, ég myndi meira að segja telja það líklegt, að aftaka Jesú myndi hafa þessi áhrif. Vissulega myndu einhverjir hætta, en þeir sem væru þegar búnir að eyða helling í költinn (t.d. yfirgefa fjölskyldur sínar) myndu tvíeflast. Ótrúlegt en satt, en þá er það þannig að þegar trúarbrögð fólks virðast afsönnuð með einhverri ytri staðreynd (t.d. þegar heimsendir kemur ekki, sem væri líklega sambærilegt við dauða Jesú og skort á þeim heimsendi sem hann virðist hafa boðað) veldur því að fylgjendurnir reyna að komast yfir þau óþægindi sem það veldur með því að sannfæra annað fólk um að trúin þeirra sé rétt. Fyrir þá sem hafa áhuga, og vilja sannfærast um að Þórhallur sé að bulla, þá bendi ég á umfjöllun um hugrænt misræmi (e. cognitive dissonance).

Varðandi það að lærisveinarnir hefðu ekki dáið fyrir "lygasögu", þá er það einfaldlega ekki satt. Joseph Smith, sem stofnaði mormónatrú algerlega byggt á lygum, dó fyrir "trú" sína. En þó svo að það sé alls ekki ómögulegt, þá er alveg óþarfi að tala um að lærisveinarnir hafi dáið fyrir trú sína. Allar sögurnar af lærisveinunum sem fara út um allan heiminn og deyja fyrir trú sína á upprisu Jesú (hvað þá sögurnar sem við finnum í guðspjöllunum) eru síðari tíma uppspunar. Við finnum söguna um píslardauða Péturs í bók sem segir að Pétur hafi líka stundað þá iðn að fljúga. Í þeirri bók er líka talandi hundur. Svo virðist það hafa verið ótrúlega erfitt að drepa lærisveinana, ef ég man rétt þá á Jóhannes að hafa lifað það af að hafa verið dýpt ofan í sjóðandi olíu. Þetta eru allt helgisögur, maður þarf ekki kraftaverk til að útskýra þær. En auk þess höfum við ekki hugmynd um hvort að einhverjir lærisveinar hefðu sagt sögur af tómri gröf, Páll postuli virðist ekki vita neitt um þær sögur sem við lesum um í guðspjöllunum. 

Þessi "veigamestu rök" fyrir "sannleika páskasögunnar" eru ekki byggð á neinum alvöru heimildum. Eins og venjulega er Þórhallur að bulla.


Þórhallur og tóma gröfin

Þórhallur Heimisson er kominn að upprisunni í trúarjátningaskrifum sínum, og þar skrifar hann þetta  (með feitletrunum frá mér):

 

Allt frá upphafi kristins dóms voru til menn sem véfengdu sannleiksgildi páskafrásagnanna, frásagnanna af upprisu Jesú Krists eins og þær er að finna í guðspjöllunum. Þær efasemdir heyrast enn og kröftuglega hjá mörgum, eftir nær 20 aldir. Um eitt voru menn þó samdóma frá öndverðu: Gröf Krists var tóm að morgni páskadags. Jesús hafði verið lagður í hana að kvöldi föstudagsins langa. Þaðan var hann horfinn á þriðja degi. Enginn hefur rengt það, hvorki fyrr né síðar. Af þessum sökum hefur gröfin tóma löngum orðið tákn páskanna í vitund kristinna manna. Um hana er ekki ágreiningur

 

Þetta er bull og vitleysa. Það vill nú svo skemmtilega til að bandarískur "fræðimaður" (viðkomandi trúir að biblían sé óskeikul, þannig að það er erfitt fyrir mig að kalla hann fræðimann), Gary Habermas, hefur tekið saman öll skrif fræðimanna á ensku, frönsku og þýsku frá 1975 og einfaldlega talið það hve margir trúa hverju.

Niðurstöður hans (greinin birtist í The Journal for the Study of the Historical Jesus) varðandi tómu gröfina voru þær að ~75% héldu að það hafi verið tóm gröf, ~25% töldu að það hafi ekki verið tóm gröf. Og það eru ekki bara einhverjir rugludallar sem trúa ekki á tómu gröfina, þarna eru menn eins John Dominic Crossan og Burton Mack. 

Þannig að "[e]nginn hefur rengt" söguna af tómu gröfinni, fyrir utan fjórða hvern fræðimann sem skrifar um þetta. 

Og ég verð að segja að mér finnst þetta há tala, sérstaklega í ljósi þess að það er auðvitað aðallega kristið fólk sem að leggur stund á þessi fræði. Við myndum alveg eins búast við því að stór hluti þeirra fræðimanna sem rannsaka múhameðstrú séu múhaðemstrúarmenn og trúi því frekar á ótrúlegar sögur innan trúarbragðanna þeirra. Inn í þessum tölum hans Habermas eru einmitt "fræðimenn" eins og hann og William-Lane Craig sem halda að biblían sé óskeikul. 

Svo er auðvitað einfaldlega hættulegt fyrir suma fræðimenn að skrifa neikvætt um þetta, kirkjur eiga sterk ítök í guðfræði- og trúarbragaðfræðideildum víðs vegar. Gerd Lüdemann (sem er líklega ekki til samkvæmt Þórhalli) , sem var prófessor við guðfræðideild háskólans Í Göttingen missti eiginlega stöðuna sína við háskólann vegna þess að hann afneitaði kristinni trú.

Síðan hafa þessir fræðimenn góðar ástæður fyrir því að trúa því að sagan af tómu gröfinni sé helgisaga. Það var algeng gerð af sögum í fornöld að líkami einhvers merkilegs manns fannst ekki og það átti að vera til merkis um að viðkomandi hafi verið numinn upp til himna til guðs eða guðanna. Flott dæmi um þetta, sem ég hef minnst á áður, er sagan af Apollóníos: 

 

Einn samtímamaður Jesú hét Apollóníos. Í bók um æfi hans segir að einn dag hafi hann gengið að hofi, dyrnar hafi opnast og lokast sjálfar og að kór hafi heyrst syngja: „Flýttu þér frá jörðinni, flýttu þér til himna.“ Ekkert meira spurðist um hann og höfundur bókarinnar segir að hann hafi ferðast um flest lönd og hvergi rekist á gröf hans. 

 

Sagan af tómu gröfinni hljómar bara eins og enn ein sagan af því að líkami einhvers merkilegs manns finnist ekki og því hljóti hann að vera farinn upp til himna.  

Önnur ástæða er sú að tóma gröfin virðist gera ráð fyrir líkamlegri upprisu, en Páll virðist ekki trúa á það. Hann segir að "hold og blóð" geti ekki erft guðs ríki og að Jesús hafi orðið að anda við upprisuna (1Kor 15).

En hvort sem að maður trúir því að það hafi verið tóm gröf eða ekki þá ætti maður að minnsta kosti að vita af því að það er ótrúlegt rugl að halda því fram að enginn, hvorki fyrr né síðar, hafi rengt tilvist tómu grafarinnar. Ég veit ekki hvernig Þórhallur getur haldið fram svona fullyrðingum sem allir þeir sem hafa kynnt sér þessi mál eitthvað vita að eru ósannindi. 


Hefnigjarnt og blóðþyrst barn

Prestar hætta seint að koma mér á óvart. Í þetta skiptið er það Bjarni Karlsson, ríkiskirkjuprestur, en í nýjustu predikuninni sinni segir hann þetta:

Góður Guð er að starfi í sögunni, hann hefur ekki skilið okkur ein eftir. “Styrkið máttvana hendur, styðjið magnþrota hné,” las hún Auður hér áðan úr lexíu dagsins: “Styrkið máttvana hendur, styðjið magnþrota hné, segið við þá sem brestur kjark: ‘Verið hughraustir, óttist ekki, sjáið, hér er Guð yðar, hefndin kemur, endurgjald frá Guði, hann kemur sjálfur og bjargar yður.’ Þá munu augu blindra ljúkast upp og eyru daufra opnast. Þá stekkur hinn halti sem hjörtur og tunga hins mállausa fagnar. Já, vantslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir í auðninni.” (Jes. 35.3-6)
 
Í stað magndrungans, í stað neysludoðans sem lagst hefur á menningu okkar og rænt okkur meðvitund svo að við eigum bágt með að kannast við náunga okkar og vitum ekki hvort við viljum vera samferða, í stað þess andlega tóms sem lengi hefur þjakað þjóð okkar og vestræna menningu almennt og valdið firringu frá eðli lífsins og framandleika manna í millum, - þess í stað boðar góður Guð nálægð sína. Hann nálgast heiminn ekki í magni heldur í gæðum. Hann kemur sem barn. Hann kemur til þess að gráta í heiminum. Ekkert vekur okkur fremur en grátur ungabarnsins. Ekkert kveikir í frumkenndum mennskunnar fremur en ilmurinn af reifabarninu. Þannig kemur Guð til þess að vekja.

Prestum virðist finnast afskaplega dúllulegt að tala um guðinn sinn sem lítið, máttvana og grátandi barn. Synd að Jesús hafi ekki tekið á sig mynd kettlings, þá myndu prestarnir líka geta talað um Jesú-kettlinginn og hvað hann var sætur og góður.

En það er frekar undarlegt að vitna í þennan kafla í Jesaja, því að þar er ekki verið að tala um komu guðs til að "gráta í heiminum". Nei, þarna er verið að boða hefnd og endurgjald. Það er verið að tala um heimsendi! 

Hérna er önnur tilvitnun í sama verk þar sem við fáum að lesa um nálægð góðs guðs, hvernig guð kemur til þess að gráta í heiminum og hvernig guð nálgast ekki heiminn í magni heldur í gæðum:

Sjá, dagur Drottins kemur, grimmilegur, með heift og brennandi reiði, til að gjöra jörðina að auðn og afmá syndarana af henni. Stjörnur himinsins og stjörnumerkin láta eigi ljós sitt skína, sólin er myrk í uppgöngu sinni og tunglið ber eigi birtu sína. Ég vil hegna jarðríki fyrir illsku þess og hinum óguðlegufyrir misgjörðir þeirra, ég vil niðurkefja ofdramb hinna ríkilátu og lægja hroka ofbeldismannanna. Ég vil láta menn verða sjaldgæfari en skíragull og mannfólkið torgætara en Ófír-gull. Þess vegna vil ég hrista himininn, og jörðin skal hrærast úr stöðvum sínum fyrir heift Drottins allsherjar og á degi hans brennandi reiði. Eins og fældar skógargeitur og eins og smalalaus hjörð skulu þeir hverfa aftur, hver til sinnar þjóðar, og flýja hver heim í sitt land. Hver sem fundinn verður, mun lagður verða í gegn, og hver sem gripinn verður, mun fyrir sverði falla.
 
Ungbörn þeirra munu knosuð verða fyrir augum þeirra, hús þeirra verða rænd og konur þeirra smánaðar. Sjá, ég æsi upp Medíumenn gegn þeim. Þeir meta einskis silfrið og þá langar ekki í gullið. Bogar þeirra rota unga menn til dauða. Þeir þyrma ekki lífsafkvæmum, og líta ekki miskunnaraugum til ungbarna. (Jesaja 13.9-18)

Nýja þýðingin segir að ungbörn þeirra verði "barin til bana" og að konum þeirra verði "nauðgað". Takið eftir því að þetta er hluti af refsingu sem guð sjálfur á að senda, hann "æsir upp" Medíumenn.

Ef Bjarni myndi nú fjalla heiðarlega um þennan texta, þá myndi hann segja eitthvað eins og: "Jæja, þetta stendur í Jesaja, en takið eftir talinu um hefnd og endurgjald. Það er hluti af boðskap Jesaja, þar er nefnilega sagt að guð refsi fólki við komu sína til dæmis með því að láta innrásarheri berja börn til bana. Guðinn sem er boðaður í Jesaja er ógeðslegur, minn guð er hins vegar rosalegt krútt, svona eins og kettlingur."

En Bjarni gerir þetta ekki, hann talar vel um guðinn í Jesaja sem sendir fólk til að myrða börn, segir að hann sé góður. Það er ógeðslegt. Bjarni ætti að skammast sín.

Að slíta úr samhengi

Í trúmálaumræðum hef ég ansi oft verið sakaður um að slíta eitthvað úr samhengi. Viðkomandi reynir samt nánast aldrei að rökstyðja þessa ásökun sína. Oft virðist þetta bara vera sjálfkrafa viðbrögð hjá trúfólki þegar því er bent á einhver ljót vers í biblíunni.

Ég ímynda mér að það sé eitthvað svona í gangi: "Biblían er svo falleg bók að svona ljótur boðskapur Einhvern veginn er búið að umbreyta upprunalega fallega boðskapnum. Trúleysinginn hlýtur að hafa slitið textann úr samhengi."

Ef einhver þessara trúmanna sem stunda þetta eru að lesa þessa færslu, þá langar mig að útskýra fyrir þeim muninn á að "slíta úr samhengi" og að "vitna í". Það að vitna bara í hluta úr texta, og taka hann þannig úr samhenginu, er ekki að slíta textann úr samhengi. Að slíta texta úr samhengi gefur til kynna að hann þýði eitthvað annað í samhenginu. 

Ef ég hefði skrifað í gær: "Mér finnst ástæða til þess að láta lögregluna vita af því sem Siggi sagði í gær, hann hótaði Magga lífláti með því að segja: "Maggi, ég ætla að skjóta þig í hausinn.", þá gæti ég verið að slíta þetta úr samhengi, en hugsanlega er ég ekki að gera það. Til þess að komast að því þá kíkjum við á hvaðan tilvitnunin er komin og athugum hvort hún þýði eitthvað allt annað í sínu upprunalega samhengi.

Ég væri ekki að slíta ummæli Sigga úr samhengi ef þau hefði verið sögð í þessu samhengi: Siggi ræðst á Magga með hníf, en Maggi nær að verjast árásinni og Siggi hleypur í burtu og öskrar þessi orð.  

Ég væri að slíta ummæli Sigga úr samhengi ef þau hefðu verið sögð í þessu samhengi: Siggi, Maggi og aðrir vinir þeirra voru að spila tölvuleik þar sem markmiðið er að drepa hina spilarana. Siggi sagði þessi orð rétt áður en hann skaut karakter Magga í hausinn.

Ef einhver kemur með ásökun um að eitthvað sé slitið úr samhengi, þá er lágmarks krafa að viðkomandi útskýri hvað hann á við (t.d. "Þetta er slitið úr samhengi. Siggi var að tala um að skjóta Magga í tölvuleik!"), sérstaklega þar sem það ætti að vera afksaplega auðvelt ef orðin eru virkilega slitin úr samhengi.

Þetta hljómar allt voða einfalt, en sumir trúmenn virðast ekki ná þessu (nýjasta dæmið er í síðustu færslunni minni). Kæru trúmenn, reynið nú að vanda málflutning ykkar örlítið!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband