29.5.2011 | 17:32
Aftur um meintu bókstafstrú mína
Mér finnst umræðan við ríkiskirkjuprestinn Bjarna Karlsson hafa verið mjög gagnleg, og hún hefur sannfært mig enn meira að prestar ásaki fólk (mig!) um bókstafstrú á alveg ótrúlegum ástæðum.
Áður en við kíkjum á nýjustu útskýringu Bjarna á því hvers vegna ég á víst að aðhyllast bókstafstrúartúlkun, er vert að hrósa Bjarna fyrir að viðurkenna þetta:
Það er mjög líklegt að höfundur eða höfundar Matteusarguðspjalls hafi bókstaflega séð fyrir sér einn alsherjar dómsdag sem lúrði einhversstaðar á dagatalinu, daginn þar sem Jesús bara birtist bomsaraboms og allir stæðu á öndinni, einkum vantrúarmenn sem hefðu veðjað á rangan hest í eilífðarlotteríinu. Já, já það má vera. Um það get ég ekkert fullyrt.
Einmitt, enda er erfitt að túlka ýmis ummæli í Matteusarguðspjalli á annan veg. En hvað var Bjarni þá að segja að það mætti glöggt sjá að sá dómur sem Jesús talar um er ekki einhver einn atburður í endi tímanna?
Hann útskýrir það næst með mjög fjarstæðukenndum túlkunum:
Það sem ég er að benda á er sú staðreynd að samhliða dómsdagsetningunni sem Jesús ávarpar þegar hann segir við lærisveina sína: Um þann dag eða stund veit enginn, ekki einu sinni englar á himni.. þá er rík árhersla á það að dómurinn er í raun kveðinn upp af hverjum einstaklingi yfir sjálfum sér. Af orðum þínum muntu syknaður og af orðum þínum muntu sakfelldur verða. Og það er haft fyrir því að hafa það eftir sjálfum frelsaranum að ENGINN viti daginn. Hvers vegna? Vegna þess að hverjum degi er ætlað að vera dómsdagur.
Þegar maður skoðar fyrri ummælin (sem eru í Matt 24.36) , um að ekki einu sinni Jesús eða englarnir viti hvenær sá dagur á að vera, þá borgar sig fyrst að kíkja á samhengið. Hver er sá dagur? Í samhenginu er ljóst að það er að tala um einn alsherjar dómsdag, mannssonurinn mun birtast á himni (v. 30), sólin um sortna og tunglið hætta að skína og stjörnurnar munu hrapa af himni (v.29). Ummæli Jesús þýða þá að hvenær þessi alvöru dómsdagur verði veit bara guð.
Hvernig það er hægt að draga þá ályktun af þessu að Jesús sé í raun að segja að hver einasti dagur sé einhvers konar dómsdagur er mér hulin ráðgáta. Ef ég segi t.d. Ég veit ekki hvenær Bandaríkin munu ráðast á Íran., þá er ég ekki að segja að hver einasti dagur sé í raun og veru innrásardagur Bandaríkjanna.
Mér finnst túlkun hans á síðari ummælunum enn glórulausari. Þar (í Matt 12.37) segir Jesús Því af orðum þínum muntu sýknaður, og a orðum þínum muntu sakfelldur verða.. Ef við kíkjum aftur á samhengið þá er Jesús nýbúinn að segja: Hvert ónytjuorð, sem menn mæla, munu þeir verða að svara fyrir á dómsdegi. Og þar á undan var hann búinn að fordæma faríseana fyrir að tala í samræmi við illt innræti þeirra. Á undan því var hann síðan að fordæma guðlast.
Þetta túlkar Bjarni á þá leið að það sé lögð rík áhersla á að dómurinn er í raun kveðinn upp af hverjum einstaklingi yfir sjálfum sér. Eina leiðin sem ég sé til þess að komast að þeirri niðurstöðu væri sú ef Bjarni ímyndar sér að orðin sem um ræðir sé eitthvað eins og Ég er sekur., en ef maður kíkir á samhengið þá er ljóst að Jesús er að tala um talsmáta sem guð er ekki sáttur við, t.d. guðlast.
Það er ljóst að Jesús er aðeins að segja að á dómsdegi muni fólk verða dæmt m.a. á grundvelli þess sem það sagði. Það er ekkert þarna um að fólk muni sjálft kveða upp dóminn sinn, hvað þá að það sé lögð áhersla á það.
Þetta virðist vera grundvöllurinn fyrir því að hann ásakar mig um bókstafstrúartúlkun. Þessar undarlegu túlkanir hans, sem virðast eiga ekkert skylt við það sem textinn sjálfur segir.
Hann endar á að útskýra hvers vegna ég stunda víst bókstafstrúarnálgun, en virðist í raun segja það sama og ég:
Og því segi ég og segi enn: Það er bósktafstrúarnálgun við Biblíuna og kristna trú að halda því fram að óhjákvæmilega skuli líta svo á að Jesús og félagar hóti djöfli, dómi og dauða í því skyni að hræða fólk til trúar. Það er enginn vandi að lesa slíkt út úr völdum köflum ritningarinnar, en það er ekki heildarmyndin, því fer fjarri. Það er heldur ekki satt, jafnvel þótt höfundar guðpsjallanna hafi í alvöru séð fyrir sér eina tiltekna dagsetningu sem enginn vissi deili á, að dómsdagskenningin sé sett fram til þess að hræða til trúar. Framsetning hennar er sett fram til þess að vekja fólk til siðferðislegrar meðvtitundar og félagslegrar virkni. Vekið því, þér vitið ekki daginn né stundina! segir Jesús.
Mér finnst merkilegt að Bjarni skuli segja að dómsdagskenningin sé sett fram til þess að vekja fólk til siðferðislegrar meðvitundar og félagslegrar virkni. Hvernig getur dómsdagskenning gert það? Jú, auðvitað með því að hóta fólki með því að maður endi í helvíti ef maður vakni ekki til siðfeðrðislegrar meðvitundar og félagslegrar virkni.
Skoðum þá muninn á bókstafstrúartúlkun og þeirri heilbrigðu, eðlilegu túlkun sem Bjarni Karlsson er talsmaður fyrir.
Þetta er víst bókstafstrúartúlkun á sögunni af skulduga þjóninum (sem ég fór yfir áður):
Jesús er að segja að ef þið fyrirgefið ekki fólki, þá mun guð kvelja ykkur í helvíti.
Þetta er hins vegar ekki bókstafstrúartúlkun á sömu sögu:
Jesús er að segja að ef þið vaknið ekki til siðferðislegrar meðvitundar og félagslegrar virkni, þá mun guð kvelja ykkur í helvíti.
Það er auðvitað himinn og haf þarna á milli!
28.5.2011 | 15:26
Þjóðkirkjan ætti að biðja fyrir sjúkum börnum
Á morgun heldur ríkiskirkjan víst upp á "hinn almenna bænadag" og í ár ætla þau að biðja fyrir börnum.
Ég samdi bæn handa ríkiskirkjunni, og hver veit nema einhver prestur rekist á hana hér og flytji hana á morgun:
Algóði guð, skapari himins og jarðar, þar með talið allra sýkla.
Gætirðu hjálpað börnum sem þjást af malaríu af því að þú í algæsku þinni skapaðir plasmodium falciparum?
Gætirðu hjálpað börnum sem þjást af kóleru af því að þú í algæsku þinni skapaðir Vibrio cholerae?
Gætirðu hjálpað öllum börnum sem þjást vegna einhverra af þeim þúsundum öðrum sýklum sem þú skapaðir?
Algóði faðir, fyrirgefðu þeim mönnum sem útrýmdu góðri sköpun þinni, bólusóttarveirunni.
Amen
Sumum finnst þetta ef til vill vera ósmekkleg bæn, en þá aðila vil ég spyrja að því hvort það sé ekki ósmekklegt að fullyrða að ákveðin andavera, "guð", hafi bæði skapað þessa sýkla og sé um leið algóð?
Sjáið til dæmis hvað stendur í vinsælasta fermingarkveri ríkiskirkjunnar:
Í einni af sköpunarfrásögnum Biblíunnar segir: "Og guð leit allt,sem hann hafði gjört, og sjá,það var harla gott." (1. Mós, 1.31) Með því er Biblían að segja að allt sem Guð gerði er gott. Að baki allri tilverunni er örlátur og góður gjafari. (Líf með Jesú, bls 15)
Hugsið ykkur, það er erfitt að fá presta til að viðurkenna að það hafi verið illvirki af guðinum þeirra að skapa sýkla sem drepa milljónir barna árlega.
Hérna eru nokkrar valdar tilvitnanir frá heimasíðu ríkiskirkjunnar:
Guð faðir er skapari heimsins, hann er skapri lands og sjávar, fisks og fiskimanna. Allt líf á uppruna sinn hjá Guði föður. [seinna í sömu predikun] Því að við kristnir menn trúum því að heimurinn sé skapaður af algóðum Guði, ... - Þorvaldur Víðisson
Þvert á móti er lífið og tilveran - og þú sjálfur - þrungin mikilvægi og merkingu vegna þess að á bak við það er persónulegur og algóður Guð og skapari; ... - Gunnar Jóhannesson
Guð kristinna manna er skapari himins og jarðar og sköpunarverkið, náttúran í öllum hennar hrikalegu og dásamlegu myndum, ber vitni um vald hans og hátign, um gæsku hans og örlæti. - Pétur Pétursson
Hérna er mynd sem ber vitni um "gæsku hans og örlæti":
26.5.2011 | 19:17
Enn um meintu bókstafstrú mína
Hérna er nýjasta (og líklega síðasta) útskýring ríkiskirkjuprestsins Bjarna Karlssonar á því hvers vegna hann telur mig stunda "bókstafstúlkun"
Það sem ég á við þegar ég saka þig um bókstafstúlkun er ekki í því fólgið að þú hafir rangt fyrir þér um það að margir hafi einmitt túlkað guðspjöllin þannig að tal Jesú um dóm og eilífa refsingu væri þannig meint að Guð ætli að taka suma, henda þeim í helvíti og láta þá kveljast að eilífu, bara vegna þess að hann meti það svo að þeir eigi það skilið. Sumir skilja þetta þeim skilningi vegna þess að samkvæmt orðanna hljóðan er verið að segja það og ekkert annað. En það sem ég er að benda á er það að í samhengi guðspjallanna megi glöggt sjá að sá dómur sem Jesús talar um er ekki einhver einn atburður í endi tímanna, jafnvel þótt frásögnin sé sett þannig upp, heldur sé Jesús að vísa til þess að hver dagur sé dómsdagur og að það sem maður geri og segi fel í raun alltaf í sér val. #
Sem sagt, ég stunda víst bókstafstúlkun af því að ég samþykki ekki þá skoðun Bjarna að "í samhengi guðspjallanna" má "glöggt sjá" að þessar endalausu dómsdagspredikanir Jesú fjalli ekki um einhvern dóm í enda tímanna, heldur þess að "hver dagur sé dómsdagur".
Enn og aftur, þá hlýt ég að spyrja mig að því, hvort þeir fræðimenn ég hef lesið, og halda að það sé verið að tala um "alvöru" dómsdag, séu þá líka að stunda "bókstafstúlkun" af því að þeir samþykkja ekki þessa frumlegu túlkun Bjarna.
Kíkjum aðeins á hvað stendur annars staðar í Matteusarguðspjalli:
Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. Mt 13.40-42
Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. Mt 13 .49-50
Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Mt 25.31-32
Nú á ég afskaplega erfitt með að skilja hvernig Bjarni ætlar að telja nokkrum manni trú um að "endir veraldar" eigi í raun og veru að túlka sem "hvern einasta dag".
Ég hef oft heyrt presta segja að það sé rosalega mikilvægt að skoða sögulegt samhengi biblíunnar (ég held að það sé satt, en ég held ekki að prestar geri það), og ef við gerum það, þá vitum við að á þessum tíma (eins og núna!) trúði sumt fólk því virkilega að heimurinn væri að fara að enda og þá myndi guð refsa "vondu fólki".
Það sem stendur í Matteusarguðspjalli smellpassar við þær hugmyndir.
Flestir sjá vonandi Bjarni Karlsson er einfaldlega að mistúlka Matteusarguðspjall illilega, svo að það passi betur við hans skoðanir. Síðan sakar hann alla þá sem fallast ekki á fjarstæðukenndar fegrunaraðgerðir hans og benda á að raunverulega merkingin er ekki beint falleg, um að vera bókstafstrúarmenn. Mér finnst það svolítið sorglegt.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 19:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
24.5.2011 | 15:41
Meira bókstafstrúarrugl
Ég hef áður talað um það hve mikið orðið "bókstafstrú" er misnotað. Í gær rakst ég á besta dæmið um þetta í langan tíma í umræðum við ríkiskirkjuprestinn Bjarna Karlsson.
Umræðan er að miklu leyti um eina af dæmisögum Jesú, sögunni af pyntaða þjóninum. Í stuttu máli er Jesús að fjalla um fyrirgefningu.
Svona er dæmisagan: Þjónn fær skrilljón krónur "afskrifaðar" hjá konungi, en afkskrifar ekki smáskuld sjálfur. Þegar konungurinn fréttir þetta þá "varð konungur reiður og afhenti hann pynturunum, þar til hann hefði borgað all, sem hann skuldaði honum."
Eftir að hafa sagt þessa sögu þá segir Jesús: "Þannig mun faðir minn himneskjur gera við ykkur, nema hver og einn ykkar fyrirgefi af hjarta bróður sínum."
Konungurinn er, eins og oft í dæmisögum Jesú, guð og viðbrögð konungsins eru sambærileg við viðbrögð guðs ef maður fyrirgefur ekki öðrum. Til að byrja með mun hann ekki fyrirgefa þeim sem fyrirgefur ekki. En auk þess er talið reiði guðs og að afhenda honum pynturunum vísun til þess sem bíður þeim sem guði líkar ekki við, helvíti.
Þetta sagði ég í umræðunum, og það er ekki eins og þetta sé eitthvað sem ég fann upp á. Ef maður skoðar ritskýringarrit, þá getur maður lesið þessa útskýringu. Þetta er almenn skoðun hjá fræðimönnum
En hvernig bregst Bjarni Karlsson við? Jú, hann segir að þetta sé bókstafstrú!
Það sem þú ert að segja við mig hér í þessu samtali fellur allt undir það sem jafnan er kallað bókstafstúlkun. Prófaðu að taka ljóðabók og lesa hana með sömu augum og þú ætlast til að ég lesi Biblíuna. Prófaðu að fara með Hafið bláa hafið eða Nú andar suðrið og horfðu á það frá sjónarhóli bókstafsins. Frá þessum sjónarhóli eru þessi ljóð tómt kjaftæði og fásinna.
Það sem er auðvitað það fyndnasta við þessa ásökun er að ég er einmitt ekki að taka söguna bókstaflega (hvernig í ósköpunum á maður annars að taka dæmisögu bókstaflega?). Samkvæmt mér þá er að vera hent í fangelsi og vera pyntaður þar er vísun í að vera hent í helvíti.
Þegar ég benti á þetta og bað um útskýringu á því hvernig þetta ætti við mig, þá svaraði Bjarni engu. Heldur ásakaði mig aftur um að stunda bókstafstrúarlestur, en í þetta skiptið af því að ég skoða víst ekki samhengið:
Það að horfa bara á niðurlagsorðin í kaflanum en lesa hann ekki í samhengi sínu er gott dæmi um bókstafstrúarlestur á Biblíunni, sem er besta aðferin til þess að fara á mis við inntak hennar.
Maður á auðvitað að lesa hlutina í samhengi (og ekki bara í samhengi kaflans), en ekkert í samhenginu bendir til þess að þessi túlkun sem ég lagði fram sé röng. Enda bendir Bjarni ekki á neitt sem breytir þessu.
Eins og hefur verið bent á áður, þá virðist það eitt að benda á ljótu kafla biblíunnar flokkast sem "bókstafstrú" í augum sumra trúmanna. Í þessu tilviki er það sérstaklega ljóst, þar sem að Bjarni virðist kalla viðtekna túlkun innan fræðanna "bókstafstúlkun" út af síbreytilegum ástæðum.
----
Sem bónus, þá kemur hérna tilvitnun í þessa fræðibók, sem er gefin út af Society for New Testament Studies, sem gefur meðal annars út eitt af aðaltímaritunum í Nt-fræðum, New Testament Studies.
At the conclusion of the parable of the unforgiving servant (Matt. 18:23-35), he who was forgiven his devt but failed to do likewise to other is ultimately handed over by his master to the torturers. Matthew's own application of this parable in verse 35, 'So also my heavenly father will do to every one of you, if you do not forgive your brother from your heart,' puts this reference in an eschatological context. Most scholars interpret the motif of the torturers in the context of the gospel in terms of hte horrible punishment which awits the wicked [14]. The consigning of the wicked to the fires of Gehenna can thus be compared favourably with the handing over of a wayward servant to the torturers. (bls 138)
22.5.2011 | 16:28
Dómsdagur er vondur dagur
Í tilefni af endurkomu Jesú, þá skrifaði ég grein á Vantrú: Tvö þúsund ára mistök.
Ég var ekki sá eini sem skrifaði grein af þessu tilefni, ríkiskirkjupresturinn Bjarni Karlsson skrifaði líka grein, Dómsdagur er góður dagur. Mér fannst greinin hans ekkert sérstaklega merkileg, en mér fannst þessi ummæli hans í athugasemd eftirtektarverð:
Sannleikurinn er sá ef maður les Biblíuna með augum þess sem vill vera í námi hjá Jesú Kristi, þá sér maður ekki hótandi skilaboð í heimsendaspádómum hennar. Hann hvetur fólk til að vera vakandi fyrir hverfulleika heimsins til þess að sársaukinn sem fylgir aðskilnaði, missi og sorg komi okkur ekki í opna skjöldu.
Sannleikurinn er sá að ef maður les guðspjöllin, þá sér maður að heimsendaspádómarnir voru meðal annars hótanir.
Tökum sem dæmi eina af dæmisögum Jesú, í 19. kafla Lúkasarguðspjalls. Þar er talað um mann sem fer burt úr landi til þess að taka við konungdómi. Það er augljóslega verið að tala um heimsendi, og þar er sagt að konungurinn muni segja þetta þegar hann kemur aftur:
En þessa óvini mína, sem vildu ekki að ég yrði konungur yfir sér, færið þá hingað og höggvið þá frammi fyrir mér.
Jesús kemur með fleiri svipuð dæmi. Hvernig í ósköpunum getur tal um að henda fólki í eldsofn og eilífar refsingar ekki verið "hótanir"?
Ég held að það sé augljóst hvað er í gangi. Bjarni Karlsson er of mikið ljúfmenni til þess að geta horfst í augu við ljótu hliðar Jesú og Nýja testamentisins. Þess vegna kemur hann með svona fáránlegar fullyrðingar.
Endum á lýsingu Jesú á því sem er "góður dagur" samkvæmt Bjarna:
Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Mt 13.40-42)
18.5.2011 | 16:54
Endurtekin "trúvilla"
Ríkiskirkjupresturinn Þóhallur Heimisson hefur birt aftur pistil sinn um heimsendi sem ég hef áður skrifað um. Enn og aftur afneitar Þórhallur grundvallarkenningu lútherskrar trúar:
Sérhver dæmist samkvæmt verkunum.
Lokadómurinn mun skilja milli þeirra sem fylgja Kristi í sannleika og hinna.
Hinn réttláti fær að dvelja hjá Guði, hinn fordæmdi er án Guðs.
Til samanburðar má sjá svar æðsta biskups ríkiskirkjunnar, við spurningu minni um það hvað þurfi til þess að enda í himnaríki:
Þjóðkirkjan kennir með Páli postula að við réttlætumst af trú en ekki verkum. Það er trúin á Krist sem gildir.
18.5.2011 | 13:28
Barátta presta við illa anda
Ég skrifaði frábæra ( ) grein á Vantrú: Að vera eða vera ekki særingarmaður
Og að gefnu tilefni vil ég segja að ég tel það ekki vera gífuryrði að bera saman mönnum sem hafa atvinnu af því að kljást við andaverur eins og Jahve, Satan, Jesús og Mikael, og þeim mönnum sem hafa atvinnu af því að kljást við andaverur sem hafa t.d. afrísk nöfn. Ég vil líka segja að ég tel það ekki vera gífuryrði að kalla þá menn atvinnutrúmenn, þar sem þeir hafa einmitt atvinnu af trú sinni.
En hvað um það, lesiði greinina, þar fjalla ég meðal annars um mjög fyndna baráttu ríkiskirkjuprests við hin illu öfl.
16.5.2011 | 09:51
Fordómatalið
Ég spurði nýlega hérna á blogginu hvort það væru fordómar að segja eitthvað eins og "Gyðingar/kristnir/múslímar/trúleysingjar eru heimskir og illir."
Flestir tóku undir þetta. Ástæðan fyrir því að ég spurði að þessu var sú að ég var að hugsa um að skrifa Vantrúar-grein, og nú hefur hún birst á Vantrú: Kynþáttafordómar Þjóðkirkjunnar.
Maður hlýtur að spyrja sig að því hvað fólk sem ásakar okkur í Vantrú ranglega um að boða það að allir trúmenn séu fífl segi um Þjóðkirkjuna, í ljósi þess að hún stundar nákvæmlega þannig málflutning.
13.5.2011 | 13:58
Um hlandspekinga
Í umræðum hjá Kristni Theódórssyni kom fram að Jóhanna guðfræðingur hefur ekki tíma til að setja sig inn í þetta siðanefndarmál Vantrúar og guðfræðingsins Bjarna Randvers. Einnig sagði hún að hún hefði ekki "kunnáttu" til að fjalla um glærurnar.
Nú held ég að hún lesi þetta blogg, og þess vegna ætla ég að koma með gott dæmi úr kennslunni handa henni (og öðrum sem nenna skiljanlega ekki að setja sig vel inn í þetta mál): hlandspekingur.
Í glæru sem var merkt "Orðbragðið" stóð efst: "Nafngreindir einstaklingar eru m.a. kallaðir...." og síðan kom listi af því sem átti að vera uppnefni sem dónarnir í Vantrú nota. Á þessum lista var orðið "hlandspekingur".
Það er tvennt merkilegt við þetta. Til að byrja með er "hlandspekingur" ekki uppnefni, ekki frekar en hómópati eða græðari, heldur er að vísa til þeirrar vitleysu að það sé allra meina bót að drekka sitt eigið hland, kallast urine therapy á ensku.
Þetta nýyrði hafði einungis verið notað tvisvar, bæði skiptin af Matta, og í bæði skiptin var orðið hlandspekingur með vísun á greinina um "urine therapy" sem ég vísaði á hérna fyrr. Og í bæði skiptin kallaði hann ekki nokkurn mann, nafngreindan eða ónafngreindan, hlandspeking.
Fyrra dæmið er úr bloggfærslu sem heitir "hómópatar og hlandlækningar" þar sem Matti var að hneykslast á því að hómópati væri í einhverri heilbriðgisnefnd og spurði í lok greinarinnar:
Vantar ekki hlandspeking í nefndina?
Síðara dæmið er úr bloggfærslu sem heitir "Akurhringir í kastljósi" þar sem Matti er að hneykslast á því að fréttamenn séu ekki gagnrýnir í umfjöllun sinni um akurhringi og annað í þeim dúr, þar segir hann þetta:
Er ekki kominn tími til að spjalla við hlandspeking, ég skal leika hlutverkið, gæti eflaust hljómað eins sannfærandi og hinir rugludallarnir.
Þetta eru einu staðirnir þar sem þetta orð hefur verið notað. Ég held að það allir sjái að það sé út í hött að telja þetta vera "orðbragð" sem er notað um "nafngreindan einstakling".
En hvað er svona merkilegt við þetta atriði? Það sem mér finnst þetta atriði sýna fram á er að vinnubrögðin voru hræðileg. Bjarni Randver hefur greinilega lesið yfir bloggið hans Matta og leitað að einhverjum "ljótum" orðum, alveg óháð samhengi eða merkingu. Þetta væri svipað því og að fá svarið "London" í stærðfræðiprófi, þó svo að sum svörin væru rétt, þá væri ljóst að það væri eitthvað verulega mikið athugavert við námstækni krakkans. Eflaust væri hann að svindla.
Hvað gæti valdið svona ótrúlegu rugli í glærunum í guðfræðideildinni? Ég held að ástæðan sé sú að fólkinu þar sé bara afskaplega illa við Vantrú og á því afskaplega erfitt með að fjalla um Vantrú heiðarlega. Eða þá að viðkomandi aðili stundi bara almennt svona léleg vinnubrögð, en ég efast um það.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.5.2011 | 16:45
Lausn á sóknargjaldsmálinu
Ef að ríkiskirkjufólkið heldur að kirkjan sé blönk af því að framlög ríkisins í formi sóknargjalda eru ekki nógu mikil, þá er ég með lausn handa kirkjunni:
Takið upp félagsgjöld. Biðjið ríkið um að hætta því að styrkja kirkjuna með sóknargjöldum og fá í staðinn að innheimta félagsgjöld af meðlimum ríkiskirkjunar. Þá getur kirkjan ákveðið að rukka eins mikið af fólki og henni lystir.
Ég held að ríkiskirkjufólkið vilji þetta reyndar ekki, af því að það heldur að fólk myndi þá einfaldlega hætta í kirkjunni, þetta er að minnsta kosti skoðun Karls biskups:
Verði umrætt frumvarp að lögum [um að fólk utan trúfélaga fengi sóknargjöld] munu menn hugsanlega sjá sér fjárhagslegan haf í því að skrá sig utan trúfélaga því samkvæmt frumvarpinu eiga menn að fá endurgreidda árlega fjárhæð sem nemur sóknarggjaldinu. Eðlilegt væri að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar slíkt hefði í reynd ef samþykkt yrði. Þ. á. m. yrði að kanna hvernig sóknir myndu mæta skertum tekjum með því að draga úr þjónustu, fækka starfsfólki og auka tekjuöflun.
![]() |
Hafa áhyggjur af stöðu heimila og einstaklinga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |