24.5.2010 | 14:27
Kaþólikkar eru ekki kristnir
Það er þess vegna ekki hægt að vera bæði kristinn og hómófób.#
Þórhallur útskýrir ekki hvað það sé að vera hómófób, en mér finnst afskaplega líklegt að þessi grein úr trúfræðsluriti kaþólsku kirkjunnar flokkist sem hómófóbía af honum:
2357. Samkynhneigð vísar til sambands milli karla og milli kvenna sem með algjörum eða ráðandi hætti laðast kynferðislega að persónum af sama kyni. Það hefur tekið á sig ýmsar myndir í aldanna rás og á hinum mismunandi menningarsvæðum. Sálræn tilurð þess hefur að mestu leyti verið óútskýrð. Með því að styðjast við heilaga Ritningu, er lýsir samkynhneigðum athöfnum sem alvarlegri siðspillingu, [141] hefur erfikenningin ávallt lýst því yfir að "samkynhneigð athöfn feli í sér eðlislæga röskun." [142] Hún stríðir gegn náttúrulögmálinu. Hún útilokar að kynlífið kveiki nýtt líf. Hún sprettur ekki af sannri gagnkvæmri fyllingu, tilfinningalegri og kynferðislegri. Hana má ekki undir nokkrum kringumstæðum viðurkenna. #
Þannig að allir rétttrúaðir kaþólikkar eru sem sagt ekki kristnir samkvæmt Þórhalli. Auk þess er þetta líklega ríkjandi viðhorf hjá öðrum kristnum hópum eins og rétttrúnaðarkirkjunni og hvítasunnumönnum. Meirihluti manna sem eru kristnir í heiminum eru því alls ekki kristnir. Eru engin takmörk fyrir því hvað Þjóðkirkjuprestar geta bullað?
23.5.2010 | 23:53
Biskupinn og himininn
Æðsti biskup ríkiskirkjunnar sagði þetta fyrir viku síðan um meinta himnaför Jesú:
Frásögn uppstigningardags eru vanmegna tilraunir til að tjá mannlegum orðum það að Kristur er alls staðar nálægur. Himinninn er á máli Biblíunnar ekki staður á landakortinu heldur samheiti við Guð. Himinninn er það sem er efst og innst, og umlykur allt, yfir og allt um kring, eins og lífsloftið sjálft. #
Fornaldarmenn (þar með talið höfundar biblíunnar) héldu almennt bókstaflega að guð væri einhvers staðar uppi, himininn var uppi í himninum. Þegar biblían talar um að Jesús hafi flogið upp til himna, þá er það þess vegna ekki tilraun til að segja að Kristur [sé] alls staðar nálægur, heldur að hann hafi skotist upp til himnaríkis, flogið upp til guðs.
Það má vel vera að Karl hafni þessari heimsmynd og haldi að Jesús, guð og himnaríki séu í einhverri annarri vídd eða eitthvað álíka en ekki uppi hjá stjörnunum, en hann hefur þá hafnað þeirri heimsmynd sem uppstigningin byggist á, hann trúir ekki á uppstigninguna. En í staðinn fyrir að viðurkenna það (Já, uppstigningin byggir á rangri heimsmynd og er augljóslega bull.) þá reynir hann að endurtúlka og reyna að koma einhvers konar viti í hana, sem tengist sögunni engan veginn: Jesús flaug upp til himna er vanmegna tilraun til að tjá mannlegum orðum það að Kristur er alls staðar nálægur. Frekar sorglegt.