12.3.2012 | 14:05
Að slíta úr samhengi
Þegar vísað er á ljótu hluta biblíunnar, þá eru viðbrögð trúmanna oft þau að viðkomandi texti hljóti að vera slitinn úr samhengi.
Þegar atvinnutrúmenn fjalla um biblíuna, þá reyna þeir eftir bestu getu að benda á fallegu hlutana, og ef það dugar ekki, þá slíta þeir ljótu hlutina úr samhengi og láta sem þeir séu fallegir.
Dæmi um þetta er nýleg predikun ríkiskirkjuprestsins Bjarna Karlssonar. Í henni segir Bjarni að í 25. kafla þriðju Mósebókar sé "lýst með all nákvæmum hætti hvernig fagnaðarárið skuli á hálfrar aldar fresti valda því að allt það fólk sem komist hefur í skuldir, misst land sitt og jafnvel sjálft orðið ánauðugir þrælar skuli fá frelsi og fara heim til ættar sinnar." Bjarni útskýrir að hugsunin á bak við textann sé sú að "enda þótt mannanna láni sé misskipt er sanngjarnt að alltént einu sinni á hverri mannsævi geti maður vænst þess að mega líta upp og finna sig frjálsan í eigin tilveru." Loks segir Bjarni að þarna er "staðfest að lotning fyrir Guði birtist" meðal annars "í sáttmála manna í millum að við beitum ekki hvert annað valdi."
Hérna kemur textinn sem að Bjarni vitnaði í í miðri lofræðunni, en ég ætla að bæta örlitlu við, Bjarni hætti nefnilega í versi 43, en ég ætla að leyfa versum 44-46 að fljóta með feitletruð.
Þegar landi þinn lendir í kröggum og selur sig þér mátt þú ekki láta hann vinna þrælavinnu. Hann á að vera hjá þér eins og daglaunamaður eða gestur og vinna hjá þér til næsta fagnaðarárs. Þá skal hann fara frá þér frjáls maður ásamt börnum sínum og snúa aftur til ættmenna sinna og jarðeignar forfeðra sinna. Vegna þess að þeir eru þrælar mínir, sem ég leiddi út úr Egyptalandi, má ekki selja þá mansali. Þú skalt ekki beita þá valdi. Sýndu Guði þínum lotningu. Viljir þú fá þér þræla og ambáttir, þá skuluð þér kaupa þræla og ambáttir af þjóðunum, sem umhverfis yður búa. Svo og af börnum hjábýlinga, er hjá yður dvelja, af þeim skuluð þér kaupa og af ættliði þeirra, sem hjá yður er og þeir hafa getið í landi yðar, og þau skulu verða eign yðar. Og þér skuluð láta þá ganga í arf til barna yðar eftir yður, svo að þau verði eign þeirra. Þér skuluð hafa þau að ævinlegum þrælum. En yfir bræðrum yðar, Ísraelsmönnum, skuluð þér eigi drottna með hörku, einn yfir öðrum. (3Mós 25:39-46)
Textinn fjallar þannig klárlega ekki um að "allt fólk" eigi að losna úr þrældómi og fjallar alls ekki um að mannfólk eigi ekki að "beita ekki hvort annað valdi". Þvert á móti fjallar textinn um að það sé í lagi að beita annað fólk valdi, það er í fínasta lagi að hafa annað fólk sem þræla og "drottna með hörku" yfir því, svo lengi sem það eru útlendingar!
Þetta eru ótrúlega óheiðarleg vinnubrögð hjá honum Bjarna.
11.3.2012 | 13:50
Páfinn, frillulífi og prestar
Mér finnst mjög áhugavert að páfinn skuli einmitt biðja "biskupa kaþólsku kirkjunnar að ítreka við söfnuði sína að kynlíf fyrir hjónaband sé alvarleg synd og grafi undan stöðugleika samfélagsins."
Ég skrifaði nefnilega nýlega grein á Vantrú ("Er frillulífi enn synd?"), þar sem ég velti nákvæmlega þessu fyrir mér. Það er nefnilega þannig að kirkjunnar menn hafa nánast alla tíð kennt það að allt kynlíf utan hjónabands væri synd.
Mér þætti gaman ef prestar ríkiskirkjunnar myndu geta sagt það hreint út hvort að sú sé enn raunin, eða þá hvort að allt í einu hafi kristið siðgæði breyst, einmitt í takt við viðhorf samfélagsins.
Á heimasíðu DV er frétt um sömu ræðu páfans. Það sem vakti athygli mína þar er ekki fréttin, heldur athugasemdir tveggja presta ríkiskirkjunnar við þá frétt:
Nú sá ég Ratzinger ekki hóta neinum eldi og brennisteini, en hann fordæmdi vissulega kynlíf utan hjónabands. En vitið þið hver stundaði það að hóta eldi og brennisteini? Jesús!
Hérna eru til dæmis ummæli sem Jesús lét falla í "þvertrúarlegu samtali":
Höggormar og nöðru kyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm? (Mt 23:33)
Hérna er Jesús að fræða áheyrendur sína um kærleika guðs:
Ég skal sýna yður, hvern þér eigið að hræðast. Hræðist þann, er hefur vald að deyða og að því búnu varpa í helvíti. Já, ég segi yður, hræðist hann. (Lk 12:5)
Hérna er Jesús að tjá ást sína á þeim sem hafna honum:
Og taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi eða þeirri borg og hristið dustið af fótum yðar. Sannlega segi ég yður: Bærilegra mun landi Sódómu og Gómorru á dómsdegi en þeirri borg. (Mt 10:14-16)
Og Páll postuli og aðrir höfundar bréfa í Nýja testamentinu voru ekki heldur feimnir við að "fordæma og hóta eldi og brennisteini". Páfinn er satt best að segja afskaplega ljúfur og varfærinn í samanburði við Jesús, Pál og félaga. Ætli þessir prestar séu tilbúnir að vera samkvæmir sjálfum sér og segja að ummæli Jesú í guðspjöllunum séu "Sorgleg"?
![]() |
Varar við hjónabandi samkynhneigðra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |