Ríkiskirkjuprestur í rugli

Í nýlegri ræðu sagði ríkiskirkjupresturinn Skúli Sigurður Ólafsson:

Allt ljómaði í nóttinni og boðskapur jólanna var skýr: friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnunum. Já, sumt er það í tilverunni sem heldur sínu striki, hverfur hvorki né dofnar hvað sem á gengur.

Já, sumt heldur sínu striki, en annað breytist. Þessi boðskapur jólanna er ársgömul vitlaus þýðing. Í fyrra var „boðskapur jólanna“: „...friður á jörðu með mönnum, sem guð hefur velþóknun á. Þetta hefur starfsmönnum ríkiskirkjunnar ef til vill ekki fundist nógu fallegur boðskapur og þess vegna var þessu breytt.

 


Prestar og börn

Samkvæmt hinum mikla biblíufræðingi og ríkiskirkjupresti Baldri Kristjánssyni, þá leit fæðing Jesú einhvern veginn svona út:

 faedingjesu

Baldur segir nefninlega að frásögnin af fæðingu Jesú „lýsi eflaust atburðum sem hafa gerst“. Kannski tekur hann þessi orð Jesú of alvarlega: „Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki. 


Heimur versnandi fer

Helgakver var algengasta fermingar“fræðslu“bókin við upphaf 20. aldar. Credo er notuð til þess að kenna prestlærlingum við guð“fræði“ í HÍ og er eftir Einar Sigurbjörnsson (bróðir Kalla biskups).

[T]rú er það, að hafa meðvitund um guð og dýrka hann.  - Helgakver

Þessi skilgreining er auðvitað langt frá því að fullkomin, en hún er frábær í samanburði við þetta:

Skilgreina má hugtakið „trú“ í grundvallaratriðum þannig, að trú sé að taka veruleikann trúanlega, játast undir ákveðna merkingu og ákveðinn tilgang og viðurkenna ákveðið samhengi, sem halda verði, ef veröldin á að standast. Trú táknar heildarsýn og heildartúlkun, sem gengur út frá því, að tilveran myndi samhengi og heild, enda þótt þekking manna kunni aðeins skil á brotabrotum hennar. Og trú er að sínu leyti undirstaða þekkingar, því að sá sem leitar þekkingar verður að trúa því, að þekkingu sé auðið að finna. - Credo bls 41

Ætli Einar skilji það sem hann skrifar?


Er kristin trú ekki falleg?

Einar Sigurbjörnsson, bróðir Kalla biskups, guðfræðiprófessor og kennari í ríkiskirkjudeild Háskóla Íslands, kallar eftirfarandi „hina sígildu lúthersku kenningu“ í bók eftir sig (á bls 465 í Credo, sem er einmitt notuð sem kennslubók í ríkiskirkjudeildinni!):

Eftir dóminn, hreppa þeir, sem með vantrú og þrjósku hafa hafnað Guðs náð, eilífan dauða eða eilífa glötun. Líf þeirra verður ævinlegt kvalalíf í sambúð við illa handa, endalaus angist og örvænting án allrar vonar um frelsun. Þetta er og kallað hinn annar dauði.

Þessa lýsingu á „hinni sígildu lúthersku kenningu“ er að finna í Helgakveri (bls. 72) sem var mest notaða fermingarkver ríkiskirkjunnar við upphaf síðustu aldar. Er kristin trú ekki falleg?


Að látast vera heimskur?

Ég veit ekki hvað maður á að halda þegar maður sér ríkiskirkjuprest segja þetta um sjálfkrafa skráningu nýfæddra barna í trúfélag móður:

Ég get nú ekki séð að það séu peningasjónarmið sem ráða ferðinni með þessa skráningu. Sóknargjöldin og trúfélagsgjöldin koma ekki til fyrr en við 16 ára aldur.

Nú þarf maður að vera afskaplega vitlaus til þess að átta sig ekki á því að nýfædd börn verða flest 16 ára. Ríkiskirkjan græðir auðvitað á því að fólk sem pælir ekkert í trúmálum fylgi móður sinni sjálfkrafa.

Þetta er ástæðan fyrir því að mér finnst miklu skemmtilegra að ræða við „bókstafstrúarfólk“ eins og Mofa, það er heiðarlegt og þorir að segja skoðanir sínar.


Svarið er já, það væri mjög snjallt

Það er afskaplega fyndið að lesa athugasemdir ríkiskirkjuprestsins Kristjáns Björnssonar við þessa frétt.

Kristján byrjar á því að tala um einhverja töfravernd sem sjálfkrafa skráning í trúfélag móður á að veita gegn ágengum trúleysingjum:

Þessi stöðuskráning nýfæddra barna styðst við ágæta reglu sem miðar við trúfélag móður. Það gefur barninu vernd gegn ágengum markaðsaðferðum sumra lífsskoðunarhópa, einsog til dæmis trúleysingjum. Það ætti eiginlega að veita börnum vernd allt til 18 ára aldurs, en eins og flestir vita geta börn tekið afstöðu til trúfélgasaðildar með skráningu við 16 ára aldur.

Til að byrja með skil ég ekki hvernig sjálfkrafa skráning barna í trúfélag móður á að vernda börn gegn „ágengum markaðsaðferðum sumra lífsskoðunarhópa“. Ég efast um að Kristján viti það sjálfur.

Getur einhver upplýst mig um „ágengu markaðsaðferðir“ okkar trúleysingjanna í garð barna? Kristján getur það ekki. Ég veit til dæmis ekki til þess að við trúleysingjarnir séum að reyna að boða trúleysi í leik- og grunnskólum.

Síðan er það afskaplega fyndið að presturinn telji að börn þurfi vernd gegn „lífsskoðunarhópum“ allt að 18 ára aldri. Hann hlýtur að vera fylgjandi því að fresta fermingunni fram að 18 ára aldri, við viljum jú vernda börnin gegn „ágengum markaðsaðferðum sumra lífsskoðunarhópa“.

Það er þægilegt að hugsa um málið með því að líkja þessu við stjórnmálaskoðanir. Ef 80% þjóðarinnar væru skráð í Sjálfstæðisflokkinn og börn myndu við fæðingu verða skráð í stjórnmálaflokk móður yrði þingmanni Sjálfstæðisflokksins líklega illa við breytingar. Hann myndi líklega segja eitthvað svona:

 

Þessi stöðuskráning nýfæddra barna styðst við ágæta reglu sem miðar við stjórnmálaflokk móður. Það gefur barninu vernd gegn ágengum markaðsaðferðum sumra stjórnmálaflokka, einsog til dæmis vinstrimönnum. Það ætti eiginlega að veita börnum vernd allt til 18 ára aldurs, en eins og flestir vita geta börn tekið afstöðu til stjórnmálaflokksaðildar með skráningu við 16 ára aldur.

Ég held að flestir myndu telja það afskaplega mikla hræsni hjá þingmanni Sjálfstæðisflokksins að segja þetta, sérstaklega þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fengi 13.000 krónur árlega fyrir hvern einstakling sem væri 16 ára eða eldri og í flokknum þeirra.Kristján virðist síðan vera uppiskroppa með rök, að minnsta kosti er erfitt að hugsa sér að einhver með góðan málstað komi með svona rök:

Að skilja barnið eftir án uppeldis í trú eða sið er vont og það hefur ekki verið sýnt fram á að það geti skilað því nokkrum verðmætum í uppeldislegum efnum. Og ég held að allir heilbrigt hugsandi menn sjái vel muninn á slíku uppeldi og því sem allir óttast: innrætingu vondra siða.

Nei Kristján. Að barn fari ekki í trúfélag móður við fæðingu er ekki það sama og að ala barnið ekki upp. Foreldrar geta enn innrætt barninu góða siði, og já, jafnvel innrætt því trú ef það vill.

Kristján gleymir samt einni ástæðu sem ég veit að prestar ríkiskirkjunnar hafa áhyggjur af: Ef börn eru ekki skráð sjálfkrafa í trúfélag móður, þá er hætta á að það myndi fækka eitthvað í ríkiskirkjunni hans og það þýðir minni pening í kassa ríkiskirkjunnar.

Svo á ég ekki von á svari frá ríkiskirkjuprestinum, hann hefur ekki gert það hingað til.


mbl.is Hver stýrir trúnni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

McGrath gerir sjálfan sig að asna

Þessa dagna er ég að lesa bók eftir Alister E. McGrath sem heitir: „An introduction to Christianity“. McGrath kom til landsins nýlega og kirkjunnar menn voru yfir sig hrifnir; á heimasíðu Þjóðkirkjunnar er hann kallaður „einn af þekktustu guðfræðingum samtímans“ #, og ríkiskirkjupresturinn Kristján Björnsson kallaði hann „magnaðan trúvarnarmann“#.

Ég ætla hugsanlega að skrifa bókadóm um þessa bók fyrir Vantrú.is, hef þegar skrifað dóm um aðra bók eftir hann, en ég stenst það ekki að benda á þetta, McGrath segir:

It must be stressed that the gospels do not portray the Pharisees as hypocrites, as so many mistakenly assume;...  (bls. 83)

Ha? Kíkjum á 23. kafla Matteusarguðspjalls. Hann hefst svona:

Þá talaði Jesús til mannfjöldans og lærisveina sinna: "Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear. Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða. (v. 1-3)

Ef það er ekki nógu augljóst að farísearnir eru hræsnarar, þá segir Jesús meðal annars þetta í þessum reiðilestri sínum:

Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! (v. 13)

Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! (v. 14)

Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! (v. 23)

Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! (v. 25)

Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! (v. 27)

Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! (v. 29)

Já, McGrath er svo sannarlega magnaður.


Hin sanna hefnd

Karl Sigurbjörnsson, æðsti biskup ríkiskirkjunnar, virðist eitthvað vera farinn að gleyma því sem hann lærði í guðfræðináminu. Fyrir nokkru sagði hann í ræðu:

Þegar Jesús las textann þarna forðum þá sleppti hann niðurlagsorðunum. Það er umhugsunarvert. Textinn er svona hjá Jesaja:„Andi Drottins er yfir mér af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins og hefndardag Guðs vors.“ Jesús sleppir lokasetningunni, þessum orðum um hefnd Guðs. Hvers vegna? Væntanlega vegna þess að með komu hans í þennan heim, lífi og dauða og upprisu, þá er hefnd Guðs ekki reiðivöndur, brugðið sverð, heldur nú heitir hefnd Guðs og dómur Jesús frá Nasaret. Hann axlaði reiði Guðs og dóm og bar það allt á líkama sínum á krossinum og ummyndaði það allt í upprisu sinni. Hefnd hans felst í orðum og veruleik eins og: „Komið til mín, öll þér, sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.“ Og: „Syndir þínar eru fyrirgefnar, far þú og syndga ekki framar!“ Og þessi orð: „Þann sem til mín kemur mun ég aldrei burt reka.“ Og þetta:„ Leyfið börnunum að koma til mín!“ Og: „Hjarta yðar skelfist ekki trúið á Guð og trúið á mig, ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“

Nei, þetta er ekki hin eina og sanna hefnd guðs. Hlustum á lýsingu Jesú á dóminum sínum og sjáum hvort hefndin snúist um að láta sjálfan sig axla reiði guðs:

Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Mt 13.40-42).

Hefnd hans felst með öðrum orðum ekki í þeim orðum sem Kalli telur upp, heldur í orðum eins og: „Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans. (Mt 25.41)

Í aðaljátningu lútherskra manna er minnst á þennan dóm, Kalli ætti kannski að lesa hana aftur:

17. grein: Um endurkomu Krists til dóms 

Ennfremur kenna þeir: Kristur mun birtast við endi heims til að dæma og mun hann uppvekja alla dauða. Guðhræddum mönnum og útvöldum mun hann gefa eilíft líf og eilífan fögnuð. Guðlausa menn og djöflana mun hann fordæma, að þeir kveljist eilíflega.

Þeir fordæma endurskírendur, sem álíta, að endir verði bundinn á refsingu fordæmdra manna og djöflanna.

Þeir fordæma og aðra, sem nú dreifa gyðinglegum skoðunum um, að guðhræddir menn muni á undan upprisu dauðra ná undir sig stjórn heimsins eftir að óguðlegir menn hafa hvarvetna verið yfirbugaðir.

Kalli hefur áður sýnt að hann þorir ekki að segja skoðanir sínar, það sama gildir hér. Hann þorir ekki að tala um alvöru hefnd Jesús, að kasta „guðlausum mönnum“ í eilífar kvalir í helvíti. Karl er gunga.


Rétt vitlaus klukka

Það er sagt að vitlaus klukka sé rétt að minnsta kosti tvisvar á sólarhring. Á sama hátt á ofsatrúarfólk það til að rekast á sannleikskorn. Í umræðum hjá Jakobi guðfræðinema kom Kristinn Ásgrímsson, „safnaðarhirðir“ Hvítasunnukirkjunnar í Keflavík, með athugasemd þar sem hann sagði meðal annars þetta:

Ég minni á að eftir dauða [Jesú] voru [lærisveinarnir] niðurbrotnir menn, Pétur byrjaður á sjónum aftur og meistari þeirra var dauður. 

Það er hárrétt hjá Kristni að þegar lærisveinarnir eru sagðir vera farnir að stunda sjómennsku aftur í Galíleuvatni þá er tilgangur sögumannsins að láta okkur vita að þeir séu búnir að gefa upp alla von, meistarinn dáinn og ekkert betra að gera en að snúa aftur til lífsins sem þeir höfðu áður en þeir hittu Jesú.

Vandamálið er hins vegar að þegar Pétur er byrjaður aftur á sjónum (21. kafli Jh), þá er Jesús þegar búinn að birtast lærisveinunum tvisvar! Fyrst án Tómasar (Jh 20.19-23) og síðan þegar Tómas er á staðnum (Jh 20.24-29). Í sögunni þar sem Jesús birtist lærisveinunum þegar þeir eru á sjónum er meira að segja sagt að „þetta var í þriðja sinn, sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum.“ (Jh 21.14)

Sagan af því þegar Jesús birtist lærisveinunum á Galíleuvatni gerir augljóslega ráð fyrir því að þeir séu „niðurbrotnir menn“ (eins og Kristinn orðar það), að þeir hafi enn ekki séð hinn upprisna Jesú. En í guðspjallinu er sagt að þeir hafi þegar séð hann tvisvar.

Þetta er augljós mótsögn og þýðir að annað hvort sé 21. kaflinn sé síðari tíma viðbót (enda hljóma lok 20. kaflans eins og endir á bók) eða þá að höfundurinn hafi tekið sögu sem var um fyrsta skiptið sem Jesús hitti lærisveinana og sett hana eftir tveimur öðrum birtingum. 

Góð barnabók frá Skálholtsútgáfunni

Nú fyrir jólin er að koma skemmtileg barnabók frá Skálholtsútgáfunni, útgáfufélagi Þjóðkirkjunnar. Í formála að Sangfræðibók barnanna segir þýðandinn, Karl Sigurbjörnsson, að „í sögu heimsins tali guð til okkar og að þar megi sjá að hönd guðs og litla Jesúbarnsins að verki.“ Kíkjum á kafla úr bókinni:

Hitler bjargar Þjóðverjum

Í landi sem hét Þýskaland bjó fólk sem hét Þjóðverjar. Þeir höfðu konung sem hét Hitler. Í landinu bjó líka fólk sem kölluðust Gyðingar. Þeir voru vondir við Þjóðverja og stálu peningum af þeim. Hvað átti Hitler að gera? Hitler ákvað að láta Þjóðverja sannfæra Gyðingana að fara í lestir til þess að fara í vinnubúðir í útlöndum. Gyðingarnir fóru! Þannig bjargaði Hitler Þjóðverjum.

Ef einhverjum finnst þessi skopstæling ýkt eða ósmekkleg, þá hvet ég hann til þess að skoða barnabiblíur Skálholtsútgáfunnar og skoða hvernig þær segja frá Nóaflóðinu, frumburðadrápunum og innrásinni í Kanansland. Í Nóaflóðinu er fólkið svo vont að guð þarf að „þvo“ jörðina af öllu hinu illa.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband