29.11.2010 | 08:28
Að slíta úr samhengi
Í trúmálaumræðum hef ég ansi oft verið sakaður um að slíta eitthvað úr samhengi. Viðkomandi reynir samt nánast aldrei að rökstyðja þessa ásökun sína. Oft virðist þetta bara vera sjálfkrafa viðbrögð hjá trúfólki þegar því er bent á einhver ljót vers í biblíunni.
Ég ímynda mér að það sé eitthvað svona í gangi: "Biblían er svo falleg bók að svona ljótur boðskapur Einhvern veginn er búið að umbreyta upprunalega fallega boðskapnum. Trúleysinginn hlýtur að hafa slitið textann úr samhengi."
Ef einhver þessara trúmanna sem stunda þetta eru að lesa þessa færslu, þá langar mig að útskýra fyrir þeim muninn á að "slíta úr samhengi" og að "vitna í". Það að vitna bara í hluta úr texta, og taka hann þannig úr samhenginu, er ekki að slíta textann úr samhengi. Að slíta texta úr samhengi gefur til kynna að hann þýði eitthvað annað í samhenginu.
Ef ég hefði skrifað í gær: "Mér finnst ástæða til þess að láta lögregluna vita af því sem Siggi sagði í gær, hann hótaði Magga lífláti með því að segja: "Maggi, ég ætla að skjóta þig í hausinn.", þá gæti ég verið að slíta þetta úr samhengi, en hugsanlega er ég ekki að gera það. Til þess að komast að því þá kíkjum við á hvaðan tilvitnunin er komin og athugum hvort hún þýði eitthvað allt annað í sínu upprunalega samhengi.
Ég væri ekki að slíta ummæli Sigga úr samhengi ef þau hefði verið sögð í þessu samhengi: Siggi ræðst á Magga með hníf, en Maggi nær að verjast árásinni og Siggi hleypur í burtu og öskrar þessi orð.
Ég væri að slíta ummæli Sigga úr samhengi ef þau hefðu verið sögð í þessu samhengi: Siggi, Maggi og aðrir vinir þeirra voru að spila tölvuleik þar sem markmiðið er að drepa hina spilarana. Siggi sagði þessi orð rétt áður en hann skaut karakter Magga í hausinn.
Ef einhver kemur með ásökun um að eitthvað sé slitið úr samhengi, þá er lágmarks krafa að viðkomandi útskýri hvað hann á við (t.d. "Þetta er slitið úr samhengi. Siggi var að tala um að skjóta Magga í tölvuleik!"), sérstaklega þar sem það ætti að vera afksaplega auðvelt ef orðin eru virkilega slitin úr samhengi.
Þetta hljómar allt voða einfalt, en sumir trúmenn virðast ekki ná þessu (nýjasta dæmið er í síðustu færslunni minni). Kæru trúmenn, reynið nú að vanda málflutning ykkar örlítið!
24.11.2010 | 20:18
Skortur á heiðarleika hjá prestum
Ég er kominn með eintak af Um guð eftir Jonas Gardell og ég hef verið að fletta aðeins í gegnum hana.
Jonas virðist ekki vera mikið fyrir að notast við gagnrýnina hugsun þegar kemur að trúmálum, en hann má eiga eitt: hann er heiðarlegur þegar það kemur að biblíunni.
Hann viðurkennir að guð í Gamla testamentinu er oft hræðilegt illmenni, kallar hann jafnvel "blóðþyrstan vitfirring" (bls 209). Þannig heiðarleika hef ég ekki rekist á hjá ríkiskirkjuprestum.
Þeir reyna að verja þjóðarmorðin sem guðinn þeirra fyrirskipar í Gamla testamentinu, og segja jafnvel að þau hafi verið kærleiksverk. Þegar þeir segja frá sögunum þá eru þeir á fullu að verja guðinn þeirra, hver hefur til dæmis heyrt ríkiskirkjuprest fordæma guðinn fyrir frumburðadrápin í Egyptalandi?
Ég kalla þetta skort á heiðarleika af því að ég trúi því ekki að þessum prestum finnist þessi guð ekki vera illur. Þeir hljóta að sjá þetta en kjósa að reyna að fegra þetta svo að trúin þeirra líti betur út.
Sömu sögu er að segja af Jesú, þar er Jonas heiðarlegur og viðurkennir tilvist þess sem kemur illa út fyrir kristna trú (með feitletrun frá mér):
[Jesús] trúði því að mikil umbreyting á alheiminum væri yfirvofandi og að mannssonurinn kæmi á skýi frá himnum með alla englana og vald og dýrð til að dæma hvern og einn eftir gjörðum þeirra. (bls 218)
Jesús trúði því að á jörðinni risi upp ríki þar sem hann og fyglismenn hans drottnuðu yfir öllum þjóðum og að í nýja konungdæminu uppskæru hinr snauðu margfalt og þeir, sem ekki væru útvaldir, hlytu refsingu og útskúfun. (bls 218)
Það er eitt og hálft ár síðan ég sendi ríkiskirkjunni spurningu um sum ummæli Jesú varðandi þetta:
Við lestur á Matteusarguðspjalli, þá sýnist mér Jesús spá því að heimsendir muni koma á tímum samtímamanna hans (Mt 16.28 og Mt 23.36). Er ég að misskilja þessi vers?
Ríkiskirkjuprestar minnast auðvitað nánast aldrei á þetta (þegar þeir gera það eru það fáránlegar afsakanir). Það er ekki eins og þetta sé einhver túlkun sem að einungis "öfgafullir" trúleysingjar eins og ég aðhyllast. Jafnvel fræðimenn sem telja að Jesús hafi ekki verið heimsendaspámaður viðurkenna að ummælin sem eru eignuð honum þýði þetta. Hefur nokkur maður heyrt ríkiskirkjuprest minnast á þetta?
Ég auglýsi eftir heiðarlegum ríkiskirkjupresti sem er til í að viðurkenna að:
1. Guð gamla testamentisisn er oft á tíðum illur ("blóðþyrstur vitfirringur").
2. Jesús talar um að heimsendir sé í nánd í guðspjöllunum.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 20:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (64)
21.11.2010 | 14:55
Fallegur gleðiboðskapur dagsins
Guðspjall dagsins er einkar ljótur texti úr Matteusarguðspjalli. Þetta er dæmisaga í heimsendaræðu Jesú. Ég spái því að prestar hafi í morgun ekki einbeint á þennan hluta textans:
Síðan mun [mannssonurinn] segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld sem búinn er djöflinum og árum hans. (Mt 25.41)
Seinna er þetta líka kallað "eilíf refsing". Þarna er Jesús að reka fólk í helvíti. Þetta er auðvitað einn af fjölmörgu textum sem að fólk sem aðhyllist "diet-helvíti" þarf að afneita. Fólk eins og ríkiskirkjuprestarnir Gunnar Jóhannesson og Þórhallur Heimisson sem segja að fólk endi í helvíti af því að það vill sjálft fara þangað, Jesús/guð myndi gjarnan vilja fá fólkið í himnaríki.
En sjáum hvað Jesús á að segja við þetta fólk á dómsdegi: "Farið frá mér". Hljómar ekki eins og að Jesús vilji fá þetta fólk í himnaríki.
Mér finnst það algerlega augljóst að fólk sem aðhyllist "diet-helvíti" gerir það í algerri andstöðu við mörg ummæli Jesú í guðspjöllunum (svo ekki sé minnst á játningar ríkiskirkjunnar!), það er á þessari skoðun af því að þeim finnst "klassískt" helvíti svo ótrúlega ógeðsleg hugmynd að þeir geta ekki ímyndað sér að góður guð myndi gera þetta.
Trúmál og siðferði | Breytt 24.11.2010 kl. 23:14 | Slóð | Facebook
19.11.2010 | 11:44
Um guð eftir Jonas Gardell
Ég var í bókabúð um daginn og kíkti í sýniseintak af Um guð eftir Jonas Gardell. Ég hef verið spenntir við að sjá hana vegna þess að ríkiskirkjupresturinn Þórhallur Heimisson segir að í henni svari Jonas "árásum þeirra vantrúarmanna sem lesa Biblíuna með augum bókstafstrúarmannsins og neita að horfast í augu við hið sögulega samhengi hlutanna"#.
Þegar ég fletti í gegnum bókina sá ég nú ekki hvað Þórhallur getur verið að tala um. Mér sýndist höfundurinn bara vera að ræða um hinar ýmsu birtingarmyndir guðs Gamla testamentisins. Til dæmis að Jahve hafi upphaflega ekki verið æðsti guðinn og svo framvegis. Ef svarið gegn "árásum vantrúarmannanna" er að segja að guðinn sem birtist í Gamla testamentinu sé best að útskýra sem vafasamar hugmyndir einhverra járnaldarmanna, þá væri ég alveg sáttur við það svar. Reyndar er það einmitt "árásin" mín.
Ég sá að Jonas ræðir líka smá um Jesús og horfir svo sannarlega "í augu við hið sögulega samhengi hlutanna" þar. Hann viðurkennir að Jesús guðspjallanna virðist hafa trúað á tilvist illra anda, og að þeir hafi valdið sjúkdómum. Hann viðurkennir líka að Jesús talar eins og heimsendir hafi verið í nánd. Þórhallur hefur ekki sætt sig við seinna viðhorf Jesú, enda myndi það hafa slæm áhrif á trúarkerfið hans. Að guð holdi klæddur hafi verið eins og vottarnir í heimsendaspámálum hljómar ekki mjög gáfulega.
Ég las reyndar mest af lokaorðunum og þau fannst mér satt best að segja hræðileg. Jonas segir þar frá sinni guðsmynd (sem er svo augljóslega framleidd af óskhyggju), sem er það sem ég myndi kalla "kettlingaguð" (það kallar fram svipaðar tilfinningar að fylgjast með kettlingi og að hugsa um guð). Hann segir að guð "hafi verið með" t.d. fólkinu sem stökk út úr tvíburaturnunum. Hvernig það á að bjarga guði að hann sé bara "með" fólki? Enginn veit. En það skiptir ekki máli þar sem að allir virðast fara til himnaríkis samkvæmt Jonas (en heppilegt!). Svo þegar Jonas ætlar að útskýra hvernig hann veit allt þetta, hvers vegna hann hefur rétt fyrir sér en ekki fólkið sem telur guð ekki vera nákvæmlega eins og Jonas vill að hann sé, þá segir hann að hann bara veit það. Hann bara veit það.
En hver veit nema þessi frábæru svör við "árásum þeirra vantrúarmanna sem lesa Biblíuna með augum bókstafstrúarmannsins" sé að finna í þeim köflum sem ég skoðaði ekki.
18.11.2010 | 12:22
Óheiðarleiki Arnar Bárðar
Ég skrifaði nýlega grein á Vantrú.is um óheiðarlegan málflutning ríkiskirkjuprestsins Arnar Bárðar. Í Fréttablaðinu í dag heldur Örn uppteknum hætti. Þetta skrifar hann:
Í grein sinni Trúboð úr skólum, reynir Vantrúarmaðurinn Reynir Harðarson ítrekað að gera samstarf kirkju og skóla í borginni tortryggilegt með því að hagræða sannleikanum. Þessi ákafi trúmaður virðist vilja koma allri umræðu um trú og lífsskoðanir út úr skólum borgarinnar og væntanlega landsins alls.
Maður er nú orðinn hálf-vanur því að ríkiskirkjufólkið endurtaki þá lygi að fólk vilji "koma allri umræðu um trú og lífsskoðanir úr skólum borgarinnar", en ég er ekki orðinn vanur lokaorðunum. Að halda því fram að Reynir vilji "væntanlega" koma allri umræðu um trú og lífsskoðanir úr landinu öllu er afskaplega ómerkilegt. Þó svo að Örn segi það ekki beint út, þá vænti ég þess að hann sé að tala um að banna "umræðu um trú og lífsskoðanir" í öllu landinu, hvernig myndi maður öðruvísi koma þeim úr landinu öllu?
Þessum manni finnst greinilega ekkert athugavert við það að saka fólk að ósekju um að aðhyllast fasískar skoðanir.
Ég vona að þjóðkirkjufólk sé stolt af prestinum þeirra. Ég hvet það fólk sem blöskrar þessi málflutningur að skrá sig úr ríkiskirkjunni.
8.11.2010 | 20:59
Ein af „frumskyldum“ presta...
...er að biðja fyrir þjóðinni að skólabörnum viðstöddum.
Þetta sá ég ríkiskirkjuprest skrifa nýlega. Þetta er ekki grín, presturinn skrifaði þetta í alvörunni.
7.11.2010 | 22:52
Bókstafstrúarrugl
Ég held að orðið bókstafstrú sé eitt af mest misnotuðu orðunum í allri trúmálaumræðunni (hin eru líklega fordómar og öfgar). Ég hef nýlega skrifað um það hve hissa ég varð, þegar ég byrjaði að fylgjast með trúmálaumræðu á netinu, hve miklir vælukjóar sumir trúmenn voru. Annað sem að vakti líka furðu mína voru undarlegar ásakanir um að einhverjir trúleysingjar væru bókstafstrúarmenn. Eftir að ég fór að taka þátt í umræðunni hef ég auðvitað oft verið kallaður bókstafstrúarmaður.
Alltaf þegar ég er ásakaður um að vera bókstafstrúarmaður reyni ég að fá útskýringu á því hvað viðkomandi á við, en ég man ekki eftir því að hafa fengið neina alvöru útskýringu.
Ég tek ekkert mark á biblíunni, hún er álíka mikið kennivald í mínum augum og Andrés Önd og Kóraninn. Ég hef ekki mikla trú á því að því sem er sagt frá í biblíunni hafi gerst. Varla get ég flokkast sem bókstafstrúarmaður út af því.
Ég átta mig alveg á því að sögur þurfa ekki að hafa gerst til að geta kennt okkur eitthvað. En stundum virðist fólkið sem kemur með bókstafstrúarstimpilinn halda að við lestur Dæmisagna Esóps hljóti ég að segja: Gerðist ekki! Og þess vegna er þetta bull og vitleysa!
Ég hallast að því að þegar fólk kallar mig bósktafstrúarmann þýði það eitthvað eins og: Mér líkar ekki við þig. Ég hef líka heyrt þá góðu tilgátu að maður sé bókstafstrúaður við það eitt að benda á ljótu hluta biblíunnar. Ef prestur vitnar í gullnu regluna og talar um hvað hún er falleg þá er það ekki bókstafstrú, en ef ég bendi á heimsendatal Jesú og tala um hvað það sé ljótt þá er það víst bókstafstrú.