25.11.2009 | 16:08
Vandinn við fæðingarfrásagnirnar
Eins og fram kom í síðustu færslu minni, þá sagðist Þórhallur Heimisson hafa hætt við að skrifa um fæðingarfrásagnir guðspjallanna vegna þess að einhverjir ónefndir aðilar séu vondir við hann á netinu.
Mér persónulega finnst þetta asnaleg ástæða fyrir því að skrifa ekki um fæðingarfrásagnirnar, en ég get vel trúað því að Þórhallur nenni ekki að standa í stappi á netinu. Ég veit hins vegar um góðar ástæður fyrir því að ríkiskirkjuprestur myndi ekki vilja skrifa um fæðingarfrásagnirnar.
Það má segja að söluvara prestanna sé Jesús og eina almennilega heimildin sem þeir hafa um Jesús eru guðspjöllin. Ef það er ekkert að marka guðspjöllin, þá geta prestarnir afar lítið sagt um Jesús.
Ég trúi ekki öðru en að mikið af fólki sjái að fæðingarfrásagnirnar eru helgisögur. Vondur konungur sem reynir að drepa barnið, englakórar, skilaboð í draumum og fleira í þeim dúr.
Þegar maður skoðar frásagnirnar nánar, þá vandast málin bara. Þetta eru í raun og veru tvær mótsagnakenndar sögur af fæðingu Jesú, ekki tvö afbrigði af sömu sögunni. Vandamálin enda ekki þar, vísanir í spádóma eru í algjöru rugli (sumir ekki einu sinni til) og sumir atburðir standast bara enga sagnfræðilega rýni.
Þannig að það er góð ástæða fyrir presta að vilja ekki skoða fæðingarfrásagnirnar, þær sýna fram á að það sé ekki hægt að treysta guðspjöllunum og þar af leiðandi að við getum vitað afar lítið um Jesús.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 16:16 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er líka afar óheppilegur tími fyrir prest til að gagnrýna þessar frásagnir því allan næsta mánuð munu kollegar hans segja þessa sögu þúsund sinnum (samtals) og langflestir segja hana eins og allt hafi þetta gerst í alvörunni. Kunna Þórhalli eflaust litlar þakkir fyrir að segja að þetta séu bara hindurvitni.
Matthías Ásgeirsson, 25.11.2009 kl. 16:18
Mér ýnist að ástæðan fyrir hughvarfi hans hafi fyrst og fremst verið vegna þess að trúbræður hans fórnuðu höndum snérust gegn honum í þessu. Jafnvel má ætla að hnippt hafi verið í hann af kollegum einnig. Í ljósi þess sem þú telur til hérna, þá er það kannski ekkert skrítið.
Það sem mér fannst miður i þessu drama var sú tækifærismennska og gefa það til kynna að þetta hefði eitthvað með trúleysingja að gera. Því fór nefnilega fjarri í þessu tilfelli.
Jón Steinar Ragnarsson, 25.11.2009 kl. 17:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.