Dæmisögur og heimsendir

Í  umræðunum við greinina Helvítis vesen hjá prestum hefur aðal deiluefnið á milli mín og Þórhalls verið það hvernig eigi að túlka ákveðnar dæmisögur Jesú. Í þeim umræðum segir Þórhallur meðal annars: 

 

Ég hvet þig til að lesa dæmisögur Jesú um himnaríki td í Matteusarguðspjalli. Þar er Jesús ekki að tala um hvar maður endar eftri dauðann. Hann er að tala um ástand hér og nú, sem vex innra með þér og breytir þér og heldur áfram eftir dauðann. 

 

Síðan vitnar Þórhallur í tvær ördæmisögur í Mt 13.31-33 og kemur með sína túlkun á þeim. Það sem mér finnst merkilegt við þetta er að á undan og eftir þessum ördæmisögum eru aðrar dæmisögur um himnaríki, en í þar útskýrir Jesús sjálfur dæmisögurnar! Fjalla þær um hinstu örlög fólks við endi veraldar (himnaríki eða helvíti) eða eitthvað innra ástand?

Fyrst segir Jesús dæmisöguna um illgresið á akrinum:

Aðra dæmisögu sagði hann þeim: „Líkt er um himnaríki og mann, er sáði góðu sæði í akur sinn. En er menn voru í svefni, kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan. Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt, kom illgresið og í ljós. Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: „Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið?“ Hann svaraði þeim: „Þetta hefur einhver óvinur gjört.“ Þjónarnir sögðu við hann: „Viltu, að vér förum og tínum það?“ Hann sagði: „Nei, með því að tína illgresið, gætuð þér slitið upp hveitið um leið. Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð, mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því, en hirðið hveitið í hlöðu mína.““ (Mt 13.24-30)

Nokkrum versum síðar útskýrir Jesús dæmisöguna:

 

Þá skildi hann við mannfjöldann og fór inn. Lærisveinar hans komu til hans og sögðu: „Skýrðu fyrir oss dæmisöguna um illgresið á akrinum.“ Hann mælti: „Sá er sáir góða sæðinu, er Mannssonurinn, akurinn er heimurinn, góða sæðið merkir börn ríkisins, en illgresið börn hins vonda. Óvinurinn, sem sáði því, er djöfullinn. Kornskurðurinn er endir veraldar og kornskurðarmennirnir englar. Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. Mannssonurinn mun senda engla sína, og þeir munu safna úr ríki hans öllum, sem hneykslunum valda og ranglæti fremja, og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. Þá munu réttlátir skína sem sól í ríki föður þeirra. Hver sem eyru hefur, hann heyri.“ (Mt 13.36-43)

 
Þarna er klárlega verið að ræða um hinstu örlög fólks en ekki eitthvað „innra ástand“.Síðar í kaflanum kemur Jesús með aðra dæmisögu um himnaríki sem hann útskýrir líka: 

 

 Enn er himnaríki líkt neti, sem lagt er í sjó og safnar alls kyns fiski. Þegar það er fullt, draga menn það á land, setjast við og safna þeim góðu í ker, en kasta þeim óætu burt. Svo mun verða, þegar veröld endar: Englarnir munu fara til, skilja vonda menn frá réttlátum og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. (Mt 13.47-50)

Samkvæmt Þórhalli fjalla þessar dæmisögur ekki um það hvort maður endi í helvíti eða himnaríki. Ég held að flestir sjái að það er bull og vitleysa.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband