Efasemdapresturinn

Í Fréttatímanum var nýlega viðtal ríkiskirkjuprestinn Sigríðu Guðmarsdóttur. Í viðtalinu var áhugaverð efnisgrein:

Sigríður fór í guðfræðideild Háskólans úr úr MR, alveg bandbrjáluð. Hún var tvítug og tilfinningarík. Hún grét yfir fréttum af hungursneyð í Eþíópíu og fannst eins og barnatrúin væri að svíkja sig. Þessar myndir í sjónvarpinu sögðu henni að heimurinn væri einn stór skítur. Allt sem hún hafði lært um þennan almáttuga og góða Guð í KFUM og KFUK virtist vera hræsni. Þessi efi lét fyrst á sér kræla í menntaskóla, þar sem hún skartaði svörtu naglalakki og hermannajakka, og efinn hefur elt hana æ síðan.

Þetta eru mjög skiljanlegar efasemdir, enda passa augljósar staðreyndir engan veginn við tilvist algóðs og almáttugs guðs. Það hefði verið gaman að reyna að fá einhvers konar svar frá Sigríði við þessum rökum.

En hún ákvað að gerast ríkiskirkjuprestur þrátt fyrir efasemdirnar, en sem prestur, þá þarf hún að gangast undir játningar ríkiskirkjunnar, og þar stendur meðal annars þetta í aðaljátningunni: "[guð er] ómælanlegur að mætti, visku og gæsku" # Ef hún trúir þessu ekki, og ég efast stórlega um að hún geri það, þá finnst mér það vera mjög mikil hræsni að gerast samt prestur.

Ástæðan fyrir því að ég geti vel trúað því að hún trúi þessu ekki er að þegar ég og Biggi tókum viðtal við hana fyrir nokkrum árum [fyrri og seinni hluti] þá fannst mér nokkuð ljóst að hún trúir engan veginn játningum kirkjunnar þegar það kemur að fórnardauða Jesú (ef ég man rétt þá fannst henni þær kenningar eiginlega fáránlegar).

En hver veit, kannski trúir hún þessu í alvörunni (ég efast stórlega um það), og ef svo er, þá hefði verið gaman að fá svar hjá henni, prestar virðast nefnilega hafa afar fá svör.


Bloggfærslur 21. júlí 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband