28.5.2011 | 15:26
Þjóðkirkjan ætti að biðja fyrir sjúkum börnum
Á morgun heldur ríkiskirkjan víst upp á "hinn almenna bænadag" og í ár ætla þau að biðja fyrir börnum.
Ég samdi bæn handa ríkiskirkjunni, og hver veit nema einhver prestur rekist á hana hér og flytji hana á morgun:
Algóði guð, skapari himins og jarðar, þar með talið allra sýkla.
Gætirðu hjálpað börnum sem þjást af malaríu af því að þú í algæsku þinni skapaðir plasmodium falciparum?
Gætirðu hjálpað börnum sem þjást af kóleru af því að þú í algæsku þinni skapaðir Vibrio cholerae?
Gætirðu hjálpað öllum börnum sem þjást vegna einhverra af þeim þúsundum öðrum sýklum sem þú skapaðir?
Algóði faðir, fyrirgefðu þeim mönnum sem útrýmdu góðri sköpun þinni, bólusóttarveirunni.
Amen
Sumum finnst þetta ef til vill vera ósmekkleg bæn, en þá aðila vil ég spyrja að því hvort það sé ekki ósmekklegt að fullyrða að ákveðin andavera, "guð", hafi bæði skapað þessa sýkla og sé um leið algóð?
Sjáið til dæmis hvað stendur í vinsælasta fermingarkveri ríkiskirkjunnar:
Í einni af sköpunarfrásögnum Biblíunnar segir: "Og guð leit allt,sem hann hafði gjört, og sjá,það var harla gott." (1. Mós, 1.31) Með því er Biblían að segja að allt sem Guð gerði er gott. Að baki allri tilverunni er örlátur og góður gjafari. (Líf með Jesú, bls 15)
Hugsið ykkur, það er erfitt að fá presta til að viðurkenna að það hafi verið illvirki af guðinum þeirra að skapa sýkla sem drepa milljónir barna árlega.
Hérna eru nokkrar valdar tilvitnanir frá heimasíðu ríkiskirkjunnar:
Guð faðir er skapari heimsins, hann er skapri lands og sjávar, fisks og fiskimanna. Allt líf á uppruna sinn hjá Guði föður. [seinna í sömu predikun] Því að við kristnir menn trúum því að heimurinn sé skapaður af algóðum Guði, ... - Þorvaldur Víðisson
Þvert á móti er lífið og tilveran - og þú sjálfur - þrungin mikilvægi og merkingu vegna þess að á bak við það er persónulegur og algóður Guð og skapari; ... - Gunnar Jóhannesson
Guð kristinna manna er skapari himins og jarðar og sköpunarverkið, náttúran í öllum hennar hrikalegu og dásamlegu myndum, ber vitni um vald hans og hátign, um gæsku hans og örlæti. - Pétur Pétursson
Hérna er mynd sem ber vitni um "gæsku hans og örlæti":