27.3.2011 | 15:10
Maðurinn sem vildi ekki leika
Í nýjustu predikuninni sinni, Satan, endursegir ríkiskirkjupresturinn Bjarni Karlsson þriðja boðorðið ("Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.") svona:
Þá hljómar þriðja boðorðið: Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. Gleymdu ekki að leika þér er Guð að segja. Já, karlar og konur, börn og fullorðnir, ekki gleyma leiknum og gleðinni. Ég gef þér lífið af því að það er gott og þú skalt þiggja það með fögnuði. Hvíldin og endurnæringin er forsenda allra starfa. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.
Stuttu seinna segir hann líka: "Mundu að leika þér, segir það þriðja.".
Mér finnst það frekar undarlegt að halda að hugmyndin á bak við þetta boðorð hafi verið áhugi þess sem samdi það (Bjarni virðist halda að það sé ósýilegi vinur hans guð) á leik. Annars staðar í bókinni tekið fram að ef einhver "gleymir að leika sér" þá eigi að drepa hann [1, 2]. Í annarri Mósebók er meira að segja saga af manni sem vildi ekki leika á hvíldardeginum:
Meðan Ísraelsmenn voru í eyðimörkinni, stóðu þeir mann að því að bera saman við á hvíldardegi. Og þeir sem hittu hann, þar sem hann var að bera saman viðinn, færðu hann fyrir Móse og Aron og fyrir allan söfnuðinn. Og þeir settu hann í varðhald, því að enginn úrskurður var til um það, hversu með hann skyldi fara. En Drottinn sagði við Móse: "Manninn skal af lífi taka. Allur söfnuðurinn skal berja hann grjóti fyrir utan herbúðirnar." Þá færði allur söfnuðurinn hann út fyrir herbúðirnar og barði hann grjóti til bana, eins og Drottinn hafði boðið Móse. #
Við skulum búa til heiðarlega útgáfu af endursögn Bjarna á þessu boðorði:
Gleymdu ekki að leika þér, því annars læt ég grýta þig, er Guð að segja. Já, karlar og konur, börn og fullorðnir, ekki gleyma leiknum og gleðinni, því annars áttu skilið að deyja. Ég gef þér lífið af því að það er gott og þú skalt þiggja það með fögnuði, því annars drep ég þig. Hvíldin og endurnæringin er forsenda allra starfa, því annars drep ég þig.
Voðalega fallegt.