22.3.2011 | 20:44
Kjarnaatriði kristinnar trúar
Það er hætt að koma mér á óvart hvað prestar eru duglegir við það að skálda hluti þegar það kemur að kristinni trú. Jesús var víst femínisti og baráttumaður réttinda samkynhneigðra. Það var víst grundvallarboðun Jesú að allir væru börn guðs.
Nýjasta dæmið um þetta eru ummæli ríkiskirkjuprestsins Baldurs Kristjánssonar. Þar segir Baldur meðal annars þetta: "boðskapur Jesú Krists snýr að því að allir menn séu jafnir" og bætir síðan við að "menn eru ekki flokkaðir þar [í boðskapi Jesú] heldur er maður tekinn á þeim grunni sem maður er sjálfur".
Nú veit ég ekki hvaða guðspjöll Baldur hefur verið að lesa, en hvergi segir Jesús eitthvað í likingu við "Allir menn eru jafnir." Baldur er bara að skapa Jesú í sinni eigin mynd. Svo veit ég ekki hvað hann á við með að menn séu ekki flokkaðir samkvæmt boðskapi Jesú, þar sem að stór hluti þess sem Jesú talar um í guðspjöllunum fjallar einmitt um að flokka mannkyninu í tvo hópa. Ef að Baldur ætlar svo að vera trúr sínum játningum, þá er fólk þar flokkað eftir því hvort það trúir á Jesú eða ekki. Þannig að búddistar, múhameðstrúarmenn og trúleysingjar munu allir verða flokkaðir frá þeim kristnu.
Baldur var ekki hættur heldur fullyrti hann síðan að það væri "kjarnaatriði í kristinni trú að meta alla menn jafnt". Hvaðan fékk hann þessa hugmynd? Nú hafa kristnir almennt í gegnum söguna ekki metið konur jafnt á við karla. Þú finnur ekki eitt einasta orð eignað Jesú um jafnrétti kynjanna. Í nokkrum bréfum í Nýja testamentinu er sérstaklega tekið fram að menn séu æðri konum. Þetta meinta kjarnaatriði er í beinni mótstöðu við helgirit kristinnar trúar. Í einni af játningum ríkiskirkjunnar stendur meira að segja að eiginkonur eigi að vera undirgefnar eiginmannönum sínum "eins og það væri drottinn".
Prestar eru annað hvort svo miklir áróðursmenn að þeir eigna kristinni trú allt gott sem þeim dettur í hug, eða þá að þeir gera það vegna þess að þeir eru gjörsamlega sannfærðir um að allt gott sé í raun og veru kjarnaatriði kristinnar trúar. Ef við færum 100 ár fram í tímann, þá eigum við örugglega eftir að sjá prest eins og Baldur Kristjánsson tala um að það sé "kjarnaatriði" kristinnar trúar að samkynhneigðir eigi að hafa sömu réttindi og gagnkynhneigðir og að "boðskapur Jesú Krists snýr að því að allir eigi að vera grænmetisætur." (ef við gerum ráð fyrir því að allir veðri grænmetisætur eftir 100 ár).
Prestar eru eins og verstu sölumenn.