Er ljótt að benda á óheiðarleika?

Í nýlegum færslum hef ég bent á það hvernig ríkiskirkjuprestar virðast stundum "gleyma" ljótu hliðum játninganna þeirra. Það virðist fara afskaplega í brjóstið á sumum að ég skuli kalla þá óheiðarlega fyrir að gera þetta. En er eitthvað rangt við það?

Í annarri færslunni kom ég með dæmi úr heimi stjórnmálanna sem mér finnst svipað:

Birgir Birgisson formaður Þjóðstjórnarflokksins segir í viðtali við fréttamann að það sé alls ekki stefna Þjóðstjórnarflokksins að reka útlendinga úr landinu.
Kvöldið áður var Birgir Birgisson staddur á landsfundi Þjóðstjórnarflokksins þar sem ný stefnuskrá flokksins var samþykkt, hún innihélt grein þar sem sagt er: "17. gr.  Takmark okkar er að reka alla erlenda menn úr Íslandi"

 

Myndi einhver hneykslast á því ef ég myndi segja: "Birgir Birgisson er óheiðarlegur, hann veit vel af 17. greininni en lætur eins og hún sé ekki til."? Ég held að varla nokkur maður sjái neitt athugavert við það að kalla Birgi óheiðarlegan.

Komum með annað svipað dæmi:

Jósef Jósefsson, prestur Fólkskirkjunnar, segir í viðtali við fréttamann að það sé alls ekki stefna Þjóðkirkjunnar að fólk eigi það á hættu að kveljast að eilífu.
Kvöldið áður las Jósef Jósefsson yfir aðaljátningu Fólkskirkjunnar, þar sem segir skýrum stöfum: "17. gr. Jesús mun dæma guðlausa menn svo að þeir kveljist að eilífu."

 

Mér finnst þetta klárlega vera álíka óheiðarlegt og dæmið með Birgi Birgisson. Ef það er í lagi að kalla Birgi óheiðarlegan, af hverju er ekki líka í lagi að kalla Jósef óheiðarlegan?

Þjóðkirkjuprestar eru mjög oft alveg nákvæmlega eins og Jósef Jósefsson. Í játningum ríkiskirkjunnar stendur svart á hvítu að fólk muni kveljast að eilífu. Játningin gengur meira að segja lengra og fordæmir sérstaklega þá sem afneita því.

Ég á erfitt með að skilja hvers vegna sumum finnst það alveg hræðilegt að benda á þennan óheiðarleika. Það sem mér dettur helst í hug er að þetta fólk hefur einhverja glansmynd af prestum og telur að það hljóti bara að vera ómaklegt að kalla þá óheiðarlega. 


Bloggfærslur 29. janúar 2011

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband