25.1.2011 | 18:57
Fleiri prestar í trúarafneitun
Ég ímynda mér að það sé hugsanlega einn hluti trúarjátninga ríkiskirkjunnar sem margir prestar hennar þola beinlínis ekki. Þetta er 17. grein Ásborgarjátningarinnar. Svona hljómar skemmtilegi hluti hennar:
17. grein: Um endurkomu Krists til dóms
Ennfremur kenna þeir: Kristur mun birtast við endi heims til að dæma og mun hann uppvekja alla dauða. Guðhræddum mönnum og útvöldum mun hann gefa eilíft líf og eilífan fögnuð. Guðlausa menn og djöflana mun hann fordæma, að þeir kveljist eilíflega.
Þeir fordæma endurskírendur, sem álíta, að endir verði bundinn á refsingu fordæmdra manna og djöflanna.
Þarna er helvíti boðað svart á hvítu. Við heimendi mun Jesús sjá til þess að einhver hluti mannkyns muni kveljast að eilífu. Afneitun á þessu er síðan alveg sérstaklega fordæmd. Þetta getur bara ekki verið skýrara.
Prestar vita vel af þessari grein. Þess vegna eru nýleg skrif ríkiskirkjuprestahjóna mjög óheiðarleg. Þau voru að svara skrifum Valgarðar þar sem hann telur meðal annars upp nokkrar trúarkenningar. Ein þessara trúarkenninga var trúin á vítiskvalir í helvíti. Það er alveg ljóst að Þjóðkirkjan játar trú á kvalir í helvíti, meira að segja eilífar kvalir.
Prestarnir skrifuðu hins vegar:
Sá sem er trúaður og tilheyrir þjóðkirkjunni (og hér tölum við um þjóðkirkjuna sérstaklega því það er okkar trúfélag og við þekkjum hana best): ....
10. þarf ekki að óttast sem barn ef einhver nákominn deyr að viðkomandi líði vítiskvalir í helvíti
Þetta er augljóslega rangt, kirkjan boðar að fólk geti endað í eilífum kvölum í helvíti, og þess vegna þarf maður að óttast að einhver nákominn gæti endað í eilífum kvölum í helvíti. Prestarnir vita þetta auðvitað, og því eru þetta ekkert nema lygar.
Auk þess skrifaði annar ríkiskirkjuprestanna, Árni Svanur Daníelsson, þetta í athugasemd:
Þjóðkirkjan er stærsta trúfélag á Íslandi (tæp 80% landsmanna tilheyra þessu trúfélagi) og eins og við bendum á í færslunni er hægt að tilheyra því trúfélagi og vinna fyrir það sem prestur og ekki skrifa undir eina einustu af óbeinum staðhæfingum hans um trúaða.
Framhjá þessu verður ekki litið.
Þetta er líka beinlínis rangt. Að afneita því að sumt fólk muni kveljast að eilífu í helvíti er beinlínis fordæmt í aðaljátningu Þjóðkirkjunnar og það sem meira er, prestar eru skyldaðir til þess að játa þessu. Þeir heita því við vígslu sína að boða í samræmi við játningar ríkiskirkjunnar.
Þetta vita þessir ríkiskirkjuprestar, Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir, alveg.
Ég held að þau séu beinlínis að ljúga. Þau vita betur, en það kemur þeim bara illa að játa þetta. Þau trúa svo örugglega hvorug því að fólk muni kveljast að eilífu í helvíti.
Ríkiskirkjuprestar eru helvíti óheiðarlegir.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (70)