29.9.2010 | 09:07
Af hverju ætti maður að hæðast að englum?
Ríkiskirkjupresturinn Þórhallur Heimisson veltir sér upp úr englum í dag og þar segir hann meðal annars þetta:
Englar hafa oft verið hafðir að háði og spotti þeirra sem eru andstæðingar Krists og kirkju hans.
Kannski er það vegna þess að englar eru annarsvegar fulltrúar hreinleikans og trúarinnar, hins góða og fagra, og um leið þeirra sem geta sér enga björg veitt, barna og smælingja.
Og ekkert vekur meiri fyrirlitningu hinna sem treysta á mátt sinn og megin og fyrirlíta máttinn sem birtist í veikleika.
Á hinn bóginn birta þeir kraft ljóssins sem myrkrið óttast - og bregst því við af krafti. #
Þórhallur, ég held að ástæðan sé ekki sú að við fyrirlítum máttinn sem birtist í veikleika og teljum engla vera fulltrúa þess. Ástæðan er heldur ekki sú að englar birta kraft ljóssins sem við sem erum í myrkrinu óttumst.
Ástæðan fyrir því að englar eru oft hafðir að háði og spotti er líklega sú að þetta er fáránleg hugmynd sem sýnir hversu ótrúlega trúgjarn viðkomandi er. Þórhallur virðist telja að heimurinn sé uppfullur af ósýnilegum andaverum sem heita undarlegum nöfnum eins og Fanúel og Ragúel. Og mér sýnist ástæðan vera sú að það stendur í einhverri eldgamalli bók að þeir séu til.
Þetta er spegilmynd þess að trúa á illa anda. Það verðskuldar alveg jafn mikið háð og spott. Hvernig útskýrirðu það Þórhallur? Ætli Þórhallur trúi ekki líka á tilvist illra anda? Kæmi mér ekki á óvart.
Það er líka merkilegt hversu öfgatrúarlegt það er að telja þá sem hæðast að trú að englum geri það af því að þeir séu á valdi hins illa (myrkrið). Það er eiginlega stigi fyrir neðan það að telja þá sem eru ósammála sér vera andsetna.