Jesús og lögmálið

Á heimasíðu sinni er Þórhallur ríkiskirkjuprestur að kvarta yfir blindu „bókstafstrúaðra guðleysingja“. Eitt af því sem við sjáum ekki er víst þetta:

[Jesús ] sagði einmitt:"Þér hafið heyrt að sagt var.....en ég segi yður". Hann hafnaði Móselögmálinu þar sem það stóð gegn kærleikanum og mennskunni ...

Ef við skoðum þennan kafla, þá er ljóst að þarna er Jesús (eða réttara sagt höfundur guðspjallsins) einmitt að leggja áherslu á að það eigi að fara eftir hverjum einasta staf laga Móses:

Ætlið ekki, að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema, heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok, mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu, uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það, mun kallast minnstur í himnaríki, en sá, sem heldur þau og kennir, mun mikill kallast í himnaríki. (Matt 5.17-19)

Einhver sem heldur þetta hafnar ekki neinum hluta lögmálsins. Og ef við skoðum síðan dæmin þar sem Jesús segir „Þér hafið heyrt að sagt var ... en ég segi.“, svokallaðar andstæður Matteusar, þá er Jesús ekki að hafna lögmálinu, heldur að styrkja það. Hann er að gera það sama og til dæmis farísearnir gerðu, hann var að reyna að tryggja það að maður myndi örugglega ekki brjóta lögmálið.

Gott dæmi um þetta er bannið við því að nefna nafn guðs, Jahveh, ekkert í lögmáli Móses bannar það að maður nefni það, maður á bara ekki að „leggja nafn Jahveh guðs þíns við hégóma“, og til að tryggja það að maður myndi örugglega aldrei gera það, þá átti maður aldrei að segja nafnið. Þetta hefur verið kallað að reisa limgerði í kringum lögmálið (e. hedge around the Torah).

Ef maður fer í gegnum þessi „Þér hafið heyrt.. en ég segi.“ hjá Jesú, þá er nákvæmlega það sama í gangi. Lögmálið segir, ekki drýgja hór, ef þú horfir ekki einu sinni á konu með girndarauga, þá brýturðu örugglega ekki það boðorð. Lögmálið segir að maður eigi ekki að myrða mann, ef þú reiðist ekki þá drepurðu örugglega ekki neinn.

Það sem „bókstafstrúaði guðleysinginn“ ég sé er að Nýja testamentið er klofið í afstöðu sinni til laga Gamla testamentisins, sums staðar er Jesús harður fylgjandi þeirra og mótmælir bara túlkunum andstæðinga sinna á þeim (Matteusarguðspjall), annars staðar er neikvætt viðhorf til þeirra, þetta eru bara lögmál gyðinga sem þarf ekki að fara eftir.

Mér sýnist á öllu að Þórhallur sjái bara neikvæða viðhorfið í Nýja testamentinu, enda er það líklega afstaða hans sjálfs. En heppilegt!


Bloggfærslur 17. september 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband