23.7.2010 | 16:55
Hófsamir trúmenn
Trúmálaumræðurnar hjá Hrannari og Kristni undanfarið hafa verið svolítið sérstakar. Þær hafa eiginlega gengið út á það að nokkrir trúmenn eru að ruglast með skilgreiningar, nýjasta dæmið er skilgreining eins þeirra, Grefils, á hófsemi.
Tökum tvo trúmenn og athugum hvor þeirra væri hófsamur trúmaður samkvæmt Grefli:
1. Trúmaður A er strangtrúaðir gyðingur. Hann heldur að heimurinn sé 6000 ára (af því að það stendur í hebresku biblíunni, en hann heldur að hver einasti stafur í henni sé innblásinn af guði), að guðinn hans hafi drekkt heiminum í Nóaflóðinu. Hann heldur einnig að gyðingar eigi landið við botn Miðjarðarhafs af því að guð gaf þeim landið. Hann telur einnig að ríkið eigi að drepa samkynheigða. Eins og margir strangtrúaðir gyðingar, þá stundar hann ekki trúboð.
2. Trúmaður B er frjálslyndur kristinn maður. Trú hans gengur aðallega út á það að það sé til góður guð og það sé frábært að vera vinur hans og vinur Jesú. Hann telur að biblían sé skrifuð af mönnum, tekur ekkert svakalega mikið mark á henni. Hann samþykkir allar helstu vísindakenningarnar, t.d. þróunarkenninguna og aldur jarðar og telur auk þess ekki að það eigi að drepa samkynhenigða. Eins og margir aðrir kristnir menn, þá stundar hann trúboð. Hann styrkir til dæmis Kristniboðsfélagið og heldur út bloggsíðu þar sem hann skrifar um trúna sína.
Samkvæmt skilgreiningu Grefils á hófsamur þá er trúmaður A hófsamur, en trúmaður B er það ekki, vegna þess að A boðar ekki trúna sína, en B gerir það:
Ég hef hitt hófsama trúleysingja og hófsama kristna. Ég kalla þá "hófsama" vegna þess að þeim er ekkert sérstaklega í mun að boða eða breiða út trúleysi sitt (kristni sína) heldur vilja bara halda sannfæringu sinni með sjálfum sér í friði. #
Mér persónulega er hálf-illa við að nota orðin hófsamur eða öfga- því þessi orð eru oftast notuð eingöngu til að tjá að manni líki vel eða illa við einhvern, en ef ég myndi þurfa að velja, þá myndi ég segja að trúmaður B væri hófsamur en ekki trúmaður A, og ég held að flestir væru sammála því.
En hvers vegna kemur Grefill með þessa undarlegu skilgreiningu á hófsamur (að boða ekki trúna sína)? Ég held að atburðarrásin sé svona:
1. Grefli líkar illa við trúleyisingja eins og okkur í Vantrú, sem stundum hálfgert vantrúboð á netinu.
2. Til þess að tjá þessa skoðun sína, þá kallar hann okkur öfgamenn (í fyrstu athugasemd hans í þessari umræðu):
Í mínum huga leikur enginn vafi á því að flestir í Vantrú eru yfir sig trúaðir, sumir meira að segja svo ofsa- og bókstafstrúaðir að jaðrar á við örgustu of- og öfgatrú. #
3. Til þess að réttlæta það að við séum öfgamenn þá þarf hann að finna skilgreiningu á hófsamur þannig að trúleysingjarnir sem honum líkar illa við falli örugglega í þann hóp.
Þess vegna kemur Grefill með skilgreiningu á hófsamur sem flokkar brjálaða gyðinginn, trúmann A, sem hófsaman en ofur-frjálslynda kristna manninn, trúmann B, sem hálfgerðan öfgamann.