12.7.2010 | 17:46
Guð elskar ekki alla
Á vefriti ríkiskirkjunnar, trú.is, birtist nýlega grein eftir djáknann Pétur Björgvin Þorsteinsson. Þetta er ekkert svakalega merkileg grein, eitthvað tal um að það sé vont að vera gráðugur og svona. Það er allt gott og blessað, en Pétur þarf endilega að reyna að réttlæta þessa skoðun með vísun í ósýnilega vinin hans:
Guð skapaði heiminn allan, ekki bara Ísland. Manneskjan, hvar sem hún er fædd, hver sem litarháttur hennar er, stjórnmálaleg eða trúarleg afstaða hennar er, er gerð í Guðs mynd, Guð elskar hana og Jesú hvetur hana til samfylgdar við sig í uppbyggingu á samfélagi jafnræðis og samstöðu. #
Þetta er afskaplega væmið, en hvernig í ósköpunum veit Pétur að guðinn hans er svona afskaplega góður gæi að hann elski alla, alveg óháð litarhætti, trúar- eða stjórnmálaskoðunum?
Augljóslega hefur hann ekki hugmynd um það. Hann er bara að eigna guðinum sínum sínar eigin skoðanir. Pétur telur það rangt að elska ekki fólk vegna litarháttar, trúar- eða stjórnmálaskoðana og þess vegna heldur hann að fullkomin guðinn hans sé á sömu skoðun.
En hvernig gæti Pétur reynt að réttlæta þessa hugmynd? Hann er að skrifa á heimasíðu kristinnar kirkju, þannig að það væri kannski fínt að byrja á að skoða trúarrit hennar. Ef maður les biblíuna þá er ljóst að guðinn í þeirri bók elskar ekki alla. Ef við byrjum á Gamla testamentinu þá er guðinn þar ansi iðinn við að framkvæma og fyrirskipa þjóða- og fjöldamorð. Það er frekar fjarstæðukennt að segja að guð elski það fólk.Sama gildir um Nýja testamentið, þar er Jesús sífellt að segja fólki að það muni brenna í helvíti, mér finnst það frekar ótrúlegt að guð elski fólk sem að hann ætlar að kvelja að eilífu. Páll segir síðan beinlínis að guð hafi einfaldlega hatað greyið Esaú, meira að segja áður en hann fæddist (Róm 9.13).
Þannig að ef maður les biblíuna, þá virðist guð alls ekki elska alla. En Pétur getur kannski bara sagt að hann taki ekki þessi vers alvarlega, honum sé sama um hvað biblían segi.
Pétur gæti líka haldið því fram að hann viti að guð elski alla af því að guð segi honum það einfaldlega. Ef hann gerir það, þá vandast málið vegna þess að það er líka helling af trúfólki sem segir að guð hati suma. Pétur þyrfti þá að segja að guð tali ekki við það fólk en tali hins vegar við.
Mér finnst það frekar ljóst að Pétur er bara að eigna guðinum sínum sínar eigin skoðanir, og mér finnst það frekar óhugnalegt að hann sé að reyna að rökstyðja þær með því að segja að þetta séu jú skoðanir guðs sjálfs, alveg óháð því að þetta séu voða fallegar hugmyndir. Því að ef við segjum að það sé allt í lagi að vísa til skoðana guðs til þess að rökstyðja skoðanir sínar, þá getur fólkið með ljótar hugmyndir líka gert það, og það á auðveldara með að vísa til biblíunnar.