Þórhallur og aðir óhræddir trúmenn

Prófavertíðin er búin og þá get ég haldið áfram að skrifa um það sem ríkiskirkjupresturinn Þórhallur Heimisson hefur að segja um upprisu Jesú, en ég hef þegar bent á að annað hvort hefur hann ekki hugmynd um hvað hann er að tala eða þá að hann lýgur beinlínis fyrir trúna sína, sem kæmi mér satt best að segja ekki á óvart. 

Skoðum þessi ummæli Þórhalls:

Veigamestu rökin fyrir sannleika páskasögunnar eru á þessa leið: Eftir krossfestinguna voru lærisveinar Jesú bugaðir af þeim ósköpum, er yfir þá höfðu dunið: Meistari þeirra hafði verið handtekin, píndur og kvalinn, dæmdur og líflátinn með svívirðilegum hætti. “Vér vonuðum, að hann væri sá, er leysa mundi Ísrael” sögðu lærisveinarnir á leið sinni til Emmaus að kvöldi páskadags (Lúk.24:2l). Nú var sú von að engu orðin, og ekkert blasti við förunautum Jesú annað en niðurlægjandi ósigur. Eðlilegustu viðbrögð þeirra hefðu verið á þá lund að hverfa aftur hver til síns heima og fella hina stuttu sögu predikarans frá Nazaret í gleymsku.
En hér fór á annan veg. Innan fárra vikna tóku postularnir að boða mönnum þau tíðindi, að sögu hins fyrirlitna og krossfesta leiðtoga þeirra væri ekki lokið. Saga hans væri þvert á móti að hefjast, - saga hins upprisna. Fáum árum síðar voru lærisveinarnir og skjólstæðingar þeirra lagðir af stað út um borgir Rómaveldis, þar sem þeir hvarvetna sögðu tíðindin. Nú er ekki svo að skilja, að þeirra biði hrós og lofstír fyrir þennan boðskap. Þvert á móti: Þeir voru sjálfir ofsóttir og líflátnir fyrir tiltæki sitt.
Hefði ekki verið skynsamlegra að þegja? Jú eflaust. Hver fórnar lífi sinu fyrir lygasögu? Enginn.
Þannig að punktur Þórhalls er þessi. Hvernig útskýrum við þetta:

1. Eftir krossfestingu Jesú hættu lærisveinarnir ekki þeirri vitleysu að fylgja Jesú. 

2. Lærisveinarnir dóu fyrir trú sína.

Þegar kemur að fyrri punktinum, þá þarf maður til að byrja með að átta sig á því að við höfum einfaldlega ekki áreiðanlegar heimildir um upphaf kristni. En hvað um það, gefum okkur það að það hafi verið hópur tólf manna sem var innri hringur einhvers konar költleiðtoga. Er það ekki óskiljanlegt að þeir hafi ekki hætt í sértrúarsöfnuðinum þegar leiðtoginn þeirra var drepinn?

Í raun er það alls ekki ólíklegt, ég myndi meira að segja telja það líklegt, að aftaka Jesú myndi hafa þessi áhrif. Vissulega myndu einhverjir hætta, en þeir sem væru þegar búnir að eyða helling í költinn (t.d. yfirgefa fjölskyldur sínar) myndu tvíeflast. Ótrúlegt en satt, en þá er það þannig að þegar trúarbrögð fólks virðast afsönnuð með einhverri ytri staðreynd (t.d. þegar heimsendir kemur ekki, sem væri líklega sambærilegt við dauða Jesú og skort á þeim heimsendi sem hann virðist hafa boðað) veldur því að fylgjendurnir reyna að komast yfir þau óþægindi sem það veldur með því að sannfæra annað fólk um að trúin þeirra sé rétt. Fyrir þá sem hafa áhuga, og vilja sannfærast um að Þórhallur sé að bulla, þá bendi ég á umfjöllun um hugrænt misræmi (e. cognitive dissonance).

Varðandi það að lærisveinarnir hefðu ekki dáið fyrir "lygasögu", þá er það einfaldlega ekki satt. Joseph Smith, sem stofnaði mormónatrú algerlega byggt á lygum, dó fyrir "trú" sína. En þó svo að það sé alls ekki ómögulegt, þá er alveg óþarfi að tala um að lærisveinarnir hafi dáið fyrir trú sína. Allar sögurnar af lærisveinunum sem fara út um allan heiminn og deyja fyrir trú sína á upprisu Jesú (hvað þá sögurnar sem við finnum í guðspjöllunum) eru síðari tíma uppspunar. Við finnum söguna um píslardauða Péturs í bók sem segir að Pétur hafi líka stundað þá iðn að fljúga. Í þeirri bók er líka talandi hundur. Svo virðist það hafa verið ótrúlega erfitt að drepa lærisveinana, ef ég man rétt þá á Jóhannes að hafa lifað það af að hafa verið dýpt ofan í sjóðandi olíu. Þetta eru allt helgisögur, maður þarf ekki kraftaverk til að útskýra þær. En auk þess höfum við ekki hugmynd um hvort að einhverjir lærisveinar hefðu sagt sögur af tómri gröf, Páll postuli virðist ekki vita neitt um þær sögur sem við lesum um í guðspjöllunum. 

Þessi "veigamestu rök" fyrir "sannleika páskasögunnar" eru ekki byggð á neinum alvöru heimildum. Eins og venjulega er Þórhallur að bulla.


Bloggfærslur 18. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband