11.12.2010 | 13:01
Þórhallur og tóma gröfin
Þórhallur Heimisson er kominn að upprisunni í trúarjátningaskrifum sínum, og þar skrifar hann þetta (með feitletrunum frá mér):
Allt frá upphafi kristins dóms voru til menn sem véfengdu sannleiksgildi páskafrásagnanna, frásagnanna af upprisu Jesú Krists eins og þær er að finna í guðspjöllunum. Þær efasemdir heyrast enn og kröftuglega hjá mörgum, eftir nær 20 aldir. Um eitt voru menn þó samdóma frá öndverðu: Gröf Krists var tóm að morgni páskadags. Jesús hafði verið lagður í hana að kvöldi föstudagsins langa. Þaðan var hann horfinn á þriðja degi. Enginn hefur rengt það, hvorki fyrr né síðar. Af þessum sökum hefur gröfin tóma löngum orðið tákn páskanna í vitund kristinna manna. Um hana er ekki ágreiningur.
Þetta er bull og vitleysa. Það vill nú svo skemmtilega til að bandarískur "fræðimaður" (viðkomandi trúir að biblían sé óskeikul, þannig að það er erfitt fyrir mig að kalla hann fræðimann), Gary Habermas, hefur tekið saman öll skrif fræðimanna á ensku, frönsku og þýsku frá 1975 og einfaldlega talið það hve margir trúa hverju.
Niðurstöður hans (greinin birtist í The Journal for the Study of the Historical Jesus) varðandi tómu gröfina voru þær að ~75% héldu að það hafi verið tóm gröf, ~25% töldu að það hafi ekki verið tóm gröf. Og það eru ekki bara einhverjir rugludallar sem trúa ekki á tómu gröfina, þarna eru menn eins John Dominic Crossan og Burton Mack.
Þannig að "[e]nginn hefur rengt" söguna af tómu gröfinni, fyrir utan fjórða hvern fræðimann sem skrifar um þetta.
Og ég verð að segja að mér finnst þetta há tala, sérstaklega í ljósi þess að það er auðvitað aðallega kristið fólk sem að leggur stund á þessi fræði. Við myndum alveg eins búast við því að stór hluti þeirra fræðimanna sem rannsaka múhameðstrú séu múhaðemstrúarmenn og trúi því frekar á ótrúlegar sögur innan trúarbragðanna þeirra. Inn í þessum tölum hans Habermas eru einmitt "fræðimenn" eins og hann og William-Lane Craig sem halda að biblían sé óskeikul.
Svo er auðvitað einfaldlega hættulegt fyrir suma fræðimenn að skrifa neikvætt um þetta, kirkjur eiga sterk ítök í guðfræði- og trúarbragaðfræðideildum víðs vegar. Gerd Lüdemann (sem er líklega ekki til samkvæmt Þórhalli) , sem var prófessor við guðfræðideild háskólans Í Göttingen missti eiginlega stöðuna sína við háskólann vegna þess að hann afneitaði kristinni trú.
Síðan hafa þessir fræðimenn góðar ástæður fyrir því að trúa því að sagan af tómu gröfinni sé helgisaga. Það var algeng gerð af sögum í fornöld að líkami einhvers merkilegs manns fannst ekki og það átti að vera til merkis um að viðkomandi hafi verið numinn upp til himna til guðs eða guðanna. Flott dæmi um þetta, sem ég hef minnst á áður, er sagan af Apollóníos:
Einn samtímamaður Jesú hét Apollóníos. Í bók um æfi hans segir að einn dag hafi hann gengið að hofi, dyrnar hafi opnast og lokast sjálfar og að kór hafi heyrst syngja: Flýttu þér frá jörðinni, flýttu þér til himna. Ekkert meira spurðist um hann og höfundur bókarinnar segir að hann hafi ferðast um flest lönd og hvergi rekist á gröf hans.
Sagan af tómu gröfinni hljómar bara eins og enn ein sagan af því að líkami einhvers merkilegs manns finnist ekki og því hljóti hann að vera farinn upp til himna.
Önnur ástæða er sú að tóma gröfin virðist gera ráð fyrir líkamlegri upprisu, en Páll virðist ekki trúa á það. Hann segir að "hold og blóð" geti ekki erft guðs ríki og að Jesús hafi orðið að anda við upprisuna (1Kor 15).
En hvort sem að maður trúir því að það hafi verið tóm gröf eða ekki þá ætti maður að minnsta kosti að vita af því að það er ótrúlegt rugl að halda því fram að enginn, hvorki fyrr né síðar, hafi rengt tilvist tómu grafarinnar. Ég veit ekki hvernig Þórhallur getur haldið fram svona fullyrðingum sem allir þeir sem hafa kynnt sér þessi mál eitthvað vita að eru ósannindi.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)