7.11.2010 | 22:52
Bókstafstrúarrugl
Ég held að orðið bókstafstrú sé eitt af mest misnotuðu orðunum í allri trúmálaumræðunni (hin eru líklega fordómar og öfgar). Ég hef nýlega skrifað um það hve hissa ég varð, þegar ég byrjaði að fylgjast með trúmálaumræðu á netinu, hve miklir vælukjóar sumir trúmenn voru. Annað sem að vakti líka furðu mína voru undarlegar ásakanir um að einhverjir trúleysingjar væru bókstafstrúarmenn. Eftir að ég fór að taka þátt í umræðunni hef ég auðvitað oft verið kallaður bókstafstrúarmaður.
Alltaf þegar ég er ásakaður um að vera bókstafstrúarmaður reyni ég að fá útskýringu á því hvað viðkomandi á við, en ég man ekki eftir því að hafa fengið neina alvöru útskýringu.
Ég tek ekkert mark á biblíunni, hún er álíka mikið kennivald í mínum augum og Andrés Önd og Kóraninn. Ég hef ekki mikla trú á því að því sem er sagt frá í biblíunni hafi gerst. Varla get ég flokkast sem bókstafstrúarmaður út af því.
Ég átta mig alveg á því að sögur þurfa ekki að hafa gerst til að geta kennt okkur eitthvað. En stundum virðist fólkið sem kemur með bókstafstrúarstimpilinn halda að við lestur Dæmisagna Esóps hljóti ég að segja: Gerðist ekki! Og þess vegna er þetta bull og vitleysa!
Ég hallast að því að þegar fólk kallar mig bósktafstrúarmann þýði það eitthvað eins og: Mér líkar ekki við þig. Ég hef líka heyrt þá góðu tilgátu að maður sé bókstafstrúaður við það eitt að benda á ljótu hluta biblíunnar. Ef prestur vitnar í gullnu regluna og talar um hvað hún er falleg þá er það ekki bókstafstrú, en ef ég bendi á heimsendatal Jesú og tala um hvað það sé ljótt þá er það víst bókstafstrú.