Að slíta úr samhengi

Í trúmálaumræðum hef ég ansi oft verið sakaður um að slíta eitthvað úr samhengi. Viðkomandi reynir samt nánast aldrei að rökstyðja þessa ásökun sína. Oft virðist þetta bara vera sjálfkrafa viðbrögð hjá trúfólki þegar því er bent á einhver ljót vers í biblíunni.

Ég ímynda mér að það sé eitthvað svona í gangi: "Biblían er svo falleg bók að svona ljótur boðskapur Einhvern veginn er búið að umbreyta upprunalega fallega boðskapnum. Trúleysinginn hlýtur að hafa slitið textann úr samhengi."

Ef einhver þessara trúmanna sem stunda þetta eru að lesa þessa færslu, þá langar mig að útskýra fyrir þeim muninn á að "slíta úr samhengi" og að "vitna í". Það að vitna bara í hluta úr texta, og taka hann þannig úr samhenginu, er ekki að slíta textann úr samhengi. Að slíta texta úr samhengi gefur til kynna að hann þýði eitthvað annað í samhenginu. 

Ef ég hefði skrifað í gær: "Mér finnst ástæða til þess að láta lögregluna vita af því sem Siggi sagði í gær, hann hótaði Magga lífláti með því að segja: "Maggi, ég ætla að skjóta þig í hausinn.", þá gæti ég verið að slíta þetta úr samhengi, en hugsanlega er ég ekki að gera það. Til þess að komast að því þá kíkjum við á hvaðan tilvitnunin er komin og athugum hvort hún þýði eitthvað allt annað í sínu upprunalega samhengi.

Ég væri ekki að slíta ummæli Sigga úr samhengi ef þau hefði verið sögð í þessu samhengi: Siggi ræðst á Magga með hníf, en Maggi nær að verjast árásinni og Siggi hleypur í burtu og öskrar þessi orð.  

Ég væri að slíta ummæli Sigga úr samhengi ef þau hefðu verið sögð í þessu samhengi: Siggi, Maggi og aðrir vinir þeirra voru að spila tölvuleik þar sem markmiðið er að drepa hina spilarana. Siggi sagði þessi orð rétt áður en hann skaut karakter Magga í hausinn.

Ef einhver kemur með ásökun um að eitthvað sé slitið úr samhengi, þá er lágmarks krafa að viðkomandi útskýri hvað hann á við (t.d. "Þetta er slitið úr samhengi. Siggi var að tala um að skjóta Magga í tölvuleik!"), sérstaklega þar sem það ætti að vera afksaplega auðvelt ef orðin eru virkilega slitin úr samhengi.

Þetta hljómar allt voða einfalt, en sumir trúmenn virðast ekki ná þessu (nýjasta dæmið er í síðustu færslunni minni). Kæru trúmenn, reynið nú að vanda málflutning ykkar örlítið!


Bloggfærslur 29. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband