19.11.2010 | 11:44
Um guð eftir Jonas Gardell
Ég var í bókabúð um daginn og kíkti í sýniseintak af Um guð eftir Jonas Gardell. Ég hef verið spenntir við að sjá hana vegna þess að ríkiskirkjupresturinn Þórhallur Heimisson segir að í henni svari Jonas "árásum þeirra vantrúarmanna sem lesa Biblíuna með augum bókstafstrúarmannsins og neita að horfast í augu við hið sögulega samhengi hlutanna"#.
Þegar ég fletti í gegnum bókina sá ég nú ekki hvað Þórhallur getur verið að tala um. Mér sýndist höfundurinn bara vera að ræða um hinar ýmsu birtingarmyndir guðs Gamla testamentisins. Til dæmis að Jahve hafi upphaflega ekki verið æðsti guðinn og svo framvegis. Ef svarið gegn "árásum vantrúarmannanna" er að segja að guðinn sem birtist í Gamla testamentinu sé best að útskýra sem vafasamar hugmyndir einhverra járnaldarmanna, þá væri ég alveg sáttur við það svar. Reyndar er það einmitt "árásin" mín.
Ég sá að Jonas ræðir líka smá um Jesús og horfir svo sannarlega "í augu við hið sögulega samhengi hlutanna" þar. Hann viðurkennir að Jesús guðspjallanna virðist hafa trúað á tilvist illra anda, og að þeir hafi valdið sjúkdómum. Hann viðurkennir líka að Jesús talar eins og heimsendir hafi verið í nánd. Þórhallur hefur ekki sætt sig við seinna viðhorf Jesú, enda myndi það hafa slæm áhrif á trúarkerfið hans. Að guð holdi klæddur hafi verið eins og vottarnir í heimsendaspámálum hljómar ekki mjög gáfulega.
Ég las reyndar mest af lokaorðunum og þau fannst mér satt best að segja hræðileg. Jonas segir þar frá sinni guðsmynd (sem er svo augljóslega framleidd af óskhyggju), sem er það sem ég myndi kalla "kettlingaguð" (það kallar fram svipaðar tilfinningar að fylgjast með kettlingi og að hugsa um guð). Hann segir að guð "hafi verið með" t.d. fólkinu sem stökk út úr tvíburaturnunum. Hvernig það á að bjarga guði að hann sé bara "með" fólki? Enginn veit. En það skiptir ekki máli þar sem að allir virðast fara til himnaríkis samkvæmt Jonas (en heppilegt!). Svo þegar Jonas ætlar að útskýra hvernig hann veit allt þetta, hvers vegna hann hefur rétt fyrir sér en ekki fólkið sem telur guð ekki vera nákvæmlega eins og Jonas vill að hann sé, þá segir hann að hann bara veit það. Hann bara veit það.
En hver veit nema þessi frábæru svör við "árásum þeirra vantrúarmanna sem lesa Biblíuna með augum bókstafstrúarmannsins" sé að finna í þeim köflum sem ég skoðaði ekki.