Forskot á þrenningarsæluna

 

Ríkiskirkjupresturinn og englabossinn hann Þórhallur Heimisson upplýsti í athugasemd við nýlega færslu um að hann myndi bráðum fara að ræða um þrenningarkenninguna, þannig að ég ætla að taka smá forskot og ræða aðeins um þetta á undan honum (en mig grunar að hann muni enn og aftur útskýra „villukenninguna“ módalisma.

Við skulum byrja þetta á því að skoða trúarjátningu Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi:

3.2 Við trúum á einn Guð, sem eilíflega er til í persónum Heilagrar þrenningar (1. Jóhannesarbréf 5:7-8).

Það sem að er athugavert við þetta er að þessir miklu biblíuspekingar vísa á þekktasta dæmið um síðara tíma viðbót við Nýja testamentið. Og þetta er eina versið sem þeir vísa í fyrir þrenningarkenninguna. Þetta innskot hefur meira að segja nafn, Comma Johanneum, og það er algerlega óumdeilt að þetta sé síðari tíma innskot, fyrsti gríski textinn með innskotinu eru frá því eftir árið 1000!

Svona eru versið með fölsuninni:

Þrír eru þeir sem vitna í himninum: Faðirinn, orðið og heilagur andi, og þessir þrír eru eitt. Og þeir eru þrír sem vitna á jörðunni:  Andinn og vatnið og blóðið og þeim þremur ber saman. (1Jóh 5.7-8)

En upprunalega var textinn svona:

Þrír eru þeir sem vitna, andinn og vatnið og blóðið og þeim þremur ber saman. (1Jóh 5.7-8)

Það sem mér finnst merkilegt við þetta er að það að þeir skuli hafa vísað í þetta vers segir okkur svolítið annað, þrenningarkenningin sem slík er hvergi kennd í biblíunni. Menn reyna að púsla fullyrðingum héðan og þaðan og reyna að komast að henni þannig, en maður hlýtur að velta því fyrir sér, ef að höfundar guðspjallanna (eða Jesús!) trúðu á þrenningarkenninguna, af hverju skrifuðu þeir ekki eitthvað í líkingu við versin sem Hvítasunnukirkjan vísar í? Og fannst guði þetta ekki nægilega merkilegt til þess að minnast á þetta? Nýja testamentið er fullt af efni sem mætti alveg missa sín máli (t.d. endalausar endurtekningar á efni úr Mk í Mt og Lk), en það er ekkert minnst á þrenningarkenninguna.

Eini textinn sem að gæti hugsanlega veið að tala um þrenninguna er í Mt 28.17, en þar segir Jesús lærisveinum sínum að skíra fólk „í nafni föður og sonar og heilags anda“. Vandinn er auðvitað að upptalning á þessum þremur er ekki þrenningarkenningin, svo ekki sé minnst á að kirkjufaðirinn Evsebíos virðist hafa haft handrit sem höfðu „í mínu nafni“ og þess vegna telja sumir að það hafi verið upprunalegi textinn.

En aðalvandinn við þrenningarkenninguna er samt ekki þessi þögn, heldur vers sem virðast beinlínis vera í andstöðu við hana. Meira um það seinna!

 


Bloggfærslur 7. október 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband