13.10.2010 | 09:21
Gegn þrenningunni
Í síðustu færslu fjallaði ég um skortinn á textum í biblíunni sem kenna þrenningarkenninguna, og þá staðreynd að ein fölsun sýnir fram á að það hefði verið auðvelt fyrir guð að kenna hana. En núna ætla ég að benda á vers sem að virðast benda til þess að hinir fyrstu kristnu menn hafi ekki trúað á þrenningarkenninguna, að hún sé beinlínist andstæð biblíunni. Páll postuli skrifaði þetta:
En hvað varðar neyslu kjöts, sem fórnað hefur verið skurðgoðum, þá vitum vér, að skurðgoð er ekkert í heiminum og að enginn er guð nema einn. Því að enda þótt til séu svo nefndir guðir, hvort heldur er á himni eða á jörðu, enda eru margir guðir og margir herrar, þá höfum vér ekki nema einn guð, föðurinn, sem allir hlutir eru frá og líf vort stefnir til, og einn drottin, Jesú Krist, sem allir hlutir eru til orðnir fyrir og vér fyrir hann. ( 1Kor 8.4-6)
Vandamálið fyrir þrenningarsinna er að þarna segir Páll hreint út að faðirinn einn er guð. Samkvæmt þrenningarkenningunni er Jesús líka guð og heilagur andi líka guð. Jesús er settur í annan flokk, hann er ekki guð, enda er bara faðirinn guð.
Það er ekki undarlegt að mikið af fólki sem skoðar biblíuna vandlega (t.d. stofnandi Votta Jehóva) komist að þeirri niðurstöðu að þrenningin sé ekki í samræmi við biblíuna. Það sem er hins vegar undarlegt, er að flestir trúmenn (þar með talið líklega allir prestar ríkiskirkjunnar) samþykki þessa kenningu.